Miðvikudagur 09.11.2011 - 22:04 - FB ummæli ()

Kostaðar háskólastöður

Fékk í dag svar við fyrirspurn minni til menntamálaráðherra um kostaðar stöður á háskólastigi við alla háskóla landsins en kostun staða af hagsmunaaðilum á háskólastigi er mjög umdeilt mál, innan sem utan háskólageirans. Svar menntamálaráðherra  er hér.  Sem betur fer virðist ekki mikið um það að stöður við íslenska háskóla séu beint greiddar af einhverjum sem gætu talist hafa hagsmuna að gæta en þó vekja athygli þau tilvik þar sem um fyrirtæki er að ræða.  Slík tengsl eru alltaf óheppileg og væri óskandi að háskólarnir létu algerlega af þessum sið eða að menntamálaráðherra einfaldlega kæmi í veg fyrir slíkt.

Í svarinu eru það nokkrar stöður sem vekja sérstaka athygli svo sem tvær stöður sérfræðinga við Lagastofnun Háskóla Íslands, önnur kostuð af Samorku (samtökum orku- og veitufyrirtækja) og hin kostuð af LÍÚ.  Fleiri stöður eru einnig áhugaverðar svo sem staða við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík kostuð af KPMG en endurskoðunarfyrirtækin hafa einmitt verið sérstaklega gagnrýnd fyrir þátt sinn í Hruninu. Það má svo velta fyrir sér hvort ráðleggingar þeirra um t.d. það sem þau kalla „skattasniðgöngu“ séu kannski líka kenndar sem fag í akademískum stofnunum landsins.  Aðkoma lyfjafyrirtækja að kostun staða við læknadeild HÍ er einnig athyglisverð.

Vissulega má gefa sér að þessi fyrirtæki séu svo einlæglega áhugasöm um framgang akademískrar hugsunar að þau vilji setja fjármuni þar í og er það vel.  Þetta fyrirkomulag er hins vegar allt annað en óumdeilt og háskólar víða um heim hafa einfaldlega bannað það eða sniðið því mjög þröngar skorður.  Að sjálfsögðu er það óþolandi tilhugsun að akademískar stofnanir hér á landi skuli hugsanlega miðla öðru en akademískum niðurstöðum vegna beinna tengsla viðkomandi stöðuhafa við sérhagsmuni.  Það eina sem þó getur skorið þar úr um eru rannsóknir á því efni sem miðlað hefur verið af þeim sem gegna eða hafa gegnt þessum stöðum.  Hreinlegast er samt að útrýma þessu fyrirkomulagi með því að tryggja nægar fjárveitingar til háskólastigsins en þangað til það verður gert væri til mikils að vinna að stöðva þetta.  Þar ber Háskóli Íslands að sjálfsögðu höfuðábyrgð en ekki síður menntamálaráðherra landsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur