Föstudagur 15.02.2013 - 13:39 - FB ummæli ()

Eðlileg stjórnmál eða aðför að löggjafarvaldinu?

Sá atburður gerðist í gær á Alþingi vegna mikillar umræðu um „Skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál“ að fara þurfti fram úr hefðbundnum lokum dagskrártíma klukkkan 20:00 og hafa fund lengur inn í kvöldið svo hægt væri að klára umræðuna, en skýrsla þessi er árviss viðburður og umræðu um hana lýkur alltaf á einum degi.

Samkomulag náðist af hálfu stjórnarliða við Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk um slíka framlengingu en þegar á reyndi krafðist formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins að greidd yrðu atkvæði um tillöguna um framlengdan þingfund. Atkvæðagreiðsla var boðuð með tveggja tíma fyrir vara klukkan 16:40 en slík atkvæðagreiðsla er yfirleitt formsatriði þar sem þingmenn eru flestir mjög passasamir upp á mætingu, en skylt er að vera við atkvæðagreiðslur.

Um klukkan 16.30 fóru hins vegar nokkrir Framsóknar- og Sjálfstæðismenn að tínast út úr húsi og vegna veikinda eða lögmætra fjarvista náðu stjórnarliðar ekki fullu liði í hús. Til að þingfundur sé ályktunarbær þarf meirihluti þingmanna að vera á staðnum, þ.e. minnst 32 þingmenn og sú tala náðist ekki og atkvæðagreiðslunni var frestað til klukkan 19:30.

Þegar leið að atkvæðagreiðslunni klukkan 19:30 kom í ljós að um skipulega fjarveru af hálfu Framsóknarmanna var að ræða og ekki einn einasti þingmaður þeirra mætti. Þeir voru á tískusýningu út í bæ en það var samt ekki skipulögð fjarvera sagði formaður þingflokksins Gunnar Bragi Sveinsson. Sjálfstæðismenn voru líka flest allir fjarverandi og sá t.d. undir iljarnar á Ólöfu Nordal klukkan 19:29. Þrír þeirra mættu þó, Illugi Gunnarsson sem bað um atkvæðagreiðsluna sem og þingmennirnir Einar K. Guðfinnsson og Jón Gunnarsson sem greiddu atkvæði gegn tillögunni en sáu þó sóma sinn í að mæta.

Nú má vissulega segja að það sé hálf hallærislegt ef stjórnaliðum hverju sinni tekst ekki að manna atkvæðgreiðslur í þinginu enda yfirleitt um meirihlutastjórnir að ræða. Þó geta komið upp aðstæður eins og í dag þar sem einhverra hluta vegna það er ekki hægt en þá eru yfirleitt nægilega margir þingmenn í salnum til að fundurinn sé ályktunarbær. Það hefur hins vegar gerst í nokkur skipti að Framsóknar- og Sjálfstæðismenn stunda að því er virðist skipulegar fjarvistir frá atkvæðagreiðslum þegar þeir vita að ekki næst í alla þingmenn. Skemmst er að minnast stöðu sem komu upp á síðasta þingi þegar greiða átti atkvæði og Framsóknarmenn hlupu allir sem einn út úr húsi um miðja nótt og létu ekki ná í sig.

Það má svo sem segja að svona séu stjórnmálin hér á landi en þetta er svo sannarlega ekki það Alþingi sem almenningur í landinu vill sjá og svona vinnubrögð eru í mínum huga ekkert annað en aðför að lýðræðislegri afgreiðslu mála sem núverandi stjórnarandstaða virðist vera komin upp í vana með að stunda. Þar er rétt að minna á málþóf um alla mögulega og ómögulega hluti til þess eins að tefja fyrir eða eyðileggja önnur þingmál sem aftar eru í röðinni. Ræðustóll Alþingis og þingsalurinn er sá lýðræðislegi vettvangur sem við höfum til að afgreiða þingmál og þessari aðför að lýðræðislegri afgreiðslu mála verður að linna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur