Fimmtudagur 18.10.2012 - 16:37 - FB ummæli ()

Álftanes + Garðabær = Nei takk!

Þessi grein birtist í Mogganum í dag. Takk Moggi.

Sameining Álftaness og Garðabæjar hefur lengi verið til umræðu og ekki að ástæðulausu þar sem Álftanesi tókst svo gott sem að setja sig á hausinn í aðdraganda Hrunsins og ekki gott að sjá hvernig ætti að leysa úr þeirri stöðu. Fyrirhuguð sameining sem íbúar sveitarfélaganna fá að kjósa um á laugardaginn ber þess þó frekar merki að vera yfirtaka en sameining og ekki er hún heldur valfrjáls sameining eins og stundum hefur verið haldið fram. Sjálfur er ég almennt hlynntur sameiningum sveitarfélaga þar sem það á við og tel að á höfuðborgarsvæðinu ætti að sameina öll sveitarfélögin í eitt en þó að því tilskyldu að þau hefðu áfram ákveðið sjálfdæmi í ákveðnum málum og að aðkoma þeirra að heildarstjórninni sem hálf-sjálfstæðra eininga yrði áfram tryggð. Hvað þessa einstöku sameiningu varðar eru svo mikilvægir meinbugir á henni að ekki verður við unað og ekki er hægt að sitja þegjandi hjá og horfa á mikilvæga hagsmuni Álftnesinga svo algerlega fyrir borð borna. Þeir hagsmunir sem skipta hér mestu máli eru skipulagsmál, skólamál og svo áframhaldandi bein aðkoma íbúanna sjálfra að málefnum „hverfisins“ Álftaness eftir sameiningu.

Álftanes hefur mikla sérstöðu á höfuðborgarsvæðinu sem náttúruperla með stórum óbyggðum svæðum með miklu varplandi fugla sem og sínum óspilltu fjörum, þ.m.t. tveim skeljasandsfjörum af þremur sem eftir eru á höfuðborgarrsvæðinu. Hugtakið „Sveit í borg“ hefur lengi verið einkunnarorð og þó nýlegar breytingar á deiliskipulagi höggvi skörð í þessa hugmyndafræði eru þó engar stórfelldar breytingar í húsbyggingarmálum framundan. Við sameiningu hefur þess ekki verið gætt að Álftnesingar fái áfram eitthvað um það að segja hvernig skipulagi svæðisins verður háttað og rödd Álftnesinga mun hverfa þegar kemur að skipulagsmálum í nýju sveitarfélagi enda verðum við ekki nema 2.400 í 14.000 manna sameinuðu sveitarfélagi. Þar hræða sporin enda Garðabær ekki beint þekktur fyrir að sýna umhverfinu virðingu með eyðileggingu fagurra hrauna suður af bænum og ákafa um að eyðileggja hluta Gálgahrauns fyrri nýjan óþarfan veg. Ekki síst valda nýjustu æfingarnar undanfarin ár áhyggjum þar sem meðfram Álftanesveginum í Garðahrauni voru jarðýtur dínamít og gröfur notaðar til að eyðileggja hraunið og moka burt lynginu fyrir ný hús og götur. Götur sem voru svo skýrðar Hraunprýði og Lyngprýði. Vitað er að stór landsvæði á Álftanesi freista verktaka og braskara sem byggingarland og með sameiningu við Garðabæ er mjög hætt við að Álftanesið verði fljótlega að sams konar malbiks og steypu samfélagi og stærstur hluti höfuðborgarsvæðisins. Hvað svo sem verður munu íbúar Álftaness alla vega ekkert hafa um málið að segja sem slíkir enda ekki nema brot af íbúum sameinaðs sveitarfélags.

Hvað skólamálin varðar þá hræða sporin og sameiningar annara sveitarfélaga sýna það skýrt að það er eingöngu spurning um tíma hvenær skóli smærra sveitarfélagsins verður lagður niður enda sameining þessi, eins og aðrar, fyrst og fremst af peningalegum ástæðum sem taka ekki tilliti til mikilvægi þess að um heilt samfélag sé að ræða. Umtalsverður sparnaður fyrir sameinað sveitarfélag mun nást með lokun Álftanesskóla enda stór og mannmargur vinnustaður og þótt sameingarsinnar í sveitarstjórn Álftaness telji sig hafa tryggt tilvist skólans eru engin ákvæði í samningnum um að Álftnesingar sjálfir hafi eitthvað um það að segja í framtíðinni hvort hér verður skóli eða ekki. Skólinn er hjarta samfélagsins og ef hann fer verður hér ekkert samfélag lengur heldur úthverfi úr Garðabæ án takmarks og tilgangs. Augljóst er að undir þessum formerkjum verður hagsmunum Álftnesinga betur borgið sem sjálfstæðu sveitarfélagi heldur en með sameiningu.

Hvað skuldamálin varðar þá hefur verið sýnt fram á að rekstur sveitarfélagsins stendur undir ákveðinni skuldastöðu og það þarf einfaldlega að semja um hana eins og gert er í sambærilegum tilfellum fyrirtækja og einstaklinga. Ávinningur Garðbæinga af sameiningu er mjög óljós. Skuldir Álftaness 2012 eru áætlaðar um 3,2 milljarðar sem þýðir um 230.000 krónur á hvern íbúa í sameinuðu sveitarfélagi eða um 920.000 aukna skuld á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Garðabæ. Nú ber að sjálfsögðu að þakka Garðbæingum það að taka á sig þessar skuldir ef þeir kjósa svo enda yrði róðurinn þungur áfram fyrir Álftnesinga ef ekki yrði af sameiningu. Það athyglisverða er að þessari tölu, 920.000 skuld á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Garðbæ hefur ekki verið haldið á lofti í hinum mikla atgangi sameiningarsinna undanfarið og er ekki að finna í áróðursbæklingnum „Okkar val“ eða vefsíðunni með sama nafni. Samkvæmt bæjarstjórn Garðabæjar mun sameiningin ekki kosta íbúana neitt, svona eins og Harpan og nýr Landspítali. Hér má því gera ráð við að það séu hégómlegir stórveldadraumar bæjarstjórnar Garðabæjar sem ráða ferðinni frekar en beinharðir hagsmunir íbúana. Eins og áður hefur komið fram rekur Garðabær útþenslustefnu og sér Álftaness því fyrst og fremst sem byggingarland auk þess að fá aðsetur forseta Íslands til sín, en það þykir víst fínt.

Nú er ekki réttlátt að efast um að sveitarstjórnarmenn Álftaness hafi ekki gert sitt besta í þessari stöðu og svo sannarlega hefur þeim tekist með undraverðum hætti að snúa við rekstri sveitarfélagsins eftir óráðsíuna miklu. Það ber að þakka og virða og Álftnesingar sjálfir hafa að auki einnig þurfta að búa við þungar umframbyrðar og niðurskurð þjónustu. Það má hins vegar ekki gefast upp og samþykkja það að leggja samfélagið Álftanes niður vegna þessa, Þetta samfélag okkar er einfaldlega merkilegra en það. Við eigum að reyna að endursemja við Garðabæ um sameiningu sem inniber ákveðna sjálfstjórn í umhverfis- og skólamálum og setja með því fordæmi fyrir auknu íbúalýðræði og þá einnig fyrir frekari sameiningum annarra sveitarfélaga. Ef það tekst ekki þurfum við að axla ábyrgðina og halda áfram sjálf.

„Mannshöfuðið er þungt en þó skulum vér uppréttir ganga“ sagði mætur maður einhvern tímann. Segjum því nei við sameiningu að þessu sinni en þökkum jafnframt garðbæingum áhugann og örlætið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur