Laugardagur 09.04.2011 - 12:43 - FB ummæli ()

Þjóðaratkvæðagreiðslur

Í dag er tilefni til að gleðjast og það er mikið fagnaðarefni að almenningur fái að ganga til kosninga um svo mikilvægt mál sem Icesave III samingarnir eru.  Vantraust almennings á stjórnvöldum, stjórnsýslu og stjórnarfari almennt er mikið og við þær aðstæður er mikilvægt að stjórnvöld sýni almenningi virðingu og traust. Hver svo sem úrslitin verða í þessari kosningu þá hefur beint lýðræði unnið sigur og því ber að fagna.

Beint lýðræði með þjóðaratkvæðagreiðslum eru það aðhald sem stjórnvöld þurfa á að halda og þó fyrr hefði verið.  Endurskoðun stjórnarskrárinnar mun vonandi gera þjóðaratkvæðagreiðslur að eðlilegum viðburði og aðferð til ákvarðanatöku hér á landi í framtíðinni og vonandi tekst okkur að búa til umgjörð um slíkt ferli þannig að sómi sé að.  Ný stjórnarskrá þarf að tryggja að hluti kosningabærra manna (10%) geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, með undantekningum þó og það þarf einnig að tryggja að minnihluti þingmanna (1/3) geti vísað frumvörpum og jafnvel öðrum þingmálum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það og það eitt myndi gerbreyta vinnulagi á Alþinig og væri góð sárabót fyrir Hrunið.

Það sem gerðist hér á Íslandi hefur haft þau áhrif að orðspor Íslands út á við mun verða núll næstu árin, ekki síst þegar það er haft í huga að það var ríkisstjórnin, Alþingi, eftirlitsstofnanir og stór hluti stjórnsýslunnar sem tók þátt í að spinna þann blekkinga- og lygavef um Ísland á alþjóðavettvangi og heima við, sem gerði Hrunið enn verra og umfangsmeira en þörf hefði verið á. Það verður ekki fyrr en Íslandi hefur tekist að gera upp Hrunið af alvöru að nágrannaþjóðirnar fara að taka mark á okkur aftur.  Það uppgjör þarf að vera pólitískt, lagalegt, siðferðilegt og persónulegt og þó margir hafi tekið sig til pesónulega og endurhugsað framtíðina hefur einungis einn hlotið dóm, einungis einn þingmaður hefur sagt af sér og meirihluti Alþingis hafnaði ábyrgð stjórnmálanna í atkvæðagreiðslu þann 28. september síðastliðinn þar sem 23 siðferðilega vanhæfir þingmenn þ.á.m. forseti Alþingis og forsætisráðherrann, greiddu atkvæði.  Sú atkvæðagreiðsla ein og sér sýnir mikilvægi beins lýðræðis og persónukjörs en persónukjör gerir kjósandanum kleyft að hafa bein áhrif á hvar atkvæði hans lendir m.t.t. einstakra frambjóðenda.

Kosningabaráttan um Icesave III hefur verið kraftmikil og dýnamísk, all óvægin í restina en líka ógagnsæ og manni óar við umhverfi ESB kosninganna þegar þar að kemur.  Þetta ferli þarf að laga og í frumvarpi Hreyfingarinnar um þjóðaratkvæðagreislur er m.a. gert ráð fyri s.k. Lýðræðisstofu sem hefur það hlutverk að halda utan um undiskriftarsafnanir og hafa eftirlit með þeim, búa mál til þjóðaratkvæðagreiðslu með viðeigandi kynningum og fleira og tryggja gagnsæi kosningabaráttunnar eftir því sem hægt er, sérstaklega með tilliti til fjármögnunar.  Hreyfingin hefur lagt  þetta frumvarp  fram þrisvar sinnum en ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki stutt það nema með undantekningum.  Vonandi mun Alþingi og Allsherjarnefnd taka við sér stax í næstu viku og koma hreyfingu á þetta mikilvæga mál.  Valgerður Bjarnadóttir og fleiri þingmenn Samfylkingar ásamt þingmönnum Hreyfingarinnar, hefur einnig lagt fram frumvarp um persónukjör í kjölfar þess að Innanríkisráðherrann og ríkisstjórnin hafa heykst á loforði sínu um þess háttar lýðræðisumbætur.  Frumvarpið má sjá  hér, vonandi fær það einnig góðan framgang.

Það er kominn tími til að byggja upp að nýju traust milli Alþingis og þjóðarinnar og fyrsta skrefið í því ferli á að sjálfsögðu að vera að þingið og stjórnmálamennirnir treysti þjóðinni betur til ákvarðanatöku en verið hefur hingað til.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur