Í gær fóru fram umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Sjaldan hef ég nú séð innihalds rýrara plagg en þessa stefnuræðu og ekki get ég sagt að brjóstvörn stjórnarandstöðunar hafi neitt betra fram að færa en gamla spillta Ísland. Þó hugmyndir framsóknarmanna um lausn á skuldavanda heimilana séu góðrar gjalda verðar þá er komin gömul framsóknarlykt af flokknum sem þó einn fjórflokka náði að endurnýja sig mikið árið 2009.
Hvað um það, mér finnst Alþingi nánast óstarfhæft sem löggjafarþing og sagði m.a. þetta í ræðu minni og þetta er ég sannfærður um:
„Í kosningunum vorið 2009 komu 27 nýir þingmenn inn á þing. 23 þeirra fóru beinustu leið í hjólför Fjórflokksins og ekkert breyttist. Sú ríkisstjórn sem nú er við völd og sem margir þessara nýju þingmanna styðja hefur svikið öll þau kosningaloforð sem hún gaf. Meðvirknin og firringin heldur samt áfram og alþingismenn hafa því miður misfarið með umboð sitt eina ferðina enn. Það er fullreynt að fjórflokka samfélagið og skyldleikaræktunin hér á Alþingi getur ekki uppfyllt þær kröfur, þær skyldur og þá ábyrgð sem löggjafarþing hefur. Það er gengið sér til húðar. Eina leiðin sem fær er, er að gefa almenningi kost á að segja álit sitt á þeim stjórnmálum, því stjórnkerfi og því stjórnarfari sem ríkt hefur hér allt of lengi. Eftirlegu kindum hrunsins þarf að koma út með kosningum sem fyrst.“
Ræðuna alla má svo nálgast hér. Ég vil þakka „Tunnunum“ fyrir taktinn og aðhaldið. Það setur alltaf skemmtilegan blæ á þingið þegar hræðslan við almenning utan veggja hússins skín úr andlitum og athugasemdum þingmanna.
Nýlegar athugasemdir