Sunnudagur 06.03.2011 - 17:48 - FB ummæli ()

Silfrið í dag

Þarf að byrja á smá leiðréttingu þar sem ég í Silfrinu vísaði í 26 milljarðana sem verða greiddir út strax eftir „Jáið“ í kosningunum um Icesave, ef það verður Já. Þar vafðist mér tunga um tönn og talaði um launakostnað Landbankans 2009 og rekstur Landsbankans árið 2011 til samanburðar. Hér átti ég að sjálfsögðu við Landspítalann en heildarlaunakostnaður Landspítalans árið 2009 var 26 milljarðar og framlög ríkisins til reksturs alls Landspítalans á þessu ári nema 32 milljörðum. 26 milljarðar eru áföllnu vextirnir sem við munum að lágmarki greiða og verða ekki endurheimtir úr þrotabúinu frekar en aðrar vaxtagreiðslur vegna Icesave, þar sem vextir eru ekki forgangskröfur í búið. Þetta fé er ekki eins og hvert annað ríkisframlag sem fer út í hagkerfið og eykur veltu þar, heldur er þetta bein útgreiðsla út úr hagkerfinu og úr landi og bein skerðing á lífskjörum þjóðarinnar og verður ekki greitt nema með hærri sköttum. Miðað við ekki mjög ólíklegar forsendur getur þessi upphæð svo farið í 233 milljarða, en meira um það í síðari pistlum.

Það var athyglisvert að taka þátt í umræðunum í Silfri Egils í dag og verða vitni að því viðhorfi að íslendingar gætu einhverra hluta vegna ekki greitt atkvæði um Icesave. Málið væri of flókið, það væri ekki hægt að leggja það á þjóðina, málið væri ekki hæft til þjóðaratkvæðagreiðslu og svo framvegis. Mér virðist það vera all algengt viðhorf hjá „já-bræðralaginu“ að almenningur á Íslandi sé á einhvern hátt of illa gefinn miðað við aðrar þjóðir þegar kemur að lýðræðinu og geti ekki tekið ákvarðanir. Þótt Icesave málið sé stórt og flókið er það einfaldlega hlutverk fagfólks að setja það í skiljanlegan búning þannig að almenningur geti með auðveldum hætti myndað sér skoðun á því. Það að innanríkisráðherrann sé ekki þegar búinn að setja málið í þannig vinnslu er alvarlegt mál og veltir upp þeirri spurningu á hvaða vegferð stjórnvöld eru þegar þau beita sér með öllu sínu afli í áróðri fyrir sinni hlið málsins.

Fjármálafyrirtækin hafa líka lagst á árarnar með ríkissjtórninni og sú „kynning“ sem Arion banki var með í síðustu viku var athyglisverð fyrir þær sakir að hún átti að vera upplýsandi en var í raun áróður. Samninganefndin sem gerði samninginn kynnti hann og mærði og álitsgjafarnir voru Vilhjálmur Þorsteinsson sem er viðskiptafélagi Björgólfs Thor Björgólfssonar og svo starfsmaður breska ráðgjafarfyrirtækisins Hawkpoint sem hefur verið í vinnu fyrir fjármálaráðuneytið vegna Icesave í a.m.k. tvö ár. „Álit“ þeirra var náttúrulega fyrirfram vitað. Þeir sem töluðu á móti samningnum fengu 5 mínútur hver, en hinir klukkutíma.

Það er náttúrulega í meira lagi sérkennilegt að fara með stórmál í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að kynna það fyrir þjóðinni og hér er e.t.v. í uppsiglingu enn eitt fúskið hjá framkvæmdavaldinu sem eins og löggjafarvaldið og dómsvaldið virðist einfaldlega ekki skilja hlutverk sitt sem hluta af stjórnvaldi sem á að vera fyrir alla landsmenn en ekki bara suma.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur