Tvö frumvörp um fiskveiðistjórnun hafa nú litið dagsins ljós frá ríkisstjórninni. Loksins, myndi einhver segja en þegar grannt er skoðað eru þær sömu eðlilegu skýringar til staðar hvað varðar töfina á þessum málum eins og mörgum öðrum málum sem tefjast og eru lögð fram á síðustu stundu. Þær skýringar eru oftast tvær. Önnur er að málin tefjast vegna þess að það er fyrst og fremst verið að taka tillit til sérhagsmuna og færa málið í þann búning að það sé af hinu góða en slík vinna er flókin og tímafrek. Hin skýringin er að með tiltölulega fáa daga eftir af þinginu er hægt að pressa á að málin verði keyrð hratt í gegn þannig að ekki gefist tími til yfirvegunar og skoðunar sem gæti orðið óhagfelld flytjendum málsins og sérhagsmununum.
Það er að sjálfsögðu ósanngjarnt að halda því fram að lausn á fiskveiðistjórnunarmálum í sátt við alla sé létt verk að ekki sé talað um þegar við slíkt ofurefli sérhagsmuna er að etja sem LÍÚ er. Menn ættu hins vegar að hafa lært af reynslunni og geta gert sér grein fyrir því að slík sátt næst aldrei. Til að gera eitthvað hefur ríkisstjórnin ákveðið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og hér skal almannahagsmunum fórnað, eins og sést við skoðun á þessum tveim frumvörpum ríkisstjórnarinnar.
Ráðherra sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptamála kom fyrir atvinnuveganefnd Alþingis á mánudaginn og eyddi lunganum úr eftirmiðdeginum í að svara spurningum nefndarmanna um málin sem hann hefur lagt fram, þingmál 657 um stjórn fiskveiða og þingmál 658 um veiðigjöld. Á þeim fundi kviknuðu fimm spurningar hjá mér sem ekki fengust almennileg svör við.
Fyrsta og mikilvægasta spurningin er hvort þeir stjórnmálaflokkar sem standa að þessum frumvörpum hafi yfir höfuð umboð til að leggja þau fram þar sem þau eru gjörólík því og í raun algjörlega á skjön við það sem flokkarnir boðuðu fyrir kosningar og þeir voru kosnir út á. Þetta eru bara allt önnur mál og þessir flokkar hefðu aldrei fengið sama fylgi hefðu þeir lofað tuttugu ára nýtingartíma á fiskimiðunum til handa útgerðinni í aðdraganda kosninganna.
Fyrir kosningarnar 2009 boðaði Samfylkingin að allar veiðheimildir yrðu fyrndar, þ.e. innkallaðar, á tuttugu árum og færu þannig smám saman í útleigu gegn leigugjaldi. Þetta var eitt af aðalkosningamálum Samfylkingarinar. Í þessum frumvörpum eru veiðiheimildirnar hins vegar framlengdar í tuttugu ár samfleytt (úr einu ári) gegn málamyndagjaldi. Fyrir kosningar 2009 boðaði VG að þriðjungur veiðiheimilda færi áfram til útgerðanna gegn gjaldi, þriðjungur færi í leigupotta og þriðjungur í byggðapotta, allt eitt ár í senn. Í þessum frumvörpum er þessu loforði hent út, leigu- og byggðapottarnir stækkaðir örlítið en nýtingin framlengd til tuttugu ára..
Það liggur því ljóst fyrir að hvorki Samfylkingin né VG fengu umboð frá kjósendum sínum til að leggja fram þessi frumvörp og því liggur beint við að krefjast þessa að frumvörpin verði dregin til baka eða fari að öðrum kosti í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og reyndar forsætisráðherra hefur lofað að gert yrði með breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Annað væri hreinlega óheiðarlegt. Í því samhengi er rétt að benda á að Hreyfingin mælti fyrir frumvarpi um stjórn fiskveiða þann 31. janúar síðastliðinn (þingmál 202) og það mál er nú í atvinnuveganefnd og Pétur H. Blöndal hefur einnig mælt fyrr frumvarpi um fiskveiðar (þingmál 408) sem einnig er í nefndinni. Hreyfingin hefur og lagt fram þingsályktunartillögu (þingmál 681) um þjóðaratkvæðagreiðslu um öll þessi mál samtímis. Ráðherrann taldi hins vegar aðspurður það ætti að vera Alþingis eingöngu að afgreiða þessi mál.
Ef það stendur og ríkisstjórnarflokkarnir ætla að þverskallast við að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram verður það sjálfsögð krafa á forseta Íslands um að vísa þessum málum rikisstjórnarinnar til þjóðaratkvæðis.
Önnur spurningin sem vaknar er hvers vegna lögð eru fram tvö frumvörp sem ættu í raun bara að vera eina og sama frumvarpið. Frumvarpið um fiskveiðistjórnunina sjálfa er 45 greinar og frumvarpið um veiðigjaldið er fimmtán greinar. Ekki fengust viðhlítandi svör við hvers vegna frumvörpin væru tvö og því er ekki hægt að neita því að grunsemdir vakna um að frumvarpið um fiskveiðistjórnunina með sínum tuttugu ára nýtingartíma útvalinna útgerða á fiskveiðiauðlindinni verði samþykkt, en frumvarpið um veiðigjaldið verði tafið, eyðilagt eða bara látið daga upp í nefndinni. Það fengust nefnilega heldur ekki skýr svör um hvort veiðigjaldafrumvarpið væri óaðskiljanlegur hluti hins málsins eða hvort það mætti hugsanlega fara í gegn mikið útvatnað. Óska niðurstaða útgerðarinnar er að sjálfsögðu sú að frumvarpið um fiksveiðistjórnunina verði samþykkt en hitt ekki. Hvað stjórnarþingmenn ætla að gera með slíka stöðu verður forvitninlegt að sjá
Þriðja spurningin sem vaknaði er um lengd nýtingarréttarins en nýtingaraðilar náttúruauðlinda í einkageiranum hafa þráfallt bent á að mjög langur nýtingartími sé nauðsynlegur til að standa undir fjárfestingunni sem fylgir nýtingunni. Engin rök hafa hins vegar komið fram fyrir þeim tuttugu árum sem frumvarpið gerir ráð fyrir og það liggja ekki fyrir neinir útreikningar eða gögn sem styðja það að fjárfesting í útgerð krefjist tuttugu ára aðgangs að ókeypis eða ódýru hráefni. Fjárfestingar útgerðarinnar undanfarin ár sýnast þvert á móti hafa snúist um að fjárfesta í bönkum og fjármálagerningum af ýmsu tagi sem og þyrlum til eigin nota frekar en að fjárfesta í skipum og tækjum. Það hlýtur því að vera skýlaus krafa að þeirri spurningu verði svarað hvers vegna tuttugu ár en ekki fimm eða eitthvað annað. Þeirri spurningu var ekki svarað á fundinum í gær.
Fjórða spurningin er hvers vegna ekki er kveðið á um aðskilnað veiða og vinnslu og sú krafa gerð að allur veiddur fiskur fari á markað. Ógagnsæi í verðmyndun sjávarfangs er einmitt eitt af því sem harðast hefur verið gagnrýnt í núverandi kerfi, bæði af sjómönnum sem og fiskvinnslum án útgerða og nýlegt dæmi um meint stórfellt brot Samherja á lögum um gjaldeyrisviðskipti á einmitt rætur í þeim möguleika margra útgerða að láta arðinn koma fram þar sem þeim sjálfum hentar, t.d. í dótturfyrirtækjum erlendis þar sem skattaumhverfið er hagfelldara. Það verður aldrei hægt að innheimta neitt marktækt veiðigjald af útgerð þar sem verðmyndunin er ekki gagnsæ. Þetta mál er auðveldlega hægt að leysa þó ekki væri nema með reglum um skýran bókhaldslegan aðskilnað veiða og vinnslu en það er ekki gert í þessu frumvarpi. Ekki fengust heldur viðhlítandi svör við þessari spurningu.
Fimmta spurningin sem vaknar er hvers vegna veiðigjaldið er greitt að frádreginni reiknaðri ávöxtum rekstrarfjármuna upp á 8% í fiskveiðum og 10% í fiskvinnslu en slík ávöxtun er ígildi góðs happdrættisvinnings. Í frumvarpinu um veiðigjald segir orðrétt í 10. grein: „Renta reiknast sem söluverðmæti afla eða afurða að frádregnum annars vegar rekstrarkostnaði vegna veiða og vinnslu, öðrum en fjármagnskostnaði og afskriftum rekstrarfjármuna, og hins vegar reiknaðri ávöxtun á verðmæti rekstrarfjármuna . . . Reiknaða ávöxtun rekstrarfjármuna, að meðtöldum birgðum, skal miða við áætlað verðmæti þeirra í lok tekjuárs, 8% í fiskveiðum, en 10% í fiskvinnslu, sem Hagstofa Íslands vinnur árlega úr skattframtölum og aflar frá fyrirtækjum í fiskveiðum og fiskvinnslu.“ Svörin hér voru á þá lund að útgerðin væri það mikilvæg að góð ávöxtunarkrafa (ofurhagnaður) væri nauðsynleg greininni. Því er hins vegar ósvarað hvort yfir höfuð hægt sé að binda í lög að ávöxtunarkrafa rekstrarfjármuna í einni atvinnugrein eigi að vera tvöföld eða jafnvel þreföld á við aðrar atvinnugeinar en þess má geta að ávöxtunarkrafa á verðtryggðum ríkisskuldabréfum til níu ára (RIKS 21 0414) er 1,70%.
Eins og glöggt má sjá er auðvelt að finna þessum frumvörpum flest til foráttu enda er eðli og innihald þeirra þannig að þau eru stórt skref aftur á bak hvað varðar sátt við þjóðina um málið. Þau eru alger svik við kosningaloforð stjórnarflokkana og þau bera merki þess að réttlæti, sanngirni og mannréttindi hafi látið í minni pokann fyrir sérhagsmunaöflum sem virðast hafa sterk ítök í öllum fjórflokknum. Þeir stjórnaþingmenn sem hæst hafa talað fyrri alvöru breytingum virðast hafa verið kaffærðir í nafni nauðsynlegrar samstöðu stjórnarflokkanna.
Svona gerast víst kaupin á eyrinni enn þann dag í dag, rúmlega þremur árum eftir Hrunið og undir stjórn þeirra flokka sem lofuðu allt öðru fyrir kosningarnar 2009.
Deilan um fiskveiðistjórnunarkerfið hefur nú staðið í þrjátíu ár og það er tímabært að henni linni. Slíkt gerist hins vegar ekki nema almannahagsmunir og almenningur fái að ráða ferðinni og því sér ekki stað með þessum frumvörpum. Nú er nóg komið af deilum um þetta mál. Nú er kominn tími á þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins, að forsætisráðherra standi við loforð sitt um þjóðaratkvæðagreiðslu um fiskveiðistjórnunina og að kosið verði um þær tillögur sem liggja inni í atvinnuveganefnd. Ellegar verður þess vonandi krafist af almenningi að forseti Íslands synji frumvarpi (lögum) ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða (máli 657) staðfestingar.
Nýlegar athugasemdir