Flokkar: Óflokkað
Hjálpræðisherinn er einn þeirra samtaka sem vinnur mikið og óeigingjarnt starf fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu. Það eru margir sem leita til Hersins um jól og borða þar jólamáltíðina.
Þá rekur Hjálpræðisherinn dagsetur fyrir útigangsfólk út á Granda sem hefur skipt sköpum í lífsgæðum útigangsfólks í Reykjavík.
Þetta kostar allt peninga þótt mest af starfinu sé unnið í sjálfboðavinnu.
Blaðið Herópið er ein fjáröflun Hjálpræðishersins.
Munum að kaupa Jólaherópið!
Það verður væntanlega til sölu í miðbænum og í verslunarmiðstöðvunum næstu daga og fram að jólum – þegar við þeytumst um og undirbúum jólahátíðarnar.
Flokkar: Óflokkað
Íbúðalánasjóður hefur hagnast um 10 til 15 milljarða á því að hafa fjárfest tugmilljarða uppgreiðslur lána 2004 og 2005 í þegar lánuðum fasteignalánasöfnum Landsbankans og sparisjóðanna í stað þess að leggja féð inn í Seðlabankann eins og sumir snillingar í stjórnmálastétt töldu rétt að gera á sínum tíma.
Þessari staðreynd hefur lítt verið haldið á lofti í sérkennilegri umræðu um Íbúðalánasjóð að undanförnu. Þvert á móti hafa sumir gagnrýnt Íbúðalánasjóð fyrir að hafa beitt þessari vel heppnuðu fjárstýringu á tímabilinu desember 2004 og fyrstu mánuði ársins 2005 og þannig bjargað sjóðnum frá gjaldþroti í kjölfar áhlaups Kaupþings og annarra banka á sjóðinn.
Þannig finnast enn „sérfræðingar“ sem halda því fram að Íbúðalánasjóður hefði átt að leggja þessa peninga inn í Seðlabankann.
Það er reyndar undarlegt að sumir þessara „sérfræðinga“ skulu vera hagfræðimenntaðir, jafnvel háskólakennarar og alþingismenn!
Þessir sömu aðiljar reyna að blekkja alþjóð – annað hvort vísvitandi eða vegna vanþekkingar – með því að gefa í skyn að peningar sem lagðir séu inn í Seðlabankann sitji þar fastir þegar hið rétt er að fjármagnið fer strax út á millibankamarkað þar sem bankakerfið getur tekið það að láni.
Þannig skipti það engu máli efnahagslega á sínum tíma hvort peningarnir hefðu verið lagðir inn í Seðlabankann og þeir færðir þaðan inn í bankakerfið eða hvort peningarnir fóru beint inn í bankakerfið með kaupum Íbúðalánasjóðs á þegar lánuðum, verðtryggðum, fasteignatryggðum langtímalánum bankanna. Hins vegar hefði það kostað Íbúðalánasjóð 10 til 15 milljarða tap að leggja fjármunina inn í Seðlabankann.
Mér þykir hlutunum snúið á hvolf þegar gagnrýna á Íbúðalánasjóð fyrir góða fjárstýringu!
Flokkar: Óflokkað
Það vantar tannálfa í grunnskólann. Tannheilsu barnanna okkar hefur hrakað verulega á undanförnum árum. Við erum að upplifa það sama og ljósálfarnir í álfheimum í hinu frábæra barnaleikriti Benedikt búálfur. Þegar Tóti tannálfur var numinn á brott af svartálfum, þá fengu ljósálfarnir tannpínu.
Þegar ég var í grunnskóla þá var tannálfur í skólanum í gervi skólatannlæknis. Skólatannlæknirinn fylgdist með tannheilsu barnanna og gerði við tennurnar þegar þess þurfti. Fyrir allmörgum árum var þessi tannálfur numinn á brott með kerfisbreytingum. Afleiðingarnar eru þær sömu í grunnskólanum og í álfheimum. Tannpína og verri tannheilsa barnanna okkar.
Það voru og eru góð og gild rök fyrir því að ríkisvaldið sjái ekki um tannviðgerðir í grunnskólanum með ríkisreknum tannlækni, heldur sjái tannlæknar hverrar fjölskyldu fyrir sig um eftirlit og tannviðgerðir skólabarna. Enda gert ráð fyrir að Tryggingastofnun taki þátt í þeim kostnaði.
Hins vegar er staðreyndin sú að við foreldrarnir höfum brugðist börnunum okkar með því að trassa að tryggja reglubundið tanneftirlit. Ekki hvað síst eftir að efnahagslífið hrundi, dýrtíð jókst og skattpíning fór upp úr öllu valdi.
Mánuðirnir og árin fjúka hjá og það gleymist að panta tannlæknatíma fyrir börnin þar til allir vakna upp við vondan draum – og slæma tannpínu og tannheilsu. Þá er rokið af stað, en skaðinn skeður.
Þótt ég sé ekki mikið fyrir forræðishyggju þá held ég að þegar um tannheilsu barnanna okkar er að ræða – þá verðum við að breyta um takt.
Við eigum að fá tannálfa í formi tannfræðinga eða tannlækna inn í grunnskólana til að sjá um tanneftirlit og tannfræðslu. Slíkir tannálfar ættu að skoða öll grunnskólabörn reglubundið – og ef Karíus og Baktus eru að láta á sér kræla – þá vísi tannálfurinn í skólanum börnunum til fjölskyldutannlæknisins sem sjái um að fylla í holurnar þeirra og skola þeim félögum á haf út.
Og að sjálfsögðu á að greiða tannlækningar – og tannréttingar á börnum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Þrátt fyrir erfiða stöðu ríkissjóðs. Tannvernd barna er fjárfesting til framtíðar.
Flokkar: Óflokkað
Flokkar: Óflokkað
Flokkar: Óflokkað
Ef menn vilja fá fram sannleikann í orsökum hruns efnahagslífsins á Íslandi þá er nauðsynlegt að gera ásamt öðru óháða úttekt á starfsemi Seðlabankans sem varð tæknilega gjaldþrota sem nemur um 270 milljörðum króna í kjölfar hrunsins. Já, í kjölfar hruns sem Seðlabankinn á miklu meiri sök á enn almenningur gerir sér grein fyrir.
Það er sérkennilegt að Allsherjarnefnd Alþingis hafi ekki lagt til slíka rannsókn á gjaldþrota Seðlabanka í ljósi þess að allsherjarnefnd Alþingis hefur lagt til við þingið að fram fari óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs – sem er eina alvöru fjármálastofnun landsins sem stóð af sér hrunið og er um þessar mundir með rúma 8 milljarða í eigið fé.
Að sjálfsögðu á að rannsaka starfsemi Íbúðalánasjóð sem útrásarvíkingarnir og fyrrum eigendur bankanna hafa – án rökstuðnings – sakað um að hafa verið stór áhrifavaldur í aðdraganda hrunsins.
Það er eina leiðin til hrekja órökstuddar dylgjur í garð sjóðsins.
Reyndar tóku viðhlægjendur útrásarvíkinganna og bankastjóranna í fjölmiðlum lengi vel undir þennan órökstudda söng – en látum það vera. Sannleikurinn mun væntanlega koma í ljós í kjölfar óháðrar rannsóknar á Íbúðalánasjóði.
Það er athyglisvert að einn helsti talsmaður slíkrar rannsóknar á Íbúðalánasjóði hefur verið Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur og núverandi alþingismaður sem á sínum tíma sat í stjórn Seðlabankans og var að líkindum valin framarlega á lista Samfylkingarinnar einmitt vegna þess að hún tók ábyrgð á gjörðum sínum og mistökum og sagði sig úr stjórn Seðlabankans í kjölfar hrunsins.
Ég sakna þess að Sigríður Ingibjörg skuli ekki hafa einnig farið fram á óháða rannsókn á hlut Seðlabankans í hruninu, því hún veit ósköp vel sem fyrrum meðlimur í stjórn Seðlabankans að Seðlabankinn lék lykilhlutverk í þeim mistökum sem gerð voru í hagstjórn íslenska ríkisins frá árinu 2003 þegar bankinn lækkaði bindiskyldu þá nýlega einkavæddu íslensku bankanna á versta tíma í hagsveiflunni og jók útlánagetu bankakerfisins um tugi milljarða á einn i nóttu.
Útlánagetu sem bankarnir nýttu sér haustið 2004 með því að dælda út nýjum ófjármögnuðum íbúðalánum á lágum vöxtum svo nam hundruðum milljarða króna með þeim afleiðingum að fasteignaverð hækkaði um tugi prósenta, verðbólga rauk upp og grunnur var lagður að algeru hruni íslensks efnahagslífs.
Það er náttúrlega hjákátlegt ef Ingibjörg Sigríður sem barist hefur fyrir óháðri úttekt á Íbúðalánasjóði – sem ég er henni sammála um að eigi að gera – berjist ekki fyrir sambærilegri úttekt á einum helsta sökudólgi hrunsins – Seðlabanka Íslands.
Ég þekki Sigríði Ingibjörgu og heiðarleika hennar það vel eftir áratugakynni að ástæða þess er ekki sú að hún vilji verja Seðlabankann og hafi eitthvað að fela sem fyrrverandi stjórnarmaður í stjórn Seðlabankans – heldur er ástæðan einfaldlega sú að hún sem formaður þeirrar þingnefndar sem Íbúðalánasjóður heyrir undir – hefur fyrst og fremst verið að hugsa um Íbúðalánasjóð sem ekki varð gjaldþrota eins og bankarnir og Seðlabankinn – en ekki bankanna og Seðlabankann.
En ef hún ætlar að vera sjálfri sér samkvæm – þá mun hún óska eftir óháðri rannsókn í illa gjaldþrota Seðlabanka Íslands strax eftir helgi!
Flokkar: Óflokkað
Flokkar: Óflokkað
Þú og aðrir Alþingismenn hafið þessa greinargerð undir höndum.
Hingað til hefur EKKERT atriði í framangreindri greinargerð verið véfengt né hrakið. Hvorki af Alþingismönnum, né af þeim tugum fjölmiðlamanna sem einnig hafa fengið þessa greinargerð í hendur.
Niðurstaða greinargerðarinnar – sem studd er ítarlegum tölulegum staðreyndum – er eftirfarandi:
„Það er niðurstaða þessarar skýrslu að rannsóknarnefnd Alþingis hafi ekki kannað nægilega undirbúning og skipulag ákvarðana um breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs sem áttu að taka gildi á árunum 2004 til 2007.
Allur undirbúningur ákvörðunartöku vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á opinbera húsnæðislánakerfinu miðuðu markvisst að því að valda eins litlum efnahagslegum áhrifum og nokkur kostur var og allt kapp var lagt á að vanda undirbúning og feril þessara breytinga.
Skýrslan sýnir að það voru róttækar breytingar á útlánareglum viðskiptabankanna sem settu þessar fyrirætlanir í uppnám og voru meginorsök víðtækrar hækkunar fasteignaverðs og þenslu efnahagslífsins sem stjórnvöld höfðu engin tök á að bregðast við.
Þær breytingar sem stjórnvöld gerðu á opinbera húsnæðiskerfinu í kjölfar þessa höfðu hverfandi áhrif á þróun efnahagsmála.
Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis um að þær breytingar sem gerðar voru á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 hafi verið með stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda að falli bankanna stenst því ekki gaumgæfilega skoðun.“
Enn og aftur. Ekkert hefur komið fram eftir birtingu greinargerðarinnar sem hrekur þessa niðurstöðu.
Ekkert.
Þá undrast ég að þú leyfir þér að setja eftirfarandi fram í opinberri grein:
„Alþingi hefur nú samþykkt að ríkissjóður geti lagt Íbúðalánasjóði til 33 milljarða og fyrir liggur að leggja þarf sjóðnum til aukið fjármagn á næsta ári. Þessi framlög eru ekki beinlínis heilbrigðisvottorð um starfsemi sjóðsins.“ (leturbreyting HM)
Þú veist það jafn vel og ég að 18 milljarðar af þessum 33 eru vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um nokkuð almenna niðurfærslu íbúðalána í 110%. Ef ríkisstjórnin hefði ekki ákveðið að fara í þá niðurfærslu, þá hefði ekki verið þörf á þessum 18 milljörðum. Það hefur bara ekkert með starfsemi Íbúðalánasjóðs fram að þessi að gera.
Þá veistu jafn vel og ég að ríkissjóður hefði alls ekki þurft að leggja þá 15 milljarða sem út af standa inn í Íbúðalánasjóð til viðbótar þeim rúmu 8 milljörðum sem eigið fé Íbúðalánasjóðs stendur í. Þvert á móti.
Þá hafa þingmenn – og þar á meðal þú – átt í miklum erfiðleikum með að rökstyðja þessa þörf. Vísa bara á samkomulag við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.
Staðreynd málsins er nefnilega sú að Íbúðalánasjóður er eina stóra fjármálastofnunin sem hélt velli í hruninu. Seðlabankinn varð meira að segja tæknilega gjaldþrota.
Þannig að ég get ekki skilið þessa setningu þína nema sem ósæmilegar dylgjur í garð starfsfólks Íbúðalánasjóðs.
Ég bíð reyndar enn eftir svari frá þér við eftirfarandi tölvupósti sem ég sendi þér á dögunum:
„Heil og sæl.
Nú þegar ekki hafa einu sinni verið færð rök fyrir því af hverju Íbúðalánasjóður þarf 33 milljarðar fjárframlag frá ríkinu – sýnist reyndar að 18 milljarðar séu ætlaðir vegna ákvörðunar ríkisvaldsins um niðurfærslu lána í 110% – sem byggir á þeirri sjálfstæðu ákvörðun til að létta með fjölskyldunum í landinu en ekki eiginlegri þörf sjóðsins vegna reksturs hans fram að þessu – hvað hefur þú fyrir þér í því þegar þú „óttast að fjárþörfin sé meiri?
Ég er búinn að fara fram og til baka yfir gögn Íbúðalánasjóðs og stöðu hans – og hvernig sem ég sný hlutunum þá finn ég engin rök fyrir því.
Það er því að þínum mati greinilega eitthvað sem mér yfirsést.
Getur þú bent mér á hvað það gæti verið?
Hverjar eru forsendur þínar fyrir að sjóðurinn þurfi í fyrsta lagi 33 milljarðar – í öðru lagi ennþá meira?
Kveðja
Hallur Magnússon„
Ég er hins vegar sammála þér í nauðsyn þess að gera óháða rannsókn á starfsemi sjóðsins í aðdraganda hrunsins.
Það er eina leiðin til að eyða ranghugmyndum og dylgjum um Íbúðalánasjóð og meintan hlut hans í fasteignabólunni og aðdraganda hrunsins, ranghugmyndum sem rötuðu meira að segja gagnrýnilaust inn í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.
Vænti þess að skýrslan góða „Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004. Greinargerð vegna Rannsóknarskýrslu Alþingis“ og rannsókn sem Ríkisendurskoðunar gerði á fjárstýringu Íbúðalánasjóðs árið 2006 verði mikilvæg gögn í þeirri óháðu rannsókn.
En til að enda þetta á jákvæðu nótunum, þá er ég þér innilega sammála þegar þú segir að:
Hallur Magnússon
PS. langar að benda þér á nokkra pistla sem ég hef skrifað um þetta að undanförnu:
Af hverju stóð ÍLS af sér hrunið?
Sóknarfæri í ríkisstjórnartillögunum
15 milljarðar í Íbúðalánasjóð „af því bara“!
„Félagslegir“ vextir bara 0,08% lægri!
Óþarfa 33 milljarðar til Íbúðalánasjóðs?
Flokkar: Óflokkað
Sumir bloggarar hafa kosið að loka athugasemdakerfum sínum eftir að hafa orðið fyrir aðkasti þessara nafnlausu stórmenna sem ekki hafa dug í sér að standa fyrir máli sínu undir eigin nafni.
Ég held það sé engin þörf á því. Lesendur eru yfirleitt það vel gefnir að þeir sjá í gegnum skrif þessara nafnlausu stórmenna. Sérstaklega ef óskað er eftir rökstuðningi fyrir dylgjunum, rökstuðning sem hin nafnlausu stórmenni geta undantekningalítið ekki fært fyrir máli sínu.
Það er of stór fórn málfrelsis að gefa ekki kost á málefnalegri umræðu í athugasemdakerfum bloggsins. Því það er hin málefnalega umræða sem er undirstaða þess lýðræðissamfélags sem við viljum búa í.
Hin nafnlausu stórmenni eru óværa sem við verðum bara að lifa með. Fyrir hið dýrmæta málfrelsi.
Flokkar: Óflokkað