Miðvikudagur 12.10.2011 - 23:35 - FB ummæli ()

Njósnað um íslendinga.

Njósnatillagan skaut upp kollinum á Alþingi í dag í annað sinn. Tillagan er í formi þingsályktunar og heitir fullur nafni „Tillaga til þingsályktunar um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.“  Hún hljóðar svo:  „Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp sem veiti lögreglunni sambærilegar heimildir og lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi (forvirkar rannsóknarheimildir).“

Notkun tungumálsins er áhugaverð hér og það að kalla njósnir um saklausa borgara „forvirkar rannsóknarheimildir“ er til merkis um hvernig áhugamenn um njósnir um samborgarana telja sig samt þurfa að fela sig bak við óljóst og jafnvel villandi orðalag. Það er orðið grynnra en áður á vilja manna til að grípa til örþrifaráða vegna heims sem þeir telja sjálfir að sé mjög hættulegur. Hér er á ferðinni þingmál frá þingmönnum sem sumir hafa lýst því yfir að eftir öll þessi mótmæli séu þeir hræddir við fólk á götu. Staðreyndin er hins vegar sú að t.d. á þingsetningardaginn voru um tíma 13 þingmenn á Austurvelli, enginn þeirra varð fyrir aðkasti en flestum var í stað þess heilsað með virktum og jafnvel faðmlögum. Enginn þeirra er meðflutningsmaður. Um fimmtíu þingmenn sáu hins vegar frekar ástæðu til að skýla sér bak við lögreglu og hálf-hlaupa á milli húsa.

Rökin bak við njósnafrumvarpið eru að glæpir séu að aukast og verða hættulegri og svo má vel vera, en eins og ég benti á í ræðu minni þá hafa þeir ekki síður aukist í þeim löndum sem hafa öfluga njósnalöggjöf og t.d. í bandaríkjunum með allar sínar lögreglur, leyniþjónustur, fangelsi og dauðrefsingar eru glæpir landlægir og glæpir hafa einnig aukist í þeim löndum sem við berum okkur helsta saman við og vísað er til í tillögunni þ.e. á hinum norðurlöndunum.

Siv Friðleifsdóttir er fyrst flutningsmaður málsina en það kom mér verulega á óvart hverjir meðflutningsmenn á málinu eru. Það var hins vegar ekki mikill vilji hjá þeim að tala í málinu og eina umræðan var milli mín og Sivjar og sá eini í þingsalnum utan okkar var Árni Johnsen. Ég gagnrýndi málið frá ýmsum sjónarhornum og benti á ýmsar aðrar leiðir sem mætti fara. Vonandi taka þingmenn og þið lesendur frá tíma til að hlusta á gagnrýnina því þetta er allt of varasamt skref að stíga.

Umræðan öll  er hér   fyrir þá sem hafa áhuga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur