Föstudagur 26.11.2010 - 21:54 - FB ummæli ()

Stjórnlagaþing

Það er merkur dagur í sögu lýðveldisins og lýðræðisins á Íslandi að renna upp. Sjálfur endaði ég með um 65 frambjóðendur sem fækkaði svo niður í um 35 og enn þarf að kveðja nokkra. Verð að viðurkenna að mér finnst þetta alveg hreint frábært fyrirbæri. Það er yfirdrifið framboð af mjög frambærilegu fólki til að kjósa og það hef aldrei upplifað fyrr í kosningum.  Hér er verið að brjóta blað í lýðræðisumbótum og persónukjörsaðferðin þar sem kjósendur sjálfir fá að ráða hvar þeir staðsetja fólk á listann, hlýtur að verða notuð í næstu kosningum til Alþingis. Að vísu eru ekki allir þingmenn því hlynntir enda miðstýringaráráttan og sérplægnin rík hjá þeim mörgum en við munum ræða persónukjörsfrumvarpið í Allsherjarnefnd strax í upphafi desember og verður fróðlegt að sjá hvað það kemst langt. Fékk í dag lista frá íhaldinu yfir „æskilega“ frambjóðendur sem vilja ekki breyta stjórnarskránni.  Það er ekki að Sjálfstæðismönnum að spyrja, skirrast ekki einu sinni við að reyna að höggva í stjórnlagaþingið. Flokkurinn sem hefur meira og minna rústað íslensku efnahagslífi.  Jæja, listinn er alla vega nothæfur til útstrikana.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnlagaþingið mun vinna. Forsætisnefnd Alþingis á samkvæmt lögunum um stjórnlagaþingið að setja því starfsreglur og fyrstu drögin sem við höfum séð benda til þess að Alþingi eigi ekki  auðvelt með að sleppa takinu.  Starfsreglurnar verða endurskoðaðar eftir að fjöldi athugasemda barst og það skýrist vonandi fljótlega eftir helgina hvort Alþingi mun treysta stjórnlagaþinginu til þeirra verka sem það er kjörið til, eða reyna að hafa áhrif þar á. Hver sem er getur sent inn tillögur til stjórnlagaþingsins og það mun ég svo sannarlega gera og hvet alla til að kynna sér efni um stjórnarskrár á vef stjórnlagaþingsins www.stjornlagathing.is

Hvað um það, á morgun er hátíð og vonandi tekst vel til með framhaldið. Mætum öll og kjósum. Lifi lýðræðið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur