Föstudagur 17.12.2010 - 13:33 - 3 ummæli

Sólheimar og sveitarstjórnabastarðurinn

Sólheimar eru ekki í Árborg. Sólheimar eru í Grímsnes- og Grafningshreppi. Samt er stjórn Sólheima skikkuð til að semja um framtíðarrekstur við Sveitarfélagið Árborg!
 
Hvað veldur?
 
Jú, Árborg er stærsta sveitarfélagið í nýjum sveitarstjórnarbastarði sem komið hefur verið á fót vegna þeirrar einföldu staðreyndar að stærsti hluti minni sveitarfélaga á Íslandi hefur enga burði til að taka við málefnum fatlaðra.
 
Á Suðurlandi hafa 13 sveitarstjórnir sem reka 5 félagsþjónustur sem skipa félagsþjónusturáð sem taka mun við málefnum fatlaðra á svæðinu, þar með talið þjónustu við Sólheima.
 
Einföldun?
 
Ætli það.
 
Þessi sveitarstjórnarbastarður er vísir af þriðja stjórnýslustiginu á Íslandi – en er það samt ekki!
 
Ég er mikill talsmaður þess að færa þjónustu við fatlaða til sveitarfélaganna þar sem það er unnt. Enda stóð ég sjálfur að því að reynslusveitarfélagið Hornafjörður tæki að sér þjónustu við fatlaða í sveitarfélaginu þegar ég gegndi starfi félagsmálastjóra þar. Þar voru málefni fatlaðra samþætt annarri félags, heilbrigðis og skólaþjónustu í sveitarfélaginu.
 
En það er galið að hafa þrjú stjórnsýslustig á Íslandi. Hvort sem um er að ræða sveitarstjórnarbastarðar eins og sveitarfélögin hafa verið að setja upp til að taka við málefnum fatlaðra – eða fullgilt þriðja stjórnsýslustigið.
 
Leiðin er önnur og betri.
 
Það þarf því færa völd, verkefni og skatttekjur á lýðræðislegan hátt heim í héruðin og nær fólkinu. Líka nær fólkinu í borgríkinu á suðvesturhorninu. Borgríkið á höfuðborgarsvæðinu er nefnilega hérað í sjálfu sér.
 
Því eigum við að leggja niður núverandi sveitarfélög og setja þess í stað á fót nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi 6 – 8 öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsþinga og héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga hver í sínu héraði.
 
Þar með talið þjónustu við fatlaðra.
 
Ekki gleyma að höfuðborgarsvæðið yrði hérað með sitt héraðsþing og með aukið vægi gagnvart ríkisvaldinu og Alþingi.
 
Hinar nýju lýðræðislegu héraðsstjórnir eiga að sjái um stærsta hluta skattheimtunnar, ráðstafi henni til verkefna heima fyrir á grundvelli ákvarðanna héraðsþinga, en greiði eins konar útsvar til ríkisins til reksturs þess.
 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.12.2010 - 18:42 - Rita ummæli

Munið Herópið fyrir jólin!

Hjálpræðisherinn er einn þeirra samtaka sem vinnur mikið og óeigingjarnt starf fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu. Það eru margir sem leita til Hersins um jól og borða þar jólamáltíðina.

Þá rekur Hjálpræðisherinn dagsetur fyrir útigangsfólk út á Granda sem hefur skipt sköpum í lífsgæðum útigangsfólks í Reykjavík.

Þetta kostar allt peninga þótt mest af starfinu sé unnið í sjálfboðavinnu.

Blaðið Herópið er ein fjáröflun Hjálpræðishersins.

Munum að kaupa Jólaherópið!

Það verður væntanlega til sölu í miðbænum og í verslunarmiðstöðvunum næstu daga og fram að jólum  – þegar við þeytumst um og undirbúum  jólahátíðarnar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.12.2010 - 19:43 - 1 ummæli

ÍLS hagnast um 15 milljarða

Íbúðalánasjóður  hefur hagnast um 10 til 15 milljarða á því að hafa fjárfest tugmilljarða uppgreiðslur lána 2004 og 2005 í þegar lánuðum fasteignalánasöfnum Landsbankans og sparisjóðanna í stað þess að leggja féð inn í Seðlabankann eins og sumir snillingar í stjórnmálastétt töldu rétt að gera á sínum tíma.

Þessari staðreynd hefur lítt verið haldið á lofti í sérkennilegri umræðu um Íbúðalánasjóð að undanförnu.  Þvert á móti hafa sumir gagnrýnt Íbúðalánasjóð fyrir að hafa beitt þessari vel heppnuðu fjárstýringu á tímabilinu desember 2004 og fyrstu mánuði ársins 2005  og þannig bjargað sjóðnum frá gjaldþroti í kjölfar áhlaups Kaupþings og annarra banka á sjóðinn.

Þannig finnast enn „sérfræðingar“ sem halda því fram að Íbúðalánasjóður hefði átt að leggja þessa peninga inn í Seðlabankann.

Það er reyndar undarlegt að sumir þessara „sérfræðinga“ skulu vera hagfræðimenntaðir, jafnvel háskólakennarar og alþingismenn!

Þessir sömu aðiljar reyna að blekkja alþjóð – annað hvort vísvitandi eða vegna vanþekkingar – með því að gefa í skyn að peningar sem lagðir séu inn í Seðlabankann sitji þar fastir þegar hið rétt er að fjármagnið fer strax út á millibankamarkað þar sem bankakerfið getur tekið það að láni.

Þannig skipti það engu máli efnahagslega á sínum tíma hvort peningarnir hefðu verið lagðir inn í Seðlabankann og þeir færðir þaðan inn í bankakerfið eða hvort peningarnir fóru beint inn í bankakerfið með kaupum Íbúðalánasjóðs á þegar lánuðum, verðtryggðum, fasteignatryggðum langtímalánum bankanna. Hins vegar hefði það kostað Íbúðalánasjóð 10 til 15 milljarða tap að leggja fjármunina inn í Seðlabankann.

Mér þykir hlutunum snúið á hvolf þegar gagnrýna á Íbúðalánasjóð fyrir góða fjárstýringu!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.12.2010 - 08:43 - 2 ummæli

Tannálfa í grunnskólana!

Það vantar tannálfa í grunnskólann. Tannheilsu barnanna okkar hefur hrakað verulega á undanförnum árum. Við erum að upplifa það sama og ljósálfarnir í álfheimum í hinu frábæra barnaleikriti Benedikt búálfur. Þegar Tóti tannálfur var numinn á brott af svartálfum, þá fengu ljósálfarnir tannpínu.

Þegar ég var í grunnskóla þá var tannálfur í skólanum í gervi skólatannlæknis. Skólatannlæknirinn fylgdist með tannheilsu barnanna og gerði við tennurnar þegar þess þurfti.  Fyrir allmörgum árum var þessi tannálfur numinn á brott með kerfisbreytingum. Afleiðingarnar eru þær sömu í grunnskólanum og í álfheimum. Tannpína og verri tannheilsa barnanna okkar.

Það voru og eru góð og gild rök fyrir því að ríkisvaldið sjái ekki um tannviðgerðir í grunnskólanum með ríkisreknum tannlækni, heldur sjái tannlæknar hverrar fjölskyldu fyrir sig um eftirlit og tannviðgerðir skólabarna. Enda gert ráð fyrir að Tryggingastofnun taki þátt í þeim kostnaði.

Hins vegar er staðreyndin sú að við foreldrarnir höfum brugðist börnunum okkar með því að trassa að tryggja reglubundið tanneftirlit. Ekki hvað síst eftir að efnahagslífið hrundi, dýrtíð jókst og skattpíning fór upp úr öllu valdi.

Mánuðirnir og árin fjúka hjá og það gleymist að panta tannlæknatíma fyrir börnin þar til allir vakna upp við vondan draum – og slæma tannpínu og tannheilsu. Þá er rokið af stað, en skaðinn skeður.

Þótt ég sé ekki mikið fyrir forræðishyggju þá held ég að þegar um tannheilsu barnanna okkar er að ræða – þá verðum við að breyta um takt. 

Við eigum að fá tannálfa í formi tannfræðinga eða tannlækna inn í grunnskólana til að sjá um tanneftirlit og tannfræðslu. Slíkir tannálfar ættu að skoða öll grunnskólabörn reglubundið – og ef Karíus og Baktus eru að láta á sér kræla – þá vísi tannálfurinn í skólanum börnunum til fjölskyldutannlæknisins sem sjái um að fylla í holurnar þeirra og skola þeim félögum á haf út.

Og að sjálfsögðu á að greiða tannlækningar – og tannréttingar á börnum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Þrátt fyrir erfiða stöðu ríkissjóðs. Tannvernd barna er fjárfesting til framtíðar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.12.2010 - 15:26 - 11 ummæli

Íslenskur landbúnaður umhverfismál í ESB

Íslenskt lambakjöt selst nú sem aldrei áður í útlöndum og það á afar góðu verði. Markaður í Evrópusambandinu fyrir íslenskt lambakjöt er miklu stærri en Íslendingar fá að anna. Ástæðan eru tæknilegar viðskiptahindranir Evópusambandsins í formi takmarkaðra innflutningskvóta fyrir íslenskt lambakjöt.
 
Vonandi mun Evrópusambandið auka verulega við innflutningskvóta Íslendinga á næstunni. En framtíðarlausnin er hins vegar algjört afnám tollaverndarinnar þegar Ísland gengur í Evrópusambandið.
 
Stóraukin sala á íslensku lambakjöti til útlanda að undanförnu styður það sem ég hef lengi haldið fram. Innganga Íslands í Evrópusambandið mun styrkja hefðbundinn íslenskan landbúnað.
 
Sauðfjárræktin mun blómstra sem aldrei fyrr og hin einstaka íslenska mjólk mun flæða í formi skyrs, smjörs og annarra mjólkurafurða inn á hinn stóra neytendamarkað sem lönd Evrópusambandsins er. Það eru nefnilega nægilega margir Evrópubúar sem vilja og geta keypt hágæða landbúnaðarvöru á háu verði.
 
Það eina sem þarf að tryggja er að hefðbundinn íslenskur landbúnaður haldist áfram sem hefðbundinn íslenskur landbúnaður. Þó með þeirri breytingu að íslenskir bændur geti lifað sómasamlegu lífi í stað þess hokurs og fátæktargildru sem íslensk stjórnvöld hafa skapað þeim á undanförnum árum.
 
Það er tiltölulega einföld leið að tryggja það í aðildarsamningum við Evrópusambandið. Við göngum frá samningum um íslenskan landbúnað á grundvelli umhverfismála en ekki á grundvelli landbúnaðarmála.
 
Við eigum að fara fram á að Evrópusambandið viðurkenni íslensku sauðkindina og íslenska kúastofninn sem einstaka dýrastofna – sem þeir eru – og á grundvelli þess að tryggja lífræna fjölbreytni og vernd dýrategunda – þá verði sú sérstaða íslenskra húsdýrastofna viðurkennd.
 
Leiðin til þess að viðhalda þeirri fjölbreytni er annars vegar að koma í veg fyrir innflutning nýrra fjárstofna og kúastofna og fá það viðurkennt að til þess við getum verndað íslensku sauðkindina, íslensku kúnna og ef út í það er farið íslenska hestinn og íslensku geitina, þá verði að tryggja áframhaldandi rekstur hefðbundins íslensks landbúnaðar í íslenskum byggðum. Fjölbreytileikanum verði ekki viðhaldið í genabönkum og húsdýragörðum.
 
Með slíkri vernd íslensks landbúnaðar er framtíð landbúnaðarins tryggð – enda eru neytendamarkaðir Evrópusambandsins nægilega stórir til að koma úrvals, hágæða landbúnaðarvöru íslenskri í verð á verði sem er að minnsta kosti sambærilegt við það verð sem við greiðum fyrir landbúnaðarvörurnar í dag.
 
 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.12.2010 - 17:02 - 10 ummæli

Handvömm rannsóknarnefndar Alþingis

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis vegna Hrunsins er eitt allra merkasta plagg síðari tíma Íslandssögunnar. Rannsóknarnefndin vann ótrúlega gott og yfirgripsmikið starf.  Hins vegar er sá ljóður á annars merkri skýrslu sú handvömm rannsóknarnefndarinn að rannsaka ekki sjálfstætt Íbúðalánasjóð og aðgerðir sjóðsins á árunum 2003 – 2008.
 
Rannsóknarnefndinn féll í þá gryfju að taka upp gagnrýnilaust upplifun og hæpin framburð hagfræðings í Seðlabankanum um samskipti hans við ráðherra og Íbúðalánasjóð – án þess að bera framburðinn undir þá sem að málinu komu – hvað þá að kanna tölfræðilegar staðreyndir.
 
Þessi handvömm rannsóknarnefndarinnar er sérstaklega alvarleg í ljósi þess að Seðlabankinn – og fyrrgreindur hagfræðingur – gerðu alvarleg og afdrifarík mistök í hagsstjórninni á árunum 2003 og 2004 – og að Seðlabankinn var gersamlega ráðalaus þegar bankakerfið gerði hreina og klára atlögu við efnahagslífið með óheftum lánveitingum á niðurgreiddum vöxtum haustið 2004.
 
Vegna þessarar handvammar rannsóknarnefndar Alþingis og nánast órökstuddar, rangar ályktanir um Íbúðalánasjóð ákvað stjórn Íbúðalánasjóðs að láta vinna greinargerð um málið.
 
Ég tek mér það bessaleyfi að birta samantekt þeirrar skýrslu Íbúðalánasjóðs – og minni á að fram til þessa hefur enginn véfengt niðurstöðu skýrslunnar – sem er í höndum allra Alþingismanna og tuga fjölmiðlamanna.
 
Samantekt skýrslunnar er á bls. 4 – 5.  Slóðin á skýrsluna er hér.
 
„Áhrif breytinga á úlánafyrirkomulag Íbúðalánasjóðs árið 2004 eru stórlega ofmetin í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Innleiðing 90% lána og hófleg hækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs er ekki sá áhrifavaldur á þróun fasteignaverðs til verulegrar hækkunar og þenslu í íslensku efnahagslífi sem haldið er fram í skýrslunni.
 
Á sama hátt eru áhrif skyndilegrar og kröftugrar innkomu bankakerfisins í ágústmánuði 2004 inn á íbúðalánamarkaðinn stórlega vanmetin. Bankarnir innleiddu á einni nóttu nánast óheft 80% – 100% íbúðalán og á fjórum síðustu mánuðum ársins 2004 veittu bankarnir ný íbúðalán að fjárhæð samtals rúmlega 115 milljörðum króna.
 
Rannsóknarnefnd Alþings vegna efnahagshrunsins gagnrýnir í skýrslu sinni stjórnvöld fyrir þær breytingar sem gerðar voru á útlánum Íbúðalánasjóðs árið 2004. Nefndin átelur meint aðgerðarleysi stjórnvalda og telur að stjórnvöld hafi ekki sinnt aðvörunum um möguleg efnahagsleg áhrif aðgerðanna og telur að breytingarnar hafi leitt til stórhækkaðs fasteignaverðs og aukið á þenslu.
 
Gagnstætt því sem haldið er fram í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis var brugðist við ábendingum um þensluáhrif breytinga á hámarkslánshlutfalli og hámarkslánum Íbúðalánsjóð, enda alla tíð lögð áhersla á að svokölluð 90% lán ógnuðu ekki efnislegum stöðugleika.
 
Áætlanir stjórnvalda um hóflega innleiðingu hækkunar hámarkslána og lánshlutfalls í áföngum þar sem meginþungi innleiðingarinnar skyldi verða í kjölfar stóriðjuframkvæmda urðu að engu þegar bankarnir hófu í ágúst 2004 að lána íbúðalán á áður óþekktum kjörum, án hámarks eða annarra takmarkandi skilyrða og fyrir allt að 100% af markaðsvirði eigna.
 
Eftir innkomu bankanna og þá gegndarlausu hækkun á fasteignaverði sem kom í kjölfarið og það áður en almenn 90% lán Íbúðalánasjóðs voru heimiluð, hafði það enga efnahagslega þýðingu að heimila ekki hóflega hækkun á hámarksláni og bíða með innleiðingu 90% lána til ársins 2007.
 
Hækkun á fasteignaverði og mikil þensla á fasteignamarkaði var fyrst og fremst tilkomin vegna óheftra íbúðalána bankakerfisins. Íbúðalán Íbúðalánasjóðs höfðu þar takmörkuð áhrif þar sem íbúakaupendur höfðu aðgang að ótakmörkuðum íbúðalánum bankanna án hámarkslánsfjárhæðar eða annarra takmarkandi skilyrða á svipuðum vöxtum og með mun hærra lánshlutfalli en Íbúðalánasjóður bauð.
 
Hækkun hámarksláns Íbúðalánasjóðs úr 9,7 milljónum í upphafi árs 2004 í 11,5 milljónir í október og síðan í 15,4 milljónir í desember 2004 þegar heimild til almennra 90% lána Íbúðalánasjóðs fékkst skipti því litlu máli efnahagslega séð.
 
Íslenskir bankar höfðu nánast ekki verið sýnilegir á íslenskum íbúðalánamarkaði fyrr en í lok ágústmánaðar 2004. Í ágúst 2004 veittu bankarnir 9 íbúðalán samtals að fjárhæð tæplega 90 milljónir króna.
 
Tímabilið september til desember 2004 áður en Íbúðalánasjóði var heimilað að veita almenn 90% lán voru mánaðarleg útlán bankanna að meðaltali um 30 milljarðar króna og urðu alls 115,5 milljarðar frá ágústmánuði fram að áramótum. Þetta leiddi til stórhækkaðs fasteignaverðs á þessu tímabili og óhóflegrar þenslu á fasteignamarkaði og í efnahagslífinu.
 
 Markaðshlutdeild nýrra íbúðalána bankanna gagnvart Íbúðalánasjóði fór úr 2% í ágúst 2004 í 77% í september og um 88% í október og nóvember.
 
Á sama tíma drógust heildarútlán Íbúðalánasjóðs saman um 38,3 milljarða og samtals um 80 milljarða ári eftir innkomu bankanna og höfðu lækkað um rúma 100 milljarða þegar heildarútlán Íbúðalánasjóðs hættu að lækka á vormánuðum 2006.
 
Sökin á þenslu á fasteignamarkaði liggur því nánast alfarið í innkomu bankanna á íbúðalánamarkað en ekki í útlánum Íbúðalánasjóði eins og má skilja af skýrslu rannsóknarefndar Alþingis.
 
Raunvextir á almennum íbúðalánum hafa frá upphafi húsbréfakerfisins verið ákvarðaðir á markaði en ekki með ákvörðunum stjórnvalda. Það er því misskilningur að Íbúðalánasjóður hafi lækkað raunvexti við breytingu á útlánum Íbúðalánasjóðs úr húsbréfakerfi í peningalán.
 
Ferli vaxtalækkunar á íbúðalánum hófst síðari hluta árs 2001 löngu áður en ákvarðanir stjórnvalda um breytingar á fyrirkomulagi útlána voru teknar. Vaxtalækkanir á lánum Íbúðalánasjóðs árið 2004 og 2005 hefðu orðið verulegar þótt húsbréfakerfið hefði ekki verið lagt niður. Stjórnvöld gátu á engan hátt komið í veg fyrir slíkar vaxtalækkanir með sértækum aðgerðum þar sem raunvextirnir ákvörðuðust á markaði hvort sem um var að ræða húsbréfakerfið eða hin nýju peningalán Íbúðalánasjóðs.
 
Við breytingu á útlánum Íbúðalánasjóðs 1. júlí 2004 þegar húsbréfakerfið og viðbótalánakerfið var aflagt féll hlutfall 90% lána Íbúðalánasjóðs úr 48% af fjölda lána fyrri part ársins í 16% af fjölda lána síðari hluta ársins. Það var því veruleg fækkun á 90% lánum á því tímabili sem fasteignaverð tók stökk í kjölfar innkomu bankanna á íbúðalánamarkað.
 
Íbúðalánasjóði var veitt heimild til almennra 90% lána 6. desember 2004. Þá höfðu bankarnir verið í rúma 3 mánuði á íbúðalánamarkaðim, lánað um 90 milljarða og höfðu náð 88% markaðshlutdeild gagnvart Íbúðalánasjóði í nýjum útlánum.
 
Þótt Íbúðalánasjóður hefði fengið heimild til 90% lána í desember 2004 þá lánaði sjóðurinn einungis 40 eiginleg almenn 90% lán á höfuðborgarsvæði allt árið 2005. Ljóst er því að 90% lán Íbúðalánasjóðs ollu ekki verðhækkunum á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu árið 2005.
 
Það er því ekki unnt að kenna almennum 90% íbúðalánum Íbúðalánasjóðs um hækkun fasteignaverðs og þenslu í efnahagslífinu.“ 
 
 
 
 
  

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.12.2010 - 20:02 - 6 ummæli

Rannsökum illa gjaldþrota Seðlabanka!

Ef menn vilja fá fram sannleikann í orsökum hruns efnahagslífsins á Íslandi þá er nauðsynlegt að gera ásamt öðru óháða úttekt á starfsemi Seðlabankans sem varð tæknilega gjaldþrota sem nemur um 270 milljörðum króna í kjölfar hrunsins. Já, í kjölfar hruns sem Seðlabankinn á miklu meiri sök á enn almenningur gerir sér grein fyrir.

Það er sérkennilegt að Allsherjarnefnd Alþingis hafi ekki lagt til slíka rannsókn á gjaldþrota Seðlabanka í ljósi þess að allsherjarnefnd Alþingis hefur lagt til við þingið að fram fari óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs – sem er eina alvöru fjármálastofnun landsins sem stóð af sér hrunið og er um þessar mundir með rúma 8 milljarða í eigið fé.

Að sjálfsögðu á að rannsaka starfsemi Íbúðalánasjóð sem útrásarvíkingarnir og fyrrum eigendur bankanna hafa – án rökstuðnings – sakað um að hafa verið stór áhrifavaldur í aðdraganda hrunsins.

Það er eina leiðin til hrekja órökstuddar dylgjur í garð sjóðsins.

Reyndar tóku viðhlægjendur útrásarvíkinganna og bankastjóranna í fjölmiðlum lengi vel undir þennan órökstudda söng – en látum það vera. Sannleikurinn mun væntanlega koma í ljós í kjölfar óháðrar rannsóknar á Íbúðalánasjóði.

Það er athyglisvert að einn helsti talsmaður slíkrar rannsóknar á Íbúðalánasjóði hefur verið Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur og núverandi alþingismaður sem á sínum tíma sat í stjórn Seðlabankans og var að líkindum valin framarlega á lista Samfylkingarinnar einmitt vegna þess að hún tók ábyrgð á gjörðum sínum og mistökum og sagði sig úr stjórn Seðlabankans í kjölfar hrunsins.  

Ég sakna þess að Sigríður Ingibjörg skuli ekki hafa einnig farið fram á óháða rannsókn á hlut Seðlabankans í hruninu, því hún veit ósköp vel sem fyrrum meðlimur í stjórn Seðlabankans að Seðlabankinn lék lykilhlutverk í þeim mistökum sem gerð voru í hagstjórn íslenska ríkisins frá árinu 2003 þegar bankinn lækkaði bindiskyldu þá nýlega einkavæddu íslensku bankanna á versta tíma í hagsveiflunni og jók útlánagetu bankakerfisins um tugi milljarða á einn i nóttu.

Útlánagetu sem bankarnir nýttu sér haustið 2004 með því að  dælda út nýjum ófjármögnuðum íbúðalánum á lágum vöxtum svo nam hundruðum milljarða króna með þeim afleiðingum að fasteignaverð hækkaði um tugi prósenta, verðbólga rauk upp og grunnur var lagður að algeru hruni íslensks efnahagslífs.

Það er náttúrlega hjákátlegt ef Ingibjörg Sigríður sem barist hefur fyrir óháðri úttekt á Íbúðalánasjóði – sem ég er henni sammála um að eigi að gera – berjist ekki fyrir sambærilegri úttekt á einum helsta sökudólgi hrunsins – Seðlabanka Íslands.

Ég þekki Sigríði Ingibjörgu  og heiðarleika hennar það vel eftir áratugakynni að ástæða þess er ekki sú að hún vilji verja Seðlabankann og hafi eitthvað að fela sem fyrrverandi stjórnarmaður í stjórn Seðlabankans – heldur er ástæðan einfaldlega sú að hún sem formaður þeirrar þingnefndar sem Íbúðalánasjóður heyrir undir – hefur fyrst og fremst verið að hugsa um Íbúðalánasjóð sem ekki varð gjaldþrota eins og bankarnir og Seðlabankinn  – en ekki bankanna og Seðlabankann.

En ef hún ætlar að vera sjálfri sér samkvæm – þá mun hún óska eftir óháðri rannsókn í illa gjaldþrota Seðlabanka Íslands strax eftir helgi!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.12.2010 - 20:32 - 18 ummæli

Fyrirgefum Steingrími J. og Jóhönnu mistök þeirra í IceSave!

Nú þegar hörð andstaða við nauðungarsamninga um IceSave hefur skilað íslensku þjóðinni hundruð milljarða sparnað og endurheimt stöðu Íslands sem ríki er gengur til viðræðna við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli, þá er hart veist að Steingrími J. og Jóhönnu fyrir þeirra mistök í IceSave málinu.
 
Mér finnst reyndar sumir ganga of hart að þeim Steingrími J. og Jóhönnu.
 
Vissulega höfðu þau rangt fyrir sér þegar þau vildu keyra óásættanlega „samninga“ um IceSave í gegnum þingið.
 
En það er ekkert sem bendir til annars en að sú staðfasta trú þeirra um að þau væru að gera rétt hafi einmitt verið þeirra staðfasta trú! Þau töldu sig vera að gera það sem best væri fyrir land og þjóð.
 
Vissulega höfðu þau rangt fyrir sér. En það réttlætir ekki þá harkalegu aðför sem sumir vilja gera að þeim nú þegar ásættanlegur samningur virðist liggja fyrir.
 
Stjórnmálamenn verða að hafa svigrúm til þess að hafa rangt fyrir sér á stundum svo fremi sem afstaða þeirra byggir á heiðarleika. Ég held að það hafi verið í tilfelli Steingríms J. og Jóhönnu gagnvart IceSave.
 
En á sama hátt ber okkur að viðurkenna að þeir sem stóðu vaktina og sköpuðu grunn að hundruð milljarða sparnaði fyrir íslenska þjóð með staðfastri andstöðu sinni njóti sannmælis. Óháð því sem okkur finnst um pólitískar skoðanir þeirra.
 
Í þessu máli standa tveir menn upp úr fyrir staðfestu sína. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins – míns gamla flokks – og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands – og reyndar einnig fyrrverandi Framsóknarmaður eins og ég!
 
Það að viðurkenna þeirra hlut rýrir ekki stöðu Steingríms J. og Jóhönnu. Þau töldu sig vera að gera rétt. Það skiptir máli.
 
Hættum því að velta okkur upp í aðdragandanum að öðru leiti en því að viðurkenna þátt þeirra sem komu okkur á þann mikilvæga grunn sem við stöndum á í dag.
 
Tökum saman höndum þvert á hina daglegu pólitík. Byggjum á því tækifæri sem farsæl lausn IceSave gefur okkur.
 
Byggjum upp nýtt, farsælt Ísland saman.
 
 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.12.2010 - 10:42 - 6 ummæli

Opið bréf til Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur Alþingismanns

Kæra Sigríður Ingibjörg.
 
Ég var afar hissa á ýmsu sem fram kom í grein þinni í Fréttablaðinu í dag.
 
Ekki það að ég geri athugasemdir við þínar pólitísku og persónulegu skoðanir. En í ljósi þeirra upplýsinga sem þú hefur undir höndum þá hefði ég talið að þú, Alþingismaðurinn og hagfræðingurinn, sæjir sóma þinn í að gæta jafnvægis í yfirlýsingum sem í besta falli eru hæpnar.
 
Ég er sammála þér þegar þú segir: „Það er mikilvægt að rífa umræður um Íbúðalánasjóð upp úr gömlum hjólförum.“
 
Vandamálið er að í grein þinni ertu einmitt að spóla enn dýpra í gömlu hjólförin.
 
Þú segir meðal annars: „… í rannsóknarskýrslu Alþingis eru breytingar á húsnæðislánakerfinu árið 2003 taldar ein af stærstu hagstjórnarmistökum síðari ára.“
 
Það er rétt að þetta kom fram í rannsóknarskýrslunni.
En hefði ekki verið heiðarlega að halda því einnig til haga að þessi staðhæfing í rannsóknarskýrslunni hafi verið hrakin lið fyrir lið með tölulegum staðreyndum og skýrum tímalínum í greinargerðinni:  

Þú og aðrir Alþingismenn hafið þessa greinargerð undir höndum.

Hingað til hefur EKKERT atriði í framangreindri greinargerð verið véfengt né hrakið. Hvorki af Alþingismönnum, né af þeim tugum fjölmiðlamanna sem einnig hafa fengið þessa greinargerð í hendur.

Niðurstaða greinargerðarinnar – sem studd er ítarlegum tölulegum staðreyndum – er eftirfarandi:

„Það er niðurstaða þessarar skýrslu að rannsóknarnefnd Alþingis hafi ekki kannað nægilega undirbúning og skipulag ákvarðana um breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs sem áttu að taka gildi á árunum 2004 til 2007.

Allur undirbúningur ákvörðunartöku vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á opinbera húsnæðislánakerfinu miðuðu markvisst að því að valda eins litlum efnahagslegum áhrifum og nokkur kostur var og allt kapp var lagt á að vanda undirbúning og feril þessara breytinga.

Skýrslan sýnir að það voru róttækar breytingar á útlánareglum viðskiptabankanna sem settu þessar fyrirætlanir í uppnám og voru meginorsök víðtækrar hækkunar fasteignaverðs og þenslu efnahagslífsins sem stjórnvöld höfðu engin tök á að bregðast við.

Þær breytingar sem stjórnvöld gerðu á opinbera húsnæðiskerfinu í kjölfar þessa höfðu hverfandi áhrif á þróun efnahagsmála.

Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis um að þær breytingar sem gerðar voru á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 hafi verið með stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda að falli bankanna stenst því ekki gaumgæfilega skoðun.“

Enn og aftur. Ekkert hefur komið fram eftir birtingu greinargerðarinnar sem hrekur þessa niðurstöðu.

Ekkert.

Þá undrast ég að þú leyfir þér að setja eftirfarandi fram í opinberri grein:

„Alþingi hefur nú samþykkt að ríkissjóður geti lagt Íbúðalánasjóði til 33 milljarða og fyrir liggur að leggja þarf sjóðnum til aukið fjármagn á næsta ári. Þessi framlög eru ekki beinlínis heilbrigðisvottorð um starfsemi sjóðsins.“ (leturbreyting HM)

Þú veist það jafn vel og ég að 18 milljarðar af þessum 33 eru vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um nokkuð almenna niðurfærslu íbúðalána í 110%. Ef ríkisstjórnin hefði ekki ákveðið að fara í þá niðurfærslu, þá hefði ekki verið þörf á þessum 18 milljörðum. Það hefur bara ekkert með starfsemi Íbúðalánasjóðs fram að þessi að gera.

Þá veistu jafn vel og ég að ríkissjóður hefði alls ekki þurft að leggja þá 15 milljarða sem út af standa inn í Íbúðalánasjóð til viðbótar þeim rúmu 8 milljörðum sem eigið fé Íbúðalánasjóðs stendur í. Þvert á móti.

Þá hafa þingmenn – og þar á meðal þú – átt í miklum erfiðleikum með að rökstyðja þessa þörf. Vísa bara á samkomulag við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

Staðreynd málsins er nefnilega sú að Íbúðalánasjóður er eina stóra fjármálastofnunin sem hélt velli í hruninu. Seðlabankinn varð meira að segja tæknilega gjaldþrota.

Þannig að ég get ekki skilið þessa setningu þína nema sem ósæmilegar dylgjur í garð starfsfólks Íbúðalánasjóðs.

Ég bíð reyndar enn eftir svari frá þér við eftirfarandi tölvupósti sem ég sendi þér á dögunum:

„Heil og sæl.

Nú þegar ekki hafa einu sinni verið færð rök fyrir því af hverju Íbúðalánasjóður þarf 33 milljarðar fjárframlag frá ríkinu – sýnist reyndar að 18 milljarðar séu ætlaðir vegna ákvörðunar ríkisvaldsins um niðurfærslu lána í 110% – sem byggir á þeirri sjálfstæðu ákvörðun til að létta með fjölskyldunum í landinu en ekki eiginlegri þörf sjóðsins vegna reksturs hans fram að þessu – hvað hefur þú fyrir þér í því þegar þú „óttast að fjárþörfin sé meiri?

Ég er búinn að fara fram og til baka yfir gögn Íbúðalánasjóðs og stöðu hans – og hvernig sem ég sný hlutunum þá finn ég engin rök fyrir því.

Það er því að þínum mati greinilega eitthvað sem mér yfirsést.

Getur þú bent mér á hvað það gæti verið?

Hverjar eru forsendur þínar fyrir að sjóðurinn þurfi í fyrsta lagi 33 milljarðar – í öðru lagi ennþá meira?

Kveðja

Hallur Magnússon

Ég er hins vegar sammála þér í nauðsyn þess að gera óháða rannsókn á starfsemi sjóðsins í aðdraganda hrunsins.

Það er eina leiðin til að eyða ranghugmyndum og dylgjum um Íbúðalánasjóð og meintan hlut hans í fasteignabólunni og aðdraganda hrunsins, ranghugmyndum sem rötuðu meira að segja gagnrýnilaust inn í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Vænti þess að skýrslan góða „Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004. Greinargerð vegna Rannsóknarskýrslu Alþingis“ og rannsókn sem Ríkisendurskoðunar gerði á fjárstýringu Íbúðalánasjóðs árið 2006 verði mikilvæg gögn í þeirri óháðu rannsókn.

En til að enda þetta á jákvæðu nótunum, þá er ég þér innilega sammála þegar þú segir að:

„…okkar bíður það verkefni að skapa fjölbreyttari kosti í húsnæðismálum og endurskoða þjónustuhlutverk Íbúðarlánasjóðs í samræmi við það.“
  
 
 
 
 
 
 

 

Með vinsemd og virðingu,

Hallur Magnússon

PS.  langar að benda þér á nokkra pistla sem ég hef skrifað um þetta að undanförnu:

Af hverju stóð ÍLS af sér hrunið?

Sóknarfæri í ríkisstjórnartillögunum

15 milljarðar í Íbúðalánasjóð „af því bara“!

„Félagslegir“ vextir bara 0,08% lægri!

 

Óþarfa 33 milljarðar til Íbúðalánasjóðs?

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.12.2010 - 17:19 - 5 ummæli

Stórmenni undir dulnefni

Einn fylgifiskur hins dýrmæta málfrelsis okkar sem hefur náð nýjum víddum með tilkomu bloggsins og athugasemdakerfa þeim tengdum eru stórmenni sem tjá sig hægri vinstri í athugasemdadálkum bloggheima. Stundum er um að ræða málefnalegar athugasemdir og umræður nafnleysingjanna, en oftar standa þessi nafnlausu stórmenni fyrir órökstuddum dylgjum, skítkasti og rógi.

Sumir bloggarar hafa kosið að loka athugasemdakerfum sínum eftir að hafa orðið fyrir aðkasti þessara nafnlausu stórmenna sem ekki hafa dug í sér að standa fyrir máli sínu undir eigin nafni.

Ég held það sé engin þörf á því. Lesendur eru yfirleitt það vel gefnir að þeir sjá í gegnum skrif þessara nafnlausu stórmenna. Sérstaklega ef óskað er eftir rökstuðningi fyrir dylgjunum, rökstuðning sem hin nafnlausu stórmenni geta undantekningalítið ekki fært fyrir máli sínu.

Það er of stór fórn málfrelsis að gefa ekki kost á málefnalegri umræðu í athugasemdakerfum bloggsins. Því það er hin málefnalega umræða sem er undirstaða þess lýðræðissamfélags sem við viljum búa í.

Hin nafnlausu stórmenni eru óværa sem við verðum bara að lifa með. Fyrir hið dýrmæta málfrelsi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur