Laugardagur 13.11.2010 - 00:33 - FB ummæli ()

Hvað eru peningar

Við erum stöðugt að velta fyrir okkur vandamálum tengd peningum, reyndar eru vandamál okkar mun frekar tengd skorti á peningum. Hvað eru þá þessir peningar?

Í upphafi stunduðu menn vöruskipti en fóru síðan að nota ákveðnar vörur sem viðmið, þ.e. peninga. Flest öll þjóðfélög komu sér upp peningum í einhverju formi. Viðkomandi vara/hlutur hafði þá sitt eigið verðmæti auk þess sem hann var viðmið í viðskiptum.

Í Mesópótamíu og Egyptalandi til forna var uppskeran geymd í sérstökum vöruhúsum sem seinna meir urðu bankar. Menn gátu þá ávísað á sinn hluta af uppskerunni til greiðslu á skuldum.

Síðan komust menn upp á lag með að búa til mynt. Sömu átök voru þá og nú um að allir vildu að sín mynt yrði heimsmyntin. Víxlarar voru menn sem skiptu myntum og komu sér oft fyrir á fjölmennum stöðum. Frægt er þegar Jesús velti um koll borðum þessara bankamanna og rak þú út úr musterinu, eina skiptið sem Jesús beitti ofbeldi.

Ávísanir tengdust verðmætum og mynt var hægt að bræða. Peningar voru lengi vel skiptanlegir fyrir gull en það var afnumið 1971. Í dag höfum við svokallaða „fiat“ peninga sem merkir „let it be done“ á ensku. Peningarnir hafa því ekkert eigið verðmæti og hafa gildi eingöngu vegna þess að þeir eru lögleiddir sem slíkir. Í dag skilgreinum við peninga út frá hagrænum þætti og segjum að peningar séu eitthvað sem hægt sé að greiða með. Einnig er hægt að nota peninga til að bókfæra skuldir og innistæður.

Peningar eru því miðill, við flytjum ákveðið magn af verðmætum frá einum aðila til annars. Við gætum líka haft unnar klukkustundir sem einingu og þá greiðir maður fyrir mjólkina með ákveðnum fjölda af unnum klukkustundum í staðinn fyrir krónur. Til þess að unnar klukkustundir virki þurfa þær að vera löggilt eining eða að hafa gildi eða traust almennings. Helstu einkenni peninga eru þá:

1.      Miðill-(gjaldmiðill) , t.d nota rithöfundar orð fyrir miðil.

2.      Krónur eru eining eins og t.d. kg, meter eða Celsíus.

3.      Peningar eru miðill sem við treystum á að geta notað í viðskiptum.

Megin ástæðan fyrir því að peningar virka er að við trúum og treystum því að við getum selt vörur fyrir peninga og að sá sem tekur við peningunum trúir því að hann geti keypt sér vörur fyrir peningana. Einnig getum við notað peninga til að telja saman skuldir og innistæður. Peningar eru því mælieining, mælieining fyrir verðmæti.

Þar sem peningurinn okkar hefur ekkert eigið verðmæti heldur er bara mælieining á verðmæti er í raun óskiljanalegt að við séum alltaf að rífast um þessa mælieiningu. Ef ég afhendi þér einn lítra af mjólk þá trúir þú því að um sé að ræða einn lítra og getur þar að auki  sannreynt það. Síðan metum við verðmæti eins lítra af mjólk með mælieiningunni peningum, krónum í okkar tilfelli. Verðmætið er raun falið í afurðinni mjólk, vinnunni og kostnaðinum við að framleiða mjólkina. Við mælum síðan magnið með lítrum og verðmætið með krónum. Bóndin fær síðan ákveðið magn af krónum sem hann getur síðan notða til að eignast fóður fyrir kýrnar. Verðmæti mjólkurinnar var flutt með peningunum frá mjólk til fóðurs. Bóndinn hefði alveg eins getað flutt verðmætin með því að skrifa lítrafjöldann á miða en ekki krónur. Þá hefði þurft að vera almenn sátt um það að lítrar væru eining fyrir verðmæti. Í dag eru bara krónur notaðar og er eini löglegi miðillinn fyrir verðmæti.

Það sem ég skil ekki,  hverjum datt það í hug að gefa bönkum einkaleyfi á því að búa til peninga. Hvers vegna hefur Húsasmiðjan ekki einkaleyfi á metrum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 10.11.2010 - 23:21 - FB ummæli ()

Kemur vatn úr sturtuhausnum..

Þjóðfélagasumræðan er sérkennileg þessa dagana. Orðræðan er hversu mikinn kostnað þjófurinn getur sloppið við að endurgreiða af þýfinu. Samtímis er vandamálinu stillt upp á þann veg að vissir einstaklingar geti ekki staðið í skilum og síðan er spurt hvort virkilega allir ætli að taka á sig aukna skatta til að bjarga þeim. Spurningin fór reyndar fram yfir síðasta söludag fyrir löngu.

Ég minni á að bankarnir settu okkur á hausinn en við vorum öll að sinna okkar, veiða fisk, bræða ál, mjólka beljur og þjónusta, við klikkuðum ekki, heldur bankarnir.

Verðbólguskotið og gengisfallið er verk bankanna. Aftur á móti eigum við að borga kostnaðinn.

Samráðsnefndin hefur skilað af sér í dag skýrslu. Spurningin er hvort sáttin í þjóðfélaginu haldi. Hversu miklu er fórnandi fyrir sáttina? Á að fylgja lánadrottnum að málum og fórna hluta þjóðarinnar? Hvernig mun sá hópur bregðast við?

Sá hópur hefur frá 4. október verið hljóður að mestu. Beðið hefur verið í ofvæni eftir fyrrnefndri skýrslu og miklar vonir bundnar við hana. Margir trúa því að ríkisstjórnin muni í þetta sinn leiðrétta forsendubrestinn og skapa réttlæti.

Mannskepnan vill seint trúa illum ætlunum upp á náungann og vonar ætíð það besta. Eins er skuldugum Íslendingum farið í dag. Ætlar ríkisstjórnin að segja af eða á með hverjum hún stendur í þessu máli? Mun hún halda áfram að draga skulduga á asnaeyrunum?

Áður en að öll sund lokast og of seint verður að snúa af núverandi braut verða þeir sem telja sig órétti beittir að sameinast sem hópur og krefjast leiðréttingar. Ein aðferð og í raun lágmarks framkvæmd er að mæta á mótmæli og tjá óánægju sína. Að öðrum kosti heldur ríkisstjórnin að allir séu sáttir. Að minnsta kosti hjálpar það ekki neitt að góna sífellt á sturtuhausinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 9.11.2010 - 22:48 - FB ummæli ()

Vinstri menn eða bankamenn

Ætli það sé ekki hægt að fullyrða það að það sé almenn sátt um það að bankarnir komu okkur í skítinn. Þeir spiluðu djarft en gátu ekki staðið við afborganir á gjalddaga og fóru því á hausinn. Ef bankarnir hefðu fengið frekari lán þá hefðu þeir getað endurfjármagnað sig. Því miður gerðist það ekki og nú stjórna kröfuhafarnir bönkunum.

Sökum þess að bankarnir reiknuðu ekki rétt þá eru heimilin í vanda og allt þjóðfélagið í raun. Reyndar eru nýju bankarnir nú þegar farnir að sýna hagnað og eru sjálfsagt einu fyrirtækin á Íslandi sem gera það. Lausnirnar á bankakreppunni eru;

1.      Mikil skuldsetning ríkisstjóðs.

2.      Auknir skattar og útsvar.

3.      Niðurskurður hjá hinu opinbera,

4.      Og full nýting á greiðslugetu heimilanna og fyrirtækjanna.

Nú vill svo til að almenningur hefur mótmælt fyrrnefndri niðurstöðu og í raun mjög kröftuglega þann 4 október s.l.. Mótmælin urðu þess valdandi að ríkisstjórnin hikaði og ákvað að kanna hvort möguleiki væri á að koma til móts við skuldug heimili.

Hvernig bregst Már Guðmundsson núverandi Seðlabankastjóri við? Hvernig bregst bankastjóri bankanna við? Hvernig bregst Seðlabankastjóri við á fundi í Basel þar sem seðlabanki seðlabankanna er til húsa? Hvernig bregst Seðlabankastjóri, bankastjóri bankanna, í borg seðlabankanna við þegar hann hann er í viðtali við Bloomberg, málgagni peningaaflanna við? Hann segir:

„Trúin [efnahagskerfið] minnkaði þegar þingið kom saman í byrjun október og mótmælin áttu sér stað. Við vitum ekki enn hvort það högg hafi verið til skamms tíma eða hvort traustið er komið aftur. En þetta sýnir hve brothætt endurreisnin er.“

Endurreisn Íslands byggir sem sagt á því að skuldsett heimili Íslendinga borgi uppsett verð. Þeir aðilar sem ákveða „prísana“ eru bankarnir og það styður Már Seðlabankastjóri á Íslandi, fyrrverandi vinstri maður. Jóhanna og Steingrímur styðja það líka, líka fyrrverandi vinstri menn, öll núverandi bankamenn.

Það er sérkennilegt hve mannkynssagan endurtekur sig. Stjórnmálamenn, án tillits til barnatrúar þeirra, verða strengjabrúður fjármálaaflanna. Almenningur fylgir alltaf sama munstrinu, meðan eitthvað er til í matinn er hann sundraður. Eftir tuttugu ára kúgun sameinast almenningur loksins og veltir kúgurunum úr sessi og skapar réttlátt þjóðfélag. Síðan endurtekur sagan sig.

Ætli það sé bara ekki best að fara finna sér útsæði fyrir vorið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 6.11.2010 - 22:54 - FB ummæli ()

Flateyringar eða plat-aurar

Á Flateyri þarf að loka fiskverkuninni og þar vinna næstum allir í plássinu. Í vandamálum Flateyringa kristallast margt í tilverunni.

Á Flateyri er allt til staðar til að vinna fisk, kunnátta og tæki. Það skortir fiskinn. Á sama tíma og það er skortur á fiski fyrir Flateyringa er nóg af fiski í hafinu. Einnig er töluvert af fiski í svokölluðum kvóta en sá fiskur er einokaður af fáum útvöldum og þann fisk fá ekki Flateyringar nema að borga stórfé fyrir.

Á Flateyri er líka skortur á peningum. Kom fram í Kastljósinu að vinna væri í gangi við að semja við lánadrottna og niðurstaða þeirrar vinnu gætu ráðið úrslitum fyrir Flareyringa.

Vandamál fólksins á Flateyri er mjög sérkennilegt. Ekki langt frá landi er fullt af fiski og í næsta banka er fullt af peningum en hvorugt er ætlað Flateyringum. Það er augljóst að ef við leystum þetta vandamál yrði allt í blóma á Flateyri.

Jafnvel borgarbörn eins og ég vitum nokkuð um hvernig við veiðum og vinnum fisk en hvernig býr maður til peninga?

Peningar eru búnir til í bönkum og þeir hafa einkaleyfi á því eins og kvótagreifarnir sem hafa einkaleyfi á því að veiða fisk. Þegar fiskur er veiddur er tekið af stofni sem þá minnkar þangað til hann hefur fjölgað sér aftur. Þegar peningur er afgreiddur úr banka þá minnkar ekki í neinni bankabók. Í hvert skipti sem tekið er lán hjá banka er búinn til nýr peningur og hann settur í umferð. Af því leiðir að í hvert skipti sem lán er endurgreitt hverfur peningurinn aftur inn í bankann og er eytt. Þess vegna eru peningar í útrýmingarhættu því ef allir greiddu upp lánina sín þá væru ekki til neinir peningar. Ef bankar hætta að lána(„allar lánalínur að lokast“ „skortur á lánsfé“) þá minnka peningar í umferð. Þegar magn peninga minnkar þá lendir raunhagkerfið í vanda.

Jafnvel borgarbörn eins og ég vita hvað fiskur er, hlutur sem hægt er að selja, kaupa og líka borða. Fiskur er hlutur með eigið verðmæti. Hvað er peningur?

Peningur er ekki hlutur og hefur ekkert eigið verðmæti heldur hugtak sem er ákveðið með lögum. Eins og Aristoteles sagði „ Money exists not by nature but by law“. Peningur er mælieining eins og tonn. Við vigtum fiskinn í tonnum því annars yrðum við að nota aðrar viðmiðanir. Við gætum ákveðið að vega fiskinn í lestinni við einhvern stein í þorpinu okkar en fólkið í næsta þorpi notaði einhvern annann stein sem viðmiðun.  Peningar hafa bara það gildi sem þeir telja.

Til einföldunar voru peningar fundnir upp til að meta verðgildi hluta. Flateyringar gætu selt fiskinn fyrir ákveðið magn af mat, olíu og rafmagni en það yrði ansi flókið á endanum. Peningar eru því mælieining á verðmæti til að auðvelda viðskipti.

Ég tel að við þurfum að fara að velta fyrir okkur um hvað peningar snúast því sennilega yrðu allir mög vantrúaðir á smið sem segðist ekki geta byggt hús vegna skorts á sentimetrum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 5.11.2010 - 23:05 - FB ummæli ()

Þurfa bankar að berja tunnur

Það voru tunnumótmæli á Austurvelli í gær. Fjöldinn sem mætti samsvara um 100 þúsund Frökkum að mótmæla í París. Þrátt fyrir það þótti Kastljósi bæði mótmælin lítil og kröfur mótmælenda grátbroslegar í besta falli. Ég fékk flashback til mannkynsögutímanna á menntaskólaárunum. Meðan almenningur í Frakklandi framkvæmdi byltingu þá var elítan alveg rasandi yfir óskammfeilninni á kvörtunum almennings, a.m.k þangað til fallöxin féll.

Grasrótin safnaði a.m.k. 10 þús manns fyrir mánuði á Austurvöll og þá var hafist handa við að kanna hversu illa er komið fyrir almenningi. Hvað hafa stjórnvöld verið að gera s.l. 2 ár? Hvernig gátu stjórnvöld komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að leiðrétta skuldir almennings ef gögnin voru ekki til staðar? Á hvaða gögnum var sú afstaða byggð? Er ekki svarið við spurningunni það sem Jóhanna sagði um daginn að „það er ekki hægt að gera þetta gegn bönkunum og lífeyrissjóðunum“. Er Jóhanna og elítan að verja bankana og um leið að fórna almenningi?

Það litla sem lekið hefur út af niðurstöðum samráðshópsins er að vandinn sé mjög mikill. Aftur á móti er ekki vijli til staðar til að fara í frekari leiðréttingar en orðið er.

Um allan heim bergmálar spurningin hvað er svona merkilegt við banka, hvers vegna borga þeir ekki fyrir mistök sín. Hvers vegna á almenningur að blæða?

Spurningarnar rista djúpt. Hver er saga skuldarinnar?  Á alltaf að greiða skuld án tillits til afleiðinga? Hvernig starfa bankar? Er ekki sanngjarnt að bankar beri hluta af byrðunum enda ollu þeir bankahruninu? Hvers vegna er Jóhanna, fulltrúi litla mannsins, sammála bönkunum?

Að Jóhanna og Steingrímur standi með bönkunum segir okkur að vandamálið er ekki skilgreint út frá vinstri eða hægri pólitík. Vandamálið snýst mun frekar um valdastétt á móti valdalausri stétt, lánadrottnum á móti lánþegum þ.e.a.s. bönkum á móti almenningi.  Á meðan við skiljum ekki banka, hvernig þeir starfa og hvernig þeir stjórna er lítið vit í pólitískri umræðu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 3.11.2010 - 19:58 - FB ummæli ()

Er neyð á Íslandi

Það er gert lítið úr núverandi mótmælum og mótmælendum. Fólk hafi engann málstað að verja, sé í raun ekki í neinum vanda og aki um á bílum. Auk þess hafa mótmælendur í dag ekki þá réttu pólitísku sýn og þroska til að mótmæla. Í raun eru stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar að verja stjórnina sína eins og Sjálfstæðismenn gerðu í búsáhaldarbyltingunni.

Það er að segja, mjög venjuleg, hefðbundin og prímitív viðbrögð.

Að mótmæla er reyndar ekki jafn venjulegt en samt líka nokkuð frumstætt.

Þegar um 1000 fjölskyldur fá mat gefins vikulega er eitthvað mikið að. Ástæður hvers og eins eru margar en eiga sér þann samnefnara að íslenskir valdhafar hafa aldrei ákvarðað lágmarksframleiðslu. Ef það yrði gert þá hyrfu biðraðirnar að mestu.

Eigur fólks og fyrirtækja eru boðin upp af algjöru miskunarleysi. Það hefur enginn velt því fyrir sér hvort viðkomandi getur leigt eða hver á að hýsa viðkomandi.

Við Íslendingar virðumst alltaf þurfa að toppa aðra. Ekkert annað land hefur farið í gegnum kreppu með verðtryggingu og án þess að höggva neitt í fjármagnseigendur eða lánastofnanir. Eina Norðurlandanna þar sem fólk bíður í biðröð eftir matargjöfum. Eina verkalýðsforustan í heiminum sem styður Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Mjög sennilega hefur engin þjóð í heiminum jafn litla trú á því að hjálpin komi frá Alþingi. Í raun er fólk í vanda því mest öll stjórnarandstaðan er ekki mikið skárri en stjórnarliðar.

Í því felst neyð íslensku þjóðarinnar. Við kusum 63 þingmenn til að sinna endurreisn þjóðfélagsins eftir að bankarnir settu okkur á hausinn. Alþingi sér ekki ljósið, þau stangast, rífast og ástunda ræðukeppnir, auk yfirboða á galdralausnum. Alþingi er ekki að virka fyrir almenning á Íslandi.

Alþingi er að virka fyrir banka, lánastofnanir, LÍÚ, lífeyrissjóðina og fjármagnseigendur. Það er bara svo sorglega lítill hluti þjóðarinnar, það er það sem þingmenn þurfa að skilja.

Þeir sem vilja aðra forgangsröðun en núna er viðhöfð þurfa að sameina krafta sína. Mynda afl sem sveigir valdhafa í átt til réttlætis fyrir alla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 2.11.2010 - 20:00 - FB ummæli ()

„þið eruð ekki þjóðin“

Suðningsmenn núverandi ríkisstjórnar reyna að andæfa þeim sem gera sig líklega til að mótmæla stefnu ríkisstjórnarinnar. Þau telja mótmælendur vera handbendi Sjálfstæðismanna og allt þetta brölt muni gagnast þeim flokki. Mótmælendur eru líka heimtufrekir jeppaeigendur og þeir sem berja tunnur eru terroristar. Auk þess gera mótmælendur sér ekki grein fyrir alvöru málsins að þeirra mati. Það verður þrautaganga þangað til mistök frjálshyggjunnar eru að fullu leiðrétt.

Stuðningsmennirnir vilja að fram komi einhver raunhæf markmið fyrir mótmælunum annað en ósk um utanþingsstjórn. Allar kröfur mótmælenda í dag eru bara óskhyggja og afneitun á raunveruleikanum að mati stuðningsmannanna.

Í búsáhaldarbyltingunni vildum við fá nýja ríkisstjórn.

Mótmælendur í dag vilja pening fyrir mat handa fátækum og að fólki sé ekki hent út úr íbúðunum sínum bönkunum til þægðar. Sjálfsagt ultra hægri stefna.

Einnig eru efasemdir hjá mótmælendum í dag um ágæti þess að bankar og aðrar slíkar stofnanir njóti forgangs fram yfir almenning. Afskriftir skulda auðmanna skapraunar einnig almenningi. Svikin kosningaloforð bæta ekki úr skák.

Þið eruð ekki þjóðin sagði daman um árið og nú fáum við sömu skilaboðin en bara úr öðrum barka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 31.10.2010 - 21:34 - FB ummæli ()

Ögmundur og tíminn

Ögmundur ráðherra stefnir fram mótrökum gegn hugmyndum fólks um utanþingsstjórn í pistli á heimasíðu sinni.

Fyrir einhverjum misserum hefði ég getað tekið undir flest allt sem hann segir. Það sem gefur hugmyndinni um utanþingsstjórn aukið vægi í dag er tíminn, þessi áhrifavaldur sem við höfum ekki mikla stjórn á og fólk hefur svo mismunandi tilfinningu fyrir. Bæði er öldin önnur og auk þess eru margir að falla á tíma.

Allir þeir annmarkar sem Ögmundur telur fram eiga við rök að styðjast en í hugum margra er utanþingsstjórn skárri kostur en núverandi ástand. Sennilega skýrist afstaða Ögmundar að hann telji að það sé tími aflögu til að vinna eftir uppskrift þeirri sem hann nefnir. Það má vel vera að svo sé en margir hafi misst þolinmæðina og sú staðreynd er til staðar og það er ekki verið að takast á við þá staðreynd. Þeir hópar sem hafa ekki þann tíma sem Ögmundur þarf eru eigendur heimila sem eru að missa þau þessa dagana og fátækir sem eiga ekki fyrir mat.

Sennilega er Ögmundur sammála mér að mörgu leiti en hefur tekið þann pól í hæðina að reyna að sannfæra okkur um að Steingrímur sé ekki staddur í Bankastræti 0 að þrífa.

Mörg okkar viljum mun frekar að Ögmundur nýti sér þann mikla styrk sem hann hefur. Að hann sé hávær og krefji stjórnvöld um upplýsingar og skjót viðbrögð. Það er ekki mikill tími til stefnu og hann þarf að nýta út í æsar. Hugsunin þarf að vera mun frekar að nú sé að duga eða drepast. Slík vinnubrögð eru líklegri til að grafa undan hugmyndum um utanþingsstjórn en nokkuð annað.

Pistill Ögmundar er því miður vörn fyrir stjórnvöld sem eru fallin á tíma.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 30.10.2010 - 21:55 - FB ummæli ()

Utanþingsstjórn-hvers vegna

Almenningi finnst skjaldborg Jóhönnu og Steingríms snúast um banka og slíkar stofnanir. Sterkustu hagsmunaaðilarnir eins og kvótaeigendur og lífeyrissjóðirnir eiga allt sitt undir óbreyttu kerfi. Almenningur á erfitt með markvissa gagnrýni sökum leyndarhyggju. Við teljum að lífeyrissjóðirnir séu illa farnir eftir samstarf sitt við bankana fyrir hrun. Við finnum það að lífeyrissjóðirnir vilja hala inn eins miklum tekjum með verðtryggingunni og nokkur kostur er. Sjávarútvegurinn á líf sitt undir náð og miskunn bankanna og stilla bankarnir afborganir og vexti sjávarútvegsins þannig af að þeir rétt tóra. Þess vegna fer allur hagnaður á sameiginlegri auðlind okkar inn í bankana. Heimili og fyrirtæki eru gerð upp af bönkunum ef eignir þeirra standa nokkurn veginn undir skuldum. Ef skuldirnar eru allt of miklar eru menn og fyrirtæki stillt inn á afborganir til æviloka. Allur hagnaður eða strit okkar endar í kistum bankanna. Framtíðartekjur þjóðarinnar í formi ýmissa auðlinda virðast vera að renna okkur úr greipum meðal annars vegna skulda fyrirtækjanna við banka.

Almenningur kemur ekki til tals fyrr en 10.000 manns mótmæla við Alþingishúsið.

„Eftir helgi“ er svarið.

Það er að verða nokkuð ljóst að bankar banna ríkisstjórninni að koma til móts við almenning og venjuleg fyrirtæki.

Það sem gerir banka svona sérstaka er einkaleyfi þeirra til að búa til peningana okkar.

Neyðarstjórn sem tæki við af núverandi ríkisstjórn má ekki bara halda áfram að endurreisa gamla kerfið á okkar kostnað. Raunverulegt hlutverk núverandi vinstri stjórnar hefur bara verið að sætta almenning við að borga bönkunum tapið með niðurskurði. Við viljum ekki meira af því. Við viljum róttækar breytingar. Aðalatriðið í þeim breytingum á að vera að fjarlægja það vald sem bankar, sem eru einkafyrirtæki, hafa yfir öllu okkar lífi hér á landi. Bankar eiga að þjóna okkur en ekki við þeim.

http://www.biblical-art.com/extra/ownpub/children/189.jpg

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 29.10.2010 - 23:42 - FB ummæli ()

Er ekki kominn tími til að hugsa hlutina upp á nýtt

Heimilin eru okkur öllum mjög kær. Þau eru það skjól sem við ölum upp komandi kynslóð sem mun taka við kyndlinum. Minningar okkar flestra hringsnúast um bernskuheimili okkar. Þær ákvarða oft á tíðum hvernig við spilum síðan úr lífinu.

Um 73.000 heimila skulda í húsnæði sínu. Þeir sem skulda munu eiga í árslok 2011 um 6% í húsnæðinu sínu. Árið 2012 mun nánast enginn sem skuldar í sínu húsnæði eiga nokkuð í því. Þá getum við ekki selt ofanaf okkur til að sleppa úr skuldaánauðinni. Önnur birtingamynd er að um helmingur heimila í landinu á ekki fyrir óvæntum útgjöldum. Það er skilgreiningin á lágstétt sem þar með hefur vaxið gríðarlega.

Þetta vandamál er meira en 5000 ára gamalt. Því miður verð ég að hryggja ykkur með því að við Íslendingar finnum sjaldnast upp nýja hluti.

Í Mesopótamíu gerðu menn sér grein fyrir því að skuldir hefðu tilhneygingu til að vaxa hraðar en uppskeran sem stóð undir þeim. Af þeim sökum settu menn fljótlega reglur. Því var fljótlega farið að fella niður skuldir þegar uppskerubrestur var orsökin fyrir vangreiðslu. Þessi barátta milli þeirra sem vildu safna vöxtum sér til handa og hinna sem vildu reka þjóðfélag  þar sem jafnræði gilti milli lánadrottna og skuldara hefur staðið síðan. Til að halda þjóðfélögum saman og í jafnvægi, komst á sá siður að konungar aflýstu öllum óbærilegum skuldum við upphaf  valdatímabils.  Á þann hátt héldust samfélögin saman. Skuldabyrðin varð viðráðanleg. Yfirvaldið gat framkvæmt þetta sökum möguleika á valdbeitingu. Vegna þess að yfirvöld höfðu einkaleyfi á valdbeytingu og lánadrottnarnir urðu að sætta sig við ákvörðun þeirra.

Núna er staðan allt önnur. Í dag hafa lánastofnanir einkaleyfi á valdbeitingu. Steingrímur verður að fylgja þeim að málum því hann hefur ekki það vald sem forverar hans höfðu eða hann hefur ekki kjark til þess til að taka sér það vald.

Þegar hlustað er á málflutning stjórnvalda er augljóst að þau tala máli lánadrottna. Hagsmunasamtök heimilanna reyna að innleiða 5000 ára gamla hugsun en í mun mildara formi gagnvart lánadrottnum en þá var.

Við verðum að finna sátt. Í því sambandi verðum við að sammælast um að kostnaður af lánastarfsemi, vextir og verðbætur, er bara kostnaður, mínus í okkar raunhagkerfi. Framleiðsla er það sem skiptir máli og arðurinn af henni. Í dag fer allur arður sjávarútvegsins inn í bankana í formi vaxtagreiðslna.  Arður álbræðslunnar fer til móðurfyrirtækjanna. Allur arður einstaklinga af heimilunum fer til lánastofnana.

Er ekki kominn tími til að hugsa hlutina upp á nýtt?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur