Sunnudagur 07.11.2010 - 16:43 - FB ummæli ()

Blinda Vinstra augað

Það er þekkt aðferð frá tímum Nelsons flotaforingja að setja kíkinn á blinda augað til að geta sagst með sanni ekki séð sannleikann.  Enn og aftur er á Smugunni (Vefþjóðvilja vinstri manna) á ferð skríbentinn úr skrímsladeild VG sem kallar sig Vinstra augað.  Skríbent sem hefur eins og flestir aðrir VG liðar verið með vinstra augað lokað frá því að formaður þeirra skipti um föt við Davíð Oddsson, eftir að hafa staðið í skugga hans í nær tuttugu ár. Ég hef nýlokið við að gagnrýna Vinstra augað ásamt öðrum fyrir að brigsla mótmælendum og Hreyfingunni um fasisma en Ármann heldur því miður upteknum hætti sem einhvers konar lærisveinn Richards Nixon fyrrverandi forseta bandaríkjanna sem hikaði ekki við að ata meinta andstæðinga auri með viðkvæðinu „Let them deny it.“   Enn á ný eru mótmælendur atyrtir og kallaðir öfgamenn og leiksoppar Davíðs Oddsonar og Hreyfingin er í einhverju mjög einkennilegu hlutverki þar sem Ármann horfir algerlega fram hjá því að við erum ekki að biðja um stjórn Hreyfingarinnar heldur utanþingsstjórn eða kosningar.  Engu líkara er að óveður samsæriskenninga og vænissýki geisi nú í höfðum margra vinstri manna.  Vel getur verið að Vinstra augað viti ekki hvað utanþingsstjórn sé né hvernig henni verður komið á og greinilegt er að honum er uppsigað við kosningar, en við bara bendum honum aftur  á þær tillögur.  Þess má svo geta að auki að á opnum fundi Hreyfingarinnar í þar-síðustu viku var borin upp tillaga um undirskriftarsöfnun til forseta Íslands um utanþingsstjórn.  Tillagan var borin upp af VG-liða sem verið hefur í framvarðarsveit VG frá upphafi en fengið sig fullsaddann af alræði formannsins og svikum við stefnuskrána.

Nú hefur Ármann fundið sér nýjan óvin, hættulegan öfgahóp sem kallast Hagsmunasamtök heimilanna, samtök sem hafa starfað vel á annað ár í sjálboðaliðastarfi við að benda á að skuldavandi heimilanna er sennilega mesta efnahagsváin sem Ísland stendur frammi fyrir.  Í öllu sínu starfi hafa Hagsmunasmtök heimilana lagt fram vandaða útreikninga og vel ígrundaðar tillögur sem stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafa tekið undir, þ.á.m. fjölmargir þingmanna VG.  Hann gerir hins vegar lítið úr málflutningi þeirra sem hann kallar fimbulfamb um eignatilfærsu og forsendubrest en þar er kíkirinn enn aftur settur fyrir blinda vinstra augað því stórfelld eignatilfærsla er einmitt staðreynd og hefur verið fylgifiskur í öllum fjármálakreppum þar sem stjórnvöld hafa fylgt stefnu AGS.  Forrsendubresturinn er einnig til staðar þar sem hvoru tveggja glæpsamleg háttsemi fjármálafyrirtækja (sem lántakendur gátu ekki vitað um), og samspil stjórnvalda og eftirlitsstofnana með athæfinu (sem lántakendur gátu heldur ekki vitað um) gerðu það að verkum að allar forsendur fólks fyrir lántökum voru í raun upplognar af hálfu lánveitenda og stjórnvalda.  Á mannamáli heitir þetta að svindla og blekkja og hluti af þessari starfsemi hefur þegar verið dæmdur ólöglegur af hæstarétti.  Af hógværð sinni hafa Hagsmunasamtök heimilanna lagt til að miðað verði við efri vikmörk verðbólguspár Seðlabankans við endurútreikning verðtryggðra lána, þannig að forsendubresturinn skiptis jafnt á lántakendur og lánveitendur og að sett verði þak á upphæðina.  Þetta eru hins vegar öfgar að mati Vinstra augans, enda kannski ekki furða þar sem það hefur lengi verið blint og sér ekki veruleikann í þessu frekar en öðru.

Því miður er Ármann ekki eini maðurinn í VG hvers formaður flokks hefur algerlega byrgt sýn og Davíð Oddson hafði nákvæmlega sömu áhrif á sinn flokk.  Þetta í sjálfu sér væri ekki tiltökumál (leiðtogadýrkun er mörgum töm) nema að því leitinu að það er restin af þjóðinni sem situr upp með afleiðingarnar.  Í janúar 2009 töldu menn að það væri til staðar á Alþingi valkostur við Hrunstjórnina, valkostur sem birtist svo í minnihlutastjórninni og síðan eftir kosningar í núverandi stjórn.  Nú hefur komið í ljós að farið hefur verið úr öskunni í eldinn, að núverandi stjórn er engu skárri og að samasem merki er milli formanns VG og fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins.  Valkosturinn er ekki fyrir hendi lengur og þar sem núverandi stjórnvöld, Fjórflokkurinn og Alþingi hafa sýnt fram á að þau ráða ekki við vandann er beðið um utanþingsstjórn eða kosningar.  Þannig tekst kannski að leysa brýnasta vandann.  Langtímavandinn er því miður miklu stærri og flóknari en þar eru m.a.  þeir sem skáka í skjóli æðstu menntastofnana landsins sem fræðimenn, en kjósa samt endurtekið að setja kíkinn fyrir blinda augað.  Þar er Ármann ekki einn á ferð en þar hefur hann, eins og dáður formaður hans og sumir kollegar, tileinkað sér vinnubrögð sem eru ósæmileg.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur