Neðangreint er athugasemd sem ég hef sent Merði Árnasyni þingmanni Samfylkingarinnar vegna bloggfærslu hans um einhvers konar „Griðrof á Alþingi“ eins og hann kallar það. Fjölmargir hafa hvatt mig til að koma þessari athugasemd lengra og þar sem hún á erindi til allra þingmanna og ráðherra geri ég það hér með.
Sæll Mörður.
Það hendir okkur flest öll einhvern tímann á ævinni að manni misbýður svo gjörsamlega að maður hreinlega getur ekki tekið þátt. Sá málatilbúnaður og í raun viðbjóður sem hefur átt sér stað í kringum þetta mál er Alþingi, þingmönnum meirihlutans og forseta Alþingis til háborinnar skammar. Ég hef nú sótt mína vinnu í þetta hús í á þriðja ár og það líður varla sá dagur að ég gangi þarna inn án þess að vera með óbragð í munni yfir því sem þarna fer fram. Í gær og í morgun tók þó steininn úr.
Þú hefur staðið þig vel og heiðarlega í þessu máli, gagnrýnt það og talað fyri breyttu verklagi og er það vel, takk fyrir það. Ég bið þig hins vegar að virða það að öllu eru takmörk sett og það endalausa leikrit sem heitir Alþingi er gengið sér til húðar og það er ekki á færi venjulegs fólks að taka þátt í öllum þáttum leiksins. Þið „stjórnmálamennirnir“ megið eiga þau hlutverk öll ef þið viljið. Við sem komum þarna inn til að reyna að breyta einhverju til hins betra hreinlega frábiðjum okkur það viðbjóðslega baktjaldamakk, kjördæmapot og þá leiðtogadýrkun sem viðgengst þar enn. Það er svo ykkar að reyna að lifa með því. Meðfylgjandi er tengill á viðtal við mig á mbl.is um málið.
Nýlegar athugasemdir