Laugardagur 21.05.2011 - 11:58 - FB ummæli ()

Fiskveiðistjórnunin – þriðja leiðin.

Hreyfingin lagði fram sem þingmál í gær frumvarp til laga um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu (Þskj. 1510 – 839. mál).  Þetta gerum við vegna tvenns, ítrekaðra yfirlýsinga forsætisráðherra um að breytingar á kerfinu eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og vegna þess að stefna Hreyfingarinnar er að auðlindir eigi að vera í þjóðaraeigu.  Það er náttúrulega algerlega óboðlegt af hálfu forsætisráðherra að ætla að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um illskiljanlega málamyndabreytingu ríkisstjórnarinnar annar vegar og óbreytts ástands hins vegar og lýsir þvílíkri vanvirðingu við þjóðina í þessu gríðarlega mikilvæga máli að ekki verður við unað og það verður að vera alvöru valkostur uppi á borðinu.

Frumvarpið okkar er einfalt, skýrt og snýst fyrst og fremst um grundvallaratriðin svo sem byggðasjónarmið, sanngirni, aðgengi að og greiðslu fyrir auðlindinanýtingu, en fer ekki út í nákvæmar útfærslur (nema með strandveiðaranar) enda geta þær orðið nánast óendanlega margar.  Frumvarpið gerir ráð fyrir að allar aflaheimildir fari aftur heim til þeirra sveitarfélaga þar sem þær voru (gegnum skráð fiskiskip) áður en framsal kvóta var leyft árið 1990 og að sveitarfélögum verði gert að selja heimildirnar á uppboðum yfir hvert fiskveiðiár.  Aflaheimildirnar verða sama hlutfall af heildakvótanum og þær voru fyrir framsal en heildarkvótinn er áfram ákvarðaður af Hafró.  Öllum landsmönnum er heimilt að bjóða í aflaheimildir en fari þær út fyrir sveitarfélagið (framseljist) greiðist við það 10% álag á uppboðsverðið.  Að auki bætast við strandveiðar sem að mestu eru á sömu formerkjum og fyrr nema að heimilt verður að veiða 40.000 tonn og tímabilið lengist í einn mánuð í hvorn enda. Gjald fyrri þær veiðar er ákveðið við löndum aflans og tekur mið af meðalverði tegundanna á uppboðsmörkuðum hvers landssvæðis sem eru áfram fjögur eins og í núverandi lögum.

Eins verður skylt að landa öllum afla á innlenda fiskmarkaði (uppboðsmarkaði) og ef landaður afli er seldur úr sveitarfélaginu leggst 10% álag á verðið.  Þessi breyting ein og sér mun samkvæmt Samtökum fiskútflytjenda og fiskverkenda án útgerðar, fjölga störfum um 800 til 1.000 með mjög skömmum fyrirvara og litlum tilkostnaði.  Uppboðin tryggja hæsta verð hverju sinni og geta allir boðið, erlendir verkendur og fisksalar líka.

Fjárhagsstaða sjávarútvegsins er svo rétt af eins og réttmætt getur talist með því að allar skuldir útgerða sem til eru komnar vegna kvótakaupa verða afskrifaðar og færðar í sérstakann kvótskuldasjóð sem verður svo gerður upp með 5% gjaldi af öllum uppboðnum aflaheimildum.

Frumvarpið hefur þegar vakið mikla umræðu og við höfum fengið mikið af jákvæðum athugasemdum.  Fjölmiðlar hafa þó flestir hverjir haldið sig við sama heygarðshornið þegar kemur að Hreyfingunni og þrátt fyrir vel boðaðan blaðamannafund var RÚV eina fréttastofan sem sendi fulltrúa.  „Fjórða valdið“, þ.e. upplýsinga- og aðhaldsskylda fjömiðla á Íslandi er nánast algerlega vanrækt af þeim flestum og umfjöllun og áhugi þeirra tekur fyrst og fremst mið af pólitískum tengslum ritstjórna og fréttamanna við áveðna stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn.  Þannig hefur það verið í allt of mörg ár og það er verðugt íhugunarefni fyrir alla, því það snýr að framtíð lýðræðisins á Íslandi sem er sem stendur að standa fyrir áhugaverðri en hættulegri tilraun um hvort hægt sé að halda úti lýðræðisríki án aðhalds- og upplýsingahlutverks frjálsra fjölmiðla.

Hvað um það,  hér er tengill á frumvarpið í heild  og hér fyrir neðan er greinargerðin sem fylgir því.  Ég vil hvetja alla þá sem tjá sig um málið að lesa frumvarpið og greinargerðina rækilega og vera ekki með eitthvert skítkast.  Þar færist í aukanna að „tröll tali“ eins og einhver sagði og ég vil ekki vera í hópi þeirra (sem fer fjölgandi) sem þarf að loka fyrir athugasemdir.

Greinargerð

Markmið þessa frumvarps er að færa úthlutun á aflaheimildum úr sameiginlegum fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar til þess horfs sem hún var í áður en framsal aflaheimilda kom til árið 1991, en fram að þeim tíma hafði úthlutunin byggst á veiðireynslu til margra ára og var því bæði sanngjörn og réttlát. Með frumvarpinu er einnig reynt að tryggja að aflaheimildir fari til þeirra byggða sem þeim var upprunalega úthlutað til. Miðað er við að aflahlutdeildin sé nýtt í viðkomandi sveitarfélagi. Þó er sveigjanleiki í nafni hagkvæmni tryggður þar sem aflahlutdeildin er framseljanleg þegar hagkvæmnisrök gefa tilefni til. Með því móti verður réttur íbúa sjávarbyggða á Íslandi til sjósóknar tryggður eins og verið hefur frá örófi alda sem eini raunverulegi grundvöllur tilvistar flestra þeirra.

Skýrt er kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á fiskistofnunum í kringum landið í fyrstu tveimur greinum laga um stjórn fiskveiða. Þar segir orðrétt:

1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

2. gr. Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um. Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

Frumvarp þetta tryggir að arður af nytjastofnum á Íslandsmiðum skili sér til réttmætra eigenda þeirra, íslensku þjóðarinnar. Upptaka uppboðskerfis við sölu aflaheimilda tryggir hámarksverð fyrir nýtingarrétt auðlindarinnar en þó eingöngu að því marki sem útgerðirnar geta borið. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að hluta aflaheimilda megi selja framvirkt til allt að fimm ára í senn þannig að þeir sem hyggjast fjárfesta í útgerð geti gert ráð fyrir aðgengi að heimildum til lengri tíma en eins árs. Þá er sveigjanleiki tryggður með því að útgerðir utan viðkomandi sveitarfélaga geta keypt aflaheimildir gegn greiðslu 10% álags eða gjalds. Með ákvæði um meðafla er stefnt að því að girða að mestu leyti fyrir brottkast afla. Þó væri æskilegast að settar yrðu skýrar og afdráttarlausar reglur sem alfarið banni brottkast afla gegn þungum viðurlögum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir mikilli beinni atvinnusköpun vegna löndunar alls afla og sölu í gegnum innlenda uppboðsmarkaði í samræmi við ákvæði frumvarps til laga um sölu sjávarafla o.fl. frá 139. löggjafarþingi (þskj. 51 – 50. mál) en þar segir m.a.:

„Allur sjávarafli, þó ekki rækja, humar og uppsjávarfiskur, sem veiddur er úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal seldur á innlendum uppboðsmarkaði sjávarafla er fengið hefur leyfi Fiskistofu. Heimilt er að selja afla í beinum viðskiptum í innlenda fiskvinnslu og skal þá verð milli útgerðar og fiskvinnslu ákvarðast af markaðsverði söludagsins eða síðasta þekkta markaðsverði á uppboðsmarkaði.

Heimilt er að selja fullunninn frystan afla utan innlends fiskmarkaðar skv. 12. gr. a. Til fullunnins frysts afla telst sjávarafli sem hefur verið veiddur og í kjölfarið unninn um borð í frystiskipi, honum pakkað og hann verið flakaður, flattur, sneiddur, roðdreginn, hakkaður eða verkaður á annan hátt og hann frystur að vinnslu lokinni. Þegar aðeins fer fram frysting um borð í frystiskipi á heilum eða hausskornum fiski eða heilfrysting á rækju telst slíkur afli ekki til fullunnins frysts afla í skilningi laga þessara.“

Þessi breyting ein sér mun að öllum líkindum leiða til um 800–1.000 nýrra starfa við fiskverkun með mjög litlum tilkostnaði á skömmum tíma.

Framsal aflaheimilda hefur leitt til gríðarlegrar byggðaröskunar víða um land og gert að engu eina bjargræði sjávarbyggða, sjósóknina, sem þær hafa notið í aldaraðir. Með því að taka lífsbjörgina af sjávarbyggðunum hefur öll afkoma og eignastaða íbúa á þessum stöðum raskast við atvinnuleysi, brottflutning og eignabruna. Með samþykkt þessa frumvarps mun sú þróun snúast við og fólksflótti af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins stöðvast og komið í veg fyrir þann gríðarlega samfélagslega tilkostnað sem slíkir hreppaflutningar hafa í för með sér.

Aukning á afla til strandveiða, sem hér eftir verða utan tillagna Hafrannsóknastofnunarinnar um heildarafla og standa yfir stærri hluta ársins en nú er, mun hafa umtalsverð áhrif á atvinnulíf um allt land. Auðlindagjald og strandveiðar munu og skila umtalsverðum tekjum til þeirra sveitarfélaga þar sem aflanum er landað.

Sá skaði sem útgerðir og núverandi handhafar aflaheimilda verða fyrir vegna missis aflaheimilda verður bættur með því að skuldir útgerða sem eru til komnar vegna kaupa á aflaheimildum verða færðar í sérstakan kvótaskuldasjóð. Skýrt er í lögum að aflahlutdeild útgerðar er ekki eign hennar og þær skuldir sem stofnað hefur verið til vegna kaupa á slíkum heimildum eru og hafa alltaf verið áhættulánveiting viðkomandi lánveitenda. Kvótaskuldasjóður verður greiddur niður með 5% gjaldi á allar seldar veiðiheimildir þar til sjóðurinn er að fullu upp gerður. Skuldir kvótaskuldasjóðs bera enga vexti.

Varðandi þá umræðu sem skapast hefur og lýtur að hugsanlegum brotum á eignarréttarákvæði stjórnarskrár skal tekið fram að um langa tíð hefur skýrt verið kveðið á um það í lögum að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. Þrátt fyrir að möguleiki sé á þeirri ólíklegu niðurstöðu dómstóla að ríkið væri skaðabótaskylt vegna innköllunar aflaheimilda eða annars þess sem leiðir af frumvarpi þessu, þá er engu að síður þess virði að þær breytingar sem hér eru lagðar til komist til framkvæmda. Betra er að þurfa hugsanlega að sæta slíkri niðurstöðu dómstóla en að búa áfram við óbreytt eða lítið breytt fyrirkomulag fiskveiða.

Í framhaldi af þeim breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir er brýnt að fram fari víðtæk og ítarleg úttekt á Hafrannsóknastofnuninni og veiðiráðgjöf hennar með tilliti til aðferðafræðilegra sjónarmiða. Þar verði einnig kannað hversu vel hefur tekist til með verndun fiskistofna, fiskimiða og lífríkis og uppbyggingu fiskistofna. Í þeirri úttekt er brýnt að fiskveiðar við Ísland verði skoðaðar heildstætt með tilliti til þess skaða sem þær hafa valdið á lífríkinu og lagt mat á hagkvæmni togveiða annars vegar og krókaveiða hins vegar. Slík úttekt ætti að vera gerð af hlutlausum erlendum sérfræðingum í samráði við sjómenn, íslenska fiskifræðinga og vistfræðinga.

—————————————————–

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur