Sunnudagur 10.10.2010 - 16:41 - FB ummæli ()

Brotajárn Egils

Ég horfði með áhuga á Silfur Egils áðan og það fyrsta sem kom upp í hugann var að það hefði gleymst að bjóða Hreyfingunni.  Þátturinn var hins vegar ekki lengi að breytast í einhvers konar gamalkunnugt  brotajárn þar sem að strax á fyrstu mínútunum hið hefðbundna Fjórflokkakarp tók yfirhöndina.  Þau höfðu skófluna og notuðu hana, illa en mikið.  Að vísu má þar undanskilja að miklu leiti Mörð Árnason sem greinilega veit að það þarf að ræða hlutina í öðru samhengi, en þátturinn var engu að síður skýr vitnisburður um að þingmenn Fjórflokksins virðast að stórum hluta búa í öðrum veruleika en almenningur í landinu.  Mörður fór hins vegar rækilega út af sporinu varðandi Icesave vegna þess að sá samningur sem hann vitnaði til (Svavarssamningurinn) og sem stjórnarmeirihlutinn vildi ná í gegn hefði orðið landinu óbærileg byrði.  Nýjustu fréttir af Icesave eru þær að eftir ýmsar formlegar og óformlegar þreifingar hefur dregið mikið saman með aðilum og niðurstaðan er svo langt frá upprunalegum samningi að nota mætti mælikvarðan „stjarnfræðilega langt“.  Mörður og aðrir áhugamenn um málið mega einfaldlega vera þakklátir fyrir að nokkrir þingmanna VG höfðu kjark til að andæfa.  Það er einfaldlega orðið ansi tuggin staðhæfing að stöðvun Icesave I og II hafi valdið tjóni og það er löngu kominn tími til fyrir þingmenn Samfylkingarinnar að hætta því tuði.  Brotajárns tilvísunin í yfirskrift greinarinnar er því til komin vegna gesta þáttarins, ekki þáttarins sjálfs.  Í þeim ólgusjó sem stjórnmálin hafa verið í síðastliðna viku virðast þó alla vega tveir þingmanna Samfylkingarinnar, þau Mörður Árnason og Valgerður Bjarnadóttir skynja hvað þarf að gera og vonandi hlusta samþingmenn þeirra betur á þau á morgun.

Það kemur sennilega ögurstund í stjórnmálunum snemma í vikunni þegar þar skýrist hvort ríkisstjórninni sé alvara með að fara út í raunhæfar aðgerðir í skuldavanda heimilanna.  Það er vitað hvað þarf að gera og hvernig, hverja þarf að ná samkomulagi við og hvernig má ná því samkomulagi.  Það þarf því ekki að bíða eftir að halda marga fundi með ótal hagsmunaaðilum fram eftir allri vikunni eins og Ögmundur hefur nefnt.  Það þarf að koma yfirlýsing frá stjórnvöldum hvort þau ætla að fara þessa leið eða ekki.  Fundir með hagsmunaaðilum fylgja svo í kjölfarið.  Fulltrúar Hreyfingarinnar og Framsóknarflokksins munu hitta „fimm-ráðherra hópinn“ á mánudagsmorgun þar sem við væntum einhvers konar tímasettrar aðgerðaráætlunar til lausnar vanda heimilanna.  Hagsmunasamtök heimilanna munu hitta þingflokka Samfylkingarinnar og Framsóknarflokks eftir hádegið á mánudag en þá er þingflokksfundadagur.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa þá fundað með öllum flokkum/hreyfingum á þingi, en þau hafa bent á mjög skýrar og færar leiðir til úrlausnar á þessum gríðarlega vanda.  Síðan verður ríkisstjórnarfundur á þriðjudagsmorguninn og í kjölfar hans verður að koma endanlegt svar.

Okkar afstaða er að þegar gerð hefur verið tímasett aðgerðaráætlun og henni hrint í framkvæmt eigi að halda kosningar sem fyrst, að undangenginni athugun á áhuga fyrir tímabundinni utanþingsstjórn.  Það Alþingi sem nú situr þarf að víkja og það brotajárn stjórnmálaflokka sem sýndi sig í Silfri Egils í dag staðfesti það að Fjórflokkurinn er að stórum hluta til einhvers konar brotajárnshaugur.  Það hefur ekki farið fram nein endurnýjun á hugsun innan flokkana eftir hrunið nema að hluta til hjá Framsóknarflokknum, heldur hefur einungis verið skipt um kennitölur á sömu gömlu þingdraugunum og voru fyrir hrun.  Hvað svo sem segja má um æskilegan pólitískan stöðugleika þá verður almenningur að fá tækifæri til að þvo af þann smánarblett sem féll á Alþingi, af völdum þingmanna, þegar stór hluti þingmanna greiddi atkvæði úr algerlega vanhæfri stöðu í atkvæðagreiðslunni um ráðherraábyrgðina þann 28. september.  Þingmenn munu nefnilega ekki gera, né geta það sjálfir og allt tal um samtöðu, þjóðstjórnir og breytt verklag verður ekki skilið nema sem hvert annað yfirskin fyrir áframhaldandi völd.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur