Laugardagur 06.11.2010 - 13:49 - FB ummæli ()

„Fasistarnir“ á Austurvelli

Gerð var hörð atlaga fyrirfram að fyrirhuguðum mótmælum sem voru boðuð á Austurvelli s.l. fimmtudag.  Í því skyni virðast skrímsladeildir Samfylkingar og Vinstri-grænna hafa verið virkjaðar sem aldrei fyrr og ólíklegasta fólk sem skrifar í fjölmiðla og á Netið spyrti saman alls konar fyrirfram gefnar hugmyndir, bætti í hreinum ósannindum og reyndi að klína á mótmælendur.

Þau sem voru áhugaverðust í áróðrinum voru Ármann Jakobsson bróðir menntamálaráðherra, Jónas Kristjánsson fyrrum ritsjóri DV og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir ritstjóri Smugunnar.  Áhugaverðust segi ég vegna þess að ég sjálfur hef alltaf talið þetta fólk skynsamt og hafið yfir vafa hvað varðar fagmennsku og heiðarleika í opinberri umfjöllun.  Í færslum og greinum sínum undanfarna daga hafa þau hins vegar verið með slíkar ávirðingar á fólkið sem kemur til mótmæla að engin dæmi eru um annað eins.  Ekki einu sinni sjálfstæðismenn töluðu svona um mótmælin í janúar 2009, en öll þrjú gerðu sig sek um að tala af lítilsvirðingu og vanþekkingu um kröfur mótmælenda og bendluðu þá svo að auki við fasisma.  Greinar Ármanns, Jónasar og Þóru fóru sem eldur um sinu á bloggsíðum og fésbókarsíðum Samfylkingar og VG-liða og var það sértaklega sárgrætilegt í tilfelli Ármanns, Þóru og VG vegna þess að það voru einmitt mótmælendur, mikið til þeir sömu og nú, sem komu fyrri ríkisstjórn frá og VG til valda.  Þá var Ármann ánægður en nú kallar hann mótmælendur hryðjuverkamenn og kröfurnar fasisma.

Fyrir okkur í Hreyfingunni hefur verið dapurlegt að sjá hvernig þau hafa líka reynt að tengja Hreyfinguna við fasisma því tillögur okkar um utanþingstjórn eða kosningar eru fyllilega í samræmi við stjórnarskrána og íslenska stjórnskipan og það hefur verið Hreyfingin (áður Borgarahreyfingin) sem hefur mest allra haldið á lofti kröfunni um lýðræðisumbætur.  Á Alþingi höfum við linnulítið talað fyrir persónukjöri sem Samfylking og VG hafa svikið kjósendur um og við höfum í tvígang flutt frumvörp um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hafa verið stöðvuð í Allsherjarnefnd af meirihlutanum þar (já Samfó og VG).  Tillögur okkar byggjast ekki síst á því að það Alþingi sem nú situr er ófært um að leysa úr brýnustu vandmálum samtímans og fyrirgerði algerlega trúverðugleika sínum í atkvæðagreiðslunni þann 28. september síðastliðinn þegar 23 þingmenn úr stuðningsliði Hrunstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, þ.á.m. sjálfur forseti Alþingis, greiddu atkvæði og fríuðu samstarfsfólk og vini ábyrgð og höfnuðu því að gera Hrunið upp.  Ekkert af þessu skiptir þríeykið að ofan hins vegar minnsta máli þegar kemur að því að verja völdin og fasista stimpli skal á þau klínt, alveg sama hvað. 

Ekki veit ég hvaða óveður geisar í höfðum þessa þríeykis og dreifingaraðila þeirra en ég tók saman nokkrar fréttir af mótmælunum á fimmtudaginn og tel rétt að lesendur sjálfir ákveði hvort hér sé um fasista og hryðjuverkamenn að ræða.

Sjá hér frá Mbl.is  sjá hér úr kvöldfréttum Stöðvar 2 (3,20 mín. inn í fréttatímann) og hér úr Kastljósi RÚV

Ég læt svo fylgja með til upprifjunar tillögur Hreyfingarinnar um utanþingsstjórn eða kosningar.  Fyrst fer afrit af skeyti sem var sent til forsætisráðherra og formanna allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.  Síðan fylgja tillögur okkar.

Ágæta Jóhanna Sigurðardóttir,  formaður Samfylkingarinnar

Meðfylgjandi er tillaga þingmanna Hreyfingarinnar að myndun neyðarstjórnar.  Tillagan hefur verið send forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, með beiðni um fund.

Tillagan er lögð fram vegna þess að okkur þykir einsýnt að hvorki innan ríkisstjórnarinnar né stjórnarflokkanna ríki einhugur né raunverulegur vilji  til almennra aðgerða í þágu heimilanna. Tíminn er á þrotum og samfélagið getur ekki verið í biðstöðu á meðan stjórnvöld og fulltrúar peningaaflanna koma sér saman um að hve litlu leyti þau komist upp með að bæta almenningi þær búsifjar sem þessir sömu aðilar áttu stóran þátt í að skapa eða hefðu getað fyrirbyggt.

Við lítum svo á að okkur beri skylda til að fylgjast áfram með gangi mála og reyna að tryggja hagsmuni almennings.  Við munum því taka þátt í starfi ráðherra og viðræðuaðila áfram þó við höfum miklar efasemdir um að raunverulegur vilji til að koma til móts við þarfir skuldsettra heimila liggi að baki þeim.

 Bestu kveðjur, þingmenn Hreyfingarinnar.

Neyðarstjórn eða kosningar

Yfirlýsing frá þingmönnum Hreyfingarinnar

Sú mesta efnahagsvá sem samfélaginu stafar hætta af í dag er skuldavandi íslenskra heimila.  Undanfarna viku hafa þingmenn Hreyfingarinnar tekið þátt í fjölda samráðsfunda með ráðherrum ríkisstjórnarinnar, öðrum þingmönnum og hagsmunaaðilum til að kanna hvort raunverulegur vilji sé til að leysa málin. Þrátt fyrir að fyrir liggi leiðir til lausnar sem gagnist mjög skuldugum heimilum án kostnaðar fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur, er ríkisstjórnin ekki fær um að leysa úr málinu með sanngjörnum og réttlátum hætti. Ríkisstjórnin hefur nú endanlega sýnt að hún getur ekki stjórnað landinu með almannahag að leiðarljósi og hlýtur því að vera komin að leiðarlokum.

Vegna þeirrar alvarlegu stjórnarkreppu sem nú ríkir og útilokað er að Alþingi geti leyst,  leggja þingmenn Hreyfingarinnar fram eftirfarandi tillögur sem lúta að tímabundinni neyðarstjórn landsins (þingmanna og/eða utanþingsmanna) í stað núverandi ríkisstjórnar samkvæmt eftirfarandi forskrift.

1)      Forsætisráðherra skilar inn umboði sínu til forseta Íslands.

2)      Forseti Íslands kannar hvort þingmeirihluti sé fyrir því að verja slíka neyðarstjórn vantrausti verði henni komið á.

3)      Sé slíkur meirihluti ekki fyrir hendi verði boðað til Alþingiskosninga.

4)      Sé slíkur meirihluti fyrir hendi gerir forseti Íslands tillögu að neyðarstjórn. Tillaga forseta Íslands getur annað hvort falist í uppástungu að forsætisráðherra sem velji sér samráðherra eða tillögu að öllum ráðherrum slíkrar ríkisstjórnar.

5)      Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tillögu forseta Íslands að neyðarstjórn. Kosið verði um neyðarstjórnina í heild sinni. Verði henni hafnað verið boðað til Alþingiskosninga.

6)      Verði tillagan samþykkt starfar neyðarstjórnin þangað til stjórnlagaþing hefur lokið störfum og Alþingi afgreitt frumvarp um nýja stjórnarskrá. Að því loknu verði boðað til Alþingiskosninga.

7)      Neyðarstjórnin skal fá til liðs við sig færustu sérfræðinga. Í störfum sínum notist neyðarstjórnin við þjóðaratkvæðagreiðslur til að skera úr um brýn ágreiningsmál.

Verkefni neyðarstjórnar yrðu m.a.:

a)      Setning neyðarlaga til að leysa bráðavanda skuldsettra heimila sem taki m.a. mið af tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna.

b)      Opinber lágmarks framfærsluviðmið.

c)      Fjárlög.

d)      Lýðræðisumbætur.

e)      Endurskoðun á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Reykjavík, 14. október 2010,
Baldvin Jónsson
Birgitta Jónsdóttir
Margrét Tryggvadóttir
Þór Saari

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur