Fimmtudagur 04.10.2012 - 11:56 - FB ummæli ()

Yfirlýsing vegna dóms

Yfirlýsing

vegna dóms Héraðsdóms Reykjaness í máli Ragnars Árnasonar gegn Þór Saari.

Í gær féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness í meiðyrðamáli Ragnars Árnasonar prófessors við HÍ gegn undirrituðum þar sem tiltekin ummæli undirritaðs í DV um meint tengsl Ragnars Árnasonar við LÍÚ voru dæmd dauð og ómerk. Undirritaður var jafnframt dæmdur til að greiða Ragnari Árnasyni miskabætur vegna ummælanna, kostnað við birtingu dómsins sem og málskostnað. Undirritaður var sýknaður af refsikröfu Ragnars Árnasonar.

Ummælin sem dómurinn varðar voru látin falla í örstuttu símaviðtali við blaðamann DV vegna umræðna á Alþingi um stöður við Háskóla Íslands kostaðar af hagsmunaðilum. Ummælin voru leiðrétt daginn eftir að beiðni Ragnars, hann beðinn afsökunar á þeim og leiðrétting einnig send til rektors HÍ. Leitað var frekari sátta í málinu en án árangurs.

All nokkru síðar eða í upphafi nóvembermánaðar lagði þinghópur Hreyfingarinnar fram frumvarp á Alþingi um róttækar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem undiritaður er fyrsti flutningsmaður að. Fljótlega upp úr því eða í byrjun desember er lögð fram stefna í Héraðsdómi Reykjaness á hendur undirrituðum vegna ummælana um Ragnar Árnason sem höfðu birst í DV rúmlega þremur mánuðum fyrr.

Undirritaður telur að stefna Ragnars hafi verið með öllu tilhæfulaus og sé tilraun til þöggunar á umræðu um málefni sem hvað heitast hefur brunnið á þjóðinni í áratugi sem eru breytingar á kvótakerfinu og úthlutun aflaheimilda.

Lögmenn mínir telja að í niðurstöðu Héraðsdóms sé ekki tekið fullnægjandi tillit til dóma í sambærilegum málum, hvorki dóma Hæstaréttar Íslands né dóma Mannréttindadómsstóls Evrópu, en síðast liðið sumar féllu þar tveir dómar Íslandi í óhag.

Niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness mun því verða áfrýjað til Hæstaréttar.

 

Álftanesi, 4. október 2012

Þór Saari

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur