Sunnudagur 12.9.2010 - 18:07 - FB ummæli ()

Skýrsla þingmannanefndarinnar I

Eftir að aðgangur var opnaður að skýrslu þingmannanefndar Alþingis (Skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eins og hún heitir fullu nafni, sjá hér) klukkan fimm í gær komu fljótlega fram ansi harkalegir dómar um skýrsluna og þá sérstaklega þá þætti sem snúa að ábyrgð ráðherra.

Eftir yfirferð þinghóps Hreyfingarinnar um verkið með Birgittu sem var okkar fulltrúi í þingmannanefndinni (Margrét leysti hana þó af um tíma) og eftir að hafa legið yfir skýrslunni fram yfir miðnætti (svona eru laugardagskvöldin þessi árin) er niðurstaða mín að það sé fyllilega mark takandi á niðurstöðu meirihluta nefndarinnar um að fjórir ráðherrar skuli kvaddir fyrir landsdóm.  Ég vil þó taka fram að eftir er að fara í alla umræðuna á þinginu og þar geta komið fram upplýsingar sem hafa áhrif á þessa afstöðu, en málefnalegar umræður í þingsal leiða oft breytinga á þingmálum þar sem höfundum þeirra tekst ekki alltaf að taka með alla þá þætti sem tengjast málinu.  Til þess er líka þingsalurinn.

Sumt sem menn hafa látið frá sér í dag og í gær um ráðherrakærurnar er frekar innihaldslítið eins og t.d. að það hafi ekki farið fram rannsókn, ekki sakamálarannsókn eða að þetta séu pólitískar ofsóknir.  Í því efni leyfi ég mér að benda á að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis er í átta bindum og er ítarlegasta rannsókn sem gerð hefur verið í Íslandssögunni.  Þó ekki sé þar um að ræða sakamálarannsókn í hefðbundnum skilningi orðsins þá hefur sú nefnd sent fjölda mála til Sérstaks saksóknara til frekari rannsóknar.  Eins er skýrsla þingmannanefndarinnar í eðli sínu frekari rannsókn á málinu og framhald málsins ef af verður, kallar líka á frekari rannsókn.  Nefndin sjálf hélt 54 fundi sem voru oft og iðulega hálfu og heilu daganna og oft langt fram á kvöld og á þessum tíma fékk ekkert mál meiri umfjöllun í nefndinni en einmitt ráðherraábyrgðin.  Eins kom fjöldi sérfræðinga að málinu með umsögnum og tillögugerð, einmitt til þess að tryggja það sérstaklega að ekki væri kastað til höndum.

Niðurstaðan er mjög vandað plagg í formi tillögu til þingsályktunar (sjá hér) sem mun svo fara til umræðu í þinginu og 63 Alþingismenn munu ákveða hvað þeim finnst.  Hreyfingin hafði alveg frá upphafi efasemdir um að þetta væri heppilegasta leiðin til að fjalla um skýrsluna og komast að niðurstöðu um ráðherraábyrgðina vegna þeirra nánu tengsla sem eru milli þingmanna sem sumir hverjir hafa þekkst og jafnvel starfað saman í áratugi.  Við lögðum því fram breytingartillögur við frumvarpið um þau atriði, sjá hér.  Þær mættu mikilli andstöðu innan forsætisnefndar sem hafði með málið að gera og einnig í þingsalnum þar sem ég sjálfur sætti harðri atlögu fyrir að vanmeta Alþingi og þingmenn sjá hér.  Sem betur fer gengu efasemdir okkar ekki eftir nema varðandi þau atriði er tengjast beint þingmönnum og ráðherrum, þ.e. þegar kom að því að þingmenn tækju afstöðu til sinna félaga, og nefndin skilaði af sér mjög vönduðu verki.

Niðurstaða nefndarinnar um ráðherraábyrgðina sýnist vera að einhverju leiti flokkspólitísk þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafna því alveg að hegðan ráðherrana sé saknæm og fulltrúar Samfylkingarinnar vilja undanskilja Björgvin G. Sigurðsson fyrrum viðskiptaráðherra.  Fulltrúar Samfylkingar sýna hins vegar talsvert hugrekki í að undanskilja ekki fyrrum formann Samfylkingarinnar, alla vega miðað við það flokksræði sem við Íslendingar höfum átt að venjast hingað til.  Eins liggja flokkspólitískar línur skýrt þegar kemur að rannsókn á einkavæðingu bankanna þar sem fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks með hlutleysi formanns nefndarinnar Atla Gíslasonar í VG komu í veg fyrir að nefndin ályktaði um slíka rannsókn.  Sama má segja um atriði er snúa að fjármálum stjórnmálaflokka þar sem fulltrúi Hreyfingarinnar lagði fram sérstaka bókun vegna þess að fulltrúar fjórflokksins vildu ekki álykta um neitt afgerandi í þeim efnum, enda nýbúnir að samþykkja lög (s.l. fimmtudag) sem gera ráð fyrir áframhaldandi nafnlausum framlögum til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna og framlögum frá fyrirtækjum.

Hér er verið að fara alveg ótroðnar slóðir af hálfu Alþingis þar sem Landsdómur hefur aldrei verið kallaður saman og ráðherraábyrgð aldrei rædd á þessu stigi fyrr.  Málið er því mjög viðkvæmt og það mun verða reynt að gera það tortyggilegt vegna þessa.  Vonandi verður niðurstaðan samt ekki sú að atkvæði falli eftir flokkslínum hvað ráðherraábyrgðina varðar.  Það mundi ekki gefa góða mynd af stjórnmálunum og væri áhyggjuefni.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.9.2010 - 13:51 - FB ummæli ()

Gleymum ekki upphafinu.

Á þessum degi þegar það mun skýrast að hluta til hversu vel Alþingi og Íslendingum mun takast að gera upp hrunið skulum við ekki gleyma því hvaðan við komum og hvað gerðist hér á landi fram til dagsins í dag.  Ég hef af því tilefni sett in tengla á tvö video sem heita  „Gleymum ekki upphafinu – Borgin Gamlársdag 2008“  og  „Gleymum ekki upphafinu – Útrásin.“  Íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum nægar hremmingar og nú bera stjórnmálamennirnir ábyrgð á því að næstu skref verði skref heilunar en ekki frekari sundrungar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.9.2010 - 00:05 - FB ummæli ()

Halló Eyja – yfirlýsing

Þar sem ég er nú orðinn formlegur bloggari á Eyjunni, sem er viðeigandi þar sem eftirnafn mitt Saari, þýðir eyja á finnsku, tel ég rétt að skýra nánar frá veru minni hér. Eyju bloggið verður fyrst og fremst notað til að koma upplýsingum til almennings um það sem er að gerast hjá mér sem þingmanni á Alþingi, hjá Hreyfingunni og í pólitíkinni almennt. Ég mun leitast við að gagnrýna kollegana í þinginu ekki um of og ætíð málefnalega. Ég mun líka hafa athugasemdakerfið opið fyir alla sem skrifa undir fullu nafni, hina nafnlausu mun ég reyna að sía út þegar ég læri betur á kerfið. Eins mun ég reyna að fylla á sarpinn aftur í tímann með upplýsingum sem varpa ljósi á fortíðina þegar ég læri betur á kerfið.

Það er spennandi dagur framundan. Niðurstaða þingmannanefndar Alþingis er væntanleg klukkan fimm síðdegis og þá kemur í ljós hvort og þá hvaða ráðherrar hrunstjórnarinnar verða nefndir sem hugsanleg Landsdómsviðfang. Eins verður fróðlegt að sjá hverjar tillögur nefndarinnar verða um öll hin atriðin í skýrslunni. Það er svo sannarlega þörf á róttækum úrbótum á öllum sviðum íslensks samfélags og nú gefst tækifærið. En hver svo sem niðurstaðan verður þá vona ég svo sannarlega að Alþingi nái að hefja sig yfir þá flokkadrætti og sérhagsmuni sem hafa valdið stjórnmálunum, lýðræðinu og samfélaginu svo miklum skaða undanfarna áratugi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur