Föstudagur 19.10.2012 - 13:52 - FB ummæli ()

Ný stjórnarskrá. Af hverju Já.

Á morgun fá Íslendingar einstakt tækifæri til að kjósa umhvort þeir vilji nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrá sem samin hefur verið í svo einstöku ferli að athygli hefur vakið um allan heim. Alþingi ákvað árið 2010 að frumkvæði forsætisráðherra að útvista ritun nýrrar stjórnarskrár til þjóðarinnar í samræmi við háværa kröfu þjóðarinnar í kjölfar Hrunsins og vegna þeirrar staðreyndar að Alþingi hefur á þeim rúmlega 60 árum sem liðin eru frá stofnun lýðveldisins mistekist verkið, sem þó var sammæli um að hefja strax árið 1944. Þetta ferli tóku þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins líka fullan þátt í að skipuleggja og einungis einn þingmaður greiddi atkvæði gegn málinu við loka afgreiðslu þess.

Fyrst tók til starfa sjö manna Stjórnlaganefnd sem valin var samhljóða af Allsherjarnefnd Alþingis. Sú nefnd skipulagði um þúsund manna þjóðfund sem valið var á með slembiúrtaki úr þjóðskrá og sem tyggði fullkomið þversnið þjóðarinnar. Þjóðfundurinn var skipulagður af þaulvönu fagfólki, gekk snurðulaust fyrir sig og komst að mjög afgerandi niðurstöðum.  Stjórnlaganefndin vann í sameiningu úr tillögum Þjóðfundarins og skrifaði drög að tveimur stjórnarskrám, safnaði saman miklu magni gagna úr vinnu fyrri stjórnarskrárnefnda Alþingis og efndi svo til almennrar kosningar til 25 manna Stjórnlagaþings sem 522 einstaklingar af öllu landinu buðu sig fram til. Í kjölfar stórfurðulegs úrskurðar Hæstaréttar um kosninguna sem ógilti hana vegna mjög smávægilegs ágalla sem aldrei var sýnt fram á að hefðu haft minnstu áhrif á úrslitin, skipaði Alþingi hina sömu kjörnu fulltrúa í Stjórnlagaráð. Það starfaði í um fjóra mánuði og skilaði af sér „Frumvarpi til stjórnskipunarlaga“ sem er formlegt orð yfir stjórnarskrá til Aþingis um sumarið 2011. Alþingi ræddi málið í formi skýrslu ítarlega strax á haustþinginu það ár og eftir ítarlega yfirlegu var ákveðið að leggja frumvarpið í dóm þjóðarinnar áður en Alþingi tæki það formlega til efnislegrar meðferðar. Þetta var ákveðið vegna þess almenna vantrausts sem ríkt hefur á Alþingi og stjórnmálum almennt undanfarin ár og til að lágmarka þá hættu á að missa málið ofan í flokkspólitískar skotgrafir þar sem hver flokkur og hver einstaklingur á þingi myndi gera kröfu um „sína“ stjórnarskrá.

Á morgun 20. október mun svo almenningur geta sagt álit sitt á hvort hann vill nýja stjórnarskrá byggða á þessum tillögum. Ef svarið verður Já mun Alþingi fá málið til formlegrar efnislegrar meðferðar, væntanlega aðeins sníða af tæknilega agnúa ef einhverjir eru en ekki fara af stað með neinar meiriháttar efnislegar breytingar, enda væri það þá í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Ef svarið verður Nei munu íslendingar þurfa að búa áfram við danska stjórnarskrá sem samin var af danakonungi um 1850 og afhent þjóðinni einhliða af honum árið 1874. Sú stjórnarskrá er barn síns tíma og hvorki góð til brúks í dag né sem veganesti inn í framtíðina. Það verður því vandséð hvers konar framtíð bíður okkar ef Nei verður ofan á. Við munum alla vega ekki sjá neinar breytingar á stjórnmálaumhverfinu, því umhverfi sem er ábyrgt fyrir Hruninu. Það er alveg víst.

Nú er það svo með mig og sennilega marga aðra að ég hefði viljað sjá ýmislegt öðruvísi í nýrri stjórnarskrá en þannig er einfaldlega ekki hægt að vinna málið. Mín stjórnarskrá eða samstaða allra um stjórnarskrá eru draumar sem aldrei verða að veruleika og þess má m.a. geta að bandaríska stjórnaskráin var samþykkt með mjög litlum meirihuta í flestum fylkjum ríkisins á sínum tíma. Þessi stjórnarskrá uppfyllir hins vegar að mestu leiti allt sem ég vil hafa í stjórnarskrá þó mislangt sé gengið í ýmsum atriðum. Ég mun því segja Já í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun við fyrstu spurningunni. Hvað hinar varðar mun ég segja Já við öllum nema spurningunni um hvort ég telji að ákvæði um þjóðkirkju eigi að vera í stjórnarskrá. Slíkt ákvæði er ekki í anda nútíma hugmynda um trúfrelsi og setur okkur á bekk með mörgum trúarríkjum í hinum íslamska heimi sem skilja ekki milli hins veraldlega og hins andlega þegar kemur að stjórn ríkisins. Svör mín verða því  Já, Já, Nei, Já, Já, Já.

Sérstök umræða var um málið á Alþingi í gær. Eins og vænta mátti þá reyndu þingmenn Sjálfstæðisflokksins að tala niður þjóðaratkvæðagreiðsluna en þeir voru ómálefnalegir enda ekki með neinn málefnagrundvöll að byggja á og það voru grímulausir sérhagsmunir yfirstéttarinnar í Sjálfstæðisflokknum sem réðu ferðinni. Formaður flokksins meira að segja bolaði Pétri Blöndal frá sem fyrsta ræðumanni þó að umræðan hafi verið að frumkvæði hans og Pétur því átt að leiða málið.

Mestum vonbrigðum ollu þó Lilja Mósesdóttir, Jón Bjarnason og Einar K. Guðfinsson. Lilja vegna þessa að hún fór að mestu leiti með rangfærslur og klykkti svo út með að ætla að segja Nei því hún fékk ekki skrifa nýja stjórnarskrá eftir eigin höfði. Að segja Nei við ímyndaðri stjórnarskrá er svo eitthvað sem aðrir verða að útskýra sem betur eru til þess fallnir en ég. Jón Bjarnason féll einnig í þann pytt að vilja sína eigin persónulegu stjórnarskrá og geta ekki samþykkt annað. Einar K. Guðfinnson fór hins vegar með algerlega staðlausa stafi þegar hann hélt því fram að ef stjórnarskráin yrði samþykkt yrði landsbyggðin bara með 11 þingmenn. Þetta er alrangt en sýnir hvernig sumir menn svífast einskis þegar kemur völdum.

Hér er svo tengill  á ræðun mína í þinginu í gær. Gangi okkur vel á morgun 20. október. Ný stjórnarskrá er mikilvægari en nokkuð annað þessi árin.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur