Fimmtudagur 11.10.2012 - 19:33 - FB ummæli ()

Ferðamennirnir

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með netheimum í dag vegna ummæla sem hafa birst þar í kjölfar viðtals við mig í þættinum „Reykjavík síðdegis“ á Bylgjunni í gær. Í viðtalinu fjalla ég almennt um áhyggjur mínar af því tjóni sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna er að valda á íslenskri náttúru og hvernig ferðamannaiðnaður af þessari stærðargráðu skekkir og getur afskræmt samfélög. Frægt er dæmið frá Indlandi þar sem íbúar fá ekki lengur að halda bálfarir í friði fyrir ágangi ferðmanna, aðallega vestrænna, sem troðast um allt otandi myndavélum og linsum að syrgjendum.

Í viðtalinu fer ég víða og tala m.a. um hvernig ferðamannaiðnaðurinn hefur hefur áhrif á og jafnvel neyðir íbúa til að breyta daglegum lífsvenjum sínum. Þar tek ég sem dæmi þann sprota sem var tekinn að blómstra í íslenskri kaffihúsamenningu og verslun í miðborg Reykjavíkur en hvoru tveggja er nú nánast alfarið rekið á forsendum ferðamannaiðnaðar og umhverfisspjöll á fagurri náttúru eru alkunn. Í viðtalinu fjalla ég einnig um háa verðlagningu, lágt þjónustustig og metnaðarleysi sem ég verð allt of víða var við á ferðum mínum um landið en að jafnaði fer ég um 15 til 20 ferðir út á land á hverju ári og s.l. sumar var ég nærri tvo mánuði utan Reykjavíkur. Þótt vissulega sé metnaður mikill víða og þjónusta góð er allt of mikið um að okrað sé á gestum og dæmin um 2.300 króna hamborgara og 3.200 króna bleikjuflak og 25.000 króna næturgistingu eru allt of algeng. Metnaðarleysi í matseðlum veitingahúsa þar sem frumleikinn felst helst í mismunandi útgáfum af hamborgurum, pizzum og stærðinni á „Season all“ kryddbauknum hjá kokknum er ótrúlega algengt.

Áhrifin sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna hefur haft eru augljós og ég hef talað um afskræmingu samfélaga í því samhengi þó á Íslandi kalli þetta sumir því sérkennilega nafni menningartengd ferðaþjónusta. Sú afskræming felst til dæmis í því að menningin og sagan er skrumskæld og víkingasafn, skaufasafn, spákonu-, sjóraæningja- og skrímslahús eru auglýst sem hluti af íslenskri menningu þegar lítið eða ekkert af þessu á sér stoð í raunveruleikanum. Þar inni er líka álfa- og huldufólksæðið og Keikó var þarna inni um tíma þar til hann flúði. Sannkölluð Disney-væðing samfélags. Þessu fylgir svo gróska í auglýsingaskiltum meðfram þjóðvegum landsins sem auglýsa herlegheitin og þótt slík skilti séu bönnuð með lögum utan þéttbýlis, enda með sanni sjónmengun, er ekkert gert í málinu þar sem einhverjir græða pening á dæminu. Umhverfsstofnun hefur fulla vitneskju um málið en slík skilti heyra undir hana en stofnunin bregst ekki við ábendingum þar um vegna manneklu og fjárskorts.

Þetta nær þó hámarki þegar menn átta sig á að náttúruperlur eru að eyðileggjast og vilja í staðinn rukka fyrir aðgang að þeim, er á meðan er, svo þegar allt er ónýtt getum við bara farið til Kanarí. Sama hugsun og með geirfuglinn, síldina, þorskinn og virkjanirnar. Það er þetta sem ég vil kalla afskræmingu, að það þyki sjálfsagt mál að íslendingar geti ekki farið um landið sitt án þess að borga fyrir það og geti ekki notið þess vegna þeirra þúsunda erlendu ferðamanna sem fyrir á staðnum. Hér er hægt að nefna ótal dæmi, Landmannalaugar, Gullfoss, Geysi, Þórsmörk, Námaskarð, Dimmuborgir, Dettifoss, Öskju og Skaftafell. Það sama hefur gerst í stangveiðinni þar sem íslendingar eru orðnir í minnihluta í veiðbókum um allt land og í staðinn orðnir þjónustuaðilar við erlenda auðmenn. Nú er nýjasta orðið „Náttúrupassi“ sem við munum væntanlega þurfa að kaupa og ganga með í veskinu til að geta ferðast um landið ef ferðaiðnaðurinn og þjónkunaraðilar hans fá sitt fram.

Sjálfur var ég einn af þeim sem fagnaði ferðaþjónustu sem nýrri atvinnugrein á sínum tíma en aldrei hefði mig órað fyrir að þróunin yrði með þessum hætti. Vandinn er að sjálfsögðu algert stefnuleysi stjórnvalda og „Villta vesturs“ umhverfi þar sem viðurkennt er að stór hluti greinarinnar er utan skattkerfisins. Hafandi hlustað á s.k. „aðila ferðaþjónustunnar“ marg oft á nefndafundum Alþingis og heyrt hugmyndir þeirra um að „dreifa ferðamönnum yfir árið“ sem er í sjálfu sér gott og gilt markmið þá hefur alltaf brostið á með langri vandræðalegri þögn þegar ég spyr þá hvað þeim finnst margir ferðamenn á ári vera nóg. Það er engu svarað um hámark og þó ferðaþjónustuaðilarnir viðurkenni að vandamálið sé til staðar þá er á sama tíma ISAVIA sem sér um flugvöllin í Keflavík með áætlanir á borðinu um aðra flugbraut og stækkun flugstöðvarinar svo hægt sé að fjölga ferðamönnum á sumrin. Nú þegar eru ferðamenn tvöföld íbúatala Íslands (á Spáni hættu stjórnvöld að styðja við geirann þegar ferðamenn voru orðnir jafnmargir íbúunum) og stefnir að óbreyttu í milljón manns á ári innan skamms og tvær milljónir eftir um sjö ár miðað við sömu þróun.

Gagnrýni mín snýst ekki um erlenda ferðamenn heldur fjölda þeirra og hvernig íslenskt samfélag er orðið ofurselt þeirri hugsun allt sé leyfilegt í nafni peninga, jafnvel að svipta íbúana þeirri náttúru og því umhverfi sem þeirra hafa fæðst og alist upp í.

Að sjálfsögðu tók bloggið við sér og umræðan hefur verið mikil í dag. Það sem var þó athyglisverðast við hana var að umræðan á Vísi.is var nánast öll í upphrópunar- og persónuníðsstíl meðan umræðan á DV var mjög yfirveguð og málefnaleg, alla vega framan af þar til Teitur nokkur Atlason kom þar inn og sakaði mig um útlendinga andúð. Á Facebook steig svo fram Snærós nokkur Sindradóttir pólitískur ungsproti í VG og ásakaði mig um að vera með „rasískt rugl“ án þess að hafa hlustað á viðtalið. Ég tók að gamni mínu stikk prufu af fjórum bloggsóðum og þar kom einnig í ljós að enginn þeirra hafði heldur hlustað á viðtalið. Bæði Teitur og Snærós eru að vísu komin í prófkjörsslag og því annt um að stimpla sig inn í pólitíska rétthugsun en hér hafa þau sannarlega búið sér til „Strámann“ til að ráðast því ekki aðeins er ég fæddur erlendis heldur hef ég flutt frá Íslandi í tvígang til að fara erlendis í nám, búið í þremur löndum, unnið í fjölda landa og ferðast til um 60. Auk þess er ég hluti af pólitísku afli sem kallast Dögun og drög að stefnu Dögunar í málefnum innflytjenda, flóttamanna og þróunarsamvinnu er að  finna hér en þar er fjallað um að Dögun sé fjölmenningarsinnað stjórnmálaafl. Meira að segja bleiki snepillinn sem kallar sig Viðskiptablað tók snúning á mér af tilefninu. Sem betur fer hafa flestir á netinu þekkst vandamálið og verið málefnalegir en það er leitt að sjá og heyra sleggjudóma frá fólki og fjölmiðlum sem hafa ekki einu sinni kynnt sér málið.

Hvað um það, íslensk umræðuhefð er og verður að eilífu söm við sig en fyrir þá sem nenna að hlusta þá er hér tengill á  viðtalið á Bylgjunni  og  hér er tengill á lag við texta Dags Sigurðarsonar  sem sá landann oft með hnyttnu auga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur