Eftirfarandi tillaga verður borin upp af mér á Alþingi nú á mánudaginn:
Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina. Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið og efnt til almennra þingkosninga. Fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi.
Tillagan er borin fram vegna þessa að stjórnarmeirihlutinn hefur svikið það loforð og það ferli sem var í gangi til að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá, stjórnarskrá sem þjóðin hafði áður samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu að hún vildi. Slík vinnubrögð eins og formenn Samfylkingar, Vinstri-grænna og Bjartrar framtíðar hafa nú iðkað eru einsdæmi í ríki sem vill kenna sig við lýðræði og býður upp á hættulegt fordæmi hvað framtíðarþróun lýðræðis á Íslandi varðar. Þess vegna er mikilvægt að sitjandi stjórnvöldum verði komið frá hið fyrsta. Svona óhæfuverk má ekki líðast.
Svo virðist sem óöryggi nýkjörinna forystumanna Samfylkingar og VG hafi leitt þá til þess að fara í sömu hjólför og Davíð Odsson og Halldór Ásgrímsson voru í með sína þinglokka og troða ákvörðun sinni ofan í kokið á þingmönnum sínum þvert gegn vilja flestra þeirra, svona bara til að árétta völd sín. Það ótrúlega er að þetta DOHÁ foringjaræði virkaði og þingmennirnir gáfust upp og lúffuðu líkt og þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks gerðu árum saman undir DOHÁ.
Það er þó athyglisvert að hvorugur formannanna, hvorki Árni Páll né Katrín hafa umboð nýlokinnna landsfunda til að ganga svona fram. Þau nefndu það aldrei einu orði að þetta yrði afstaða þeirra til stjórnarskrárinnar ef þau yrðu formenn heldur þvert á móti voru þau kosin til að klára málið á þessu þingi. Með þessu hafa þau því algjörlega gjaldfellt flokka sína með nákvæmlega sama hætti og formenn og þinglið Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafa gert með sína flokka. Flokkarnir sem stofnanir og fundir þeirra og samþykktir eru merkingalaust þvaður sem stillt er upp til blekkingar fyrir almenna félagsmenn sem eru hinir sönnu nytsömu sakleysingjar. Hið raunverulega gluggaskraut eru ekki formennirnir heldur flokkarnir sjálfir í heild sinni.
Verði tillagan samþykkt mun það þó ekki einungis leiða til afsagnar ríkisstjórnarinnar heldur einnig gefa flokksmönnum Samfylkingar og Vinstri-grænna tækifæri á að endurskoða afstöðu sína til nýkjörinna formanna og krafa um afsögn þeirra sem formenn verður sjálfsögð. Í því liggja sóknarfæri fyrir lýðræðissinnaða félaga í þessum flokkum og gefur þeim nýtt tækifæri til að meta hvaða leiðarljós flokkarnir skuli hafa inn í framtíðina. Vilja þeir vera eins og Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur undir DOHÁ eða vilja þeir vera eitthvað annað.
Verði tillagan felld mun núverandi meirihluti starfa áfram, lok þingsins verða sama baktjaldamakk og venjulega, það verður tilviljunum háð hvað þingmál verða að lögum og ríkjandi siðleysi verður áfram við völd, á Alþingi og innan Fjórflokksins. Það er einnig athyglisvert við þetta að Borgarstjórinn í Reykjavík Jón Gnarr og fylgismenn hans í Besta flokknum eru nú komnir í eina sæng með þessum vinnubrögðum í gegnum Guðmund Steingrímsson og Róbert Marshall sem hafa leynt og ljóst grafið undan stjórnarskrármálinu mánuðum saman. Stendur þeim virkilega líka á sama um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og hugmyndina um lýðræði.
Vonandi tekst að koma þessu fólki frá völdum sem fyrst. Það er ekki vandanum vaxið og það er lýðræðinu hættulegt. Foringjaræði í anda DOHÁ má ekki endurtaka sig því hvers kona framtíðarsýn er það fyrir land og þjóð að sitja uppi með gömlu stjórnaskrána, gömlu ósnertanlegu valdaklíkurnar og gamla ósnertanlega Fjórflokkinn. Lýðveldið Ísland verður þá sennilega innan skamms skráð í sögubækur sem 70 ára tilraun smáþjóðar sem mistókst. Fyrir mér er það eitthvert það versta sem hugsast getur.
Restin af vantrauststillögunni, þ.e. greinargerðin fylgir með hér fyrir neðan.
Sú vantrauststillaga sem hér er lögð fram beinist gegn ríkisstjórninni þar sem hún situr í umboði meiri hluta þingsins, en þingið getur ekki afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá og samþykkt voru með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.
Lýðræðisumbætur sem lofað var í aðdraganda kosninga hafa ekki séð dagsins ljós og enn er við lýði ójafn kosningarréttur eftir landshlutum, ójafnrétti í fjármálum stjórnmálaflokka og skortur á persónukjöri og beinu lýðræði.
Með hliðsjón af því grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni virðist ríkisstjórnin ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Slíkri ríkisstjórn er eðli málsins samkvæmt ekki stætt að vera við völd og ber því að fara frá. Lagt er til að fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi í stað þess að fráfarandi stjórn sitji sem starfsstjórn fram að þeim tíma. Með því eru meiri líkur á að sátt náist um mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar.
Nýlegar athugasemdir