Þriðjudagur 06.09.2011 - 15:03 - FB ummæli ()

Hálfur Árósarsamningur

Fyrr í dag samþykkti Alþingi endanlega Árósarsamninginn mikilvæga sem staðið hefur í virkjanasinnum árum saman og hvers vöntun í íslensk lög hefur gert það að verkum að Ísland er mjög aftarlega á merinni í umhverfismálum miðað við flest allar nágrannaþjóðir. Það fylgir þó böggull skammrifi eins og segir einhvers staðar, því á síðustu metrunum samþykku VG-liðar að einn mikilvægasti þáttur samningsins, sá sem lýtur að skýlausum rétti einstaklinga til að kæra stjórnvaldsákvarðanir til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, yrði felldur út. Þessi liður er mikilvægur því hann breytti því sem áður var að einstaklingar máttu eingöngu kæra hefðu þeir s.k. „lögvarða hagsmuni“ sem er einfaldlega aðferð lögfræðinnar til að koma í veg fyrir kærur. Sjálfstæðis- og framsóknarmenn komu með breytingartillögu sem eyðileggur þetta mikilvæga ákvæði og færir það í fyrra horf, sögðust ella myndu tefja málið með málþófi yrði hún ekki samþykkt. Það eitt að slík tillaga skuli koma frá Sjálfstæðisflokknum sem kennir sig við einstaklingshyggju og einstaklingsframtak er furðulegt enda kúvending á hugmyndafræði flokssins. Hitt er þó furðulegra að formaður Umhverfisnefndar Mörður Árnason lagði á flótta og lagði m.a. hart að Hreyfingunni að samþykkja þessa breytingartillögu, sem tókst ekki. Hann fékk hins vegar alla þingmenn VG með sér í lið, líka umhverfisráðherrann Svandísi Svavarsdóttur og ergo, eitt mikilvægast atriðið í samningunum er fyrir bí. Atkvæðagreiðsluna má  sjá hér.

Nú geta einstaklingar eingöngu kært slík mál eigi þeir lögvarða hagsmuni þannig að einstaklingar með t.d. áhuga á náttúruvernd eru úti í kuldanum. Eins og segir í breytingartillögunni um kæruréttinn:

„Kærurétt samkvæmt þessari grein eiga þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök sem eiga varnarþing á Íslandi, enda séu félagsmenn þeirra 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Umhverfisverndarsamtök teljast samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 2. og 3. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.“

Einstaklingar verða því að stofna félag með minnst 30 félagsmönnum sem þeir fá engu um að ráða hverjir eru, svona í anda þess þegar Kárahnjúkavirkjanasinnar yfirtóku Náttúruverndarsamtök Austurlands hér um árið. Þeir verða að skrá félagið, skrifa ársskýrslu og ráða endurskoðanda. Ferli sem er flókið, getur verið erfitt og verður kostnaðarsamt. Fyrir utan það að það vilja einfaldlega ekki allir vera í félagi.

Þannig fór því fyrir lýðræðis- og náttúruverndarvakningu þeirri sem Vinstri-grænir og hinn Græni her Marðar Árnasonar notuðu til að fleyta sér in á þing.

Árósarsamingurinn er engu að síður stórt skref fram á við en slíkur gunguháttur að láta Sjálfstæðisflokkinn ráða því að þetta mikilvæga ákvæði var fellt út er alveg ótrúlegur. Málið fer nú aftur til Umhverfisnefndar og þar mun fulltrúi Hreyfingarinnar leggja til að þessi breyting Sjálfstæðis- og framsóknarmanna verði felld út og upprunaleg tillagan látin halda sér. Ef einhverjir umhverfis- og náttúruverndarsinnar lesa þetta hvet ég þá til að hafa samband við fulltrúa fjórflokksins í umhverfisnefnd sem utan Birgittu  eru þessir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur