Þriðjudagur 5.9.2017 - 20:09 - Rita ummæli

Klúðrið í kringum Orkuveituhúsið

Við vorum að ljúka fundi í borgarstjórn núna 5. september kl. 20:02. Á sama tíma eru karlalandslið Íslands og Úkraínu á Laugardalsvelli í fótbolta.

Á fundinum var mikil umræða um Orkuveituhúsið og bruðlið í kringum það hús sem nú hefur komið í ljós að er mjög illa farið.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um opinbera rannsókn vegna milljarða tjóns

á húsi Orkuveitu Reykjavíkur

Borgarstjórn samþykkir að fram fari opinber rannsókn vegna milljarða tjóns sem orðið hefur á
húsi Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi. Í þeirri rannsókn verði leitast við að leiða í ljós
orsakir tjónsins og hvaða lærdóm megi draga af málinu til framtíðar. Athugað verði hvernig
staðið var að byggingu hússins á sínum tíma og hvernig staðið hefur verið að viðhaldi þess
eftir að það var tekið í notkun. Meðal annars verði kannað hvernig pólitískar ákvarðanir voru
teknar um byggingu hússins og stækkun þess á framkvæmdatíma. Þá verði athugað hvernig
ákvarðanir voru teknar um einstaka þætti málsins, t.d. hönnun, byggingaraðferðir, efnisval
o.s.frv. Fjallað verði um orsakir þess að byggingarkostnaður fór langt fram úr áætlunum.
Einnig verði birtur heildarkostnaður við byggingu hússins og allur kostnaður vegna viðhalds
og endurbóta frá því það var tekið í notkun. Þá verði könnuð lagaleg staða Orkuveitunnar í
málinu og hugsanlegur bótaréttur vegna umrædds tjóns.

Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata vildi ekki samþykkja þessa tillögu okkar og vísaði henni inn í borgarráð með mótatkvæði okkar. Við lögðum fram þessa bókun:

Við leggjumst gegn tillögu borgarstjóra um að tillögu Sjálfstæðisflokksins, um opinbera rannsókn vegna milljarða tjóns á húsi Orkuveitu Reykjavíkur, verði vísað til borgarráðs. Borgarstjórn er ekkert að vanbúnaði að samþykkja slíka tillögu enda liggja fyrir margvíslegar upplýsingar sem kalla á að málið verði rannsakað í heild sinni. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna kýs hins vegar að tefja slíka rannsókn með því að vísa tillögunni til borgarráðs án haldbærrar ástæðu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 23.8.2017 - 10:30 - Rita ummæli

Sveitarstjórnarlög kveða á um málstefnu

Nokkur umræða er um stöðu íslenskunnar gagnvart enskunni og þá hættu sem tungumálið okkar kann að vera í. Sumir taka svo sterkt til orða að íslenskan muni hverfa sem tungumál. Við sjáum mikla tilhneigingu fyrirtækja í verslun og þjónustu til að nota ensk heiti. Flugfélag í innanlandsflugi breytir meira að segja nafni sínu úr íslensku Flugfélagi Íslands í Air Iceland connect. Þegar þetta er skrifað stendur risastór innkaupapoki á Lækjartorgi en honum er ætlað að auglýsa opnun H&M í Smáralind. Verslunarmiðstöðvar munu eiga erfiðara uppdráttur en áður vegna þess að internetið hefur opnað heiminn svo mikið að fólk verslar í gegnum netið þegar því sýnist og frá hinum ýmsu stöðum í heiminum.

Það er ekki að fara að breytast. Enskan verður áfram allsráðandi á internetinu og við sem og börnin okkar höfum aðgang að því. Við lokum ekki internetinu eins og gert var við Kanasjónvarpið á sínum tíma vegna mats þess tíma á því að áhrif enskunnar gætu verið skaðleg fyrir íslensk ungmenni og íslenskuna sjálfa.

En við getum gert betur hérna heima fyrir. Við getum verið stoltari af tungumálinu okkar. Skírt verslanir og þjónustufyrirtæki góðum íslenskum nöfnum og haft í huga að erlendir gestir okkar hafa áhuga á því sem íslenskt er. Þess vegna koma þessir gestir til Íslands.

Það er áhugavert að í núgildandi sveitarstjórnarlögum frá 2011 er kveðið á um málstefnu í 130 gr. (sjá hér neðst í greininni). Þetta ætti að nýtast sveitarfélögum og þá væntanlega ekki síst Reykjavík við að setja stefnu um merkingar og annað í borgarlandinu. Það má nefnilega gera miklu betur við að afmarka betur hvað er leyfilegt í svona merkingum og styrkja með því varnir íslenskunnar sem lifandi tungumáls sem við viljum og eigum að varðveita.

Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011
130. gr.
 Málstefna.
Sveitarstjórn mótar sveitarfélaginu málstefnu í samráði við Íslenska málnefnd og eftir atvikum málnefnd um íslenskt táknmál. Þar skal koma fram að öll gögn liggi fyrir á íslensku svo sem kostur er og gerð grein fyrir heimilum undantekningum á þeirri reglu. Þar skulu settar reglur um notkun íslensks táknmáls og íslensks punktaleturs í gögnum og starfsemi sveitarfélagsins. Enn fremur skal koma fram hvaða gögn liggja að jafnaði fyrir í erlendum málbúningi og hvaða tungumál þar er um að ræða. Þá skal þar setja reglur um rétt íbúa af erlendum uppruna til samskipta við stofnanir sveitarfélagsins á annarri tungu en íslensku.
Mál það sem er notað í starfsemi sveitarfélags eða á vegum þess skal vera vandað, einfalt og skýrt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 17.8.2017 - 13:31 - Rita ummæli

Ekki framboð í vor

Þessa fréttatilkynningu sendi ég frá mér í gær eftir viðtal á Stöð 2:

Fréttatilkynning

Halldór Halldórsson

oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Ég, undirritaður sem var kjörinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarmálunum í Reykjavík haustið 2013 og tók til starfa sem borgarfulltrúi eftir kosningar vorið 2014 hef ákveðið að gefa ekki kost á mér til setu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum.

Ákvörðunin var tekin nú í ágúst þegar horft var úr ákveðinni fjarlægð úr sumarfríinu á fortíð og framtíð. Framundan er mikilvæg ákvarðanataka grasrótar Sjálfstæðisflokksins í borgarmálunum og sanngjarnt að mínu mati að afstaða mín sem núverandi oddvita til framboðs eða ekki framboðs liggi fyrir áður en þessi tilhögun framboðsmála er ákveðin.

Borgarmálin eru skemmtilegur vettvangur en það er svo ótal margt annað áhugavert sem undirritaðan langar að fást við. Tíminn líður mjög hratt og eftir 24 ár á sveitarstjórnarvettvangi, sem kjörinn fulltrúi lengst af, er ágætt að láta staðar numið á þeim vettvangi og snúa sér að öðru. Reynsla mín úr atvinnulífi og af sveitarstjórnum sem og í fjölmörgum alþjóðlegum verkefnum mun nýtast við ný og spennandi störf.

Mér er efst í huga þakkir til stuðningsmanna minna sem hafa verið mér mikilvægir í gegnum tíðina. Ég er þakklátur fyrir þær yfirlýsingar sem mér hafa borist að undanförnu um stuðning og þakkir. Ég hugsa mikið til minna stuðningsmanna þegar þessi ákvörðun er tekin.

Ég geri ráð fyrir að verða að störfum sem borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn þar til nýkjörin borgarstjórn tekur við í júní 2018. Kjósendur kusu mig til 4 ára og hyggst ég sinna því verkefni sem mér var falið.

Reykjavík 16. ágúst 2017

Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 15.6.2017 - 14:26 - Rita ummæli

Skulduga Reykjavík

Ég held áfram að tala um fjármál, rekstur og skuldir Reykjavíkurborgar þó margir haldi því fram að íbúar sveitarfélaga hafi almennt ekki áhuga á þessum málum.

Það held ég að sé ekki rétt. Ég held að íbúar geri frekar ráð fyrir því að þeir geti treyst kjörnum fulltrúum til að standa í ístaðinu varðandi reksturinn og að þeir sökkvi sínu sveitarfélagi ekki í skuldir. Það gera allir sér grein fyrir því að heilbrigður rekstur sé lykillinn að því að sveitarfélagið geti veitt almennilega þjónustu og að hægt sé að lækka það sem íbúar/skattgreiðendur þurfa að láta af hendi.

Sá hugsunarháttur að endalaust sé hægt að fara í vasa skattgreiðenda er áberandi hjá vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Borgin er miklu skuldugri en margir halda og hef ég ítrekað bent á það allt kjörtímabilið.

Þessi frétt Morgunblaðsins frá 14. júní útskýrir ágætlega hvernig Reykjavíkurborg er í raun með undanþágu í sveitarstjórnarlögum frá því að birta raunverulega skuldastöðu. Heildarskuldir borgarinnar eru 186,7% af tekjum en mega ekki vera meira en 150%.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 9.6.2017 - 15:52 - Rita ummæli

Fasteignaskattar hækka mikið í Reykjavík

Álagning fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði er ákveðin prósenta (%) á fasteignamat viðkomandi eignar. Þetta mat hefur hækkað mikið og mun hækka frá og með 1. janúar 2018.

Búið er að leggja á fasteignaskatt fyrir árið 2017 en meðaltalshækkun á höfuðborgarsvæðinu 2018 verður 14,5%.

Þess vegna lagði ég fram þessa tillögu í borgarráði í gær (9. júní) fh. okkar borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

,,Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að nú þegar verði hafin vinna við að undirbúa lækkun fasteignaskatta hjá Reykjavíkurborg vegna hækkunar fasteignamats langt umfram eðlilega verðlagsþróun. Nýtt fasteignamat tekur gildi 1. janúar 2018 þar sem meðalhækkun á höfuðborgarsvæðinu er 14,5%. Miða skal við að Reykjavíkurborg leggi lægri skattprósentu en nú er í gildi á nýtt og hærra fasteignamat til að draga úr skattbyrði borgarbúa.“

Hér fyrir neðan er svo frétt Morgunblaðsins um þetta mál.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 29.5.2017 - 12:53 - Rita ummæli

Reykjavík! Það er hægt að gera svo miklu betur.

Viðskiptablaðið birti þessa grein eftir mig 24. maí sl.

Reykjavík! Það er hægt að gera svo miklu betur

Vinstri flokkarnir hafa í einni eða annarri mynd verið í meirihluta hér í borginni síðustu 23 árin með undantekningu tímabilið 2006-2010 en þá tókst þeim meira að segja að mynda meirihluta í 100 daga. Staðan í borginni er vond undir stjórn Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar.

Reksturinn er neikvæður alveg frá 2010 nema á síðasta ári. Það kemur til vegna mikillar þenslu í samfélaginu og hefur ekki enn frést af sveitarfélagi á Íslandi sem er rekið með tapið árið 2016. Afgangur af borgarsjóði (A-hluta) er 2,6 milljarðar en þar af eru 1,8 milljarðar vegna eignasölu. Og skuldir aukast um 3 milljarða þrátt fyrir þetta.

Með Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta yrði tekist á við reksturinn, skuldastaða stöðvuð og farið að greiða niður skuldir. Og auðvitað farið í aðgerðir til að lækka álögur á borgarbúa með því að færa niður útsvarið í áföngum og minnka skattbyrði. Útsvarið er í hámarki skv. lögum undir stjórn vinstri meirihlutans.

Risavaxið vandamál hefur orðið til undir stjórn þessa vinstra meirihluta en það eru húsnæðismálin. Nú er svo komið að það vantar 5.000 íbúðir í Reykjavík í dag og svo um 1.400 á ári til 2030. Í kosningum 2014 töluðum við Sjálfstæðismenn um neyðarástand í þessum málum en staðan hefur versnað margfalt síðan þá. Við buðum fram lausnir í kosningunum 2014 en þær hljómuðu væntanlega ekki eins einfaldar og 2.500 til 3.000 leiguíbúðir á kjörtímabilinu eins og Dagur B. Eggertsson lofaði. En hverjar hafa efndirnar orðið? Það er ekki flóknara en það að húsnæðisloforð Dags B. Eggertssonar fyrir síðustu kosningar eru svikin. Aldrei hefur verið lengri biðlisti eftir félagslegum leiguíbúðum eða nálægt 1000 manns en voru 400 árið 2014. Þau eru staurblind á ástandið í þessum meirihluta sem sést í því að tillögur okkar í minnihlutanum um fjölgun lóða í Úlfarsárdal og að undirbúa fleiri svæði, eins og Geldinganesið, til framtíðar sem byggingarland eru felldar. Þessi vinstri meirihluti fellir slíkar tillögur á sama tíma og það er húsnæðisskortur.

Þessi afstaða í lóðamálum hefur svo þau áhrif að Reykjavíkurborg sem er langstærsta sveitarfélag landsins býr til skort í húsnæðismálum. Það hefur sýnt sig í þróun húsnæðisverðs að undanförnu að eftirspurnin er mun meiri en framboðið. En meirihlutinn er svo blindur á þéttingaráform sín um að 90% þéttingar verði að vera fyrir vestan Elliðaár að ekki má úthluta nýjum lóðum í úthverfum sem þýðir skortur og hækkun húsnæðisverðs með skelfilegum afleiðingum fyrir ungt fólk í húsnæðisleit. Við höfum tekið þessa umræðu ítrekað í borgarstjórn og hefur borgarstjóri sagt undirritaðan boða Marxisma í umræðum um framboð og eftirspurn. Það hefur komið í ljós í þessum umræðum að borgarstjóri og meirihlutinn trúa ekki á lögmálið um framboð og eftirspurn. En það gera aðir og nýlega fengum við fréttir af því að ef borgin hefði ekki sofið á verðinum í lóðaúthlutunum væri vaxtastigið í landinu ekki eins hátt og raun ber vitni því það er húsnæðisverðið sem knýr verðbólguna áfram.

Það þyrfti sérstaka grein um umferðarmálin í Reykjavík þar sem meirihlutinn hefur sett fjármagn í að þrengja götur frekar en að laga þær. Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum til að Geirsgatan þar sem allt er uppgrafið núna yrði lögð í stokk en það vildi meirihlutinn ekki og felldi tillöguna umsvifalaust. Tillaga okkar um fullkomið umferðarmódel sem mæli allar tegundir umferðar var samþykkt. Nú þarf að vinna þetta módel og mæla þarfir mismunandi umferðar hvort sem það eru almenningssamgöngur, einkabílar, gangandi eða hjólandi.

Á vel heppnuðu Reykjavíkurþingi okkar Sjálfstæðisfólks í Reykjavík 19. og 20. maí sl. komu 270 manns saman úr grasrótinni í Reykjavík. Þetta öfluga fólk með búsetu í öllum hverfum borgarinnar samþykkti málefnastefnu sem mun færa Reykjavík úr kyrrstöðu til framfara eftir borgarstjórnarkosningarnar í maí 2018. Það er hægt að gera svo miklu betur en til þess þarf Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta.

Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 23.5.2017 - 22:16 - Rita ummæli

Staurblindur meirihluti í Reykjavík

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 11. maí 2017

Hér er textinn ef þetta er óskýrt á skjánum:

Staurblindur meirihluti á ástand húsnæðismála

Í borgarráði 27. apríl sl. var loksins tekin fyrir tillaga okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram í borgarstjórn 7. febrúar sl. um að fjölga lóðum í Úlfarsárdal verulega umfram þær lóðir sem nú verða lagðar til við endurskoðun deiliskipulags. Upphaflegar tillögur um Grafarholt og Úlfarsárdal gerðu ráð fyrir allt að 28.000 íbúa byggð en miðað við stefnu meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar verður byggðin ekki nema fyrir 9.000 íbúa.

Meirihlutinn felldi tillögu um fjölgun lóða

Á fundinum í borgarstjórn 7. febrúar samþykkti meirihlutinn að vísa tillögunni til borgarráðs. Á þeim tímapunkti kviknaði von um að meirihlutinn væri búinn að átta sig á því að núverandi ástand í húsnæðismálum gengi ekki lengur og því væri skynsamlegt að samþykkja tillögu um verulega fjölgun lóða. En því var ekki að heilsa. Því þessi sami meirihluti sem hafði látið tillöguna velkjast í borgarkerfinu í tæpa þrjá mánuði felldi tillöguna með þeirri röksemdarfærslu að tillagan myndi ekki gera neitt til leysa húsnæðisvandann á höfuðborgarsvæðinu. Það yrði best gert með því að vinna rösklega að þeim áætlunum sem fyrir liggja. Það er kaldhæðnislegt að þeim eru einmitt þessar endalausu áætlanir sem meirihlutinn vísar til og borgarstjóri veifar statt og stöðugt sem fólk í húsnæðisþörf hefur ekki getað flutt inn í . Áætlanir á glærum borgarstjóra eru skjóllitlar og hriplekar.

Það vantar 5.000 íbúðir núna.

Það er auðséð að meirihluti borgarstjórnar með Dag B. Eggertsson borgarstjóra í fararbroddi skilur ekki vandamálið. Það vantar 5.000 íbúðir í dag og svo 1.400 íbúðir árlega næsta áratuginn. Lóðaskortsstefna meirihlutans hefur þau áhrif á húsnæðismarkað að hér hefur verið sett Evrópumet í hækkun húsnæðisverðs síðan 2010 og sífellt fleiri fréttir berast af því að fólk sé að flýja blinda þéttingarstefnu meirihlutans til nágrannabyggðarlaga.

Þrátt fyrir þessa stöðu heldur meirihlutinn sig við óbreytta stefnu um að úthluta ekki nýjum lóðum heldur styðjast nánast eingöngu við lóðir á þéttingarsvæðum þar sem ljóst er að íbúðir eru miklum mun dýrari en ef borgin úthlutaði sjálf fleiri lóðum. Skortur í húsnæðismálum og óeðlilega mikil þensla á húsnæðismarkaði markast af skorti sem er heimtilbúinn og í boði meirihluta Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar í Borgarstjórn Reykjavíkur.

Eina ljósið í myrkrinu er að það eru borgarstjórnarkosningar á næsta ári. Þá geta borgarbúar rofið nánast sleitulausa valdasetu vinstri flokkanna í borgarstjórn síðan árið 1994.

Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 21.2.2017 - 16:02 - Rita ummæli

Vandræði í húsnæðismálum í Reykjavík

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 9. febrúar sl.:

Á borgarstjórnarfundi 7. febrúar sl. lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram enn eina ferðina tillögu um fjölgun lóða hjá borginni.

Tillagan hljóðaði svona: ,,Borgarstjórn samþykkir að fjölga lóðum í Úlfarsárdal umfram þá takmörkuðu fjölgun sem verður vegna breytinga á deiliskipulagi sem nú er í vinnslu. Er þetta gert til að bregðast við alvarlegum lóðaskorti í Reykjavík. Hafist verði handa nú þegar við undirbúning þessa verkefnis til að Reykjavíkurborg geti uppfyllt þá mikilvægu grunnskyldu gagnvart íbúum sínum að útvega lóðir í samræmi við þörf.“ Meirihlutinn vísaði tillögunni til borgarráðs sem ber vott um ákvarðanafælni og vandræðagang og verður bara til þess að seinka úrræðum í húsnæðismálum því hætt er við að málið verði svæft af hálfu Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar.

Til þessa hafa allar tillögur um að fjölga lóðum umfram skilgreiningu í aðalskipulagi í Úlfarsárdal verið felldar eða svæfðar. Það má rifja upp að 20. október 2015 felldi meirihlutinn það meira að segja að taka tillögu okkar á dagskrá um þessi sömu mikilvægu mál. Það mátti ekki einu sinni ræða málið á þeim borgarstjórnarfundi af því að meirihluti Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar var ekki undirbúinn og treysti sér ekki til að taka upplýsta afstöðu til þessara mála eins og sagði í bókun þeirra við þetta tilefni.

Vinna við breytingu deiliskipulags í Úlfarsárdals stendur yfir núna. Það nær hins vegar einungis til þess sem rúmast innan gildandi aðalskipulags. Samkvæmt upprunalegu deiliskipulagi frá 2005 eru 904 íbúðir í hverfinu. Upphaflegar hugmyndir um þetta hverfi gerðu hins vegar ráð fyrir miklu fleiri íbúðum. Grafarholt og Úlfarsárdalur áttu að geta orðið allt að 28.000 íbúa hverfi í stærstu hugmyndunum. En þetta verður 9.000 íbúa hverfi þegar allt er byggt verði áfram staðið gegn stækkun hverfisins í Úlfarsárdal. Sú ákvörðun vinstri meirihlutans í borgarstjórn að draga verulega úr íbúabyggð í Úlfarsárdal frá því sem áður var ákveðið, dregur mjög úr möguleikum hverfisins á að vera sjálfbært varðandi ýmsa þjónustu og á það ekki síst við um íþrótta- og æskulýðsstarf. Stækkun hverfisins er einnig mikilvægur þáttur í því að gera fólki á öllum aldri auðveldara að koma sér þaki yfir höfuðið.

Breyting á deiliskipulagi gerir ráð fyrir íbúðum norðan Skyggnisbrautar þannig að ef það verður að veruleika erum við að tala um 1.332 íbúðir í Úlfarsárdal. Þar af eru 70 aukaíbúðir í einbýlishúsum. Þetta er fjölgun um 428 íbúðir frá skipulaginu eins og það er núna.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 gerir ráð fyrir að byggingarþörfin sé 700 íbúðir á ári. Það er ljóst að uppsöfnuð þörf er miklu meiri. Greiningardeild Arion banka segir að það vanti a.m.k. 8.000 íbúðir á næstu þremur árum. Hlutdeild Reykjavíkur í því er alveg áreiðanlega ekki undir 4000 íbúðum.

Í árlegri skýrslu um framfylgd aðalskipulags Reykjavíkur segir að breyta þurfi þessu viðmiði og fara í 1.000 íbúðir á ári til 2030. Það er vitanlega fyrir utan þessar 8.000 íbúðir og hlutdeild borgarinnar í þeim fjölda sem er talað um í greiningu Arion banka. Það er áhugavert að skoða þetta í samhengi við hvað hefur gerst. Þegar við skoðum fjölda fullgerðra íbúða í Reykjavík 2010 til 2015 kemur í ljós að þær eru 1.557. Þá erum við að tala um allar íbúðir sem byggðar eru í borginni. Það er ansi langt frá þessum markmiðum aðalskipulagsins og óravegu frá yfirlýsingum borgarstjóra f.h. meirihlutans í borgarstjórn.

Af hverju erum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að leggja til úthlutun fleiri lóða? Það er vegna þess að það er lóðarskortur í borginni og hann hefur þrýst húsnæðisverði harkalega upp. Frá 2010 til 2016 er hækkunin yfir 42% á húsnæðismarkaði. Í glænýrri skýrslu Arion banka er spáð 30% nafnverðshækkun frá ársbyrjun 2017 til ársloka 2019 og varar bankinn við ofhitnun á húsnæðismarkaði til lengri tíma litið.

Reykjavíkurborg er í lykilstöðu til að standa í aðgerðum sem draga úr þessum hækkunum.

Til þessa hefur afstaða vinstri meirihlutans í Reykjavík verið bæði upplýst og undirbúin. Það er lóðaskortsstefna með þeim afleiðingum að ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum vegna þess að það vantar húsnæði og vegna þess að lóðaskortsstefnan hækkar verð á húsnæði.

Með samþykki tillögunnar hefði verið hægt að setja málið strax í vinnslu og nýta tímann og landið sem rúmar miklu fleiri byggingar og þannig sinna skyldum borgarinnar sem er að sjá til þess að lóðaframboð mæti eftirspurn frekar en að halda aftur af lóðaúthlutunum með þeim afleiðingum að húsnæðisverð hækkar langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 17.1.2017 - 15:48 - Rita ummæli

Kosningaloforð Samfylkingar í borginni verður ekki uppfyllt

Á borgarstjórnarfundi 17. janúar var umræða um húsnæðismálin og ekki vanþörf á enda mikill húsnæðisskortur í Reykjavík með tilheyrandi hækkunum á húsnæðiskostnaði hvort sem um kaup eða leigu er að ræða.

Í umræðunni um félagslegt leiguhúsnæði kom fram að á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum eru 893 manns og hefur fjölgað um 150 á einu ári. Þetta er staðan þrátt fyrir að kosningaloforð Samfylkingarinnar í kosningunum 2014 hafi verið 2.500 til 3.000 leiguíbúðir á kjörtímabilinu 2014-2018. Þegar það er skoðað kemur í ljós að það hefur fjölgað um 138 almennar félagslegar leiguíbúðir frá 2010. Miðað við 3.000 íbúðir á kjörtímabilinu vantar þá ennþá 2.862 íbúðir upp í það kosningaloforð.

Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vöruðum við þessu kosningaloforði 2014 og töldum það óráð að borgin væri að seilast svona mikið sjálf inn á húsnæðismarkaðinn. En við töldum alltaf að standa yrði undir þeirri þjónustu í húsnæðismálum sem borginni ber skylda til en það er að útvega þeim 893 sem eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði lausn í þeim málum.

Í umræðunni um lóðamálin fór undirritaður yfir stöðuna hjá meirihlutanum sem er upptekinn af þéttingarreitum hér og þar í borginni. Hins vegar hefur meirihlutinn (Píratar, Samfylking, Vinstri græn og Björt framtíð) fellt tillögur okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokkins að bæta við fleiri lóðum í Úlfarsárdal til að létta þungann í húsnæðismálum í borginni. Það vantar 5.000 íbúðir nú þegar og það gengur hægt að byggja á þéttingarreitum. Þetta hefur þau áhrif að verð íbúða hefur rokið upp í borginni með auknum erfiðleikum fyrir fólk við að koma þaki yfir höfuðið og ráða við húsnæðiskostnaðinn. Reykjavíkurborg getur haft jákvæð áhrif á húsnæðismarkaði með því að úthluta fleiri lóðum.

Reyndar áttum við borgarstjóri orðaskipti um þetta og hann mótmælti þeirri fullyrðingu minni að fleiri lóðir og lækkun lóðaverðs hefði jákvæð áhrif á húsnæðismarkað. Borgarstjóri sagði þetta marxíska hugsun hjá mér og að lóðaverð hafi ekki leiðandi áhrif á fasteignaverð. Miðað við þessa fullyrðingu hans skiptir þá væntanlega engu máli hvað lóðir kosta, hvað smíðavinna kostar eða hvað steypa í húsið kostar.

Það eru kosningar vorið 2018, stóra kosningaloforð Samfylkingarinnar 2014 um allt að 3.000 leiguíbúðir verður ekki uppfyllt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 4.1.2017 - 10:06 - Rita ummæli

Borgarfulltrúar og hverfi borgarinnar

Í Morgunblaðinu 3. janúar sl. ritar Hróbjartur Jónatansson ágæta grein um búsetu borgarfulltrúa, fjölda þeirra og fyrirhugaða fjölgun. Í greininni veltir hann því upp að búseta borgarfulltrúa geti haft áhrif á forgangsröðun við stjórn borgarinnar.

Ekki veit ég hversu mikil áhrif búseta borgarfulltrúa hefur á ákvarðanatöku og vil halda því staðfastlega fram að í tilfelli okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins horfum við á borgina alla og mikilvægi þess að standa vel að málum í öllum hverfum. Þetta má sjá í tillöguflutningi okkar, bókunum og þeirri umræðu sem við höfum staðið fyrir í borgarstjórn. En það dregur hver og einn dám af sínu umhverfi og því mikilvægt að áhrif hvers og eins hverfis séu sem mest og meiri en þau eru í dag.

Þann 12. ágúst 2016 lagði ég fram bókun í forsætisnefnd Reykjavíkurborgar vegna þess ákvæðis í núgildandi sveitarstjórnarlögum:

,,Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011

  1. gr. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn.

Í sveitarstjórn skal fjöldi fulltrúa standa á oddatölu. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn skal ákveðinn í samþykkt skv. 9. gr. og skal vera innan þeirra marka sem hér segir:

  1. Þar sem íbúar eru undir 2.000: 5–7 aðalmenn.
  2. Þar sem íbúar eru 2.000–9.999: 7–11 aðalmenn.
  3. Þar sem íbúar eru 10.000–49.999: 11–15 aðalmenn.
  4. Þar sem íbúar eru 50.000–99.999: 15–23 aðalmenn.
  5. Þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri: 23–31 aðalmenn.“

Úr fundargerð forsætisnefndar:

,,Fram fer umræða um fyrirhugaða fjölgun borgarfulltrúa sem tekur gildi árið 2018.
Samþykkt að vísa framkomnum útfærslum forsætisnefndar til rýningar hjá fjármálaskrifstofu. Jafnframt samþykkt að samráðsfundur forsætisnefndar og borgarfulltrúa verði 16. september 2016.

Áheyrnafulltrúi Sjálfstæðisflokks, Halldór Halldórsson, leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að tillögur forsætisnefndar geti nýst sem ágætur grunnur undir umræðu á vettvangi borgarstjórnar um breytingar sem fylgja sveitarstjórnarlögum frá 2011 þar sem kveðið er á um að borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar skuli að lágmarki vera 23 frá og með vori 2018. Minnt er á tillögu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn um áskorun til Alþingis um að endurskoða lagaákvæðið um fjölgun borgarfulltrúa í lögunum þannig að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki. Tillögur um að fækka hverfisráðum þarf að rýna sérstaklega vel og gæta samráðs við hverfisráðin í dag. Mikilvægt er að þær breytingar sem ákveðnar verði að lokum muni auka áhrif og völd hverfa Reykjavíkurborgar en ekki draga úr þeim. Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að verði af fjölgun borgarfulltrúa í 23 eigi að nota tækifærið og binda kosningu ákveðins fjölda borgarfulltrúa við hverfin í borgarstjórnarkosningum í þeim tilgangi að auka áhrif íbúanna á ákvarðanatöku og stytta enn frekar boðleiðir milli kjörinna borgarfulltrúa og íbúanna.“

Hróbjartur kemur inn á þetta í grein sinni og talar um hugsanlegan möguleika þess að kjördæmavæða Reykjavík en það er svipuð hugmynd og ég nefndi í bókun minni sem fékk umfjöllun fjölmiðla um það leyti sem hún var lögð fram og eru hér þrjú dæmi um slíkt sem má lesa við að smella á tenglana.

Útfærsla slíka mála milli landa er mismunandi. Á Norðurlöndunum eru að jafnaði mun fleiri fulltrúar í borgarstjórnum en í Reykjavík en starfið og starfshlutfallið töluvert ólíkt. Kosnir borgarfulltrúar frá ákveðnum hverfum er aðferð sem er þekkt í Bandaríkjunum en þar eykst hlutfall hverfakosinna fulltrúa í hlutfalli við stærð sveitarfélagsins. Samt eru það einungis 14% allra sveitarfélaga í Bandaríkjunum sem nýta þetta kerfi með einhverjum hætti. Eftir því sem sveitarfélagið er stærra eru fleiri hverfakosnir (e. district). Þegar þetta er brotið niður hjá þeim sem nýta sér slíkt kerfi má sjá að í sveitarfélögum með 25.000-70.000 íbúa eru 26% fulltrúa hverfakosnir en þegar íbúar eru 70.000-200.000 er hlutfallið orðið 31% og í sveitarfélögum með fleiri en 200.000 íbúa er þetta hlutfall komið úpp í 45,5%.

Þrátt fyrir tilraunir til að breyta þessu ákvæði sveitarstjórnarlaganna frá 2011 um að lágmarksfjöldi borgarfulltrúa verði 23 frá og með kosningum vorið 2018 hefur Alþingi ekki samþykkt neinar slíkar breytingar. Eins og sjá má í bókun minni í forsætisnefnd viljum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að borgin hafi sjálfdæmi í þessu máli en það sé ekki þvingað ákvæði skv. lögum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur