Föstudagur 26.04.2013 - 23:26 - FB ummæli ()

Kæru kjósendur, félagar, vinir

Á morgun laugardaginn 27. apríl 2013 eru einhverjar mikilvægustu kosningar lýðveldistímans. Kosningar sem mun ráða úrslitum um það hvort hér verði áfram við lýði gerspillt stjórnmálaumhverfi og úrkynjuð stjórnmálastétt eða hvort það takist að ná inn á Alþingi nægilega mörgum nýjum andlitum og flokkum til að stöðva hnignun lýðræðis og þess stjórnmálasiðferðis sem þarf að vera til staðar í siðmenntuðu samfélagi.

Það er augljóst mál að hvorki Sjálfstæðisflokkur né Framsóknarflokkur munu gera nokkuð til að breyta því gerspillta stjórnmálaumhverfi sem þeir hafa lifað og dafnað í áratugum saman, afstaða þeirra til nýju stjórnarskrárinnar er skýrt dæmi um það. Þessir flokkar eru einfaldlega spillt hagsmunabandalög þar sem samtvinnast hagsmunir yfirstéttar auðmanna annars vegar og stjórnmálastéttar hins vegar. Vissulega eru þar inn á milli örfáir hugsjónamenn en þeir munu engu fá ráðið ef þessir flokkar komast til valda.

Það er einnig augljóst að Samfylkingin er einhvers konar Sjálfstæðisflokkur með sænsku ívafi hvers núverandi formaður Árni Páll Árnason hefur gengið manna lengst undanfarin fjögur ár til að verja fjármálakerfið fyrir réttmætum kröfum um leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar og hvers varaformaður hefur á prjónunum stórfellda iðnaðaruppbyggingu með tilheyrandi náttúruspjöllum. Formaður Samfylkingar gekk svo fram fyrir skjöldu og í lið með Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki  með að eyðileggja stjórnarskrármálið sem yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hafði þó samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til þess fékk hann dyggan stuðning þingmannanna Guðmundar Steingrímssonar og Róberts Marshall þess útfrymis Samfylkingarinnar sem nefnist Björt Framtíð, en þeir félagar grófu linnulítið undan málinu með mjög svo sérkennilegum málflutningi mánuðum saman og gerðu þar með út um meirihlutann fyrir málinu.

Vinstri-græn sem vonir mínar voru lengi bundnar við sýndu það svo rækilegar en nokkur annar að hægt er að svíkja stefnumálin og kosningaloforðin á leifturhraða ef þörf er og þröngsýn framganga formannsins Steingríms J. hefur algerlega rústað trúverðugleika þeirra. Hinn nýi formaður mun aldrei verða sá bógur sem þarf til að standa undir meirihluta stjórnarsamstarfi og það má heldur ekki gleymast að hennar fyrsta verk sem formaður var að slátra nýju stjórnarskránni.

Hvað nýju framboðin varðar þá er um marga ágæta valkosti að ræða og engin afsökun til staðar um að þar sé ekki að finna hæft fólk. Mannvalið á listum sumra þessara nýju framboða er með eindæmum gott og ber af miðað við þreyttan klíkuhóp Fjórflokksins. Sjálfur er ég á lista hjá Dögun sem var tilraun til að sameina í eina breiðfylkingu fólk sem gæti komið raunverulegu málefnaframboði inn á þing til höfuðs Fjórflokknum. Því miður náðu egóin tökum á sumum upprunalegu félögum okkar og til urðu Lýðræðisvaktin, Píratar, Samstaða (sem svo hvarf), Hægri grænir og fleiri. Flokkar með ágætis fólk innan borðs en byggðir upp í kringum einstaklinga og fá eða jafnvel bara eitt mál og sem slíkir munu þeir ekki ná mikilli vigt á Alþingi.

Í Dögun er blanda af reynslumiklu fólki úr stjórnmálum og stjórnsýslu, hörkuduglegir aðgerðarsinnar úr Búsáhaldabyltingunni sem starfað hafa allt kjörtímabilið í sjálfboðavinnu að málefnum heimilanna, umhverfismálum, nýskipan fjármálakerfisins, krufið lífeyrissjóðakerfið og kvótakerfið og flest alla aðra þætti samfélagsins og lagt fram stefnuskrá um öll þessi mál. Að Dögun koma og margir nýjir og ferskir einstaklingar sem bara löbbuðu inn af götunni, höfðu fengið nóg af gerspilltu og úrkynjuðu stjórnmálaumhverfi og vildu fá að vera með, með í raunhæfu breytingarafli. Saman tilheyrum við Dögun og saman hryllir okkur við þeirri framtíðarsýn sem áframhaldandi völd Fjórflokksins með gömla lúnu dönsku stjórnarskrána ber með sér.

Ég hvet þig því kjósandi góður, félagi og vinur til að merkja X við T á morgun, kjósa Dögun og treysta því að við munum svo sannarlega leggja okkar af mörkum fyrir breyttu og betra Íslandi. Ef þú ert enn óákveðinn eins og skoðanakannanir benda til að um 40% kjósenda séu, þá alla vega farðu á kjörstað og ef þér líst ekki á Dögun þá veldu eitthvað annað af nýju framboðunum. Það skiptir nefnilega grundvallarmáli að að kjósendur axli ábyrgð, sýni kjark og taki sjálfir af skarið og knýi fram breytingar í þessum kosningum. Ef kjósendur gera það ekki munu þær aldrei gerast, það vitum við.

Gleðilega lýðræðisveislu 27. apríl 2013.

Heimasíða Dögunar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur