Laugardagur 19.05.2012 - 12:19 - FB ummæli ()

Ný stjórnarskrá

Undanfarna daga hefur verið uppi mikill misskilningur í netheimum og víðar og jafnvel hjá þingmönnum, varðandi þau drög að nýrri stjórnarnskrá sem nú eru rædd á Alþingi.

Sú afgreiðsla sem nú er í gangi í þinginu er aðeins eitt skref af mörgum við gerð nýrrar stjórnrskrár sem hófst í kjölfar þeirrar háværu kröfu Búsáhaldabyltingarinnar um víðtækar lýðræðisumbætur. Kröfu sem kom fram vegna þeirra alverlegu misbresta sem birtust fólki í algjörlega vanhæfri ríkisstjórn og stjórnsýslu í aðdraganda og í kjölfar Hrunsins. Þeim sem efast um það er bent á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og dóminn yfir Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra þar sem á um 400 blaðsíðum starfshættir stjórnkerfisins eru tíundaðir. Alþingi hefur fram að þessu verið ófært um að gera nokkuð nema lítilsháttar breytingar á stjórnarskránni. Stjórnarskrá sem í grunninn er plagg skrifað af danakóngi fyrir Danmörku 19. aldar og það þrátt fyrir að strax við upphaf lýðveldisins væru allir stjórnmálaleiðtogar landsins sammála um að sú stjórnaskrá sem þá tók gildi væri aðeins bráðabirgðaplagg. Hefðbundin flokkapólitík og hagsmunabarátta sérhagsmuna með tengsl inn í stjórnmálaflokka tók nefnilega fljótlega völdin af mönnum og kom í veg fyrir allar umbætur ef frá er talið að nýr mannréttindakafli var skrifaður inn í stjórnarskrána eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst í raun um að íslenska stjórnarskráin virti ekki grundvallar mannréttindi.

Flokkapólitíkin gegn nýrri stjórnarskrá náði svo hámarki við lok starfs stjórnarskrárnefndar undir stjórn Jóns Kristjánssonar þegar hatur Sjálfstæðsiflokksins á forseta landsins kom í veg fyrir samþykkt nýrrar stjórnarskrár í kjölfar þess að hann vísaði fjölmiðlalögum í dóm þjóðarinnar, en þá kröfðust sjálfstæðismenn að ný stjórnarskrá skerti til muna völd forsetans.

Í kjölfar kosningana 2009 lagði forsætisráðherra fram fumvarp um  þjóðkjörið stórnlagaþing  25 til 31 manna sem skyldu endurskoða stjórnarskrána. Það frumvarp tók svo mikilvægum breytingum í meðferð Allsherjarnefndar þar sem verkefninu var skipt  upp í þrjá hluta. Haldin var Þjóðfundur eitt þúsund manna sem valið var á með slembiúrtaki úr þjóðskrá sem velti upp og skoðaði atriði sem hugsanlega ættu heima í nýrri stjórnarkskrá. Svo því sé haldið til haga þá gefur 1.000 manna slembiúrtak fullkomið þversnið af skoðunum þjóðarinnar. Niðurstöður Þjóðfundar fóru svo til sjö manna nefndar sem valin var með þverpólitísku samþykki allrar Allsherjarnefndar og henni var falið að vinna með tillögur Þjóðfundar sem og aðrar tillögur að stjórnarkrárbreytingum sem Alþingi hafði unnið með og útbúa þær í viðunandi búning fyrir næsta skref í ferlinu. Það skref var þjóðkjörið stjórnlagaþing 25 manna sem yfir 84.ooo manns völdu úr um 500 frambjóðendum.  Stjórnlagaþing sem í kjölfar mjög umdeilds og illa rökstudds úrskurðar Hæstaréttar, sem var í raun einsdæmi í lýðræðissögu vesturlanda, varð að Stjórnlagaráði sem Alþingi skipaði en með þeim sömu fulltrúum og þjóðin hafði kosið. Hvaðanæfa að í heiminum hefur þetta fyrirkomulag verið talið til mikillar eftirbreytni og fjölmargir alþjóðlegir sérfræðingar hafa hrósað því.

Síðastliðið sumar afhenti Stjórnlagaráð Alþingi  tillögur sínar að nýrri stjórnarskrá. Forseti Alþingis lagði þær tillögur fyrir þingið í formi skýrslu til umræðu og ákvörðunar um framhaldsmeðferð en í núverandi stjórnarskrá er skýrt kveðið á um það að það skuli vera Alþingi sjálft sem breytir stjórnarskránni. Í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögu frá m.a. mér, Róbert Marshall og fleirum var ákveðið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fengi skýrsluna til umfjöllunar og að lokinni yfirferð yrði leitað álits þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu á tillögum Stjórnlagaráðs, áður en Alþingi tæki þær til efnislegrar meðferðar. Það er tillaga nefndarinnar sem nú er verið að ræða í þinginu en hún snýr að því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið eigi síðar en 20. október næstkomandi, en eins og kunnugt er komu Sjálfstæðisflokkur og nokkrir þingmanna Framsóknarflokks með málþófi í veg fyrir að atkvæðagreiðslan yrði haldin samhliða forsetakosningum þann 30. júní.

Tillagan sem nú er verið að ræða  er hér  og meðfylgjandi breyting á dagsetningu  er hér.  Tillagan er einföld og auðskilin og spyr hvort viðkomandi kjósandi vilji að tillögur Stjórnlagaráðs verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Auk þess er spurt fimm spurninga um efnisatriði úr tillögum stjórnlgaráðs, þ.e. hvort í nýrri stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um náttúruauðlindir, ákvæði um þjóðkirkju, ákvæði um persónukjör, ákvæði um jafnt vægi atkvæða og ákvæði um að tiltekinn hluti manna geti með undirskrift krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Ástæðan fyrir þessum fimm spurningum en ekki einhverjum öðrum er að hér er um að ræða breytingar og/eða viðbætur sem eru umtalsverð frávik frá núverandi stjórrarskrá og því þykir rétt að fá álit þjóðarinnar á þeim sérstaklega. Ef þetta verður samþykkt verður lagt fram frumvarp á haustþingi þar sem Alþingi fær málið til efnislegrar meðferðar í samræmi við núgildandi stjórnarskrá og hefur sér þá til aðstoðar álit þjóðarinnar á málinu.

Sjálfstæðisflokkurinn og fjórir þingmenn Framsóknarflokksins eru hins vegar alveg mótfallnir því að þjóðin verði spurð álits á drögum að nýrri stjórnarskrá og hafa nú haldið upp málþófi í um fjörtíu klukkutíma um málið og orðið sjálfum sér og öllum flokkssystkinum sínum til skammar. Þeir hafa nú haldið á annað hundrað ræður og farið í á sjöunda hundrað andsvör við sjálfa sig. Framganga þeirra byggist að mestu á rangfærslum og viljandi misskilningi og efnislegt innlegg er ekki neitt og oft virðast þeir ekki hafa hugmynd um hvað stendur í tillögum Stjórnlagaráðs eða þeirri tillögu sem þeir eru þó að ræða.

Í könnun sem  MMR birti  þann 27. apríl síðastliðinn kemur fram að yfirgnæfandi meirihluti eða 2/3 hlutar aðspurðra vilja að tillögur Sjtórnlagaráðs verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Hvað efnisatriðin varðar þá eru 86% fylgjandi því að náttúruauðlindir verði í þjóðareign, 87% vilja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, 84% vilja persónukjör, 77% vilja jafnt vægi atkvæða í kosningum og rúmlega 55% vilja ekki ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá.

Aðalatriðið er að það er ekki verið að keyra í gegn nýja stjórnarskrá heldur verið að vísa því til þjóðarinnar hvað henni finnist eigi að vera í nýrri stjórnarskrá og sú staða að minnihluti þingmanna í hagsmunagæslu fyrir aðra fjárhagslega sérhagsmuni geti komið í veg fyrir það er óþolandi og í raun aðför að lýðræði í landinu.  Ef þetta heldur áfram mun Alþingi standa frammi fyrir því fyrr eða síðar hvort að sú notkun Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna á þeim nær helga rétti minnihlutans á þingi að geta stöðvað þingmál með málþófi sé genginn of langt.

Það að taka ræðustól Alþingis í gíslingu sérhagsmuna og koma í veg fyrir málefnalega og lýðræðislega meðferð þingmála gengur ekki upp til lengdar. Það hlýtur því að koma til athugunar hjá forseta Alþingis að skoða 64. grein þingskapa sem gefur færi á að stöðva eða takmarka umræðu um mál. Slíku ákvæði var síðast beitt í herstöðvarmálinu þann 30. mars 1949 eftir aðeins tveggja tíma umræðu um hvort landið skyldi lagt undir erlent hervald. Ráðandi afl þess tíma þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, stöðvaði umræðuna og kom í veg fyrir að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú snýst málið um þá sem vilja koma í veg fyrir að álit þjóðarinnar heyrist. Slíkt afstaða er fáheyrð en lýsir vel þeirri fyrirlitningu sem málþófsþingmenn hafa á almenningi í landinu. Alþingi á að sjálfsögðu ekki að líða slíkt til lengdar. Fyrirlitning málþófsþingmanna á lýðræði og almannavilja er komin fram og óþarft að orðlengja það meir.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur