Í frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga sem samþykkt voru á síðasta degi þingsins s.l. laugardag fólst gullið tækifæri til að koma stöðu sveitarstjórnarstigsins á Íslandi í svipað horf hvað lýðræðislegt umboð varðar og er í nágrannalöndunum. Þetta tækifæri fór algerlega forgörðum og við sitjum uppi með niðurstöðu þar sem sveitarstjórnastigið er enn það ólýðræðislegasta, ekki bara miðað við öll Norðurlöndin heldur einnig miðað við öll lönd í norður og vestur Evrópu.
Framhald mun því verða á þeim fámennis- og klíkustjórnmálum sem einkennt hafa sveitarstjórnir á Íslandi undanfarna áratugi, fyrirkomulagi sem hefur reynst illa, alið á spillingu og kostað íbúa sveitarfélaganna stórfé enda er stór hluti sveitarfélaga á vonarvöl og jafnvel gjaldþrota vegna gerræðislegra fámennis ákvarðana í skipulags- og fjármálum. Þetta þarf kannski ekki að koma mikið á óvart því fjórflokkurinn hegðar sér ekkert öðruvísi á sveitarstjórnarstiginu heldur en á Alþingi og öllum tillögum um að draga úr völdum þessa mesta meins samfélagsins er mætt með mikilli andstöðu af hans hálfu.
Í frumvarpinu (sjá hér), sem kom frá innanríkisráðuneytinu og Ögmundur Jónasson ber ábyrgð á er gerð veikburða tilraun til að fjölga sveitarstjórnarfulltrúum (11. grein) og gera fámennis- og klíkustjórnmálum á sveitarstjórnarstiginu erfiðara um vik, en t.d. í tilfelli Reykjavíkur þarf einungis átta manns til að ráða öllu í nærri 120.000 manna sveitarfélagi (muniði REI málið), á Álftanesi sem varð gjaldþrota þurfti fjóra. Sú væga fjölgun sem frumvarpið gerði ráð fyrir er hins vegar alls ekki næg og festir sveitarstjornarstigið á Íslandi í sessi sem það ólýðræðislegasta í allri norðan- og vestanverðri Evrópu.
Nú þarf það ekki endilega að vera gefið að fjöldinn einn lagi allt sem miður geti farið á sveitarstjórnarstiginu. Hugmyndirnar um fjölda fulltrúa miða hins vegar að því að tryggja að sem flest sjónarmið komist að og þannig veita meira aðhald frá almenningi, en hvað Reykjavík varðar er fjöldi borgarfulltrúa sá sami (15) og árið 1908 þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað fimmtán-falt. Í 11. grein frumvarpsins eru ekki færð nein rök fyrir þeirri lítillegu fjölgun sem á að verða sem er undarlegt því að á síðasta þingi lagði Hreyfingin fram frumvarp (sjá hér) einmitt um þetta atriði þar sem mun meiri fjölgun var lögð til og sú fjölgun var kyrfilega rökstudd með tilvísunum í sveitarstjórnir nágrannalanda. Það frumvarp fór til samgöngunefndar sem tók ágætlega í málið og ákvað að senda það með jákvæðri umsögn til ríkisstjórnarinnar til nýtingar í vinnu við nýju sveitarstjórnarlögin sem nú hafa verið samþykkt.
Þessum tillögum sér hins vegar hvergi stað í því frumvarpi og við vinnslu þess var aldrei haft sambandi við okkur i Hreyfingunni sem höfum þó mest allra talað fyrri auknu lýðræði innan veggja Alþingis. Sá draumur að sem flestir s.s. Árbæingar, KR-ingar, Breiðhyltingar, Grafarvogsbúar, Vogahverfi, Fossvogur, Kylfingar og fleiri, geti átt rödd í sveitarstjórnum, er því orðinn að engu, í bili. Við munum hins vegar gera aðra atlögu að þessu vígi valdsins á næsta þingi og leggja fram frumvarpið á ný. Sjá ræðu mína um málið hér.
Annað atriði í frumvarpinu sem var eyðilagt í meðförum samgöngunefndar voru ákvæði um íbúalýðræði gegnum borgarafundi og íbúakosningar. Þótt ákvæðið væri lélegt frá upphafi vegna þess að íbúakosningar máttu ekki með nokkru móti vera bindandi nema ef sveitarstjórninni sjálfri hugnaðist svo, var það þó örlítið skref í rétta átt. Samgöngunefnd ákvað hins vegar að milli annarar og þriðju umræðu og alveg á síðustu metrum dagsrárinnar á laugardaginn að hækka það hlutfall íbúa sem þarf til að krefjast almennrar kosningar úr 20% (sem þó var allt of hátt og hefði átt að vera 10%) í að lágmarki 25%. Sveitarstjórnum er þó heimilt að hafa þetta hlutfall allt að 33%.
Þetta er ömurlegt og lýsir best ábyrgðarleysi nefndarmanna samgöngunefndar, eða þá algerri vanþekkingu þeirra á málefninu þar sem rannsóknir hafa sýnt að þegar farið er með þetta hlutfall úr 10% í 15% þá eru afleiðingarnar þær að nánast aldrei verður íbúakosning. Þetta fólk (sjá hér – samgöngunefndarmenn) sem margt hvert lét kjósa sig á forsendum aukins lýðræðis og gagnsæis virðist telja íbúakosningar og frekari lýðræðisvæðingu af hin illa þegar á reynir. Hér er að vísu einnig um að ræða ögrun gagnvart Ögmundi Jónassyni sem var á móti þessum breytingum enda engir kærleikar milli hans og formanns samgöngunefndar Björns Vals Gíslasonar (og sennilega fleiri nefndarmanna í þeirri nefnd) en tillaga BVG hljóðaði fyrst upp á að 50% íbúa þyrfti til að krefjast íbúakosninga. Auk þess voru mikilvægir málaflokkar undanskildir sem gjaldgengir í íbúakosningum. Þess má og geta að títt nefndur BVG situr fyrir Íslands hönd í lýðræðis- og mannréttindanefnd ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu) en sú stofnun hefur að gera með lýðræðis- og koningamál.
Athyglisvert er að þetta er að kröfu Sambands íslenskra sveitarfélaga og að það samband skuli ekki setja fram neinn viðunandi rökstuðning fyrir þessari kröfu. Þess má geta að á ráðstefnu um beint lýðræði sem haldin var í Ráðhúsi Reykjavíkur í s.l. viku kom fram að í rannsóknum á þeim Svissnesnesku kantónum þar sem möguleikar á beinu lýðræði væru meiri var um betri fjárhagsstöðu að ræða, minni skuldsetningu og betri fjármálastjórnum yfir höfuð heldur en þar sem íbúalýðræði var minna og sérstakir þættir, s.s. fjármál voru undanskilin íbúakosningu. Þar kom einnig fram að í Bandaríkjunum var bein fylgni milli minni spillingar og minni óráðsíu í stjórnun almennt annars vegar og aukins íbúalýðræðis hins vegar, bæði á sveitarstjórnar- og fylkisstiginu.
Þetta frumvarp er því orðið að lögum gallað eins og það er. Það er þó dæmigert fyrri þau hroðvirknislegu vinnubrögð sem einkenna því miður svo mikið af störfum Alþingis þegar verið er að keyra í gegn risastór mál á allt of skömmum tíma og menn nýta tímaþröngina til að fá útrás fyrir persónulegar væringar frekar en að huga að almannahag. Ég hef áður haldið því fram að Alþingi íslendinga sé í raun nánast ónýtt sem löggjafarvald ef hugmyndir lýðræðis eru hafðar að leiðarljósi og síðust vikur nýliðins þings hafa ekki gert annað en að styrkja mig í þeirri skoðun.
Nýlegar athugasemdir