Þriðjudagur 12.02.2013 - 20:28 - FB ummæli ()

Hagræðing eða svindl?

Í umræðu í atvinnuveganefnd þingsins í morgun um breytingu á lögum um „Umgengni um nytjastofna sjávar“ eins og þau heita, kom ítrekað upp að Atvinnuvegaráðuneytið sem samdi frumvarpið notar orðalagið „að hagræða vigtun“ og „hagræðing vigtunar“.

Þegar eftir því var gengið hvað þetta sérkennilega orðalag þýddi kom í ljós að sennilega væri um að ræða svindl á vigtun, í þessu tilfelli á sjávarafla sem landað er, vegna þess að ráðuneytinu var ekki kunnugt um að vigtun sé „hagrætt“ upp á við. Við nánari eftirgrennslan kom það svo í ljós að „hagræðing vigtunar“ er bara svindl þar sem landaður afli er vigtaður of naumt og er því ekkert annað en þjófnaður á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þessi „hagræðing“ hefur átt sér stað árum saman og það með vitneskju ráðuneytisins og ráðherra sem hafa oft reynt að taka á málinu og er áður nefnd breyting á lögum m.a. sett fram sem enn ein tilraun til að hamla „hagræðingaraðgerðum“ í höfnum landsins.

Ég veit ekki hvað skal segja um stjórnsýslu og stjórnvöld lands sem nota með formlegum hætti orðið „að hagræða“ yfir þjófnað, að ekki sé talað um stjórnvöld sem hafa eftirlitshlutverki að gegna, en mér finnst eitthvað bogið við það.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur