Föstudagur 08.04.2011 - 12:11 - FB ummæli ()

Icesave- Af hverju Nei.

Inngangur

Það er mikið fagnaðarefni að almenningur fái að ganga til atkvæðagreiðslu og kjósa um svo mikilvægt mál sem Icesave III samingarnir eru. Vantraust almennings á stjórnvöldum, stjórnsýslu og stjórnarfari almennt er mikið og við þær aðstæður er mikilvægt að stjórnvöld sýni almenningi virðingu og traust. Beint lýðræði með þjóðaratkvæðagreiðslum eru það aðhald sem stjórnvöld þurfa á að halda og sú aðgerð forseta Íslands að vísa þessu mikilvæga máli til þjóðarinnar í annað sinn ber merki um traust á skynsemi almennings og kjark.

 Icesave I og II

            Hreyfingin hefur á öllum stigum Icesave-málsins barist gegn því að þessari byrði yrði velt yfir á almenning, enda ekki skuld sem fólkið í landinu stofnaði til. Alveg frá upphafi í því þverpólitíska starfi sem átti sér stað sumarið 2009 með Icesave I samingnum börðumst við til að ná fram sem bestri niðurstöðu. Í þeirri baráttu voru helstu andstæðingar þjóðarinnar fulltrúar Samfylkingar og VG. Á endanum náðist þverpólititískt samkomulag um niðurstöðu sem Bretar og Hollendingar gengu ekki að. Í minningunni er fyrsta heimsókn Lee Bucheits til Íslands þetta sumar en hann kom fyrir fjárlaganefnd og skilaboð hans voru skýr. Þið eigið bara að láta þetta mál eiga sig og ekki vera að elta neitt samkomulag við Breta og Hollendinga sagði hann. Þeir munu sennilega heldur aldrei koma til með að stefna ykkur fyrri dómstóla.

            Icesave II var svo kynnt um haustið 2009 af engu minni óheilindum af hálfu meirihlutans en fyrri Icesave-samningur. Við nánari skoðun kom í ljós, eins og með alla þessa Icesave-saminga, að ekki var allt sem sýndist og milli línanna var fjöldi áhættuatriða sem gerðu það að verki að samningurinn var óásættanlegur. Hann var á endanum keyrður í gegn um þingið af hálfu meirihlutans í miklu ósætti og eftir talsvert málþóf.

Í upphafi árs 2010 ákvað forseti Íslands hins vegar að synja þeim lögum staðfestingar og vísa þeim til þjóðarinnar. Þar reyndu formenn Samfylkingar og VG allt sem þau gátu til að gera þá atkvæðagreiðslu tortryggilega, fyrstu þjóðaratkvæðagreiðsluna frá lýðveldisstofnun, og þau þóttust meira að segja geta dregið fram nýjan og betri samning sem gerði þjóðaratkvæðagreiðsluna óþarfa. Tap þeirra var hraksmánarlegt og hafa kosningar aldrei tapast með svo miklum mun sem þessi kosning um þetta stóra áhugamál Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Í kjölfarið bjuggu menn sig undir hin sjö mögru ár sem forysta ríkisstjórnarinnar og allir helstu talsmenn hennar, atvinnulífsins, verkalýðshreyfingarinnar og háskólasamfélagsins höfðu hótað þjóðinni. Engin af þeim hörmungum sem dynja áttu yfir þjóðina með höfnun samningsins rættist og sá gengdarlausi hræðsluáróður sem rekin var af hálfu ríkisstjórnarinnar og jábræðrum hennar var algerlega ómarktækur. Kúba norðursins var í raun lýsing á huga og hugsun þeirra sem börðust fyrir samningnum, huga og hugsun sem er þröngsýn og sér aðeins eina leið, leið hótana og hræðsluáróðurs.

 Icesave III

Í framhaldi hinnar afgerandi niðurstöðu kröfðust Bretar og Hollendingar þess að þverpólitísk sátt allra flokka á Alþingi næðist um samninganefnd ef reyna ætti að semja aftur. Það tókst og undir forystu Lee Bucheits og með Lárus Blöndal sem fulltrúa stjórnarandstöðunnar hófust samninga umleitanir. Innlegg Hreyfingarinnar í samningagerðina var að Bretar og Hollendingar ættu með réttu að fá það sem fengist úr þrotabúi Landsbankans og ef eitthvað stæði eftir þegar skiptum væri lokið ætti sú greiðsla að skiptast jafnt milli allra þriggja þjóðanna.

Sú niðurstaða náðist ekki og þótt samningurinn væri umtalsvert betri en fyrri samningar þá var áhættan og ábyrgðin engu að síður öll Íslands megin þ.e. 700 milljarða króna ríkisábyrgð á skuldum sem stofnað var til af mönnum sem líklega voru fjárglæframenn. Mikið var hamrað á því að þetta væri nú samningur sem fulltrúi stjórnarandstöðunnar ætti þátt í að gera en litið var framhjá því að það var endanleg niðurstaða sem skipti máli og niðurstaðan eftir ítarlega áhættugreiningu er einfaldlega ekki sú sem menn væntu. Þess vegna höfum við hafnað þessum samningi og fögnum því að forsetinn skuli hafa sett hann í dóm þjóðarinnar.

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem verður næstkomandi laugardag eru nokkur atriði sem helst hefur borið á í umræðunni og lúta að siðferðilegum, lagalegum og efnahagslegum rökum og verður nú fjallað um þau.

Siðferðileg rök

Siðferðilegu rökin fyrir já-i hafa helst verið þau að með því að segja já væru menn að sýna traust, orðheldni og ábyrgð því:

a) Eigendur innstæðna á Icesave reikningunum í Hollandi og Bretlandi hefðu treyst á íslenska innstæðutryggingasjóðinn og að hann myndi greiða þeim tapið ef yrði Landsbankinn yrði ógjaldfær og

b) Ríkisstjórn Íslands með fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen, utanríkisráðherra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, bankamálaráðherra Björgvin G. Sigurðsson og ráðuneytisstjórann Baldur Guðlaugsson í broddi fylkingar hefðu skrifað undir samning í Brussel sem skuldbatt Ísland til að endurgreiða Bretum og Hollendingum innstæðurnar á reikningunum.

Svarið við fyrri liðnum er að íslenski tryggingainnstæðusjóðurinn var settur upp í samræmi við EES reglur og þar er í raun tekið sérstaklega fram að ríkið, vegna samkeppnissjónarmiða, eigi ekki að vera í ábyrgð á innstæðutryggingum. Bresk og Hollensk stjórnvöld hafa þegar greitt út allar innstæður upp að 20.887 evrum sem er lágmarks trygging samkvæmt Evrópureglum. Þrátt fyrir að íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn hafi ekki getað endurgreitt Bretum og Hollendingum þetta fé að fullu má gera ráð fyrir að þrotabú Landsbankans dugi fyrir stórum hluta þess, eða m.v. síðasta mat á eignasafninu, um 86% af kröfunum.

Svarið við seinni liðnum er að sá samningur sem gerður var strax í kjölfar hrunsins var gerður við aðstæður neyðarástands á Íslandi þar sem allt fjármálakerfið var að hruni komið, erlendur gjaldeyrir upp urinn og enga erlenda aðstoð að fá. Efnahags- og skattanefnd Alþingis var upplýst um að ekki væri einu sinni til gjaldeyrir fyrir lyfja- og olíukaupum. Við þær kringumstæður voru fulltrúar Íslands beittir þvingunum og afarkostum enda var sá samningur mjög fljótlega sleginn út af borðinu.

Það má gefa sér að eftir allt sem á undan var gengið hafi fulltrúar Íslands í Brussel í raun ekki haft umboð til að ljúka málum fyrir Íslands hönd. Þótt formlega séð hafi þau verið fulltrúar þjóðarinnar þá leiddi skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis síðar í ljós að þau höfðu sagt þjóðinni og alþjóðasamfélaginu ósatt um raunverulega stöðu íslenska fjármálakerfisins og höfðu ítrekað blekkt íslenskan almenning, a.m.k. frá því í febrúarmánuði ársins 2008. Slíkir fulltrúar, þótt formlegt umboð hafi til verka, hafa misfarið með þetta umboð með svo grófum hætti að ekki er hægt að gera þá kröfu á almenning að hann eigi að bera ábyrgð á gjörðum þeirra.

Siðferðilegu rökin fyrir því að segja nei eru hins vegar þau að almenningur á einfaldlega ekki að borga skuldir sem hann stofnaði ekki til og sem að því er virðist var stofnað til á fölskum forsendum af fyrirtæki sem virðist hafa verið rekið í glæpsamlegum tilgangi.

Lagaleg rök.

Eins og oft og ítrekað hefur komið fram eru ekki nein lagaleg rök til fyrir já-i og því að Íslendingar eigi að borga þessa kröfu Breta og Hollendinga. Stjórnvöld beggja landa greiddu innstæður á Icesave-reikningunum án þess að ráðfæra sig við íslensk stjórnvöld og hafa síðan þá reynt að senda okkur reikninginn, oft með það háum vöxtum að þeir komi út í umtalsverðum hagnaði. Tilskipun ESB um innstæðutryggingar tekur fram, vegna samkeppnissjónarmiða, að það eigi ekki að vera ríkisábyrgð á innstæðutryggingum og það má auðveldlega gefa sér að Bresk og Hollensk stjórnvöld hefðu fyrir löngu síðan höfðað mál á hendur Íslenskum stjórnvöldum ef þau teldu sig geta unnið það. Mismununin sem átti sér stað milli innstæðueigenda á Íslandi sem fengu sínar innstæður bættar að fullu og Breskra og Hollenskra innstæðueigenda er ekki byggð á þjóðerni heldur heimilisfesti, enda fengu allir hér á landi, hverrar þjóðar sem þeir voru innstæður sínar greiddar. Bankahrunið á Íslandi var fordæmalaust og fráleitt að ætla að nokkurt innstæðutryggingarkerfi gæti staðið undir slíku áfalli. Þess vegna voru neyðarlögin sett en neyðarlögin sjálf gerðu það hins vegar að verkum að innstæðurnar í Bretlandi og Hollandi eru nú forgangskröfur sem þýðir að miklu meira fæst greitt upp í þær heldur en ella. Þannig má segja að íslensk stjórnvöld hafi með setningu neyðarlaganna tryggt frekar hagsmuni innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi.

Efnahagsleg rök

Efnahagslegu rökin sem sett hafa verið fram fyrir já-i eru nokkur:

a) Með já-i opnist lánalínur til íslendinga hvaðanæva að og hingað muni streyma inn fjármagn til framkvæmda á hagstæðum kjörum.

b) Efnahagslegur stöðugleiki náist og hagvöxtur verði tryggður.

c) Ímynd Íslands á alþjóðavettvangi batni og við verðum “þjóð meðal þjóða.”

d) Hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftunum.

Svörin við fyrsta liðnum eru að hingað til hefur AGS þvertekið fyrir það að lán til Íslands séu háð Icesave og að erlend lán hafa þegar fengist á ágætis kjörum. Þeirri spurningu er hins vegar aldrei svarað hvort það sé nokkur raunveruleg þörf á innstreymi erlends fjármagns þar sem allir bankar og Seðlabankinn eru fullir af peningum en þeir komast ekki í umferð vegna 3,5 raunvaxtagólfsins sem reglur um ávöxtun lífeyrissjóða setja. Þetta er auðvelt að laga hér heima við og þörfin á öðru fjármagni hverfur þar með.

Liður b hefur ekki verið rökstuddur enda er hér eins mikill efnahagslegur stöðugleiki og við er að búast með mjög veikburða hagkerfi, einkum vegna yfirskuldsetningar sem frekari lántökur myndu ekki laga. Hagvöxtur með lántökum er eitthvað sem við höfum slæma reynslu af og Ísland ætti að reyna að ná upp hagvexti á eðlilegum forsendum framleiðslu og þjónustugreina frekar en á forsendum lánabóla á fjármálamarkaði. Hagvöxtur hér á landi myndi fyrst og fremst aukast ef yfirskuldsetning heimilanna yrði færð niður, ekki ef tekin eru frekari erlend lán.

Liður c er ein af þessum ímyndunum um að hlutir eins og „viðskiptavild Íslands“ sé mikið til tals meðal nágrannaþjóðanna. Það sem gerðist hér á Íslandi hefur haft þau áhrif að viðskiptavild Íslands mun verða núll næstu árin, ekki síst þegar það er haft í huga að það var ríkisstjórnin, Alþingi, eftirlitsstofnanir og stór hluti stjórnsýslunnar sem tók þátt í að spinna þann blekkinga- og lygavef um Ísland á alþjóðavettvangi og heima við, sem gerði hrunið enn verra og umfangsmeira en þörf hefði verið á. Það verður ekki fyrr en Íslandi hefur tekist að gera það upp af alvöru að nágrannaþjóðirnar fara að taka mark á okkur aftur. Það uppgjör þarf að vera pólitískt, lagalegt, siðferðilegt og persónulegt og þó margir hafi tekið sig til pesónulega og endurhugsað framtíðina hefur enn enginn hlotið dóm, einungis einn þingmaður hefur sagt af sér og meirihluti Alþingis hafnaði ábyrgð stjórnmálanna í atkvæðagreiðslu þann 28. september síðastliðinn þar sem 23 vanhæfir þingmenn þ.á.m. forseti Alþingis og forsætisráðherrann, greiddu atkvæði.

Liður d hefur verið notaður sem tálbeita en augljóst er að ef Icesave verður samþykkt er mesti áhættuþátturinn gengi íslensku krónunnar og því verður gjaldeyrishöftum ekki aflétt í bráð. Þetta hefur nú þegar verið staðfest þar sem í síðustu viku boðaði Seðlabankinn gjaldeyrishöft í fimm ár til viðbótar.

Efnahagslegu rökin fyrir nei-i eru helst þau að áhættan er allt of mikil en samkvæmt áhættumati GAMMA getur það gerst við alls ekki ólíklegar aðstæður að skuldbindingin fari í 233 milljarða króna. Undir því stöndum við ekki. Greiðslur til Breta og Hollendinga eru beinar greiðslur úr landi og bein blóðtaka fyrir hagkerfið öfugt við það sem gerist þegar ríkið innir af hendi greiðslur innanlands sem fara í hringrás hagkerfisins með tilheyrandi margfeldisáhrifum. Peningar fyrir greiðslunum á Icesave eru ekki til í ríkissjóði og fást eingöngu með því að hækka skatta eða skera frekar niður og hvor sú leið eða sambland beggja myndi við núverandi aðstæður vera atlaga að grunnstoðum samfélagsins og sennilega ganga endanlega frá öllum möguleikum um hagvöxt.

 Niðurstaða

Íslendingar eiga að fagna því að vera spurðir álits á þessu mikilvæga máli og fjölmenna á kjörstað á laugardaginn. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru mikilvæg leið til að veita stjórnvöldum hverju sinni aðhald og eru ekki síst mikilvægar þegar stjórnvöld hafa í áratugi misfarið með vald sitt. Endurskoðun stjórnarskrárinnar mun vonandi gera þjóðaratkvæðagreiðslur að eðlilegum viðburði og aðferð til ákvarðanatöku hér á landi í framtíðinni og vonandi tekst okkur að búa til umgjörð um slíkt ferli þannig að sómi sé að. Það og það eitt væri góð sárabót fyrir hrunið.

Hreyfingin er eina stjórnmálaaflið á Íslandi sem er með klausu um Icesave á stefnuskránni og þar segir að við eigum ekki að borga Icesave skuldbindingar Landsbankans nema það sé tryggt að okkur beri lagaleg skylda til þess.

Hvað aðra flokka varðar þá er það er ekki beint í anda vinstrimennsku VG eða jafnaðarmennsku Samfylkingar að greiða Icesave en samt berjast þeir flokkar fyrir því. Það er heldur ekki í anda Sjálfstæðisflokksins að greiða Icesave, “Gjör rétt, þol ei órétt” og allt það, en samt berst forysta flokksins og flestir þingmenn hans fyrir því að það verði gert.

Tökum afstöðu með almannahag og gegn sérhagsmunum. Förum á kjörstað á laugardag, greiðum atkvæði um Icesave samninginn og segjum NEI.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur