Á tveggja daga sumarfundi forsætisnefndar Alþingis sem haldinn var á Hótel Örk í Hvergagerði dagana 24. og 25. ágúst var eitt umfjöllunarefnið tillaga frá forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur um meðferð frumvarps Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Þess skal getið að forseti Alþingis hefur úrslitavald í forsætisnefnd og atkvæði um tillögur eru ekki greidd. Tillagan er svohljóðandi:
1. Tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar fyrir Alþingi í formi skýrslu frá forsætisnefnd. Til þess að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar fyrir Alþingi þurfa þær að koma fram í formi þingmáls á þingskjali og þingmenn flytji það. Forseti telur heppilegt að tillögurnar komi fram sem skýrsla þar sem með því felst ekki efnislega afstaða til tillagnanna eða einstakra þátta þeirra af hálfu þeirra sem flytja málið.
2. Skýrsla forsætisnefndar verði lögð fram við upphaf nýs þings 1. október n.k. Forseti telur ekki heppilegt að leggja slíka skýrslu fram á septemberfundum þingsins þar sem þingmálið félli niður við upphaf nýs þings 1. okt. auk þess sem varla gæfist þá sá tími til umræðu um málið sem þörf er á.
3. Í skýrslunni verði saga málsins reifuð og fjallað um störf ráðsins, frumvarpstextinn birtur ásamt greinargerð frumvarpsins og jafnframt birt nauðsynleg fylgiskjöl.
4. Gert er ráð fyrir heilsdagsumræðu um skýrsluna á fyrstu dögum nýs þings (að lokinni 1. umr. fjárlaga og fjáraukalaga).
5. Að lokinni umræðu um skýrsluna gangi hún til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari meðferðar. Nefndin geri áætlun um athugun málsins. Æskilegt er að nefndin kalli til fundar við sig ýmsa þá sem hafa unnið að málinu á fyrri stigum þess, t.d. fulltrúa í fyrrum stjórnlaganefnd og stjórnlagaráði, sérfræðinga í stjórnskipunarrétti og aðra þá er nefndin kann að telja gagnlegt að hafa samráð við um meðferð málsins. Nefndin leiti jafnfamt til almennings með auglýsingu um umsagnir líkt og gert var við breytingar á stjórnarskrá á þinginu 1994-95.
Svo er nú það og sýnist væntanlega sitt hverjum. Hér er sem sagt verið að leggja til (og í raun búið að ákveða) að öll sú vinna sem þjóðfundurinn, stjórnlaganefndin og stjórnalgaráðið hafa unnið, endi sem skýrsla á Alþingi og verði rædd þar í einn dag. Síðan fari skýrslan til nefndar sem enn er ekki til, en tilgreind stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er nýmæli í nýjum s.k. þingsköpum sem eru þau lög sem Alþingi starfar eftir og munu taka gildi 1. október. Sú nefnd á svo að gera eitthvað við skýrsluna.
Kannski er ég sá eini sem finnst eitthvað óljóst og jafnvel bogið við þetta en það byggi ég á því að umræða um málið á þessum tveggja daga fundi forsætisnefndar var nánast engin, eða tuttugu mínútur og enginn tók til máls nema ég og Álfheiður Ingadóttir. Tillögu minni um að drögin að stjórnarskrá með greinargerð yrðu send inn á hvert heimili í landinu var hafnað og tillögu minni að drögin yrðu þýdd á ensku var hafnað. Þetta áhugaleysi forsætisnefndar á tillögu forseta og tillögum mínum bendir til þess að annað hvort sé nefndarmönnum slétt sama um þetta ferli eða að samkomulagi hafi verið náð bak við tjöldin fyrir fram. Auk þess vísaði Ásta Ragnheiður til þess að hún legði þessa tillögu fram að höfðu samráði við fulltrúa í stjórnlagaráði sem væru henni samþykk. Það gengur þvert á yfirlýsingar fjölmargra stjórnlagaráðsfulltrúa um að málið eigi að fara fyrst í kynningu hjá þjóðinni og í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi fjalli um málið og er heldur ekki í samræmi við þann fund sem þinghópur Hreyfingarinnar átti með þremur stjórnlagaráðsfulltrúum í síðustu viku. Það væri því áhugavert að fá það staðfest frá stjórnlagaráðsfullrúum hverjir hafa lagt blessun sína yfir þetta ferli.
Þó efasemdir mínar um þetta séu miklar þarf þó að hafa í huga að áframhald málsins er í raun að einhverju leiti galopið og þó þetta sé óvissuferð þá er ekki endilega þar með sagt að Alþingi hafi stolið málinu frá þjóðinni eins og margir eru hræddir um að gerist. Það mun þó fljótlega koma í ljós, en augljósa krafan í dag hlýtur að verða sú að þjóðin verði upplýst um hvaða stefnu þetta mál á að taka. Með það í huga hafði Hreyfingin samband við forsætisráðherra fyrir rúmlega viku og bauð upp á samstarf um framgang þessa mikilvæga máls en því boði hefur ekki enn verið svarað.
Eitt er hins vegar alveg á hreinu og það er að ef Alþingi með öll sérhagsmunatengsl fjórflokksins og þingmanna í forgangi kemst upp með það byrja að breyta efnislega atriðum í frumvarpi stjórnlagaráðs, þá er málið ónýtt og hugmyndin um nýja stjórnarskrá er dauð. Almenningur verður því að láta málið til sín taka.
Nýlegar athugasemdir