Sunnudagur 28.11.2010 - 18:40 - FB ummæli ()

Sameiningar flokka

Það gæti dregið til tíðinda á okkar guðsvolaða pólitíska fjórflokkavetttvangi áður en langt um líður og áframhaldandi illdeilur innan VG munu fyrr eða síðar leiða til þess.  Augljóst er að afrakstur flokksráðsþingsins um daginn leiddi til þessa eins að báðir armarnir flokksins töpuðu.  Varaformaðurinn Katrín Jakobsdóttir er á leið út, með stæl, enda virðist mér sem þessi leðjuslagur sem stjórnarsamstarf VG og Samó eru í ekki beint vera tebolli að hennar skapi, eins og sagt er.  „Kettirnir“ svo kölluðu halda uppi andófi gegn forystunni sem farið hefur með flokkinn langt af braut stefnuskrárinnar og stjórnarsáttmálans en fjórhjólið undir formanninum (ÁI, ÁÞS, BVG og ÞB) keyrir áfram á fullri ferð með bundið fyrir augun.

Nú þegar forystan hefur skipt um stefnu í varnarmálum er ekki mikið eftir sem skilur VG frá Samfylkingunni.  Rétt er að rifja upp að stóra málið sem út af stóð þegar reynt var að sameina Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkinn var afstaðan til herstöðvarinnar í Keflavík og vera Íslands i NATÓ og það mál varð til þess meira en nokkurt annað, að Steingrímur Joð og félagar stofnuðu VG. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið með stuðningi þessa fólks að standa fyrir eldflaugavarnarkerfi í Evrópu sem mun fljótlega taka á sig mynd hins geggjaða geimvarnarkerfis sem Rónald Reagan óraði svo um.  Það er e.t.v. hlálegt að þessi stuðningur virðist ákveðin meira og minna einhliða af tveimur ráðherrum og án aðkomu Alþingis og sýnir svo ekki verður um villst að starfhættir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar hugnast fleiri þingmönnum og þingflokkum en ég hafði áður reiknað með.

Umhverfisstefna VG virðist einnig að meginhluta vera horfin þar sem Magma málið gerði útslagið og flokknum virðist ekki unnt að koma að neinu marki í gegn umhverfis- og auðlindastefnu sem væri í samræmi við markmið flokksins, heldur er það Samfylkingin sem í gegnum iðnaðarráðuneytið sem virðist ráða ferðinni.

Efnhagsmálin eru í klassískum farvegi sem hvaða hægri stjórn sem er gæti verið stolt af og fjármagnseigendur eru ennþá við völd og að mér sýnist í sama mæli og fyrir hrun,á meðan formaður VG setur kíkinn fyir blinda augað.  Fjárlögin og skattahækkanirnar sem fyrirhugaðar eru, eru að miklu leiti alveg í samræmi við frjálshyggju hagfræðina sem áður réði hér ríkjum þar sem skattaálögur eru færðar til frá sérhagsmunahópum og yfir á almenning, nú undir yfirskyni umhverfisverndar s.s. minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda.

Miðað við þessa stöðu virðist mér heiðarlegast af þessu fólki að klára málið sem fyrst.  SJS verður hvort eð er sendiherra síðustu árin fyrir eftirlaun og óþarfi að bíða með það lengur, ÁÞS og ÞB myndu sóma sig vel í Samfylkingunni, hin harðduglega ÁI yrði ágæt ráðuneytisstjóri og  BVG færi aftur á sjóinn eða til LÍÚ.  „Kettirnir“ yrðu þinghópur óháðra og þau sem eftir eru (LRM, SS og ÞB) munu örugglega passa einhversstaðar inn.  Samhliða þessu færi best á því að Össur yrði gerður að formanni Samfó og ÁÞS að varaformanni. Restin af þeim flokki er svo að mestu auðnin ein og verður því áfram leiðitamur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur