Þriðjudagur 05.10.2010 - 02:21 - FB ummæli ()

Stefnuræða í miðri byltingu.

Þetta var skrýtinn dagur á Alþingi í kvöld.  Þúsundir manna, átta til tíu þúsund segir lögreglan, mótmæltu í stærstu og hávaðasömustu mótmælum Íslandssögunnar, börðu 200 lítra olíutunnur og köstuðu drasli í Alþingishúsið.  Mótmæli sem skákuðu jafnvel 20. janúar 2009, upphafi hins svo kallaða „sex daga stríðs“ þar sem reiptog mótmælenda, lögreglu og stjórnmálamanna leiddi til afsagnar ríksstjórnar Geirs Haarde eftir sex daga læti.

Undir hávaðanum og inni í víggirtu þinghúsinu var gerð tilraun til að halda þingfund um stefnuræðu forsætisráðherra.  Tilraun segi ég því ræður flestra voru slíkt kall út í tómið að grátlegt var að heyra og stefnuræðan var innantóm.  Þó var ljóst að utan þingmanna Hreyfingarinnar voru þrír aðrir sem gerðu sér grein fyrir ástandinu og merkilegt nokk tveir af þeim voru stjórnarþingmenn en þau Valgerður Bjarnadóttir og Ólafur Gunnarsson töluðu á skynsamari nótum en ég hef heyrt þingmenn gera lengi.   Einnig var Sigmundur Davíð með á nótunum.  Það er því ekki öll von úti enn að stjórnarflokkarnir slíti samstarfinu áður en allt fer í bál og brand.  Það var hins vegar grátlegt að hlusta á forystumenn ríkisstjórnarinnar tala inn í tómið undir dúndrandi hávaða.  Ekki sást vel út um einn einasta glugga sem flestir voru sprungnir og voru kámugir í eggjum og málningu.  Úti við grillti óljóst í fjöldann og bálköstinn.

Við vorum með varaþingmann Birgittu, hann Badda (Baldvin Jónsson) risajeppamann sem flutti sína jómfrúarræðu algerlega á trakkinu á sínum fyrsta degi á þinginu.  Ræður okkar allra eru hér:  Ræðan mínræða Badda og ræða Margrétar.

Ríkisstjórnin er búin að vera, verk hennar frá upphafi var að vísu nánast óvinnandi en mestu mistökin voru að strax frá upphafi sló hún á útrétta samstarfshönd annarra flokka.  Þau vildu ráða og ráða ein.  Þangað til áðan að það kom smá ljúfsár ósk um meira samstarf.

Sem dæmi get ég bent á að fyrir þinghlé síðastliðið vor er samningaviðræður voru í gangi um 101 mál sem ríkisstjórnin vildi koma í gegn og bað um gott veður fyrir, lagði  Hreyfingin fram eina ósk.  Ósk um að í frumvarpið um stjórnlagaþingið færi inn ákvæði um að niðurstöður þess færu fyrst í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þær færu til Alþinigs til meðferðar. Þetta var hins vegar einni ósk of mikið fyrir þau og var ekki tekið í mál og hvorki Jóhanna né Steingrímur, þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni, sáu þá og sjá varla enn, nokkra ástæðu til að þjóðin hafi eitthvað að segja um niðurstöður stjórnlagaþingsins.  Svona var nú samstarfsviljinn.  Það var svo ekki fyrr en eftir harðfylgi Ögmundar Jónassonar í Allsherjarnefnd að það ákvæði fékkst inn að stjórnlagaþingið sjálft tæki ákvörðun um hvaða leið niðurstöður þess færu.

Það verður því fróðlegt að sjá hvað þau skilgreina sem samstarf.  Krafa almennings er kosningar og hrunverja burt af þingi og róttæka leiðréttingu á skuldavanda heimilanna.  Eftir slíkt hrun sem gerðist hér er það ekki nema eðlilegt að það taki a.m.k. tvennar ef ekki þrennar kosningar til að hreinsa út hrunverjana og hrunhugsunina.  Að halda áfram með sömu áhöfn er ekki annað en ávísun á annað strand.  Við höfum talað fyrir því sem við köllum „þjóðstjórn án Sjálfstæðisflokksins“ enda vandséð hvernig sá flokkur getur af siðferðisástæðum einum saman tekið þátt í að stjórna hér landinu.  Þótt vilji allra væri ef til vill fyrir hendi er vandséð hvernig þessir flokkar gætu náð saman nema þá um einhver ákveðin lágmarksatriði er snúa að vanda heimilana.

Fjárlagaumræðan er á morgun og þar sem fjárlög eru aðalsmerki hverrar ríkisstjórnar mun kom fljótt í ljós hvað menn vilja teygja sig langt.  Sjálfur tel ég að það þurfi að hreinsa út hrunverjana fyrst og það gerist ekki nema með kosningum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur