Miðvikudagur 4.4.2012 - 14:15 - FB ummæli ()

Kvótamál og stjórnmál

Tvö frumvörp um fiskveiðistjórnun hafa nú litið dagsins ljós frá ríkisstjórninni. Loksins, myndi einhver segja en þegar grannt er skoðað eru þær sömu eðlilegu skýringar til staðar hvað varðar töfina á þessum málum eins og mörgum öðrum málum sem tefjast og eru lögð fram á síðustu stundu.  Þær skýringar eru oftast tvær. Önnur er að málin tefjast vegna þess að það er fyrst og fremst verið að taka tillit til sérhagsmuna og færa málið í þann búning að það sé af hinu góða en slík vinna er flókin og tímafrek. Hin skýringin er að með tiltölulega fáa daga eftir af þinginu er hægt að pressa á að málin verði keyrð hratt í gegn þannig að ekki gefist tími til yfirvegunar og skoðunar sem gæti orðið óhagfelld flytjendum málsins og sérhagsmununum.

Það er að sjálfsögðu ósanngjarnt að halda því fram að lausn á fiskveiðistjórnunarmálum í sátt við alla sé létt verk að ekki sé talað um þegar við slíkt ofurefli sérhagsmuna er að etja sem LÍÚ er. Menn ættu hins vegar að hafa lært af reynslunni og geta gert sér grein fyrir því að slík sátt næst aldrei. Til að gera eitthvað hefur ríkisstjórnin ákveðið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og hér skal almannahagsmunum fórnað, eins og sést við skoðun á þessum tveim frumvörpum ríkisstjórnarinnar.

Ráðherra sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptamála kom fyrir atvinnuveganefnd Alþingis á mánudaginn og eyddi lunganum úr eftirmiðdeginum í að svara spurningum nefndarmanna um málin sem hann hefur lagt fram, þingmál 657  um stjórn fiskveiða og  þingmál 658  um veiðigjöld. Á þeim fundi kviknuðu fimm spurningar hjá mér sem ekki fengust almennileg svör við.

Fyrsta og mikilvægasta spurningin er hvort þeir stjórnmálaflokkar sem standa að þessum frumvörpum hafi yfir höfuð umboð til að leggja þau fram þar sem þau eru gjörólík því og í raun algjörlega á skjön við það sem flokkarnir boðuðu fyrir kosningar og þeir voru kosnir út á. Þetta eru bara allt önnur mál og þessir flokkar hefðu aldrei fengið sama fylgi hefðu þeir lofað tuttugu ára nýtingartíma á fiskimiðunum til handa útgerðinni í aðdraganda kosninganna.

Fyrir kosningarnar 2009 boðaði Samfylkingin að allar veiðheimildir yrðu fyrndar, þ.e. innkallaðar, á tuttugu árum og færu þannig smám saman í útleigu gegn leigugjaldi. Þetta var eitt af aðalkosningamálum Samfylkingarinar. Í þessum frumvörpum eru veiðiheimildirnar hins vegar framlengdar í tuttugu ár samfleytt (úr einu ári) gegn málamyndagjaldi. Fyrir kosningar 2009 boðaði VG að þriðjungur veiðiheimilda færi áfram til útgerðanna gegn gjaldi, þriðjungur færi í leigupotta og þriðjungur í byggðapotta, allt eitt ár í senn. Í þessum frumvörpum er þessu loforði hent út, leigu- og byggðapottarnir stækkaðir örlítið en nýtingin framlengd til tuttugu ára..

Það liggur því ljóst fyrir að hvorki Samfylkingin né VG fengu umboð frá kjósendum sínum til að leggja fram þessi frumvörp og því liggur beint við að krefjast þessa að frumvörpin verði dregin til baka eða fari að öðrum kosti í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og reyndar forsætisráðherra hefur lofað að gert yrði með breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Annað væri hreinlega óheiðarlegt. Í því samhengi er rétt að benda á að Hreyfingin mælti fyrir frumvarpi um stjórn fiskveiða þann 31. janúar síðastliðinn  (þingmál 202) og það mál er nú í atvinnuveganefnd og Pétur H. Blöndal hefur einnig mælt fyrr frumvarpi um fiskveiðar (þingmál 408) sem einnig er í nefndinni. Hreyfingin hefur og lagt fram þingsályktunartillögu (þingmál 681) um þjóðaratkvæðagreiðslu um öll þessi mál samtímis. Ráðherrann taldi hins vegar aðspurður það ætti að vera Alþingis eingöngu að afgreiða þessi mál.

Ef það stendur og ríkisstjórnarflokkarnir ætla að þverskallast við að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram verður það sjálfsögð krafa á forseta Íslands um að vísa þessum málum rikisstjórnarinnar til þjóðaratkvæðis.

Önnur spurningin sem vaknar er hvers vegna lögð eru fram tvö frumvörp sem ættu í raun bara að vera eina og sama frumvarpið. Frumvarpið um fiskveiðistjórnunina sjálfa er 45 greinar og frumvarpið um veiðigjaldið er fimmtán greinar. Ekki fengust viðhlítandi svör við hvers vegna frumvörpin væru tvö og því er ekki hægt að neita því að grunsemdir vakna um að frumvarpið um fiskveiðistjórnunina með sínum tuttugu ára nýtingartíma útvalinna útgerða á fiskveiðiauðlindinni verði samþykkt, en frumvarpið um veiðigjaldið verði tafið, eyðilagt eða bara látið daga upp í nefndinni.  Það fengust nefnilega heldur ekki skýr svör um hvort veiðigjaldafrumvarpið væri óaðskiljanlegur hluti hins málsins eða hvort það mætti hugsanlega fara í gegn mikið útvatnað. Óska niðurstaða útgerðarinnar er að sjálfsögðu sú að frumvarpið um fiksveiðistjórnunina verði samþykkt en hitt ekki. Hvað stjórnarþingmenn ætla að gera með slíka stöðu verður forvitninlegt að sjá

Þriðja spurningin sem vaknaði er um lengd nýtingarréttarins en nýtingaraðilar náttúruauðlinda í einkageiranum hafa þráfallt bent á að mjög langur nýtingartími sé nauðsynlegur til að standa undir fjárfestingunni sem fylgir nýtingunni. Engin rök hafa hins vegar komið fram fyrir þeim tuttugu árum sem frumvarpið gerir ráð fyrir og það liggja ekki fyrir neinir útreikningar eða gögn sem styðja það að fjárfesting í útgerð krefjist tuttugu ára aðgangs að ókeypis eða ódýru hráefni. Fjárfestingar útgerðarinnar undanfarin ár sýnast þvert á móti hafa snúist um að fjárfesta í bönkum og fjármálagerningum af ýmsu tagi sem og þyrlum til eigin nota frekar en að fjárfesta í skipum og tækjum. Það hlýtur því að vera skýlaus krafa að þeirri spurningu verði svarað hvers vegna tuttugu ár en ekki fimm eða eitthvað annað. Þeirri spurningu var ekki svarað á fundinum í gær.

Fjórða spurningin er hvers vegna ekki er kveðið á um aðskilnað veiða og vinnslu og sú krafa gerð að allur veiddur fiskur fari á markað. Ógagnsæi í verðmyndun sjávarfangs er einmitt eitt af því sem harðast hefur verið gagnrýnt í núverandi kerfi, bæði af sjómönnum sem og fiskvinnslum án útgerða og nýlegt dæmi um meint stórfellt brot Samherja á lögum um gjaldeyrisviðskipti á einmitt rætur í þeim möguleika margra útgerða að láta arðinn koma fram þar sem þeim sjálfum hentar, t.d. í dótturfyrirtækjum erlendis þar sem skattaumhverfið er hagfelldara. Það verður aldrei hægt að innheimta neitt marktækt veiðigjald af útgerð þar sem verðmyndunin er ekki gagnsæ. Þetta mál er auðveldlega hægt að leysa þó ekki væri nema með reglum um skýran bókhaldslegan aðskilnað veiða og vinnslu en það er ekki gert í þessu frumvarpi. Ekki fengust heldur viðhlítandi svör við þessari spurningu.

Fimmta spurningin sem vaknar er hvers vegna veiðigjaldið er greitt að frádreginni reiknaðri ávöxtum rekstrarfjármuna upp á 8% í fiskveiðum og 10% í fiskvinnslu en slík ávöxtun er ígildi góðs happdrættisvinnings. Í frumvarpinu um veiðigjald segir orðrétt í 10. grein: „Renta reiknast sem söluverðmæti afla eða afurða að frádregnum annars vegar rekstrarkostnaði vegna veiða og vinnslu, öðrum en fjármagnskostnaði og afskriftum rekstrarfjármuna, og hins vegar reiknaðri ávöxtun á verðmæti rekstrarfjármuna . . . Reiknaða ávöxtun rekstrarfjármuna, að meðtöldum birgðum, skal miða við áætlað verðmæti þeirra í lok tekjuárs, 8% í fiskveiðum, en 10% í fiskvinnslu, sem Hagstofa Íslands vinnur árlega úr skattframtölum og aflar frá fyrirtækjum í fiskveiðum og fiskvinnslu.“  Svörin hér voru á þá lund að útgerðin væri það mikilvæg að góð ávöxtunarkrafa (ofurhagnaður) væri nauðsynleg greininni.  Því er hins vegar ósvarað hvort yfir höfuð hægt sé að binda í lög að ávöxtunarkrafa rekstrarfjármuna í einni atvinnugrein eigi að vera tvöföld eða jafnvel þreföld á við aðrar atvinnugeinar en þess má geta að ávöxtunarkrafa á verðtryggðum ríkisskuldabréfum til níu ára (RIKS 21 0414) er 1,70%.

Eins og glöggt má sjá er auðvelt að finna þessum frumvörpum flest til foráttu enda er eðli og innihald þeirra þannig að þau eru stórt skref aftur á bak hvað varðar sátt við þjóðina um málið. Þau eru alger svik við kosningaloforð stjórnarflokkana og þau bera merki þess að réttlæti, sanngirni og mannréttindi hafi látið í minni pokann fyrir sérhagsmunaöflum sem virðast hafa sterk ítök í öllum fjórflokknum. Þeir stjórnaþingmenn sem hæst hafa talað fyrri alvöru breytingum virðast hafa verið kaffærðir í nafni nauðsynlegrar samstöðu stjórnarflokkanna.

Svona gerast víst kaupin á eyrinni enn þann dag í dag, rúmlega þremur árum eftir Hrunið og undir stjórn þeirra flokka sem lofuðu allt öðru fyrir kosningarnar 2009.

Deilan um fiskveiðistjórnunarkerfið hefur nú staðið í þrjátíu ár og það er tímabært að henni linni. Slíkt gerist hins vegar ekki nema almannahagsmunir og almenningur fái að ráða ferðinni og því sér ekki stað með þessum frumvörpum. Nú er nóg komið af deilum um þetta mál. Nú er kominn tími á þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins, að forsætisráðherra standi við loforð sitt um þjóðaratkvæðagreiðslu um fiskveiðistjórnunina og að kosið verði um þær tillögur sem liggja inni í atvinnuveganefnd. Ellegar verður þess vonandi krafist af almenningi að forseti Íslands synji frumvarpi (lögum) ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða (máli 657) staðfestingar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.3.2012 - 11:00 - FB ummæli ()

Að skilja ekki

Það hefur vakið athygli mína í fjölmiðlaumfjöllun um það voðaverk sem framið var á lögfræðistofu hér í bæ í gær þar sem starfsmaður var slasaður lífshættulega í morðtilraun, að flestir sem hafa tjáð sig segjast ekki skilja hvernig svona getur gerst.  Nú er það svo að framning á slíku voðaverki er okkur flestum sem betur fer óskiljanleg, þ.e. verknaðurinnn sjálfur og það sem þarf til þess að fremja hann.  Hitt er svo annað mál að það að slíkt skuli gerast í því ástandi sem hefur verið viðvarandi hér á landi undanfarin tæp fjögur er hreint ekki undarlegt eða óskiljanlegt.  Hér á landi hefur smátt og smátt verið að byggjast upp ákveðið ástand, ástand övæntingar, vonleysis og reiði sem hjá þúsundum manna er komið á hættulegt stig, ástand sem mun ef svo fer sem horfir, sennilega hafa áframhaldandi ofbeldi í för með sér.  Íslenskt samfélag samtímans hefur á sér yfirbragð samfélags þar sem meginstoðirnar eru grautfúnar, réttaríkið vafa undirorpið og stjórnvöld afskiptalaus og jafnvel vitlaus.  Samfélag þar sem ósanngirni, óréttlæti og jafnvel hrein glæpamennska viðgengst þar sem yfirvöld hafa gefist upp fyrir ástandi sem þau ráða ekki við vegna skilningsleysis, kjarkleysis og þvergirðingsháttar æðstu ráðamanna.  Slíkt samfélag mun fyrr eða síðar verða dómstól götunnar að bráð hvort sem mönnum líkar vetur eða verr.

Það fjárhagslega hrun sem varð hér olli þúsundum fjölskyldna miklum fjárhagslegum skaða, það hefur leitt til þess að þúsundir fjölkyldna hafa misst allt sitt, þúsundir fjölskyldna hafa þurft að yfirgefa landið og þúsundir fjölskyldna vita ekkert hvernig þeim mun reiða af fjárhagslega næstu árin og jafnvel áratugina.  Ótal fjölskyldur hafa splundrast og ótal manns hafa í örvæntingu tekið eigið líf og nú virðist sem nýjum „áfanga“ í ömurðinni hafi verið náð með morðtilraun á lögmanni í innheimtugeiranum.  Í þessu samhengi er tilgangslaust að benda á þá sem ekki skulda, þá sem hafa flutt til landsins og þá sem hafa samt haldið sjó.  Slíkur samanburður breytir engu fyrir hina sem fyrr voru upptaldir og þó að ríkisstjórnin haldi á lofti statistík með tölum um minnkandi halla á ríkissjóði, aðflutta í stað brottfluttra og fjölgun fæðinga þá breytir það heldur engu fyrir hina sem fyrr voru upp taldir.  Formaður lögmannafélagsins sagði orðrétt: „Maður skilur ekki hvað hefur gerst“ og í hádegisspjalli við nokkra þingmenn um málið þar sem ég taldi þessa þróun eðlilega í ljósi samhengisins voru viðbrögðin svipuð, þ.e. algert skilningsleysi, afneitun á samhenginu og síðan umræða í kjölfarið um að „þetta reiða fólk“ væri nú það fólk sem hefði tekið lán fyrir öllu, húsi, nýjum innréttingum sumarbústað, vélsleða og bíl.  Það að þykjast ekki skilja hvers vegna slíkir atburðir geta gerst er afneitun á háu stigi á ástandi sem verður að fara að koma böndum á.

Það er að sjálfsögðu alveg fráleitt að ætla að halda því fram að slíkt voðaverk eins og gerðist í gær sé einhverjum öðrum að kenna en tilræðismanninum.  Það á sér engu að síður rætur einhvers staðar og ég held að það séu fleiri en ég sem vita hvar þær rætur liggja og hverjar afleiðingarnar muni verða ef áfram er haldið á sömu braut.  Það sem gerist í svona stöðu og þegar fólk hefur verið boxað af alveg út í horn er að þá mun einhver fyrr eða síðar slá til baka.  Sá fyrsti sló til baka í síðustu viku, annar í gær og því miður sennilega fleiri á næstunni.  Í slíkri stöðu er ekki bara hægt að halda áfram að segja að þetta eða hitt sé „samkvæmt lögum.“ Það verður að gera meira, það verður að stöðva þennan bardaga yfirvalda og fjármálafyrirtækja gegn skuldugu fólki sem þrátt fyrri nýgenginn hæstaréttardóm sér í hag, fær áfram rukkun um afborgun af ólöglegu láni.  Slíkt flokkast sem fjárkúgun og mafíustarfsemi í nágrannalöndum okkar en hér á landi sitja stjórnvöld með hendur í skauti, horfa í hina áttina og tala um dómstóla, dómstóla þar sem hvorki meira né minna en 140 samskonar mál bíða úrlausnar.

Þessum bardaga verður að linna strax og dómarinn sem í þessum bardaga þarf að vera Alþingi þar sem framkvæmdavaldið hefur brugðist, verður að komast að niðurstöðu um, ekki hvort heldur hvernig réttlæti verður útdeilt til skuldugra heimila.  Réttlæti segi ég því eins og þegar hefur komið fram oft og mörgum sinnum þá urðu heimilin fyrir forsendubresti í lántökum sínum vegna aðgerða bankamanna og aðgerðarleysis ráðamanna.  Bankamanna sem eru sennilega nær því að vera glæpamenn en bankamenn og yfirvalda sem voru virðist óstarfhæf og sem spiluðu með vegna þess að allt gekk svo vel.  Það að halda áfram að rukka fólk um fulla greiðslu við slíkar aðstæður er slíkt hróplegt óréttlæti að engu tali tekur.

Voðaverk ber að fordæma og afsakanir gerenda með vísan til aðstæðna eru heldur ekki gildar, á þeim voðaverkum bera gerendur sjálfir einir alla ábyrgð.  Slík verk eiga sér hins vegar eins og önnur verk rætur einhversstaðar og þau má útskýra með vísan til aðstæðna.  Þeim aðstæðum sem hér um ræðir bera einhverjir ábyrgð á.  Það sem skiptir hins vegar mestu máli er að það er á ábyrgð okkar allra, þingmanna og annarra borgara samfélagsins að laga þessar aðstæður.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.2.2012 - 13:54 - FB ummæli ()

„Viljandi“ misskilningur um stjórnarskrá?

Stigið hafa fram tveir fulltrúar úr Stjórnlagaráði sem hvorugur virðast skilja hvernig ferlinu við gerð nýrrar stjórnarskrár var ætlað að vera. Öllu athyglisverðari er misskilningur formanns Stjórnlagaráðsins sem sat fund í Stjórnkipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis með varaformanni Stjórnlagaráðs og fulltrúum þeirra þriggja nefnda sem voru í ráðinu en á þeim fundi kom skýrt fram hver næstu skref yrðu. Ekki var annað að heyra á þeim en að þein fyndist að kalla ætti Stjórnlagaráð saman með formlegum hætti með einhverjum fyrirvara og að þau reiknuðu með (og hafa þá væntanlega verið búin að ráðfæra sig við aðra fulltrúa) að meðlimir Stjórnlagaráðs myndu hiklaust leggja önnur verkfeni til hliðar. Bréf hennar til forsætisnefndar Alþingis er því miður ekki í samræmi við þennan fund né það sem alltaf hefur legið ljóst fyrir um ferli málsins. Það kemur einnig á óvart að hinn fulltrúinn skuli ekki vita hver skilyrði núvernadi stjórnarskrár eru við stjórnarskrárbreytingar. Þar ber Alþingi að hafa með málið að gera sem það mun að sjálfsögðu gera á næsta þingi og hefur til þess 9 mánuði. Þingið er því ekki að framselja valdið neitt annað eins og hann heldur fram heldur er verið að vinna það í samráði við þjóðina.

Misskilningur Pawels og Salvarar hljómar því miður „viljandi“ eins og sagt er. Það lá fyrir frá upphafi hvert ferlið yrði þegar Alþingi útvistaði gerð nýrrar stjórnarskrár. Til að tryggja þátttöku almennings og að enginn einn aðili eða hópur fólks gæti ráðið málinu á einstökum stigum þess var fyrst boðað til 1.000 manna Þjóðfundar með slembivali (sem gefur fullkomið þversnið af þjóðinni). Síðan valdi Alþingi sjö manna Stjórnlaganefnd sem skyldi taka saman gögn þjóðfundarins sem og önnur sem hafa verið unnin í stjórnarskrármálum gegnum tíðina og leggja þau fyrir þjóðkjörið Stjórnlagaráð sem 84.000 manns kusu. Tillögur þess skyldu fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu áður en Alþingi fengi þær til meðferðar til að þingið gæti stuðst við vilja þjóðarinar eins og hann birtist í þeirri akvæðagreiðslu. Þá og fyrst þá mun Alþingi taka efnilega afstöðu til frumvarpsins og einstakra þátta þess eins og því ber að gera samkvæmt núgildandi stjórnarskrá og til þess mun þingið hafa heilt ár. Andstæðingar þess á þingi (Sjálfstæðisflokkur og fjórir Framsókanrmenn) eru æfir út af fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu og vilja alfarið fá að ráða málinu sjálfir og eru núna að vinna í því að Stjórnlagaráð sundrist. Tveir fulltrúar í ráðinu sem tengjast Sjálfstæðisflokknum hafa nú svikið loforð um að klára málið (annar er Póllandi og hinn á leið til útlanda). Vonandi sýna hinir meiri ábyrgð.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.2.2012 - 01:09 - FB ummæli ()

Stjórnarskrárumræðan

Í dag var á þinginu rædd tillaga mín og fleiri um framhald stjórnarskrármálsins og vísan þess í þjóðaratkvæðagreiðslu næsta sumar. Greinilegt var að Sjálfstæðisflokkurinn og nokkrir þingmenn Framsóknar (þó bara þrír, Vigdís Hauksdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur formaður) voru og ætla sér að vera á móti ritun nýrrar stjónarskrár alveg sama hvað og málflutningur þeirra var þunnur og til vansa á köflum. Formaður Sjálfstæðisflokksins sakaði Hreyfinguna um samsæri um aðkoma stjórnarskránni í gegn og hélt því fram að utanríkisráðherra væri lygari eftir að Össur í andsvari við hann rifjaði upp sögu málsins. Formaður Framsóknarflokksins talaði um þá sem vilja standa að gerð nýrrar stjórnarskrár sem fasista og kommúnista í einhverju mjög undarlegu samhengi sem ekkert okkar sem hlustuðum á ræðu hans skildum.

Það virðist vera að fjara hratt undan formönnum stjórnarandstöðuflokkana innan eigin þingflokka þar sem aðeins einn til tveir þingmenn Framsóknar voru í salnum þegar formaðurinn flutti ræðu sína. Formaður Sjálfstæðisflokksins talaði fyrir tómum þingsal fyrir utan Pétur Blöndal sem var eini Sjálfstæðismaðurinn í salnum og félagar hans sáust ekki heldur í hliðarherbergjum.

Það er skammarlegt að sérhagsmunagæsla Sjálfstæðsiflokksins og þriggja þingmanna Framsóknar skuli rista svo djúpt að ný stjórnarkrá fyrir landið skiptir þá ekki einu sinni máli. Sérhagsmunina ofar öllu og til fjandans með þjóðina eru skilaboðin sem þetta fólk sendi út í dag.

Þar sem ný stjórnarskrá er eitt af aðal stefnumálum Hreyfingarinnar og við höfum barist mikið fyrir málinu alla tíð flutti ég ræðu um málið þar sem ég gagnrýndi harðlega málflutning úrtölumannanna. Ég fór einnig rækilega yfir sögu málsins sem er góð upprifjun fyrir mjög merkilegt mál og vinnulag við ritun stjórnarskrár sem hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana fyrir mjög opið og lýðræðislegt ferli. Ræðuna má sjá  hér.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.1.2012 - 22:51 - FB ummæli ()

Kvótafrumvarp Hreyfingarinnar

Mælti í dag fyrir frumvarpi Hreyfingarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.  Frumvarpið gerir ráð fyrir rækilegri uppstokkun við úthlutun aflaheimilda þannig að þær færist til sveitarfélagana í samræmi við þá veiðireynslu sem var til staðar á hverjum stað þegar framsalið var fyrst heimilað árið 1991. Frumvarpið eykur líka s.k. strandveiðikvóta, allur afli skal á innlenda uppboðsmarkaði og stofnsettur verður s.k. kvótaskuldasjóður sem tekur á skuldum útgerðarinnar tilkomnum vegna lántöku vegna kvótakaupa.

Tengill á frumvarpið  er hérog tengill á umræðuna  er hér.

Ég vek sérstaklega athygli á töflunni hér fyrri neðan og fylgiskjalinu aftast í frumvarpinu þar sem kemur fram hvað hvert sveitarfélag fengi úthlutað í þorskísgildum (kílóum) m.v. fiskveiðiárið 2010/2011 en nýrri gögn voru ekki til þegar frumvarpið var samið.  Meðalverð á þorskígildi (kíló) á leigkvóta var í dag um 318 kr./kg. þannig að það er eftir umtalsverðum fjármunum að slægjast fyrri sveitarfélögin ef frumvarpið verður að lögum og það mun jafnvel gera sum sveitarfélög og íbúa þeirra auðug, jafnvel þótt verðið lækki um 50% vegna aukins framboðs.

Hér fyrir neðan er greinargerðin sem fylgir frumvarpinu en hún skýrir umfang þess ágætlega.

Greinargerð.

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 139. löggjafarþingi (þskj. 1510, 839. mál) en er nú lagt fram að nýju.  Markmið þessa frumvarps er að færa úthlutun á aflaheimildum úr sameiginlegum fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar til þess horfs sem hún var í áður en framsal aflaheimilda kom til árið 1991, en fram að þeim tíma hafði úthlutunin byggst á veiðireynslu til margra ára og var því bæði sanngjörn og réttlát. Með frumvarpinu er einnig reynt að tryggja að aflaheimildir fari til þeirra byggða sem þeim var upprunalega úthlutað til. Miðað er við að aflahlutdeildin sé nýtt í viðkomandi sveitarfélagi. Þó er sveigjanleiki í nafni hagkvæmni tryggður þar sem aflahlutdeildin er framseljanleg þegar hagkvæmnisrök gefa tilefni til. Með því móti verður réttur íbúa sjávarbyggða á Íslandi til sjósóknar tryggður eins og verið hefur frá örófi alda sem eini raunverulegi grundvöllur tilvistar flestra þeirra.  Niðurstöður framangreindrar tilfærslu á aflaheimildum til sveitarfélaga heimfært á fiskveiðiárið 2010/2011, miðað við upphaflega úthlutaðan kvóta byggt á veiðireynslu, er sýnt sem dæmi í töflu hér fyrir aftan.

Skýrt er kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á fiskistofnunum í kringum landið í fyrstu tveimur greinum laga um stjórn fiskveiða. Þar segir orðrétt:

1. gr.  Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

2. gr.  Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um.  Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

Frumvarp þetta tryggir að arður af nytjastofnum á Íslandsmiðum skili sér til réttmæts eiganda þeirra, íslensku þjóðarinnar. Upptaka uppboðskerfis við sölu aflaheimilda tryggir hámarksverð fyrir nýtingarrétt auðlindarinnar en þó eingöngu að því marki sem útgerðirnar geta borið. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að hluta aflaheimilda megi selja framvirkt til allt að fimm ára í senn þannig að þeir sem hyggjast fjárfesta í útgerð geti gert ráð fyrir aðgengi að heimildum til lengri tíma en eins árs. Þá er sveigjanleiki tryggður með því að útgerðir utan viðkomandi sveitarfélaga geta keypt aflaheimildir gegn greiðslu 10% álags eða gjalds.

Með ákvæði um meðafla er stefnt að því að girða að mestu leyti fyrir brottkast afla. Þó væri æskilegast að settar yrðu skýrar og afdráttarlausar reglur sem alfarið banni brottkast afla gegn þungum viðurlögum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir mikilli beinni atvinnusköpun vegna löndunar alls afla og sölu í gegnum innlenda uppboðsmarkaði í samræmi við ákvæði frumvarps til laga um sölu sjávarafla o.fl. frá 139. löggjafarþingi (þskj. 51, 50. mál) en þar segir m.a.:  „Allur sjávarafli, þó ekki rækja, humar og uppsjávarfiskur, sem veiddur er úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal seldur á innlendum uppboðsmarkaði sjávarafla er fengið hefur leyfi Fiskistofu. Heimilt er að selja afla í beinum viðskiptum í innlenda fiskvinnslu og skal þá verð milli útgerðar og fiskvinnslu ákvarðast af markaðsverði söludagsins eða síðasta þekkta markaðsverði á uppboðsmarkaði.     Heimilt er að selja fullunninn frystan afla utan innlends fiskmarkaðar skv. 12. gr. a. Til fullunnins frysts afla telst sjávarafli sem hefur verið veiddur og í kjölfarið unninn um borð í frystiskipi, honum pakkað og hann verið flakaður, flattur, sneiddur, roðdreginn, hakkaður eða verkaður á annan hátt og hann frystur að vinnslu lokinni. Þegar aðeins fer fram frysting um borð í frystiskipi á heilum eða hausskornum fiski eða heilfrysting á rækju telst slíkur afli ekki til fullunnins frysts afla í skilningi laga þessara.“  Þessi breyting ein sér mun að öllum líkindum leiða til um 800–1.000 nýrra starfa við fiskverkun með mjög litlum tilkostnaði á skömmum tíma.

Framsal aflaheimilda hefur leitt til gríðarlegrar byggðaröskunar víða um land og gert að engu eina bjargræði sjávarbyggða, sjósóknina, sem þær hafa notið í aldaraðir. Með því að taka lífsbjörgina af sjávarbyggðunum hefur öll afkoma og eignastaða íbúa á þessum stöðum raskast við atvinnuleysi, brottflutning og eignabruna. Með samþykkt þessa frumvarps mun sú þróun snúast við og fólksflótti af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins stöðvast og komið í veg fyrir þann gríðarlega samfélagslega tilkostnað sem slíkir hreppaflutningar hafa í för með sér.

Aukning á afla til strandveiða, sem hér eftir verða utan tillagna Hafrannsóknastofnunarinnar um heildarafla og standa yfir stærri hluta ársins en nú er, mun hafa umtalsverð áhrif á atvinnulíf um allt land. Auðlindagjald og strandveiðar munu og skila umtalsverðum tekjum til þeirra sveitarfélaga þar sem aflanum er landað.

Sá skaði sem útgerðir og núverandi handhafar aflaheimilda verða fyrir vegna missis aflaheimilda verður bættur með því að skuldir útgerða sem eru til komnar vegna kaupa á aflaheimildum verða færðar í sérstakan kvótaskuldasjóð. Skýrt er í lögum að aflahlutdeild útgerðar er ekki eign hennar og þær skuldir sem stofnað hefur verið til vegna kaupa á slíkum heimildum eru og hafa alltaf verið áhættulánveiting viðkomandi lánveitenda. Kvótaskuldasjóður verður greiddur niður með 5% gjaldi á allar seldar veiðiheimildir þar til sjóðurinn er að fullu upp gerður. Skuldir kvótaskuldasjóðs bera enga vexti.

Varðandi þá umræðu sem skapast hefur og lýtur að hugsanlegum brotum á eignarréttarákvæði stjórnarskrár skal tekið fram að um langa tíð hefur skýrt verið kveðið á um það í lögum að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. Þrátt fyrir að möguleiki sé á þeirri ólíklegu niðurstöðu dómstóla að ríkið væri skaðabótaskylt vegna innköllunar aflaheimilda eða annars þess sem leiðir af frumvarpi þessu, þá er engu að síður þess virði að þær breytingar sem hér eru lagðar til komist til framkvæmda. Betra er að þurfa hugsanlega að sæta slíkri niðurstöðu dómstóla en að búa áfram við óbreytt eða lítið breytt fyrirkomulag fiskveiða.

Í framhaldi af þeim breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir er brýnt að fram fari víðtæk og ítarleg úttekt á Hafrannsóknastofnuninni og veiðiráðgjöf hennar með tilliti til aðferðafræðilegra sjónarmiða. Þar verði einnig kannað hversu vel hefur tekist til með verndun fiskistofna, fiskimiða og lífríkis og uppbyggingu fiskistofna. Í þeirri úttekt er brýnt að fiskveiðar við Ísland verði skoðaðar heildstætt með tilliti til þess skaða sem þær hafa valdið á lífríkinu og lagt mat á hagkvæmni togveiða annars vegar og krókaveiða hins vegar. Slíka úttekt ættu hlutlausir erlendir aðilar að gera í samráði við sjómenn, íslenska fiskifræðinga og vistfræðinga.

 

Úthlutaður kvóti á sveitarfélög fiskveiðiárið 2010/2011 miðað við upprunalega úthlutun samkvæmt veiðireynslu á hverjum stað árið 1991.
Sveitarfélag
Þorskígildi (tonn)
Hlutfall af heild
Akranes 9.895 ,0 3,22%
Akureyri 22.986 ,3 7,47%
Árborg 3.733 ,9 1,21%
Árnaneshreppur 30 ,9 0,01%
Blönduósbær 2.158 ,5 0,70%
Bolungarvíkurkaupstaður 6.834 ,0 2,22%
Borgarbyggð 63 ,4 0,02%
Borgarfjarðarhreppur 338 ,6 0,11%
Breiðdalshreppur 1.016 ,1 0,33%
Dalabyggð 21 ,7 0,01%
Dalvíkurbyggð 8.574 ,9 2,79%
Djúpavogshreppur 1.976 ,6 0,64%
Fjallabyggð 12.742 ,2 4,14%
Fjarðabyggð 22.137 ,1 7,20%
Garður 2.965 ,1 0,96%
Garðabær 35 ,0 0,01%
Grindavík 17.953 ,9 5,84%
Grundarfjarðarbær 5.983 ,0 1,95%
Grýtubakkahreppur 1.707 ,5 0,56%
Hafnafjörður 10.967 ,5 3,57%
Hornafjörður 10.154 ,7 3,30%
Húnaþing vestra 848 ,4 0,28%
Ísafjarðarbær 20.633 ,2 6,71%
Kaldrananeshreppur 1.780 ,1 0,58%
Kópavogsbær 953 ,6 0,31%
Langanesbyggð 2.498 ,7 0,81%
Mýrdalshreppur 30 ,1 0,01%
Norðurþing 9.168 ,9 2,98%
Reykhólahreppur 217 ,5 0,07%
Reykjanesbær 11.475 ,4 3,73%
Reykjavík 23.782 ,6 7,73%
Sandgerði 5.459 ,3 1,77%
Seltjarnarnes 327 ,3 0,11%
Seyðisfjarðarkaupstaður 2.796 ,0 0,91%
Skagafjörður 6.159 ,8 2,00%
Skagaströnd 5.214 ,0 1,70%
Snæfellsbær 11.340 ,2 3,69%
Strandabyggð 3.170 ,5 1,03%
Stykkishólmsbær 5.205 ,2 1,69%
Súðarvíkurhreppur 3.400 ,5 1,11%
Svalbarðsstrandarhreppur 7 ,8 0,00%
Vestmannaeyjar 29.017 ,6 9,43%
Vesturbyggð 9.461 ,0 3,08%
Vogar 1.542 ,1 0,50%
Vopnafjarðarhreppur 2.197 ,4 0,71%
Ölfus 8.722 ,0 2,84%
Samtals 307.684 ,8 100%

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.1.2012 - 08:19 - FB ummæli ()

Landsdómur, upprifjun

Nú þegar lítur út fyrir að Alþingi hefur ekki burði til þess að láta stjórnmálamenn bera ábyrgð á meintum lögbrotum sínum og svara til saka fyrir þar til bærum dómstól, í þessu tilfelli Landsdómi, er rétt að rifja upp forsögu þessa máls.

Lög númer 142/2008  sem voru samþykkt í lok árs 2008 kváðu á um að Alþingi skipaði rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á hruninu, hér er komin hin fræga Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA). Í þeim lögum er tilgreint að RNA skuli skila Alþingi skýrslu og að forsætisnefnd þingsins ákveði í framhaldinu hvað verði gert með niðurstöðu skýrslunnar. Um ári síðar eða síðla árs 2009 var ljóst að skýrslan yrði viðamikil og að hugsanlega kæmu upp atriði varðandi ráðherrábyrgð og að kveða þyrfti saman Landsdóm. Tók forsætisnefnd sig til undir forystu forseta Alþingis og hófst handa við að finna út með hvaða hætti þessu yrði best fyrir komið og til urðu lög  146/2009  um breytingu á áður nefndum lögum 142/2008. Forsætisnefnd var þá svona skipuð: Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir (forseti Alþingis) og Steinunn Valdís Óskarsdóttir frá Samfylkingu, Árni Þór Sigurðsson og Þuríður Backman frá Vinstri-grænum, Ragnheiður Ríkarðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir frá Sjálfstæðisflokki og Siv Friðleifsdóttir frá Framsóknarflokki. Sjálfur sat ég í forsætisnefnd sem áheyrnarfulltrúi með málfrelsi og tillögurétt.

Í þeim lögum ákvað forsætisnefnd að skipuð yrði níu manna nefnd þingmanna til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar. Nefndin átti að vera skipuð í þeim sömu pólitísku hlutföllum og voru í þinginu nema að Hreyfingin fengi einn fulltrúa. Þetta var þingmannanefndin sem átti svo að meta kvort Alþingi skyldi ákæra fyrrum ráðherra fyrir landsdómi. Lögin gerðu einnig ráð fyrir að öll gögn RNA skyldu læst inn í Þjóðskjalasafni sem trúnaðarmál næstu 80 árin, sem er annað mál en gefur hugmynd um hvernig hugsunin í forsætisnefnd gagnvart Hruninu, upplýsingum og upplýstu samfélagi var og er.

Strax og fyrstu drögin að því er síðar urðu lög 146/2009 komu fyrir forsætisnefnd gerði ég sem fulltrúi Hreyfingarinnar alvarlegar athugasemdir við þá fyrirætlun forseta Alþingis að ætla þingmönnum einum að ákveða hvort félagar þeirra, vinir og fyrrum leiðtogar yrði látnir svara til saka fyrir dómi og benti á að slíkt væri alveg klárt brot á öllum venjum um almennt vanhæfi og að Alþingismenn myndu aldrei fara gegn félögum sínum með þeim hætti. Þótt þetta hlutverk þeirra væri lögbundið yrði að fara aðra leið í málinu. Við í Hreyfingunni vissum þótt við hefðum ekki verið sérstaklega lengi á þingi að samtryggingarkerfið var slíkt að það væri óhugsandi að það fengist eðlileg, samdóma og málefnaleg niðurstaða frá slíkri þingmannanefnd.  Öllum andmælum mínum og tillögum til að skoða málið frekar var mætt af ákafri gagnrýni af hálfu nefndarmanna í forsætisnefnd með ásökunum um að ég væri að tala niður þingið og jafnvel vanvirða það með því að halda slíku fram.

Því varð úr að við í Hreyfingunni sömdum breytingartillögur við frumvarp forsætisnefndar sem gerðu m.a. ráð fyrir að skipaðar yrðu tvær nefndir, ein sex manna þverpólitísk þingmannanefnd auk fimm manna nefndar valinkunnra manna utan þingsins sem, eins og segir orðrétt: „hafi það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem snerta alþingismenn og ráðherra, núverandi og/eða fyrrverandi, og fjölskyldur þeirra. Nefndin skal fjalla um öll atriði sem snerta Alþingi sjálft sem stofnun og koma fram í skýrslunni.“  Í tillögu okkar var einnig ákvæði um að öll gögn RNA skyldu gerð opinber og aðgengileg almenningi eftir því sem kostur væri. Breytingartillögurnar má  sjá hér.

Skemmst er frá því að segja að enginn úr fjórflokknum fékkst til að vera á tillögunni. Ég gagnrýndi frumvarp forsætisnefndar þegar það var lagt fram og varð fyrir miklum árásum af hendi forsætisnefndarmanna og fleiri í ræðum í þingsal þar sem reynt var að gera lítið úr Hreyfingunni og við sögð niðurlægja þingið sem væri alveg fullfært um að sinna þessu hlutverki. Þá umræðu má  sjá hér.

Frumvarpið fór til Allsherjarnefndar og svo aftur inn í þingið þar sem við héldum áfram með gagnrýni á málið en okkur hafði m.a. verið meinað að kalla gesti á fundi Allsherjarnefndar sem er fáheyrður yfirgangur af hálfu nefndarformanns. Umræðuna í framhaldinu má  heyra hér  og  hér.  Frumvarpið fór aftur til nefndarinnar og þegar það kom inn í þingið til þriðju umræðu gagnrýndum við það aftur og lögðum fram breytingartillögur okkar.  Í þeirra umræðu var aftur harkalega veist að okkur í Hreyfingunni af hálfu fulltrúa fjórflokksins. Þá umræðu má  sjá hér.

Þingmannanefndin starfaði af einurð og vandvirkni og það var ekki fyrr en á seinustu metrunum að ljóst var að niðurstaða hennar yrði að verulegu leiti í samræmi við flokkslínur eins og við höfðum spáð. Fulltrúar Samfylkingarinnar vildu hlífa Björgvin G. Sigurðsyni og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vildu hlífa báðum sínum ráðherrum og spiluðu því á það að hafna málssókn á hendur öllum.

Umræðan í þinginu um tillögur þingmannanefndarinnar var að hluta til á flokkspólitískum nótum en vegna vandaðs rökstuðnings meirihluta nefndarinnar voru andstæðingar málshöfðunar ekki færir um að koma með málefnaleg rök á móti málshöfðun heldur endurtóku sömu innantómu frasana hver á fætur öðrum. Atkvæðagreiðslan var svo skandall og svartasti dagurinn í sögu Alþingis þegar þingmenn og ráðherrar hrunstjórnarinnar greiddu allir atkvæði um að hlífa félögum sínum og kippa þeim í skjól undan réttvísinni. Allir sluppu nema Geir Haarde og þinginu lauk með skömm.

Það er því að einhverju leiti rétt að atkvæðagreiðslan hafi verið á pólitískum nótum, en það var bara hjá þeim sem vildu hlífa sínum félögum. Við hin sem studdum málsókn gerðum það öll á málefnalegum grunni með tilvísunum í niðurstöður þingmannanefndarinnar. Þetta má glöggt sjá ef menn fara yfir ræðurnar um málið. Það er því ekki rétt hjá Atla, Guðfríði Lilju og Ögmundi, né heldur hjá þeim þingmönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem hrópa hæst, að atkvæðagreiðslan hafi bara verið pólitísk. Alþingi sem stofnun brást hins vegar í þessu máli og þar er helst við að sakast forseta þingsins og forsætisnefnd sem sýndu af sér mikið dómgreindarleysi með að vilja þetta mál eingöngu í pólitíska nefnd sem og fyrrverandi formann Allsherjarnefndar (Steinunni Valdísi Óskarsdóttur) sem hafnaði því að fá gesti á fund nefndarinnar til að gefa umsögn um tillögur Hreyfingarinnar og kom þannig í veg fyrir upplýsta og faglega umræðu um málið í nefndinni.

Síðan þá hefur þetta mikilvæga mál verið bitbein stjórnmálaumræðu sem er svo vanþroskuð og gegnsýrð af spillingu og valdafíkn að ógleði setur að flestum. Útspil Sjálfstæðisflokksins með tillögu Bjarna Ben. og stuðningur forseta Alþingis við að taka mjög vafasamt mál á dagskrá þingsins og setja það fram fyrir öll önnur mál sem bíða lýsir betur samtryggingarpólitíkinni hér á landi en nokkuð annað. Innanmein Vinstri-grænna hafa gert hluta þingflokksins óbærilegt að starfa þar innanborðs og þau kjósa að ná sér niður á forystu flokksins með því að fylgja Sjálfstæðisflokknum í þessu máli, máli sem er sennilega mikilvægara en nokkurt annað mál í lýðveldissögunni að dómstóll komist að niðurstöðu í. Innanmein, reiði og valdabarátta innan Samfylkingar hafa líka gert það að verkum að fjórir þingmenn þar á bæ hafa gengið Sjálfstæðisflokknum á hönd. Til að bíta höfuðið af skömminni greiddu svo ekki bara væntanleg vitni í málinu atkvæði með að málið um að ákæran verði kölluð til baka haldi áfram, heldur tóku líka enn og aftur, ráðherrar og þingmenn Hrunstjórnarinnar þátt í atkvæðagreiðslunni eins og ekkert væri sjálfsagðara, þar á meðal sjálfur forseti Alþingis.

Það að forseti þingisns skuli ekki hafa gert minnstu tilraun til að rífa þingið upp úr því siðferðilega foraði sem þetta fólk hefur komi því í er dapurlegt en lýsir kannski meir en nokkuð annað þeim einbeitta vilja að stjórnmálastéttin eigi að vera hafin fyrir ofan lög og rétt í landinu og ef þarf á að hada þá til fjandans með allt annað.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.1.2012 - 23:50 - FB ummæli ()

Matvælastofnun

Á fundi Atvinnuveganefndar Alþingis í morgun voru forstjóri og nokkrir yfirmenn stofnunarinnar, ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytisins og fulltrúar frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Fundurinn var áfellisdómur yfir Matvælastofnun (MAST) og greinilegt að stofnunin er handónýt og algerlega ófær um að sinna þessum mikilvæga málaflokki. MAST hefur tekið þann pól í hæðina að til að söluaðilar iðnaðarsalts og kadmíumáburðar verði ekki fyrir fjárhagstjóni þá skuli þeim leyft að selja birgðir sínar af ónothæfum áburði og salti og skítt með almannahag og trúverðugleika matvælaframleiðslu í landinu.
Þótt fátt komi lengur á óvart í afstöðu þingmanna til mála kom þó á óvart í þessu máli að þingmenn sjálfstæðisflokksins í nefndinni, þeir Einar K. Guðfinnsson og Jón Gunnarsson tóku að einhverju leiti upp hanskann fyrir stofnunina. Einar K. var landbúnaðarráðherrann sem bannaði MAST að upplýsa um innihald áburðar frá Áburðarverksmiðjunni árið 2007 en sú verksmiðja (sem var einkavinavædd á sínum tíma) krafðist þess að MAST fengi ekki að birta upplýsingarnar og ráðuneytið samþykkti það.

MAST er skilgetið afkvæmi hugmyndafræði nýfrjálshyggju sjálfstæðisflokksins og er skipulögð nákvæmlega eins og Fjármálaeftirlitið var. Sett er löggjöf um eftirlitsstofnun sem lítur vel út á pappír en með alls lags óljósum lagagreinum og reglugerðum, eða bara yfirgangi ráðherra málaflokksins, er stofnuninni gert ókleift að sinna verkefnum sínum sem skyldi.

Það er verulegt áhyggjuefni þegar matvælaeftirlit í landinu er gert óvirkt af hugmyndafræðilegu ástæðum og til að þóknast gróðasjónarmiðum. Þetta vekur einnig upp spurningar á hvaða vegferð önnur stofnun sem er í matvælaeftirliti og heitir MATÍS er, en það er stofnunin sem nýverið  hafnaði  stórum fjárstyk frá ESB til tækjakaupa vegna matvælaeftirlits. Eins og fram kemur á vef MATÍS er hlutverk stofnunarinna m.a. að bæta lýðheilsu og tryggja matvælaöryggi.
Matvælaframleiðsla hverrar þjóðar er að sjálfsögðu gríðarleg mikilvæg en vegna eðlis málsins einnig gríðalegur gróðapottur fyrir framleiðendur við ákveðnar aðstæður. Aðstæður hér á landi hvað þetta varðar virðast algerlega komnar úr böndunum og gróðasjónarmiðin virðast tekin fram yfir matvælaöryggi.

Ég var með fyrirspurn til Steingríms J. í þinginu í dag en því miður virtist hann, þótt hann sé landbúnaðarráðherra og beri ábyrgð á málaflokknum, ekki tilbúinn til að taka ærlega til, hvorki hjá MAST né í ráðuneytinu.  Umræðuna má sjá hér.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.12.2011 - 16:44 - FB ummæli ()

Gistináttagjald og bréf „Samtaka ferðaþjónustunnar“.

Þingmönnum barst í gær bréf frá svo kölluðum „Samtökum ferðaþjónustunnar“ sem ég kýs að setja innan gæsalappa vegna ákveðna greinisins í nafni samtakanna en sem kunnugt er starfar mikill minnihluti fyrirtækja á Íslandi og starfsmanna þeirra innan hinna s.k. „Samtaka atvinnulífsins“ sem eru regnhlífasamtök fyrir m.a. „Samtök ferðaþjónustunnar“ (hér eftir „SAF“).

„SAF“ bera þingmönnum það á brýn að vera ekki sjálfráðir gerða sinna við lagasetningu um s.k. gistináttagjald sem leggsta á virðisaukaskattskyld fyrirtæki í ferðaþjónustu til þess að standa undir úrbótum og verndun á ferðamannastöðum af völdum þess fjölda ferðamanna sem m.a. aðildarfélagar áður nefndra samtaka flytja til landsins. Mér blöskraði bréf þetta þar sem það er í raun aðför að starfsemi áhugamannafélaga eins og ferðafélaganna en einnig er hnýtt rækilega í starfsemi stéttarfélaga sem með dugnaði og eljusemi hafa í áratugi byggt upp sumarhúsa aðstöðu fyrir eigin félagsmenn vegna þess að ella væri flestum íslendingum einfaldlega ókleift að ferðast um landið vegna dýrrar gistingar hjá einkageiranum.

Hvað um það, ég svaraði þessu bréfi þeirra (sem einnig var notað sem fréttatilkynning sem að allir fjölmiðlar birtu athugasemdalaust) og birti það svar hér fyrir neðan. Ég hef fengið viðbrögð fjölda þingmanna við svari mínu og greinilegt er að margir þeirra eru sama sinnis og ég um yfirgang þessara samtaka. Hér er svarið.

Sæl Erna Hauksdóttir.
Þú getur alveg treyst því að þingmenn gerðu sér grein fyrir því hverjir greiða gistináttaskattinn og hverjir ekki þar sem skilið er á milli VSK-skyldra aðila og hinna. Það er í mínum huga dapurlegt að bárátta SAF skuli vera farin að snúast um að reyna að rústa frjálsum félagasamtökum sem rekin eru af áhugafólki um land og náttúru og að SAF hafi ekki dýpri skilning á samfélaginu en að telja að ferðalög um og gisting á Íslandi eigi sér ekki tilverurétt nema í hagnaðarskyni fyrir einhverja aðra.

Gróðavon margra er vissulega sterk en afstaða SAF í þessu máli er óábyrg og klén og með því að leggja til atlögu við stéttarfélög sem með atorku og eljusemi hafa í gegnum áratugi byggt upp net sumarhúsa fyrir sína félagsmenn eru SAF komin út fyrir öll velsæmismörk. Gróðahyggja ferðaþjónustunnar hefur gert það að verkum að fjöldi landsmanna hefur einfaldlega ekki efni á að gista úti á landi nema í sumarhúsum eigin stéttarfélaga og það að þriðja flokks gistiaðstaða á vegum SAF úti á landi á Ísland skuli eftir óskiljanlegum leiðum vera skilgreind sem fjögurra stjörnu gistiaðstaða og verðlögð dýrar en hótelherbegi á Manhattan segir allt sem þarf. Rétt er að minnast einnig á hamborgara á 2.300 kr. og steikt bleikjuflak á 3.600 kr. úr því að SAF telur félagsmenn sína svona illa haldna. Á ensku heitir slík verðlagning „rip-off“ en ég leyfi ykkur að finna orðatiltækinu þýðingu á önnur mál sem og stað (vonandi) í auglýsingum næsta árs.

Þetta er heldur ekki geðþóttaákvörðun eins og þið haldið fram heldur mjög vel ígrunduð og yfirveguð ákvörðun um að þeir sem ætla sér að græða fé á okkar undursamlegu náttúru og landi geti ekki nýtt hana sér að kostnaðarlausu og þetta er einnig algjörlega eðlileg hagfræðileg nálgun um að auðlindarentan sé skattlögð sem næst notkuninni. Þessi skattur er heldur ekki erfiður í innheimtu heldur þvert á móti mjög auðveldur í innheimtu og reiknast einfaldlega sérstaklega á hvern haus sem gistir og er þannig sundurliðaður í reikningi fyrir hverja gistingu. Þetta fyrirkomulag er alþekkt um allan hinn vestræna heim og þó víðar væri leitað.

Það væri óskandi að samtök í íslensku atvinnulífi hefðu tamið sér meiri hógværð í framgöngu eftir það hrun sem þau sjálf áttu svo stóran hlut í að varð og þó SAF hafi e.t.v. ekki spilað stóra rullu í þeim leik þá finnst mér framganga aðila í ferðaþjónustu um að magn (þ.e. fjöldi ferðamanna) sé ofar öllu og skammtíma gróði réttlæti allt, alls ekki vera sú leið sem hægt sé að styðja lengur og sú hugmynd að ein milljón ferðamanna á ári sé æskileg er að mínu viti algerlega galin.

Með bestu kveðju,
Þór Saari
þingmaður Hreyfingarinnar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.11.2011 - 16:57 - FB ummæli ()

Til þingmanna og kjósenda

Neðangreint er athugasemd sem ég hef sent Merði Árnasyni þingmanni Samfylkingarinnar vegna bloggfærslu hans um einhvers konar „Griðrof á Alþingi“ eins og hann kallar það.  Fjölmargir hafa hvatt mig til að koma þessari athugasemd lengra og þar sem hún á erindi til allra þingmanna og ráðherra geri ég það hér með.

Sæll Mörður.
Það hendir okkur flest öll einhvern tímann á ævinni að manni misbýður svo gjörsamlega að maður hreinlega getur ekki tekið þátt. Sá málatilbúnaður og í raun viðbjóður sem hefur átt sér stað í kringum þetta mál er Alþingi, þingmönnum meirihlutans og forseta Alþingis til háborinnar skammar. Ég hef nú sótt mína vinnu í þetta hús í á þriðja ár og það líður varla sá dagur að ég gangi þarna inn án þess að vera með óbragð í munni yfir því sem þarna fer fram. Í gær og í morgun tók þó steininn úr.
Þú hefur staðið þig vel og heiðarlega í þessu máli, gagnrýnt það og talað fyri breyttu verklagi og er það vel, takk fyrir það. Ég bið þig hins vegar að virða það að öllu eru takmörk sett og það endalausa leikrit sem heitir Alþingi er gengið sér til húðar og það er ekki á færi venjulegs fólks að taka þátt í öllum þáttum leiksins. Þið „stjórnmálamennirnir“ megið eiga þau hlutverk öll ef þið viljið. Við sem komum þarna inn til að reyna að breyta einhverju til hins betra hreinlega frábiðjum okkur það viðbjóðslega baktjaldamakk, kjördæmapot og þá leiðtogadýrkun sem viðgengst þar enn. Það er svo ykkar að reyna að lifa með því.  Meðfylgjandi er tengill á viðtal   við mig á mbl.is um málið.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.11.2011 - 22:04 - FB ummæli ()

Kostaðar háskólastöður

Fékk í dag svar við fyrirspurn minni til menntamálaráðherra um kostaðar stöður á háskólastigi við alla háskóla landsins en kostun staða af hagsmunaaðilum á háskólastigi er mjög umdeilt mál, innan sem utan háskólageirans. Svar menntamálaráðherra  er hér.  Sem betur fer virðist ekki mikið um það að stöður við íslenska háskóla séu beint greiddar af einhverjum sem gætu talist hafa hagsmuna að gæta en þó vekja athygli þau tilvik þar sem um fyrirtæki er að ræða.  Slík tengsl eru alltaf óheppileg og væri óskandi að háskólarnir létu algerlega af þessum sið eða að menntamálaráðherra einfaldlega kæmi í veg fyrir slíkt.

Í svarinu eru það nokkrar stöður sem vekja sérstaka athygli svo sem tvær stöður sérfræðinga við Lagastofnun Háskóla Íslands, önnur kostuð af Samorku (samtökum orku- og veitufyrirtækja) og hin kostuð af LÍÚ.  Fleiri stöður eru einnig áhugaverðar svo sem staða við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík kostuð af KPMG en endurskoðunarfyrirtækin hafa einmitt verið sérstaklega gagnrýnd fyrir þátt sinn í Hruninu. Það má svo velta fyrir sér hvort ráðleggingar þeirra um t.d. það sem þau kalla „skattasniðgöngu“ séu kannski líka kenndar sem fag í akademískum stofnunum landsins.  Aðkoma lyfjafyrirtækja að kostun staða við læknadeild HÍ er einnig athyglisverð.

Vissulega má gefa sér að þessi fyrirtæki séu svo einlæglega áhugasöm um framgang akademískrar hugsunar að þau vilji setja fjármuni þar í og er það vel.  Þetta fyrirkomulag er hins vegar allt annað en óumdeilt og háskólar víða um heim hafa einfaldlega bannað það eða sniðið því mjög þröngar skorður.  Að sjálfsögðu er það óþolandi tilhugsun að akademískar stofnanir hér á landi skuli hugsanlega miðla öðru en akademískum niðurstöðum vegna beinna tengsla viðkomandi stöðuhafa við sérhagsmuni.  Það eina sem þó getur skorið þar úr um eru rannsóknir á því efni sem miðlað hefur verið af þeim sem gegna eða hafa gegnt þessum stöðum.  Hreinlegast er samt að útrýma þessu fyrirkomulagi með því að tryggja nægar fjárveitingar til háskólastigsins en þangað til það verður gert væri til mikils að vinna að stöðva þetta.  Þar ber Háskóli Íslands að sjálfsögðu höfuðábyrgð en ekki síður menntamálaráðherra landsins.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur