Nú þegar komið hefur í ljós að forsætis- og fjármálaráðherra sem og öll ríkisstjórnin (nema Ögmundur) og flestir þingmenn í liði hennar höfðu algerlega rangt fyrir sér og beittu svívirðilegum blekkingum og áróðri til að reyna að skuldsetja landið upp í rjáfur, er rétt að að renna yfir þessa rúmlega kortérs upprifjun frá Stöð 2. Ég held að það sé algerlega réttmæt krafa að þetta fólk segi af sér og leyfi þjóðinni að velja sér nýtt fólk til að taka við stjórnartaumunum. Hér var gengið fram með miklu offorsi og af miklum óheilindum og við sem stóðum í vegi fyrir þessu vorum hiklaust kölluð lýðskrumarar og margt annað verra. Forystulið ríkisstjórnarinnar kann hins vegar ekki að skammast og hefur ekki sómatilfinningu frekar en ljósastaur að sumri. Svo voga þau sér að ljúga upp á Ögmund um ríkisstjórnarslitin og forsætisráðherra vill að Lilja Móses. víki. Það var m.a. þessi sama Lilja Mósesdóttir sem talaði gegn Icesave allan tímann og sem ein af sjálfstætt þenkjandi VG liðum ásamt Guðfríði Lilju, Ögmundi, Ásmundi Einari, Atla og Jóni þorðu að standa í lappirnar gegn yfirgangi Steingríms og náhirðarinnar sem er í kringum hann.
Ég horfði á þessa upprifjun og það sem kom mér í hug að því loknu var þessi einfalda setning. „Hugsa sér að þetta fólk skuli stjórna landi“.
Það er eitthvað meira en lítið öfugsnúið þegar Jóhanna vogar sér að tala eins og hún gerir. Hún og Steingrímur eru svo langt komin með að klúðra rækilega því verkefni sem þeim var falið að það er komið nóg. Það er blasir við spilling, óheilindi og þjófræði hvert sem litið er og engin merki um að það sé einu sinni byrjað að hreinsa til eftir hrunið, enda sennilega aldrei ætlunin. Atkvæðagreiðslan í þinginu þriðjudaginn 28. september 2010, þegar 23 algerlega vanhæfir þingmenn þar á meðal sjálfur forseti Alþingis og forsætisráðherrann greiddu atkvæði um ráðherraábyrgðina og vernduðu sjálf sig og vini sína, gerði landslýð það rækilega ljóst að stjórnmálstéttin á Íslandi mun aldrei gefast upp nema almenningur grípi í taumana með róttækum hætti. Þessi dagur var sá svartasti í sögu lýðveldisins og sá svartasti í sögu lýðræðis á Íslandi.
Ríkisstjórnin og þingliðar hennar eru með landið á fullri ferð fram af hengiflugi, að vísu með bundið fyrir augun sem er einhvers konar afsökun, en það breytir þó engu um niðurstöðuna. Þjóðin hefur ekki efni á að bíða eftir kosningum árið 2013, ekki einu sinni fram yfir mitt næsta ár.
Nýlegar athugasemdir