Hér fyrir neðan er bréf sem ég hef sent til forseta Alþingis og forsætisnefndar vegna vinnu s.k. undirhóps atvinnuveganefndar Alþingis um kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar en sá hópur hefur fundað undanfarið án þess að boða fulltrúa Hreyfingarinnar á fundina og því ekki hægt að ætla annað en að um skipulagt baktjaldamakk sé að ræða. Um er að ræða vinnu við frumvarp stærstu og dýrmætustu auðlind íslendinga og því e.t.v. ekki furða að þeir þingmenn undirhópsins vilji ekki hafa gagnrýnendur á kerfið með sér á fundum. Þessi vinnubrögð eru til vansa fyrir lýðræðislega kjörið þing en e.t.v. dæmi um hvað menn eru tilbúnir að ganga langt þegar kemur að kvótamálum.
Reykjavík, 3. september 2012
Forseti Alþingis
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir,
Forsætisnefnd
Efni: Brot á samkomulagi þingflokka um þinglok.
Ágæti forseti og forsætisnefnd.
Tilefni þessa erindis er að undirrituðum, sem er formaður þinghóps Hreyfingarinnar og á sæti í atvinnuveganefnd Alþingis, hefur borist til eyrna og lesið af því í blöðum að svo kallaður undirhópur atvinnuveganefndar um fiskveiðistjórnunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar sem starfaði um tíma í júní s.l. hafi haldið nokkra fundi í nýliðnum ágústmánuði án þess að fulltrúi Hreyfingarinnar væri boðaður á þá fundi.
Hópurinn samanstendur af einum fulltrúa hvers þingflokks úr atvinnuveganefnd og var falið að leita samkomulags í þingmáli 657 um stjórn fiskveiða. Fulltrúar í honum eru: Kristján L. Möller Samfylkingu, Björn Valur Gíslason Vinstri hreyfingunni grænu framboði, Einar K. Guðfinnsson Sjálfstæðisflokki, Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokki auk mín fyrir hönd Hreyfingarinnar.
Í samkomulagi þingflokka og formanna þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi um þinglok í júní s.l. var skýrt tiltekið að áðurnefndur hópur myndi starfa áfram og skila tillögum til ráðherra sjávarútvegsmála fyrir upphaf haustþings. Ég sat alla fundi þingflokksformanna sem og formanna stjórnmálaflokka sem sneru að þinglokunum og aldrei kom til tals að undanskilja ætti Hreyfinguna frá þessari vinnu.
Þær upplýsingar sem ég hef fengið eru að á fyrsta fundi hópsins í ágúst hafi formaður hans Kristján L. Möller og fleiri á fundinum „talið óljóst“ hvort fulltrúi Hreyfingarinnar ætti áfram sæti í hópnum og þess vegna ekki boðað mig á fundinn.
Þessi vinnubrögð eru með ólíkindum og ekki hægt að túlka öðruvísi en skýrt brot á fyrrgreindu samkomulagi um þinglok. Vinna hópsins snýst um úthlutun mestu verðmæta sem þjóðin býr að, fiskveiðiauðlindinni, og virðast fulltrúarnir fjórir í hópnum, sem allir hafa uppi málstað útgerðarinnar í málinu, hafa tekið einhliða ákvörðun um að véla um leiðir í málinu bak við luktar dyr. Slík vinnubrögð eru ólíðandi og til háborinnar skammar fyrir Alþingi, atvinnuveganefnd og formann hennar Kristján L. Möller.
Þess skal getið að starfsemi slíkra hópa á sér hvergi stoð í þingsköpum Alþingis og þeir hafa enga lögformlega stöðu í stjórnskipaninni og því lagði undirritaður fram eftirfarandi bókun á fundi atvinnuveganefndar þann 19. júní síðastliðinn: ”Hreyfingin mótmælir því fyrirkomulagi við vinnu við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld (mál 657 og 658) að s.k. trúnaðamannahópur fulltrúa stjórnmálaflokka haldi áfram vinnu sinni og skili frá sér samantekt/greinargerð til grundvallar frekari vinnu við frumvarp um stjórn fiskveiða. Slíkur hópur hefur enga formlega stöðu samkvæmt þingsköpum Alþingis og það er óásættanlegt að vinna við þingmál fari fram með þessum hætti. Hreyfingin krefst þess að hópurinn sem samanstendur af fulltrúum í atvinnuveganefnd vinni að málinu með atvinnunefnd allri og að nefndin öll hafi beina aðkomu að öllum fundum og tillögum hópsins.“
Það er því krafa Hreyfingarinnar að Kristjáni L. Möller verði vikið frá sem formanni atvinnuveganefndar og að baktjaldamakk undirhópsins sem átti sér stað í ágúst verði opinberað.
Þess má og geta að þetta er í annað sinn sem samkomulag um þinglok er þverbrotið. Síðast var það gert í jólahlé þingsins 2010-2011 vegna Icesave málsins þegar fjárlaganefnd fundaði þótt slíkt væri brot á samkomulaginu. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar neitaði forseti Alþingis að bregðast við og gera nokkuð í málinu þótt hún hafi sjálf staðfest það samkomulag með undirskrift sinni.
Alþingi nýtur einungis trausts um 9% þjóðarinnar og eftir Hrunið haustið 2008 hefur verið mikilvægara en nokkru sinni að þingið og forseti þess reyni að ávinna þinginu traust almennings. Það hefur hingað til mistekist og ef forseti þingsins og forsætisnefnd ætla að leggja blessun sína yfir slík vinnubrögð sem hér að ofan eru tíunduð þá mun vegur þingsins í huga almennings seint vænkast.
Með vinsemd og virðingu,
Þór Saari
formaður þinghóps Hreyfingarinnar
Nýlegar athugasemdir