Þriðjudagur 17.05.2011 - 16:36 - FB ummæli ()

Fjármál stjórnmálaflokka

Á dagskrá Alþingis í dag er frumvarp um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka, lagt fram af þingmönnum Hreyfingarinnar.  Breytingarnar sem lagðar eru til eru í samræmi við markmið gildandi laga um að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum, sem og að auka traust á stjórnmálum og efla lýðræði.

Helstu breytingar frumvarpsins frá núgildandi lögum eru þær að banna framlög lögaðila til stjórnmálasamtaka og takmarka fjárframlög einstaklinga við 200 þús. kr. á ári, þó þannig að framlög hærri en 20 þús. kr. skuli gera opinber innan þriggja daga frá greiðslu. Þá er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að stærri stjórnmálasamtök sem eiga sæti á Alþingi fái hærri fjárframlög úr ríkissjóði en þau smærri og að framlagið miðist við rekstur á hóflegri skrifstofu og fundaraðstöðu í hverju kjördæmi, auk framlaga til launa framkvæmdastjóra og starfsmanns í hálfu starfi í hverju kjördæmi fyrir sig. Þá verði fjárframlög til þingflokka þau sömu fyrir alla flokka. Hvað varðar framlög vegna kosninga er í frumvarpinu gert ráð fyrir jöfnu framlagi til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram á landsvísu en bjóði stjórnmálasamtök ekki fram í öllum kjördæmum fái þau fjárframlag í samræmi við fjölda frambjóðenda þeirra sem hlutfallstölu af 126.

Áttunda bindi skýrslu RNA ber heitið Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Í kafla II. 3 segir:  „Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna“. Enn fremur segir í niðurlagi kaflans: „Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Vegna ábendinga Evrópuríkja gegn spillingu (Greco) var sett á laggirnar nefnd sem endurskoðaði lög um fjármál stjórnmálasamtaka sem sett voru 2006 (líka vegna ábendinga Greco).  Það er svo sérstakt rannsóknarefni hvers vegna sú löggjöf sem samþykkt var 2006 hefur leitt af sér stórauknar fjárveitingar til flokkanna úr ríkissjóði eins og Guðmundur Magnússon segir í bókinni Nýja Ísland – listin að týna sjálfum sér (bls 144).  Niðurstaðan úr umræddri endurskoðunarvinnu var lagasetning í september 2010.

Málið var lagt fram af formönnum allra flokka á þingi utan Hreyfingarinnar sem gagnrýndi að frumvarpið gerði hvorki ráð fyrir rofi á óeðlilegum tengslum á milli viðskipta og stjórnmála né jafnræðis við úthlutun opinberra fjármuna. Stjórnmálasamtök og stjórnmálamenn geta áfram tekið við stórum fjárhæðum frá fyrirtækjum.  Þá er flokkum og flokksmönnum heimilt að taka við fé frá einstaklingum án þess að upplýst sé í öllum tilfellum um viðkomandi styrkveitendur.  Þessar ráðstafanir eru í andstöðu við markmið laganna sjálfra, að „…draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum.“  Einnig er lögunum ætlað „…að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.“ 

Í byrjun október birtust niðurstöður skoðanakönnunar um efnið.  Dagana 8. – 15. september 2010 kannaði Capacent Gallup afstöðu almennings til styrkja frá fyrirtækjum og einstaklingum til stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka.  Í ljós kom að afgerandi meirihluti, eða 68%, eru andvíg því að íslenskum stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilt að taka við fjárframlögum frá fyrirtækjum.  Þá segjast 79% þjóðarinnar andvíg því að stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilit að taka við fjárframlögum frá einstaklingum án þess að nafn þess einstaklings sem veitir styrkinn sé gefið upp.

17. maí 2011
Birgitta Jónsdóttir
Margrét Tryggvadóttir
Þór Saari

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur