Undanfarnar vikur hafa verið að berast fréttir af stórfelldum ríkisábyrgðum (145 ma.kr.) til handa tveimur af þremur bönkum landsins, ábyrgðum sem ekki eru gerð skil í ríkisreikningi. Vegna þess hve viðkvæm slík umfjöllun getur orðið voru fregnirnar bornar óformlega undir efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir u.þ.b. þremur vikum síðan og þegar engin svör fengust, ítrekaðar fyrir um viku. Í viðskiptablaði Morgunblaðsins um helgina var umfjöllum um þessa stöðu sem upp er komin þar sem heimildir Morgunblaðsins telja að um sé að ræða ábyrgðir upp á um 141 milljarð. Í gær í þinginu bar ég upp formlega fyrirspurn til fjármálaráðherra enda heyra ríkisábyrgðir undir hann. Fyrispurnina má sjá hér:
Fyrirspurn til hæstvirts fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar varðandi verðbréfaskipti sem hafa fengið nafnið Ástarbréfin hin nýju.
Samkvæmt heimildum hafa umtalsverð verðbréfaskipti átt sér stað milli Lánamála ríkisins annars vegar og Arion banka og Íslandsbanka hins vegar, verðbréfaskipti sem virðast með ábyrgð ríkissins en eru samt utan efnahagsreiknings ríkissjóðs og nema að upphæð vel yfir 100 ma.kr.
Morgunblaðið nefnir í helgarblaði viðskiptablaðs síns upphæðina 141 ma.kr. en mínar heimildir eru upp á 145 ma.kr. Viðskiptin eru með þeim hætti að Fjármálaráðuneytið í gegnum Lánamál ríkisins afhendir viðkomandi bönkum verðbréf, að mestu úr svo kölluðum hrunflokki þ.e. RIKH 18 en einnig úr RIKS 15, gegn tryggingu í þrotabúum SPRON annars vegar og Straums/Burðaráss hins vegar. Bankarnir leggja svo bréfin inn í Seðlabankann og fá í staðin laust fé.
Seðlabankinn hafnaði hins vegar þessum tryggingum og fjármálaráðuneytið hefur því gengist í fulla ábyrgð fyrir því að bera alla fjárhagslega ábyrgð á verðbréfaskiptunum f.h. bankanna ef eitthvað vantar upp á settar tryggingar. Bankarnir hafa þegar nýtt sér þessar heimildir og ábyrgð ríkisins virðist vera orðin virk þó hennar sé hvergi getið í lögum. Því vil ég spyrja ráðherrann fjögurra spurninga:
1) Er þetta rétt og þá með hvaða heimild er þetta framkvæmt?
2) Hvers vegna eru bankanrnir að nýta sér þessa heimild ef lausafjárstaða er eins góð og hún virðist vera samkvæmt 9 mánaða uppgjöri og er heimildin til þeirra algerlega opin?
3) Er hér um að ræða nýja útgáfu af svo kölluðum ástarbréfa skiptum þar sem ríkið, þ.e. fjármálaráðuneytið og þar með skattgreiðendur, er nú í beinni ábyrgð á gjörningnum?
4) Þar sem þetta ferli virðist nú vera komið af stað og vel það og býður heim mikilli áhættu. Hvaða tryggingu getur fjármálaráðherra gefið sparifjáreigendum, fjárfestum og skattgreiðendum að hér muni ekki ríða yfir annað stóráfall í fjármálageiranum með tilheyrandi kostnaði?
Svör ráðherrans og fyrirspurnin í heild sinni eru hér:
Skemmst er frá því að segja að svör fjármálaráðherra voru það rýr að enn er óupplýst hvað er í gangi. Það er að vísu fremur algengt að ráðherrar svari ekki eða svari út í hött þegar þessar fyrirspurninr eru á dagskrá en þegar kemur að svo viðkvæmu máli sem stöðu bankanna og hugsanlegum skakkaföllum upp á gríðarlegar upphæðir er ekki við hæfi að fá ekki skýrari svör. Svona gerast kaupin á eyrinni stóru sem heitir Alþingi.
Nýlegar athugasemdir