Laugardagur 06.07.2013 - 11:08 - FB ummæli ()

Tengslanetið

Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir hefur gert úttekt á tengslaneti Framsóknarflokksins í kringum Íbúðalánasjóð, neti sem með réttu ætti ef til vill frekar að kalla spillingarnet. Hér er samatektin, verði ykkur að góðu.

„Pólitíska tengslanetið birtist þar með ýmsum hætti. Ein birtingarmynd tengslanets í kringum Íbúðalánasjóðinn á þessum tíma var flokkspólitískt tengslanet sem leit svona út:
Á árunum 2003 til 2006 var í Félagsmálaráðuneytinu Árni Magnússon ráðherra Framsóknarflokksins. Í Íbúðalánasjóði var stjórn sem hafði verið skipuð án tilnefningar af Páli Péturssyni fyrrum félagsmálaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn. Framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, Guðmundur Bjarnason, sem var ráðinn af þeirri stjórn ráðherrans, var fyrrum samflokksmaður og samráðherra Páls í ríksstjórninni.

Í Fjármálaeftirlitinu var forstjórinn sonur Páls Péturssonar fyrrum félagsmálaráðherra, Páll Gunnar Pálsson. Fjármálaeftirlitið heyrði undir Viðskiptaráðuneytið þar sem Páll Gunnar Pálsson var deildarstjóri áður en hann var skipaður í stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins árið 1998. Þar hafði þá verið ráðherra Finnur Ingólfsson og aðstoðarmaður hans hafði verið Árni Magnússon, sem þarna var orðinn félagsmálaráðherra. Finnur Ingólfsson var hins vegar þarna kominn í starf útí í viðskiptalífinu eftir tveggja ára starf sem bankastjóri Seðlabanka Íslands.

Steingrímur Hermannsson hafði verið skipaður í embætti Seðlabankastjóra árið 1994 og hættir á árinu 1998. Þá hefði samkvæmt hefðinni átt að skipa nýjan Seðlabankastjóra og það hefði Finnur Ingólfsson átt að gera sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra á þeim tíma. Hann hins vegar frestar þeirri skipan, en er svo sjálfur gerður að Seðlabankastjóra þegar bankinn flyst frá Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu til Forsætisráðuneytisins í upphafi árs 2000. Þegar Finnur hætti var Jón Sigurðsson, trúnaðarmaður Framsóknarflokksins gerður að bankastjóra Seðlabankans.

Í Viðskiptaráðuneytinu var Valgerður Sverrisdóttir orðin ráðherra fyrir Framsóknarflokkin og aðstoðarmaður hennar var Páll Magnússon, bróðir Árna Magnússonar, félagsmálaráðherra. Af þessu má sjá að það pólitíska umhverfi sem Íbúðalánasjóður starfaði í var þéttofið tengslanet Framsóknarflokksins í ábyrgðar- og áhrifastöðum innan stjórnsýslukerfisins.

Ég kenni meistaranemum í Háskóla Íslands um áhrif ýmis konar tengslaneta á opinbera stenfmótun. Þetta tiltekna tengslanet og hugsanleg áhrif þess verður áhugaverð stúdía fyrir nemendur mína næst vetur.“

Segiði svo að íslensk stjórnmál og stjórnsýsla séu ekki ormagryfja vanhæfni vegna skyldleikaræktunnar. Nýjustu fréttirnar eru svo þær að forseti Alþingis, Sjálfstæðismaðurinn Einar K. Guðfinnsson vill endurskoða lög um rannsóknarnefndir af því þær hafi „farið fram yfir skilafrest“ og hafi „farið fram yfir kostnaðaráætlanir“, því þurfi að „afmarka betur viðfangsefni þeirra“. Einar var ráðherra Sjálfstæðisflokksins í Hrunstjórninni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur