Miðvikudagur 02.11.2011 - 23:55 - FB ummæli ()

Heimspeki sem skyldufag

Í dag fluttum við í Hreyfingunni þingsályktunartillögu um að gera heimsspeki að skyldunámsgrein í grunn- og framhaldsskólum (sjá hér). Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla með það að markmiði að heimspeki verði skyldufag á báðum skólastigum innan fjögurra ára.

og í greinargerðinni segir:

Markmið tillögurnnar er að efla kennslu í heimspeki og að kenndur verði að meðaltali einn áfangi á hverjum tveimur árum á grunnskólastigi og að meðaltali einn áfangi á hverju skólaári á framhaldsskólastigi.
    Með vísan til 8. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008 er lagt til að tryggt verði að heimspeki verði skyldufag í grunn og framhaldsskólum. Eins og fram kemur í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er nauðsynlegt að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Heimspeki og siðfræði ættu að vera skyldufag á öllum skólastigum og þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð á því sviði. Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun, sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Með því að auka kennslu í heimspeki í grunn- og framhaldsskólum er lagður grundvöllur að því að styrkja skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir. Þar sem um allnokkra breytingu á aðalnámskrám er að ræða er talið æskilegt að gefa ráðherra allt að fjórum árum til að innleiða breytinguna.

Þó almennt viðhorf virðist vera að allt sem gerist á Alþingi sé á einhvern hátt ómögulegt er það ekki nema að hluta til rétt. Það koma dagar þar sem málin á dagskrá eru ekki deilumál heldur myndast þverpólitískur áhugi á framgangi þeirra. Þó hér sé oft um að ræða mál sem vega e.t.v. ekki mikið á mælikvarða t.d. fjárlagafrumvarpsins eru þau mörg alveg jafn merkileg og mikilvæg.

Í dag röðuðust þingmálin þannig upp að eitt þingmála Árna Johnsen, þingsályktunartillaga um að auka hlut ljóðakennslu og skólasöngs í grunn- og framhaldsskólum var á undan ofangreindu máli frá okkur í Hreyfingunni. Hér spannst af lífleg umræða milli nokkurra þingmanna um ljóð, ljóðakennslu, söng, heimsspeki og fleira þar sem málin spyrtust saman í umræðunni á áhugaverðan hátt. Smá sýnidæmi um að ekki er alltaf allt í hávaðarifrildi í þinginu. Tengill á umræðuna á mál Árna Johnsen  er hér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur