Þetta er það helsta úr ræðu minni við síðari umræðu ársreiknings. Jú vissulega er þetta einhver lesning en þarna fer ég yfir mikilvæg atriði úr rekstrinum.
Stuttur útdráttur: ,,Þetta, ágætu borgarfulltrúar þýðir einfaldlega að áætlanir samþykktar af meirihluta Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna gera ráð fyrir lögbroti. Reykjavíkurborg er með það innbyggt í sínar áætlanir að reka sveitarfélagið með tapi í fimm ár samfleytt A og B hluta saman án OR. Þetta er brot á sveitarstjórnarlögum sem eru vitanlega meginlöggjöfin um sveitarfélögin í landinu.“
Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2015
síðari umræða
Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Forseti, ágæta borgarstjórn.
Við fyrri umræðu fór ég fyrst og fremst yfir heildarútkomuna með samanburði við fyrri ár.
Núna við síðari umræðu skoða ég einstaka rekstrarliði á borð við þróun stöðugilda sem mikil áhrif hafa á rekstrarkostnaðinn og segja ákveðna sögu um hvort kerfið er að bólgna út eða ekki. Ég ætla líka að tala um rekstrarjöfnuð á þriggja ára tímabili sem fjallað er um í skýrslu endurskoðenda borgarinnar KPMG, þar er mjög alvarlegt mál á ferðinni sem við getum ekki leyft okkur að líta framhjá. Borgin eða öllu heldur meirihluti Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar hefur tekið ákvörðun um að brjóta sveitarstjórnarlög, meginlöggjöfina um rekstur sveitarfélaganna í landinu.
Rekstrarniðurstaða A-hluta, borgarsjóðs, var neikvæð um 13,6 makr. Áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 0,6 makr. Skatttekjur A-hluta voru 69,3 makr eða 0,6 makr yfir áætlun. Aðrar tekjur voru 15,6 makr eða 0,7 makr yfir áætlun. Launakostnaður var 49,2 makr og 1,1 makr yfir áætlun eða sama tala og tekjur hækka um. Við heyrum nefnilega að tekjur hafi ekki fylgt útgjöldum vegna hárra kjarasamninga. Hér fylgist þetta að á árinu 2015 og það verður að segjast að margt bendir til þess að tekjur muni hækka verulega á árinu 2016, ég gerði það að umtalsefni við fyrri umræðu að það ætti ekki að vera hægt að reka borgina með tapi með svona mikla tekjuaukningu. Þá gleymdi ég því að það er ætlun meirihlutans að reka borgina með tapi skv. áætlunum út árið 2017.
Mikil hækkun lífeyrisskuldbindingar skapar þetta mikla tap. En ef við skoðum reksturinn með því sem kallast gæti meðalgjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga, tökum frá þessa miklu sveiflu sem kemur árið 2015 vegna kjarasamninga og hækkunar lífaldurs þá er tapið engu að síður 1,3 makr. Þannig að A-hlutinn, allur reglulegur rekstur borgarinnar fjármagnaður með skatttekjum og þjónustugjöldum upp að vissu marki er ekki að standast áætlun og sýnir mun verri niðurstöðu en áætlanir gerðu ráð fyrir og mun verri niðurstöðu en hægt er að sætta sig við.
Veltufé frá rekstri A-hluta var 5,2 makr eða 5,7% af tekjum A-hluta á árinu 2015 sem var betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í útkomuspá ársins. Þetta var um veltufé frá rekstri. Þetta segir okkur að allar afsakanir vegna reiknaðra stærða fram og til baka hafa ekki svo mikið gildi. Það er ljóst að veltuféð þarf að vera a.m.k. 9% af tekjum en er bara 5,7%. Það þýðir að reksturinn skilar ekki nægum fjármunum til þess að greiða af lánum og borga fjárfestingar. Það þýðir skuldahækkun ár frá ári.
Skuldir A-hlutans aukast vitanlega ár frá ári þegar hallarekstur er viðvarandi. Frá 2013 til 2014 hækka skuldirnar í A-hlutanum úr 62 milljörðum kr. í 64,5 milljarða kr. eða um 2,5 milljarða og svo frá 2014 til 2015 hækka skuldir A-hlutans úr 64,5 milljörðum í 80,7 milljarða kr eða um 16,2 milljarðar kr. á einu ár.
Fjölgun stöðugilda heldur áfram eins og sjá á á þessari yfirlitsmynd. Þetta eru 212 stöðugildi frá 2010 þar af 34 milli áranna 2014 og 2015. Það er kostnaður upp á 1,5 milljarð kr. á ársgrundvelli.
Rekstrarjöfnuður á þriggja ára tímabili er skilgreindur í 64. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þar segir að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna bæði A og B hluta megi ekki vera á þriggja ára tímabili hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Það má ekki reka með tapi í þrjú ár eða lengur.
Í skýrslu KPMG endurskoðenda Reykjavíkurborgar segir þetta: ,,Viðmið um jafnvægi í rekstri eru skilgreind nánar í reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga nr. 502/2012. Reikningsskil Orkuveitu Reykjavíkur eru undanskilin við útreikning á rekstrarjöfnuði í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Rekstrarjöfnuður Reykjavíkurborgar 2013-2015 var neikvæður um 824 m.kr. Gangi fyrirliggjandi áætlanir eftir verður rekstrarjöfnuður A og B hluta sveitarfélagsins neikvæður næstu tvö árin og síðan jákvæður árin þar á eftir.“
Þetta, ágætu borgarfulltrúar þýðir einfaldlega að áætlanir samþykktar af meirihluta Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna gera ráð fyrir lögbroti. Reykjavíkurborg er með það innbyggt í sínar áætlanir að reka sveitarfélagið með tapi í fimm ár samfleytt A og B hluta saman án OR. Þetta er brot á sveitarstjórnarlögum sem eru vitanlega meginlöggjöfin um sveitarfélögin í landinu. Höfuðborgin sem ætti að vera fyrirmyndarsveitarfélagið í öllu er með allt niður um sig í rekstrinum og mun miðað við áætlanir meirihlutans í borginni brjóta sveitarstjórnarlög. Með þeim viðbrögðum að líkindum að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga fer af stað og mun krefja borgina skýringa á því hvað hér sé eiginlega um að vera.
Þetta er háalvarlegt mál kæru borgarfulltrúar, mál sem við getum ekki tekið af neinni léttúð eða gamansemi eða leyft okkur í ræðum hér á eftir að snúa út úr. Þetta er vandræðalegt fyrir meirihluta þeirra fjögurra flokka sem hér ætla að gera allt fyrir alla en gera fátt. Og vandræðagangur þeirra færist yfir á okkur í minnihlutanum því vitanlega talar fólk um borgarstjórn í heild sinni. En það sem verst er er það að þetta bitnar fyrst og síðast á borgarbúum sem munu sjá á eftir sífellt meiri fjármunum af sínum launatekjum til að redda fjárhag borgarinnar sem eykur skuldir sínar ár frá ári eins og við höfum séð með svo myndrænum hætti hér.
Mig langar að ítreka það sem ég nefndi við fyrri umræðu að starfsfólk okkar vinnur góð störf út um alla borg. Það er svo sannarlega ástæða til að þakka okkar góða starfsfólki sem heldur borgarrekstrinum gangandi. Það er á ábyrgð okkar kjörinna fulltrúa og þá fyrst og fremst þeirra sem ákváðu að mynda meirihluta að sjá til þess að reksturinn sé innan eðlilegra marka. Það er hann ekki.
Svona er þetta ágæta borgarstjórn. Ólíkt hafast stjórnendur að hjá Reykjavíkurborg og ríki. Borgin í taprekstri meðan tekjur hækka en ríkið í niðurgreiðslu skulda og að lækka skatta. Það er t.d. að koma lækkun á tryggingagjaldi sem mun lækka útgjöld sveitarfélag um 800 m.kr. á ársgrundvelli. Borgin er um 40% af því. Það munar um slíkt og undirstrikar að skattalækkanir eru mikilvægar.
Það eru tvö ár til kosninga þannig að líklegt er að borgarbúar þurfi að herða sultarólina áfram og þrauka fram á vorið 2018 og kjósa þá sem geta tekið á þessum rekstrarmálum Reykjavíkurborgar, þjónustu og öðrum þáttum sem hafa hreinlega drabbast niður í tíð þessa fjögurra flokka meirihluta.