Icesave málinu lauk í dag. Fullnaðarsigur siðferðis, réttlætis, sanngirni og lýðræðis er í höfn. Einhverju mesta pólitíska deilumáli lýðveldistímans lauk með sigri almennings og þeirrar siðferðisvitundar að almenningi ber ekki að greiða skuldir þeirra skúrka sem áttu og stjórnuðu íslensku fjármálakerfi og sem með dyggum stuðningi stjórnvalda þess tíma bjuggu til það ógeðsumhverfi samspils stjórnmála og fjármálalífs sem gerði Icesave mögulegt.
Icesave I (Svavars samningurinn) var furðulegur og óásættanlegur en það náðist þó þverpólitísk samstaða á þingi um niðurstöðu, sem Bretar og Hollendingar svo höfnuðu. Sú aðgerð ríkisstjórnarinnar að koma með nýjan Icesave samning inn í þingið, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, getur ekki flokkast sem annað en einhver ljótasti pólitíski leikur sem stjórnvöld hér á landi hafa gripið til. Sá fyrri af þeim, Icesave II, var keyrður í gegnum þingið með atkvæðum stjórnarmeirihlutans og eftir mikla baráttu inn á þingi sem og ómetanlega baráttu grasrótarhópa utan þess sýndi Forseti Íslands mikinn kjark og hafnaði lögunum sem enduðu með gjörsigri almennings gegn stjórnvöldum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá síðari, Icesave III sem unnin var í samráði við alla stjórnarandsöðuna var á endanum óásættanlegur fyrir Hreyfinguna og Framsóknarflokkinn en stærstur hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins studdi hann. Honum var líka hent á haugana af þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir aðra höfnun Forsetans á lögunum og mikla baráttu grasrótarinnar.
Sá ömurlegi hræðsluáróður ríkisstjórnarinnar um málið allan tímann mun vonandi verða eftir í minningu þjóðarinnar og það gleymist vonandi aldrei að samkrull stjórnmálamanna og fjármálamanna er orsökin að öllu þessu. Þeir stjórnmálamenn sem stóðu að því að búa til þetta umhverfi fyrir Hrun, sú ríkisstjórn sem tók við 2007 og vissi hvað myndi gerast allt árið 2008 en laug að almenningi og alþjóðasamfélaginu, og stjórnarmeirihlutinn sem tók við árið 2009 mega skammast sín og skulda þjóðinni afsökunarbeiðni. Þau ættu líka öll að láta sig hverfa af vettvangi stjórnmálanna.
Framundan er að byggja upp umhverfi viðskiptalífs, fjármálalífs og stjórnmálalífs þar sem svona lagað getur ekki gerst aftur. Ný stjórnarskrá er ein varðan á þeirri vegferð. Andstaðan gegn henni sýnir þó skýrt að gerspillt Hrunöfl hafa ekkert lært og ekkert viðurkennt. Icesave sýnir okkur hins vegar að samstaða almennings ber árangur. Framundan er því einnig að koma á nýrri stjórnarskrá og moka svo Hrunverjum út í næstu Alþingiskosningum.
Nýlegar athugasemdir