Fimmtudagur 14.10.2010 - 07:51 - FB ummæli ()

Skuldavandi heimilanna, enn og aftur.

Skuldavandi heimilanna er brýnasti vandinn sem vofir yfir í efnahagsmálum og verður ekki leystur undir forystu núverandi ríkisstjórnar.  Eftir fjölmarga fundi með ráðherrum (s.k. fimm-ráðherra hóp), öðrum þingmönnum (u.þ.b. þrjátíu) og nú síðast í gærkvöldi með s.k. hagsmunaaðilum sem teljast vera fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og Íbúðlánasjóður öðru megin og Hagsmunasamtök heimilanna, Umboðsmaður neytenda og Umboðsmaður skuldara hinum megin (ætti frekar að titlast sem sérhagsmunir versus almannahagsmunir) hefur enn ekkert komið fram sem bendir til að þessi vandi verði leystur öðruvísi en í þágu sérhagsmunanna, þ.e.a.s. ekkert verður gert.  Að vísu hefur dómsmálaráðherra komið fram með tvö mikilvæg frumvörp til laga, annað um frestun uppboða og hitt um fyrningu krafna, og félags- og tryggingarmálaráðherra hefur komið fram með frumvarp um að umsókn hjá Umboðsmanni skuldara jafngildi skjóli fyrir aðför.  Þetta eru frumvörp sem skipta vissulega máli en taka ekki á þeim vanda sem er undirliggjandi, þ.e. að koma í veg fyrir þörfina á þessum lögum sem frumvörpin eru vísir að.  Það þarf að koma í veg fyrir að fólk verði gjaldþrota og lendi með eigur sínar á uppboði eða lendi í viðvarandi greiðsluerfiðleikum vegna lána sem það í raun aldrei tók og vegna skulda sem forsendubresturinn úthlutar því.  Annað er hróplegt óréttlæti.

Ég hef ítrekað lýst eftir stefnu og forystu ríkisstjórnarinnar á þessum fundum en fengið í staðinn fundarboð á næsta fund.  Nú að loknum sex fundum og þar af tveimur sem töldu um eða yfir þrjátíu manns er ríkisstjórnin enn stefnulaus og lokaorð forsætisráðherra í kvöld voru í þá veru að þó fundarmenn væru ósammála væri mikilvægt að halda áfram að funda og jafnvel þó þyrfti fimm fundi til viðbótar yrði að hafa það.

Það er einfaldlega ekki vilji til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara í það sem kallað hefur verið almenn skuldaleiðrétting þar sem forsendubrestur lántakenda vegna gengisfalls krónunnar og verðbólguskotsins er leiðréttur.  Að vísu hefur Ögmundur Jónasson barist af ákafa fyrir þessari leið en aðrir ráðherrar hafa ekki tekið undir og jafnvel talað af ákefð á móti.  Þetta gera menn þrátt fyrir að eftir tvö ár frá hruni sjáist engin ljósglæta framundan í þessum málum og þrátt fyrir að öll þau „úrræði“ sem boðið hefur verið upp á séu meira og minna gagnslaus.  Við munum að vísu halda áfram að mæta á þá fundi sem við erum boðin á en þá fyrst og fremst til að fylgjast með gangi mála. 

Það er því niðurstaða mín að ríkisstjórnin ráði ekki við þennan vanda frekar en fjölmörg önnur mál sem tengjast hruninu og afleiðingum þess og valdi ekki starfi sínu og verði að fara frá.  Vegna þeirrar stjórnarkreppu sem nú ríkir þar sem hver höndin er upp á móti annarri í ríkisstjórninni og í þingliðinu og vegna þess að stór hluti hrunþingmanna og hrunráðherrra er enn á þingi eins og ekkert sé, liggur beinast við að óska eftir utanþingsstjórn eða kosningum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur