Meðfylgjandi er tillaga þingmanna Hreyfingarinnar að myndun neyðarstjórnar. Tillagan hefur verið send forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, með beiðni um fund. Tillagan er lögð fram vegna þess að okkur þykir einsýnt að hvorki innan ríkisstjórnarinnar né stjórnarflokkanna ríki einhugur né raunverulegur vilji til almennra aðgerða í þágu heimilanna. Tíminn er á þrotum og samfélagið getur ekki verið í biðstöðu á meðan stjórnvöld og fulltrúar peningaaflanna koma sér saman um að hve litlu leyti þau komist upp með að bæta almenningi þær búsifjar sem þessir sömu aðilar áttu stóran þátt í að skapa eða hefðu getað fyrirbyggt. Við lítum svo á að okkur beri skylda til að fylgjast áfram með gangi mála og reyna að tryggja hagsmuni almennings. Við munum því taka þátt í starfi ráðherra og viðræðuaðila áfram þó við höfum miklar efasemdir um að raunverulegur vilji til að koma til móts við þarfir skuldsettra heimila liggi að baki þeim.
Neyðarstjórn eða kosningar
Yfirlýsing frá þingmönnum Hreyfingarinnar
Sú mesta efnahagsvá sem samfélaginu stafar hætta af í dag er skuldavandi íslenskra heimila. Undanfarna viku hafa þingmenn Hreyfingarinnar tekið þátt í fjölda samráðsfunda með ráðherrum ríkisstjórnarinnar, öðrum þingmönnum og hagsmunaaðilum til að kanna hvort raunverulegur vilji sé til að leysa málin. Þrátt fyrir að fyrir liggi leiðir til lausnar sem gagnist mjög skuldugum heimilum án kostnaðar fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur, er ríkisstjórnin ekki fær um að leysa úr málinu með sanngjörnum og réttlátum hætti. Ríkisstjórnin hefur nú endanlega sýnt að hún getur ekki stjórnað landinu með almannahag að leiðarljósi og hlýtur því að vera komin að leiðarlokum.
Vegna þeirrar alvarlegu stjórnarkreppu sem nú ríkir og útilokað er að Alþingi geti leyst, leggja þingmenn Hreyfingarinnar fram eftirfarandi tillögur sem lúta að tímabundinni neyðarstjórn landsins (þingmanna og/eða utanþingsmanna) í stað núverandi ríkisstjórnar samkvæmt eftirfarandi forskrift.
1) Forsætisráðherra skilar inn umboði sínu til forseta Íslands.
2) Forseti Íslands kannar hvort þingmeirihluti sé fyrir því að verja slíka neyðarstjórn vantrausti verði henni komið á.
3) Sé slíkur meirihluti ekki fyrir hendi verði boðað til Alþingiskosninga.
4) Sé slíkur meirihluti fyrir hendi gerir forseti Íslands tillögu að neyðarstjórn. Tillaga forseta Íslands getur annað hvort falist í uppástungu að forsætisráðherra sem velji sér samráðherra eða tillögu að öllum ráðherrum slíkrar ríkisstjórnar.
5) Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tillögu forseta Íslands að neyðarstjórn. Kosið verði um neyðarstjórnina í heild sinni. Verði henni hafnað verið boðað til Alþingiskosninga.
6) Verði tillagan samþykkt starfar neyðarstjórnin þangað til stjórnlagaþing hefur lokið störfum og Alþingi afgreitt frumvarp um nýja stjórnarskrá. Að því loknu verði boðað til Alþingiskosninga.
7) Neyðarstjórnin skal fá til liðs við sig færustu sérfræðinga. Í störfum sínum notist neyðarstjórnin við þjóðaratkvæðagreiðslur til að skera úr um brýn ágreiningsmál.
Verkefni neyðarstjórnar yrðu m.a.:
a) Setning neyðarlaga til að leysa bráðavanda skuldsettra heimila sem taki m.a. mið af tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna.
b) Opinber lágmarks framfærsluviðmið.
c) Fjárlög.
d) Lýðræðisumbætur.
e) Endurskoðun á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Reykjavík, 14. október 2010,
Baldvin Jónsson
Birgitta Jónsdóttir
Margrét Tryggvadóttir
Þór Saari
Nýlegar athugasemdir