Sjaldan, og sennilega aldrei, hefur íslenskt samfélag staðið frammi fyrir eins alvarlegu efnahags- og samfélagslegu vandamáli og því sem skuldir heimilanna vegna hrunsins er orðið að. Samkvæmt spám er gert ráð fyrir að með sama áframahaldi verði 73.000 heimili orðin eignalaus hvað varðar eigið húsnæði árið 2011 eða um 62% allra heimila í landinu. Það er vitað og var vitað frá upphafi, að hrunið væri af slíkri stærðargráðu að það væri óvinnandi vegur að leysa úr vanda heimilana með sértækum aðgerðum fyrir hvert heimili og að almennar aðgerðir þyrftu að koma til. Aðferðir ríkisstjórnarinnar hafa ekki dugað og öllum tillögum annarra flokka á þingi hefur verið hafnað.
Hreyfingin ásamt öðrum hefur lagt áherslu á forsendubrestinn sem varð á öllum lánasamningum við hrunið og að vísitöluhækkanir íbúðalána yrðu færðar aftur til ársbyrjunar 2008 og að gengistryggðum lánum yrði breytt í verðtryggð íslensk lán og það sama gert við þau. Við höfum einnig stutt s.k. „Lyklafrumvarp“ Lilju Mósesdóttur (sjá hér) sem takmarkar aðför lánveitenda við þá eign sem veðið er tekið í og frumvarp um að kröfuréttindi fyrnist á fjórum árum þannig að ekki sé hægt að elta skuldara ævilangt með enduruppvakningu krafna (sjá hér). Við höfum krafist stöðvunar á nauðungaruppboðum þar til fyrir liggi tímasett aðgerðaráætlun um lausn á þessum skuldavanda og við höfum krafist afnáms verðtryggingar, en núverandi skuldavandi heimila er annað tilvikið á 25 árum þar sem þúsundir fjölskyldna tapa öllu sínu vegna verðtryggingarinnar.
Nokkrir stjórnarnþingmenn Vinstri-Grænna (Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson) og einn þingmaður Samfylkingarinnar (Helgi Hjörvar) hafa verið að stórum hluta sama sinnis, þ.e. að það þurfi að koma til ofangreindra aðgerða ef á að takast að leysa málið. Þessi sjónarmið hafa hins vegar ekki komist til framkvæmda vegna andstöðu Samfylkingarinnar og formanns Vinstri-Grænna. Þau virðast bara ekki skilja vandamálið og þessi vanhæfni stjórnvalda til að taka á vandanum er að leiða samfélagið fram af bjargbrúninni. Almenningur krefst hins vegar aðgerða og hefur lýst yfir vanþóknun sinni á sitjandi stjórnvöldum, bæði við þingsetninguna þann 1. október og svo með rækilegum hætti með „Tunnumótmælunum“ við Alþingishúsið þegar forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína s.l. mánudag. Þetta voru stærstu og jafnframt alvarlegustu mótmæli í sögu landsins, en þrátt fyrir það töluðu Jóhanna og Steingrímur eins og þau væru í einhverju allt öðrum veruleika.
Síðan þá hefur ríkisstjórnin eitthvað verið að rakna úr rotinu og óskaði eftir fundi á þriðjudeginum eftir mótmælin með fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Á þeim fund kom ekkert fram um að þau væru tilbúin til að grípa til aðgerða heldur boðuðu þau stofnun stýrihópa og vinnuhópa og fleiri funda um málið. Þrátt fyrir að gengið væri ákveðið að þeim um hvort þau væri tilbúin að gera eitthvað afgerandi í málinu fengust engin svör og voru vegna þess engin tilefni til frekari funda. Eftir fund með Hagsmunasamtökum heimilana á þriðjudag virtist sem ríkisstjórninni væri aðeins að snúast hugur og því sótti ég s.k. „fimm-ráðherra fund“ í gærmorgun ásamt fulltrúa Framsóknarflokksins. Sá fundur var frekar rýr og þó að Ögmundur Jónasson væri greinilega að reyna að snúa skipinu var greinilegt á hinum ráðherrunum að þau réru ekki í sömu átt. Við fórum því af fundinum og vorum sammála um að mæta aftur næsta mánudag með því fororði að á þeim fundi yrði að liggja fyrir einhvers konar timasett verkáætlun um lausn á þessu gríðarlega vandamáli, að öðrum kosti væri betra heima setið.
Í umræðum í þinginu síðar um daginn kom fram að Ögmundur mun reyna að stöðva nauðungarsölur, alla vega að einhverju marki. Ég tók þátt í þeirri umræðu og fór yfir málið og minnti á hvað þarf að gera (sjá hér). Við munum svo hitta Hagsmunasamtök heimilanna síðar í dag og reyna að halda áfram að koma vitrænum sjónarmiðum á framfæri á fundi með „fimm-ráðherra hópnum“ á mánudagsmorgun. Ef hins vegar ekki liggur fyrir þá hvernig og hvenær ríksistjórnin ætlar að taka á málinu þá lít ég svo á að þetta útspil sé bara enn eitt sviðsett leikritið. Ég vona svo sannarlega að svo sé ekki en sporin hræða og bílasöluræður/yfirlýsingar ráðherra hingað til (utan Ögmundar) gefa ekki mikla von um stefnubreytingu.
Við höfum rætt það í Hreyfingunni að í framhaldi af verkáætlun í skuldavanda heimilana þyrfti að boða til kosninga og fá fólk með nýtt umboð inn á þing vegna þess algera vantrausts sem ríkir í garð Alþingis. Ég tel það heppilega leið en það kemur í ljós nú um eða eftir helgina hvort við krefjumst hennar. Ef hins vegar ekki verður tekið með afgerandi hætti á skuldavandanum og ekki verður boðað til kosninga þá held ég að það sé tímabært að dusta rykið af hugmynd fyrrverandi forsætisráðherra Geirs Haarde og biðja Íslandi guðs blessunar.
Nýlegar athugasemdir