Þriðjudagur 25.11.2014 - 20:35 - 1 ummæli

Tvö höfuð eitt hjarta

Tvíhöfði er sá sem er með tvö höfuð. Grín tvíeykið sem kallar sig „tvíhöfða“  eru tveir menn með sama grínið. Grín þeirra er samspil tveggja þar sem annar er stundum eins og talsmaður skynsemi á meðan hinn orðar það sem í hjartanu býr og lætur allt vaða. Þetta er góð aðferð til að sýna fleiri en eina hlið í gamanmálum.

Margskonar samspil m.a. í mönnum hefur þetta tvíeðli. Þannig á hver lifandi maður í stöðugri baráttu við sjálfan sig. Hver maður vill láta reglu og skynsemi ráða lífi sínu en tilfinningarnar og náttúran vilja taka völdin. Menn læra af þessari baráttu á milli andans og efnisins og þannig þroskast velflestir menn eftir því sem líður á ævina. Það er í þessari baráttu meðal annars sem aldnir eru vitrir og geta veitt hinum yngri leiðsögn. Þeir sem ná völdum yfir líkama sínum þeir eru farsælir og líka vegna þess að þeir hafa ekki bara skynsemi og reglu að leiðarljósi heldur hafa tilfinningarnar sem förunaut. Þeir gæta þess að láta tilfinningarnar ekki stjórna sér. Tilfinningarnar taka þátt í innra samtali í hverju því máli sem vinna þarf úr og þannig verða menn farsælir.

Við köllum menn hinna ýmsu starfsgreina fagmenn og við viljum að þeir kunni fag sitt vel. Við segjum að sá sem smíðar fallegan hlut sé góður smiður og það mun ekki hafa áhrif á fegurð hlutarins þó að smiðurinn sé leiðinlegur eða jafnvel siðlaus. Tannlæknir á nokkurn skyldleika við smiðinn því að hann er að hluta til handverksmaður sem vinnur að iðn sinni inn í höfði okkar. Það skiptir ekki máli þó að hann sé leiðinlegur en ef við fréttum að hann væri ofbeldisfullur þá myndum við hugsa okkur um tvisvar áður en við færum til hans. Það er vegna þess að við gætum átt það á hættu að hann missti stjórn á sér í miðri aðgerð og réðist á okkur.

Læknar eru mikilvæg faggrein. Læknar eiga sér eið Hippokratesar sem er svona í nútímaútgáfu:

Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna.

Þessi eiður á uppruna sinn frá því um 460 fyrir Krist og það þykir til marks um góða fagmennsku í dag ef fagstétt hefur komið sér upp slíku viðmiði um breytni. Þetta er siðaregla. Það er einnig til marks um þroska samfélags ef það heldur sínar siðareglur. Menn sletta stundum og kalla þetta „prinsipp“ sem er mikilvægt að hafa. Maður með gott siðvit segir ekki eitt í dag og annað á morgun nema að mjög góð rök liggi því til grundvallar.

Fagmennska lækna felst í því að þeir fylgi þessum fyrirmælum, þessari siðareglu, um hegðun sína og gjörðir. Læknir má ekki láta skoðun sína á lyndiseinkunn manns ráða því hvort að hann læknar hann.  Læknir þarf að gera meira en þetta. Læknirinn má ekki láta andlát eins sjúklings fá á sig persónulega því að slíkur læknir yrði ekki lengi starfhæfur. Læknirinn hefur skyldur við aðra dauðvona sjúklinga. Læknirinn verður að láta skynsemina ráða í þessu en verður ekki lengi læknir ef hann hefur ekki tilfinningarnar að förunaut. Fagmaðurinn, læknirinn lærir að hlusta á tilfinningar sínar án þess að láta þær bera sig ofurliði í starfi.

Svipaða hluti er hægt að segja um aðrar fagstéttir. Kennari sem tekur aðdróttanir eins nemanda persónulega og tekst á við hann í reiði er ekki starfi sínu vaxinn. Kennari sem lætur hóp nemenda gjalda fyrir gjörðir eins þeirra er ekki góður kennari. Í þessu má hann ekki láta tilfinningarnar ráða. Skynsemi og þekking ættu til dæmis að segja honum að barnið sem kemur illa fram getur búið við aðstæður sem hafa hindrað þroska þess og siðvit eða það býr við líkamlegar hamlanir sem stýra gjörðum þess. Kennari þarf að gæta þess að beita aga og reglu á sinn hóp en sá sem gerir það eingöngu verður strangur og vondur kennari en sá sem gerir það með tilfinningar sínar sem fylginaut hann verður farsæll. Börn átta sig fljótlega á þessu og tala um að bestu kennararnir séu strangir en góðir.

Þannig verður ekki annað sagt en að fagmaðurinn þurfi að láta sér vaxa tvö höfuð á líkama með eitt hjarta. Við treystum fagmanninum hvort sem hann er læknir eða kennari á meðan hann talar sem læknir eða kennari. Um leið og læknir fer að ræða við aðstandendur sjúklings á þeim nótum að hann sé nú svo þreyttur eða sjúklingurinn hafi verið svekkjandi eða leiðinlegur og því gangi illa með hann, vekur það ótta hjá aðstandendum. Ef kennarinn segir að barn fari í taugarnar á sér vekur það ótta hjá foreldrunum sem hætta að treysta kennaranum.

Embættismaður má ekki draga eigin persónu inn í svör við eðlilegum spurningum fréttamanns. Fréttamaðurinn, fagmaðurinn gegnir skyldum sínum sem fréttamaður og spyr þeirra spurninga sem honum finnst mikilvægt að fá svör við fyrir almenning, sem hann þjónar. Embættismaður og það hátt settur lögreglumaður á ekki að gera fréttamanninum upp að hann sé persónulega að níðast á sér. Embættismaður sannar ekki ágæti sitt í viðtali með vísun í flekklausan feril – hann getur aðeins hughreyst sjálfan sig með því. Lögreglustjóri á alls ekki að verja sig spurningum í réttarríki sem hann hefur tekið að sér að varðveita í starfi sínu. Í réttarríkinu, í lýðræðisríkinu eru spurningarnar vopn og verjur réttlætis og sannleika.

Það er ekki af ástæðulausu að gyðja réttlætis er með bundið fyrir augun því að ekki má hún berja ásjónu hins sakfellda augum því að þá gætu tilfinningarnar haft áhrif á niðurstöðu hennar. Hún hlustar á rök með og á móti og kveður upp dóm sinn.

Getur lögreglustjóri sem sækir rök í hjarta sitt stjórnað lögregluliði. Lögreglumenn verða að gæta þess öðrum fremur að láta tilfinningarnar ekki ráða. Lögregluliðið sem stóð vaktina í hruninu lét tilfinningarnar ekki ráða gerðum sínum. Við værum í vondum málum ef lögreglumenn tækju atlögur mótmælenda persónulega. Gerðu þeir það þá myndi reiðin taka völdin og reiður maður gerir mistök.

Embættismaðurinn, fagmaðurinn getur gert þau mistök að láta tilfinningarnar bera sig ofurliði. Venjulegir breyskir menn eiga auðvelt með að fyrirgefa slíkt því að hver og einn þekkir baráttuna úr eigin kroppi. Það er því miður þannig að embættismaðurinn, fagmaðurinn verður fyrst að átta sig á mistökum sínum því að einungis undir þeim kringumstæðum er hægt að fyrirgefa – þegar menn skilja að þeir hafi gert mistök.

Þegnarnir vilja að þeir sem eru settir yfir þá séu fagmenn og sem slíkir verða þeir því miður að láta sér vaxa tvö höfuð því að hlutverkin eru tvö. Annars vegar er maðurinn, faðirinn, móðirin og hins vegar er embættismaðurinn. Við teljum mikilvægt að þessum tveimur höfðum stjórni eitt gott hjarta.

Ef höfuðin tvö á embættismanninum eða stjórnmálamanninum rugla saman reitum sínum þá verða þegnarnir áhyggjufullir.

Ásgeir Beinteinsson

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.11.2014 - 19:18 - 7 ummæli

Mótmæla – dólgshætti?

Það er komin upp einkennileg staða í þessu landi. Fólk safnast saman á Austurvelli – þessum forna grasnytjareit og andans miðju til að mótmæla dólgshætti stjórnvalda. Ég minnist þess ekki áður að slíkt hafi verið í brennipunkti mótmæla. Dólg merkir orrusta og sá sem er dólgslegur er fruntalegur og uppivöðslusamur og slíkur maður er óvinveittur. Það er því mat mótmælenda að stjórnvöld séu óvinveitt þjóðinni. Miðað við það sem á gengur í stjórnun landsins og miðað við hegðun og framkomu þeirra einstaklinga sem mynda stjórnvaldið sýnist mér einmitt að hegðunin sé dólgsleg. Ég þarf ekki að tíunda dæmin, því þau eru hverjum manni augljós. Það er sem sagt verið að mótmæla stöðunni og það er eins og þeir sem ráða fyrir þessu landi kunni ekki mannganginn.

Ef við líkjum stjórnun landsins við skák og svo virðist að stjórnendurnir séu ekki klárir á mannganginum, hvað er þá til bragðs? Við þekkjum úr mannkynssögunni, að hinum og þessum stjórnmálamönnum og stundum rithöfundum hafi tekist að kenna hinn stjórnmálalega manngang og heimurinn orðið svolítið betri á eftir. Í dag finnst manni ýmislegt undarlegt sem fyrri tíma ráðamenn töldu rétt og höfðu að viðmiðum fyrir breytni sinni. Í barnaskap segir maður stundum að menn hafi verið svo vitlausir í gamla daga en vitum að hið siðaða samfélag var bara ekki komið lengra.

Mikið vildi ég að við ættum stjórnmálamann eða rithöfund sem næði inn að hjartarótum Íslendinga með þekkingu sem sýndi vanvisku stjórnvalda í þessu landi. Því að það er ótrúlega merkilegt hvað ráðherrann, svo eitt dæmi sé tekið út fyrir sviga, sem hefur brotið flest það  sem telst siðleg breytni og góð stjórnsýsla skuli eiga svo mikið fylgi meðal þjóðarinnar. Já, það er merkilegt hvað ráðherra innanríkismála nýtur mikils stuðnings í þessu landi en merkilegast þó að hann skuli njóta óskoraðs stuðnings stærsta stjórnmálaflokksins. Dapurleg staðreynd um íslensk stjórnmál og dapurleg staða.

Hvers vegna er þetta svona? Fjölmiðillinn sem fletti ofna af lögbrotinu á heiður skilinn fyrir og nú aðrir sem sýna dag hvern hvað íslensk stjórnsýsla er frumstæð og stutt á veg komin. Fjölmiðlar virðast máttlausir í hlutverkum sínum – það sýnir hið mikla fylgi við ráðherrann. Almannasjónvarpið, sem er áhrifaríkast, hefur ekki myndugleik til að greina atburðarrásina í sundur og sýna óhæfuna svo að alþýða manna átti sig á vanvirðunni og dólgshættinum. Almannaútvarpið reynir og gerir margt gott en almannasjónvarpið stundar míkrófónblaðamennsku. Fyrst er míkrófónn rekinn upp í einn og svo líður dagur og míkrófónninn er rekinn upp í annan – og líka afbrotamanninn. (Á miðöldum var mönnum refsað á torgum. Er það nú orðið verkefni almannasjónvarpsins í dag?)  Sannleikurinn er þess sem lék best við míkrófóninn. Allt snýst um að hafa eitthvað á dagskrá á hverjum degi, ekki inntakið, ekki niðurstaða rannsóknarinnar. Kannski er þetta vegna þess að almannasjónvarpið má ekki styggja valdhafana með alvöru greiningu og gagnrýni, því þá gæti farið illa fyrir einhverjum.

Ekki eru líkur á því að meðvituð og ábyrg grasrót þeirra stjórnmálaflokka sem stjórna þessu landi standi upp og segi að leikurinn sé tapaður hjá umræddum ráðherra. Nú eða í annarri þeirri skemmdarstarfsemi sem er í gangi. Þeir stjórnmálaflokkar sem stjórna landinu virðast ekki eiga meðvitaða og ábyrga grasrót. Hefur nokkur stjórnmálaflokkur í dag meðvitaða og ábyrga grasrót? Er grasrót stjórnmálaflokkanna ekki bara samansafn fylgifiska einstakra stjórnmálamanna og er það ekki þess vegna sem þeir geta hagað sér dólgslega.

Margir stjórnmálamenn eru eigið sköpunarverk. Stór hópur stjórnmálamanna kemst áfram í stjórnmálaflokkum vegna þess að þeir eru sjálfir sannfærðir um eigið ágæti og kaupa sér á einn eða annan hátt fylgi til að ná inn á lista til valda. Þeir eru ekki í forystu vegna þess að stór hópur í flokknum hafi valið þá vegna manngildis þeirra, visku eða heiðarleika. Þeir eru í forystu af því að þeim tókst betur en þeim næsta að afla fylgis við sína persónu, ekki hitt sem hún stendur fyrir. Slíkir sjálfskapaðir stjórnmálamenn verða hrokafullir og þeir haga sér dólgslega þegar vegið er að þeim og völdum þeirra sem þeir telja sig réttborna til.

Þeir eru svo sjálfskapaðir að það hefur enginn vald yfir þeim. Í dag er til dæmis enginn verkstjóri í ríkisstjórninni. Ráðherrann sem hefur brotið af sér á að ákveða sjálfur hvort hann hættir og er það augljóslega í samræmi við siðareglur sjálfskapaðra stjórnmálamanna.

Hvað er hægt að gera annað en að tromma á álgirðingar og hlusta á fólk tala uppi á vörubrettum fyrir framan Alþingishúsið?

Hversu langt duga fjesbækur og instagrömm og bloggfærslur í baráttunni við hrokafulla dólgastjórn sem hefur rúmt svigrúm til að taka allar þær almannastofnanir niður sem henni sýnist á þeim tíma sem hún hefur?

Eru það ekki mannréttindi að búa við hrokalausa valdstjórn? Eru það ekki mannréttindi að geta treyst þeim sem stjórna landinu? Er ekki til einhver stofnun í útlöndum sem við getum biðlað til? Hvað myndi Feneyjanefndin segja um ástandið? Getur ekki einhver málsmetandi einsaklingur lýst ástandinu og beðið nefndina að hafa skoðun á því?

Það verður enginn friður í þessu landi á meðan staðan er eins og hún er. Það verður enginn friður á heimilum þessa lands á meðan staðan er eins og hún er. Það verður enginn friður í sálum okkar á meðan staðan er eins og hún er.

Það þarf einhvern veginn að snúa taflinu við.

 

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 8.2.2014 - 12:55 - 2 ummæli

Tapið í PISA

Íslendingar töpuðu í PISA og enginn skilur neitt í neinu.  Yfirborðskennd umfjöllun fjölmiðla skilur þjóðina eftir vonsvikna með brotna sjálfsmynd um hæfni sína og hæfileika. Niðurstaða þjóðarinnar er rökrétt miðað við framsetninguna og umræðuna um að við Íslendingar séum bara svona heimskir – við kunnum ekki lexíurnar okkar. Hitt er svo verra að strákar virðast kunna minna en stúlkur.

Hvað er PISA? PISA er skammstöfun og stendur fyrir; Programme for International Student Assessment. Þetta er alþjóðlegt verkefni til að meta nemendur og er unnin af OECD sem er Efnahags og framfarastofnun Evrópu. (Allmörg ríki utan OECD taka þátt.) Rannsóknin var fyrst gerð árið 2000 og hefur síðan verið á þriggja ára fresti. Heimurinn er eitt markaðssvæði og þeir sem ráða ferðinni í heiminum vilja hafa tæki til að meta hæfni þeirra nemenda sem eru um það bil að sækja framhaldsskóla og háskóla. Það er litið svo á að menntunarstig og hæfni 15 ára nemenda geti spáð fyrir um velgengni þjóðar á alþjóðlegum efnahagsmarkaði – segi fyrir um samkeppnishæfni þjóðar. Það sem er slæmt við að ganga illa í PISA er að þjóðinni muni líklega ganga illa í því að keppa um peningana á hinum alþjóðlega markaði. Hin hliðin á því að ganga illa er að það særir stolt þjóðarinnar að „tapa“ í PISA eins og öðrum keppnum.

Það sem er óvenjulegt við þátttöku Íslands er að allir 15 ára nemendur taka þátt en í öllum öðrum þátttökulöndum tekur úrtak nemenda þátt. Þeir sem lenda í úrtakinu erlendis eru þá sérstakir og þá oft ekki margir í hverjum skóla. Hvaða áhrif hefur þessi ákvörðun þeirra sem leggja prófið fyrir á Íslandi á niðurstöðuna? Fyrir nokkrum árum uppgötvuðu menn að viðhorf unglinganna á Íslandi til PISA var neikvætt þannig að reynt var með ýmsum ráðum að „jassa“ þátttökuna upp. Það kann að skýra hvers vegna okkur gekk betur 2009 en 2006 svo dæmi sé tekið. Hvers vegna er ekki notuð sama aðferðarfræði við fyrirlögn hér, eins og erlendis? Jú menn vilja tryggja að niðurstöðurnar fyrir Ísland séu alveg öruggar. Þessi munur á aðferðarfræði kann þó að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Um það leyti sem fyrsta Pisakönnunin er gerð árið 2000 þá hefja íslensk yfirvöld innleiðingu á nýrri stefnu fyrir grunnmenntun í landinu. Það ár voru Íslendingar nokkuð sáttir við niðurstöðu landsins í könnuninni. Þessi stefna var rædd talsvert á síðari hluta tíunda áratugar tuttugustu aldar og átti rætur í samþykkt sem Ísland var aðili að sem er Salamanca yfirlýsingin (1994). Í inngangi segir svo: „VIÐ HÖFUM HUGFASTAR endurteknar yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, síðast og eindregnast í Viðmiðunarreglum um jöfnun tækifæra fyrir fatlað fólk, samþykktum árið 1993, þar sem lagt er að ríkjum heims að tryggja að skólaganga fatlaðra verði heildstæður þáttur í almenna menntakerfinu.“

Salamanca yfirlýsingin er síðan framkvæmd í stefnu sem kölluð hefur verið „skóli án aðgreiningar“. Um aldamótin er gerð viðamikil rannsókn  sérkennslu í Reykjavík og í framhaldi mótuð stefna og samfara henni eru nánast allar sérdeildir við grunnskólana í Reykjavík lagðar niður. Í sérdeildunum voru nemendur sem áttu erfitt uppdráttar í stórum námshópum og í erfiðleikum með einbeitingu og hegðun. Spyrja má hvort að þeir nemendur sem tilheyrðu deildunum hafi verið fatlaðir í merkingu Salamanca-yfirlýsingarinnar. Stefnan gengur í gildi snemma árs 2002. Það er þekkt úr fræðum breytingarstjórnunar að breytingar takist ekki nema að hópurinn sem tekur þátt geri sér grein fyrir þörfinni fyrir breytingunni. Viðhorf starfsfólks í skólunum var kannað á þessum tíma og í ljós kom að 60% hafði neikvætt viðhorf til stefnunnar. 25% leist vel á stefnuna. Strax á þeim fundi sem stefnan var kynnt lýstu skólastjórar áhyggjum af þeim nemendum sem tilheyrðu sérdeildunum. Skólastjórar í Reykjavík hafa ítrekað frá árinu 2002 lýst yfir áhyggjum sínum af stefnunni og sömu áhyggjur má sjá á prenti í viðauka 7 við stefnu fræðsluyfirvalda í Reykjavík frá árinu 2012; Skóli án aðgreiningar og sérstakur stuðningur við nemendur – stefna skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur.

Í viðauka 7 stendur:

Lausleg athugun okkar hefur leitt í ljós að skólastjórar í grunnskólum borgarinnar telja að þeim takist ekki að mæta þörfum um 92 nemenda með alvarlegan atferlisvanda og geðraskanir. Líðan þessara nemenda, samnemenda þeirra og líðan starfsfólks er okkur mikið áhyggjuefni. Helstu orsakir teljum við vera skort á úrræðum til skemmri og lengri tíma og skort á fjármagni í heimaskólunum.

Grunur skólastjóra er að þetta sé mun stærri hópur. Eins og áður segir höfðu skólastjórar ítrekað lýst yfir áhyggjum sínum af þessum nemendum í 10 ár. Einn nemandi með alvarlegan atferlisvanda og geðraskanir getur tekið heilan skóla í gíslingu. Í gíslingu merkir að skólastjórnandi verður eitt af úrræðunum fyrir barnið og gerir hann þá ekkert annað á meðan. Það merkir einnig að nemandinn svekkir skólasystkini sín þannig að þau eru vansæl – til dæmis vegna ljótra orða og hugmynda sem hann lætur frá sér fara í heyrandi hljóði, hann atyrðir og jafnvel ræðst á skólasystkini sín og starfsfólk.

Í febrúar 2012 kom út skýrsla á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara sem var könnun á kjörum og aðstæðum kennara. Svör kennara tala sínu máli um skóla án aðgreiningar: Hvert er viðhorf þitt til hugmyndafræðinnar á bakvið skóla á aðgreiningar. 7,9% voru mjög jákvæðir. 34,2% voru jákvæðir. Samtals teljast jákvæðir vera 42,1%. 26,1% eru neikvæðir eða mjög neikvæðir. 31,8% tóku ekki afstöðu. Hvernig gengur að fara eftir hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar? 32.6% gengur vel eða mjög vel að fara eftir hugmyndafræðinni.

Skóli án aðgreiningar lítur svona út á gólfinu hjá kennaranum: 20 til 25 nemendur eru í bekknum og þroskamunur á milli nemenda getur verið tvö til fjögur ár. Einn nemandi býr við fötlun svo að hann fær stuðningsaðila allan daginn. (Þetta er undantekning.) Tveir til þrír nemendur búa við greindan athyglisbrest þannig að þeir geta ekki einbeitt sér. Finna þarf leiðir til að þeir haldi athygli sinni án þess að þeir trufli aðra. Einn nemandi talar ekki íslensku og heldur ekki tungumál sem kennarinn kann. Einn nemandi býr við geðröskun sem jafnvel ekki finnst skýring á og hefur því hvorki sérstakt fjármagn til stuðnings og ekki er annan stuðning að fá nema að skólastjóri og aðstoðarskólastjóri eru reglulega kallaðir til. (Tími þeirra nýtist þá ekki í stjórnun og stefnumótun á meðan!) Oft þarf að fá foreldra á vettvang til að róa barnið og fara með það heim. Við þessar aðstæður fer mikil orka kennarans í að láta öllum líða vel og ná einhverjum framförum í námi og þroska. Rannsóknir sýna að íslenskum börnum líður vel í skólanum – það hefur því eitthvað tekist.

Það er ljóst að skóli án aðgreiningar snýst ekki um árangur í námi því að stefnan snýst fyrst og fremst um að í hverjum bekk sé fjölbreyttur hópur nemenda sem líður vel. Það er línulegt samhengi á milli innleiðingar skóla án aðgreiningar og stöðu okkar í PISA. Þá er auðvitað ekki undarlegt að við séum í hópi þeirra sem við viljum bera okkur saman við sem eru Norðurlöndin. Skóli án aðgreiningar fellur vel að hugmyndafræði hins svokallaða norræna samfélagsmódels. Það er hins vegar ljóst að yfirvöld þurfa að hlusta á kennara og skólastjórnendur og finna leiðir til að auka námsárangur í skóla án aðgreiningar. Íslenski

grunnskólinn býður upp á mjög fjölbreytt nám þar sem list- og verkgreinar eru í hávegum hafðar og það er fjölbreyttur nemendahópur sem nýtur hans. Grunnskólinn á Íslandi er góður en það má bæta námsárangur í samanburði við aðrar þjóðir. Það yrði best gert með því að hlusta á starfsfólk grunnskólanna, bæta endurmenntun, styrkja faglega kennsluráðgjöf og þróa sjálfsmat.

Ef sigur í „PISA-keppninni“ felur í sér að við þurfum að hafa okkar skóla eins og í Singapúr, sem er í öðru sæti, þá er sigur ekki eftirsóknarverður því að þá skóla hef ég séð með eigin augum.

 

Ásgeir Beinteinsson

skólastjóri Háteigsskóla

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.1.2014 - 21:13 - Rita ummæli

Munur á drengjum og stúlkum

Ungt fólk 2013

Rannsóknir og greining. Hrefna Pálsdóttir / Inga Dórs Sigfúsdóttir / Jón Sigfússon / Álfgeir Logi Kristjánsson

Fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið

Æskulýðsrannsóknir frá 1992

—–

Hversu auðvelt eða erfitt væri fyrir þig að fá umhyggju og hlýju hjá foreldrum þínum?

10 ára drengir

60% – auðvelt

10 ára stúlkur

71,2% – auðvelt

*Svipað hjá 11 og 12 ára börnum.

—–

Hversu oft ert þú ein(n) heima eftir skóla?

10 ára drengir

21,7% – oft

10 ára stúlkur

15% – oft

*Svipað hjá 11 og 12 ára börnum.

—–

Hversu miklum tíma verð þú að jafnaði í að spila tölvuleiki á netinu á hverjum degi?

10 ára drengir

37% – nær engum tíma.

10 ára stúlkur

56,4% – nær engum

12 ára drengir

37,6% – nær engum.

12 ára stúlkur

66,3% nær engum.

—–

Hversu margar klukkustundir notar þú að jafnaði á dag í að lesa bækur, aðrar en skólabækur?

10 ára drengir

24,7% – engar

10 ára stúlkur

17,7% – engar

 

11 ára drengir

25,1% – engar

11 ára stúlkur

14,8% – engar

 

12 ára drengir

26,6% – engar

12 ára stúlkur

19,08% – engar

—-

Hversu oft hrósa kennarar að mati drengja og stúlkna?

10 til 12 ára drengir sem segja aldrei:

2007    –           36%

2009    –           37%

2011    –           34%

2013    –           30%

 

10 til 12 ára stúlkur sem segja aldrei:

2007    –           26%

2009    –           25%

2011    –           25%

2013    –           22%

—–

Hversu oft ferð þú í leikhús, á sýningar eða tónleika með pabba þínum eð mömmu?

10 ára drengir

37,4% – aldrei eða næstum aldrei.

10 ára stúlkur

24,9% – aldrei eða næstum aldrei

*Svipað hjá 11 og 12 ára börnum.

 

Hugleiðið.

Ásgeir skólastjóri

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.10.2013 - 08:21 - Rita ummæli

Er gagn að góðri umræðu?

Er gagn að góðri umræðu?

Ráðstefna Samtakahópsins í Háskólanum í Reykjavík

24. október 2013

 

Ágætu ráðstefnugestir

 

Er gagn að góðri umræðu? Stundum þurfum við að svara einföldum og skýrum spurningum. Samtakahópurinn hefur stundað umræðu síðan 1998. Hópurinn var stofnaður að frumkvæði lögreglumanns sem kom til að ræða forvarnarmál og fleira í Austurbæjarskólanum það ár. Hann benti á að margar stofnanir og aðilar fjölluðu um hlutskipti barna og ungmenna á svæðinu en töluðu ekki saman. Hann var sannfærður um að ef þessir aðilar ræddu reglulega saman gætu þeir bætt ástandið. Þetta var ekki eini hópurinn sem varð til á þessum árum. Margir sambærilegir hópar urðu til um alla borg og áhugafélög um forvarnir og foreldrasamtökin gengu inn í þessa umræðu. Það varð vitundarvakning og umræða sem allir tóku þátt í. Hvers vegna gerðist þetta? Þetta gerðist annars vegar vegna ástandsins meðal unglinga á götum borgarinnar. Erlendir fjölmiðlamenn komu hingað á 10.  áratugnum til að kvikmynda hegðun barna á götunum, barna sem enn voru í grunnskóla. Það var ítrekað stríðsástand í Kringlunni vegna drykkjuláta barna sem luku samræmdum prófum í grunnskóla. Síðast ekki síst hafði fyrirtækið sem nú heitir Rannsóknir og greining fylgst með neyslu íslenskra ungmenna og 1998 höfðu 42% 10. bekkinga orðið ölvaðir í mánuðinum áður en könnunin var gerð, 23% reyktu daglega og 17% höfðu prófað hass. Tæplega 57% nemenda sem útskrifuðust 1999 höfðu orðið ölvaðir einhvern tíma um ævina.  Bæði þá og í dag erum við sammála um að þetta hefur verið skelfilegt ástand. Þessu hefur umræðan með stuðningi rannsókna breytt. Þetta segir okkur að það er gagn að góðri umræðu. Nú getum við hugsanlega hugað að öðrum víddum í hlutskipti barna og ungmenna. Ef til vill getum við lyft grettistaki eins og hér hefur verið gert – í annarri hegðun, í öðrum þáttum sem hafa áhrif á þroska, lífsgleði og framtíð barnanna okkar. Það er klárt að þeir aðilar sem skipta þar mestu máli eru foreldrar og þær þjóðfélagsstofnanir sem koma að uppeldi barna og ungmenna. Síðast en ekki síst skiptir síðan miklu málið að við rannsökum hlutskipti barnanna með því að spyrja þau. Okkar verkefni hér í dag er að reyna að átta okkur á því hvað við eigum að setja á oddinn, hverju eigum við að fylgjast með og  um hvað eigum við að spyrja.

 

Hver er mesta ógnin sem steðjar að ungu fólki í dag?

 

Já um hvað eigum við að spyrja og eigum við ef til vill að hætta að spyrja um eitthvað? Fer það ekki að verða móðgun að spyrja íslensk ungmenni á grunnskólastigi hvort þau reyki, drekki eða noti hass þegar aðeins örfá prósent gera það? Fer ekki einmitt að verða rými til að hyggja að öðrum þáttum? Auðvitað er umræðan um önnur atriði í gangi en fylgjumst við með ástandi og greinum við ástand með reglulegum rannsóknum á sama hátt? Spurningar til ungmenna um aðstæður þeirra eru einnig áhrifavaldar og beina vitund þeirra að því sem spurt er um. Eigum við ekki að fara að hætta þátttöku í verkefni Landlæknisembættisins reyklaus 7. og 8. bekkur? Er það ekki móðgun við 12 ára börn í dag að spyrja þau hvort að þau reyki? Gæti spurningin vakið hugmynd um að prófa?

 

Samtakahópurinn er mannaður fulltrúum frá Austurbæjarskóla, Háteigsskóla og Hlíðaskóla, frá Háteigskirkju og Hallgrímskirkju, frá lögreglunni og Þjónustumiðstöð miðborgar og Hlíða. Auk þessara aðila starfa í hópnum Skátafélagið Landnemar, Íþróttafélagið Valur, Dansskóli Jóns Péturs og Köru og svo Frístundamiðstöðin Kampur.

 

Starfið var samfellt frá 1998 til 2003 en var endurvakið af Þjónustumiðstöð miðborgar og Hlíða árið 2005 og hefur starfað síðan. Samtakahópurinn hefur staðið fyrir margvíslegum verkefnum en þó haft frístundakynningar í brennipunkti en umræðan innan hópsins og skoðanaskipti hafa styrkt meðlimi hans í störfum sínum í þágu barnanna. 19. október árið 2000 stóð samtakahópurinn fyrir málþingi sem við kölluðum Samtaka um siðferði og uppeldi og gaf út bækling með niðurstöðum og vangaveltum sem enn eru í fullu gildi. Niðurstöður ráðstefnunnar í dag verða einnig mikilvægt innlegg í forvarnarumræðuna.

 

Ég hef verið skólastjórnandi í Reykjavík síðan 1991 og ég hef reynt þessar miklu breytingar og veruleiki grunnskólanna hefur breyst til batnaðar – ekki bara varðandi forvarnarmál heldur einnig öll fagmennska skóla og stofnana. Stundum segja menn að heimurinn fari versnandi en í mínum heimi leikur skólinn stórt hlutverk og sá heimur er betri en hann var fyrir 20 árum. Ég trúi því að við getum öll orðið sammála um þetta og því eigum við að fagna. Við eigum að fagna því að við getum haft áhrif og sækja styrk í þann sannleika og vera bjartsýn á framtíðina því að hún er greinilega á valdi okkar ef við viljum.

 

Ásgeir Beinteinsson

skólastjóri Háteigsskóla

 

 

Flokkar: Lífstíll · Menning og listir

Föstudagur 7.12.2012 - 11:12 - Rita ummæli

NÝTT KORTATÍMABIL

Brátt eykst taktfastur gangurinn

í hljómkviðu fótatakanna

á glampandi steingólfum

með tinandi endurvarpi marglitra ljósanna

þar sem hamingjan er til sölu

í gjafaumbúðum.

Hljómstjórinn lyftir sprotanum

kreditkortinu og segir:

Það er komið nýtt kortatímabil.

 

Suðið og brestirnir

í nýjum og notuðum

vetrardekkjum syngja

eftirvæntingarsönginn

við klettabelti húsanna

á leið í söluhallir

hamingjunnar.

Það er komið nýtt kortatímabil.

 

Ljósunum fjölgar.

Ledperur, vírperur og gasperur

renna sér eins og slöngur

upp veggi, umhverfis stólpa,

tré, girðingar og hanga úti um allt.

Halda vöku fyrir húsráðendum

því gluggakistur húsanna loga.

Það gerir líka

nýja kortatímabilið.

 

Það er sóknarhugur.

Það er mikill hugur.

Hugur fullur af væntingum.

Samhugur og sérhugur

takast á í vitundinni.

Eigum við að elska alla

eða okkur sjálf eða bara börnin

eða einkum ömmu og afa.

Skilti slær upp í hugann

eins og í gömlum afgreiðslukassa

með bjölluhljómi:

Það er komið nýtt kortatímabil

 

Hjartað,

hjartað dælir lífi í allt

fyllir hverja titrandi frumu

af rauða næringarvökvanum

svo ganglimir geti fylgt taktinum

svo augun geti séð dýrðina

svo hugurinn nái utan um allt

skilji allt og geti allt og verði allt:

Eins og nýtt kortatímabil

 

Bara ef það væri alltaf

nýtt kortatímabil

þá væri ég hamingjusamur

með rauðar kinnar

og stóra ístru

í svörtum stígvélum

eins og kókjólasveinninn

með vasana fulla af kortum

og ekki jólakortum,

heldur greiðslukortum

á kafi í nýju kortatímabili.

Flokkar: Spaugilegt

Laugardagur 22.9.2012 - 19:05 - 3 ummæli

Ófundnu börnin

(Erindi á hugmyndaþingi Samfylkingarinnar um skóla og nemendur 22/9)

Ágætu tilheyrendur

Yfirskrift þessa stutta erindis er eins og gefur að skilja leikur að orðum. Vinnuheitið var týndu börnin en mér þótti ekki rétt að ganga út frá titli á erindi sem kallað væri týndu börnin vegna þess að við höfum ekki týnt börnum. Börn í feluleik eru til dæmis ekki týnd, það á bara eftir að finna þau. Sama á við að hluta til um þau börn sem ég vil gera að umtalsefni. Ég veit hvar þau eru og hver þau eru en gagnvart yfirvöldum;  þeim sem móta stefnuna og ráða ferðinni eru þau ófundin.

Stefnan er skóli án aðgreiningar og hver er kjarninn í skóla án aðgreiningar. Í Aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 1999 á bls. 14 segir svo:

Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins. Grunnskólar eiga að taka við öllum börnum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Þetta á við um fötluð börn og ófötluð, afburðagreind og greindarskert og allt þar á milli, börn úr afskekktum byggðarlögum, börn úr minnihlutahópum sem skera sig úr hvað varðar mál, þjóðerni eða menningu. Grunnskólum er skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt.

Nú spyr ég í fullri alvöru. Heldur einhver að þetta sé hægt? Hvernig gat nokkrum manni dottið í hug að þetta væri hægt? Það hefur verið gengið í það af miklum krafti að framkvæma stefnuna og smátt og smátt eru brestirnir að koma í ljós. Það er reyndar svo að skólastjórnendur og kennarar höfðu efasemdir strax í upphafi og hafa enn. (Ég verð þó að skjóta því hér inn að sama klausa í almennum hluta aðalnámskrár 2011 er orðfærri og gefur nýja möguleika en kjarninn sem snertir mitt erindi er hinn sami.)

Í framhaldi hefði mátt hugsa um að fylgja anda námskrárinnar fremur en að fylgja henni bókstaflega. Það er reyndar svo að Íslendingar eru almennt bókstafstrúar að því er varðar lög og reglugerðir. Ég hef til dæmis heyrt að það sé vandmál í íslensku dómskerfi að lögfræðingar og dómarar vinni út frá orðanna hljóðan í lögum frekar en tilgangi umræddra laga og sel ég það ekki dýrara en ég keypti.

Grunnskólakerfinu, svo ég tali nú bara um þann veruleika sem ég þekki var m.a. bylt með þeirri hugmyndafræði sem birtist í klausunni sem ég las upp og við þurfum ekki aðra byltingu í því kerfi alveg á næstunni. Það stendur yfir stöðug uppbyggileg þróun og hana þarf að styrkja með aukinni símenntun, endurmenntun, rannsóknum, mati og umræðu þeirra sem starfa í kerfinu og stjórna því. Það er jafnframt mikilvægt og kannski það mikilvægasta að mennta og fræða foreldra og gera þá að virkari þátttakendum í skólastarfinu. Það hefur setið í mér danskur sjónvarpsþáttur um skólamál sem ég sá fyrir allmörgum árum. Þetta var heimildarþáttur um ólíkar skólagerðir, stefnur og hugmyndafræði í grunnskólum í Danmörku. Hverjir voru helstu viðmælendurnir nema foreldrar barnanna sem sóttu skólana og héldu hugmyndafræði þeirra á lofti?  Þannig þyrfti þetta að vera á Íslandi. Ég viðurkenni fúslega að ekki er ég sérstaklega góður í þessu sem skólastjóri en ég veit að þetta er leiðin.

Við þurfum ekki að bylta kerfinu því að byltingin sem var gerð hefur skilað meiri árangri en ég þorði að vona á sínum tíma. Grunnskólarnir sem ég þekki til með sínu frábæra og fagfólki með kennarana í broddi fylkingar hafa náð tökum á fjölbreytileikanum. Regnboginn sjálfur á heima í kennslustofunum ef hver litur stendur fyrir sérstaka námshæfileika barnanna. Ég  mun víkja að undantekningunum.

Öll börn eiga rétt á því að menntast á árangursríkan hátt. Hvert einasta barn sem anda dregur býr við sérstakar námsgáfur og námshæfileika; það geta allir lært. Vandinn sem menn hafa ekki horft á er að sum börn þurfa sérstakar aðstæður til að læra, sum börn þurfa að vera í sérstökum hópum og með sérstaka kennara til að læra. Þegar ég segi læra þá á ég við félagslega vitund, almenna þekkingu, færni og ekki hvað síst að læra að þekkja sig sjálf; takmörk sín og getu.

Í umræðu um hugmyndafræði skólanna er mjög ríkjandi sú skoðun að það sé hægt að breyta skipulagi hins almenna grunnskóla þannig að hann geti sinnt öllum börnum eins og klausan góða gerir kröfu um, en það er ekki svo, því miður. Það þarf byltingu á hugarfari til að horfast í augu við þennan veruleika. Það geta ekki öll börn sótt hinn almenna grunnskóla.

Ég þekki sorgleg dæmi um börn með sértækar námsgáfur sem finna til minnimáttarkenndar og vanlíðunar í samanburði við skólasystkin af því að þau geta ekki fylgt meginstraumnum og þurfa annað námsefni. Það er oft  hægt að sinna grunnþörfum um fjölbreytt nám við hæfi en sjálfstraustið er ekki upp á marga fiska. Hvernig myndi okkur líða að ganga til starfa í 10 ár meðvituð um að vera ekki eins og hinir? Jón Margeir Sverrisson er gullverðlaunahafi frá Lundúnum, einstakur afreksmaður og í alla staði glæsilegur ungur maður. Þegar faðir hans var spurður í viðtali hvernig Jón Margeir hefði náð þessum árangri. Þá sagði faðir hans að Jón Margeir hefði í æsku haft lítið sjálfstraust og ekki talið sig geta neitt en fagfólkið sem tók á móti honum í Öskjuhlíðarskóla hefði hjálpað honum að fá trú á sjálfan sig. Ég ætla að leyfa mér að vitna í Sverri föður gullverðlaunahafans og heimsmeistarans.

„Það var á seinni stigum í leikskólanum. Þá gátum við valið um stuðning í venjulegum skóla, sérdeild í venjulegum skóla eða Öskjuhlíðarskóla. Við ákváðum að hann færi í Öskjuhlíðarskóla. Við sjáum ekki eftir því. Þar var hann fremstur meðal jafningja. Hann blómstraði,“ „Kennararnir hans fylgjast ennþá með honum. Skólinn er frábær. Með fullri virðingu þá hentar skóli án aðgreiningar ekki öllum. Þetta er flott orð en hentar ekki öllum. Mér finnst þetta spurningin um hvort barnið þitt er alltaf neðst eða hvort það er fremst meðal jafningja.“ (Fréttatíminn 7. september 2012)

Þetta er fyrsti hópurinn sem við eigum að finna og sinna.

Fyrir nokkrum árum var tekin sú ákvörðun á grundvelli stefnu um skóla án aðgreiningar að móttökudeildir skyldu lagðar niður. Móttökudeildir voru hugsaðar þannig að þar gætu erlendir nemendur lært grunnþætti í íslensku sem sínu öðru tungumáli, þannig að þeir hefðu eitthvert sjálfstraust þegar þeir tækju að fullu þátt í starfi skólans. Deildirnar voru lagðar niður í samræmi við bókstarfstrúna á skóla án aðgreiningar; að nemendur af erlendum uppruna gætu líka gengið í hann þar sem hann sinnti hvort er öllum eins og lög mæltu fyrir um. Það eru til rannsóknir sem sanna að það krefst sérfræðilegrar þekkingar að leggja grunn að öðru tungumáli hjá barni. Erlent barn sem kemur ósjálfbjarga í tungumál landsins inn í almennan bekk eða námshóp í grunnskóla með sem nemur einni kennslustund á viku til að læra íslensku, gerir það seint og illa. Á þeirri vegferð er sjálfsmynd barnsins brotin.

Þetta er annar hópurinn sem við eigum að finna og sinna.

Svo eru það börnin sem þurfa hátternismótun í stýrðum aðstæðum um lengri eða skemmri tíma. Það verða að vera næg úrræði og tækifæri til að bregðast hratt við, því hvert andartak er dýrmætt í ævi barns. Barn sem nær að viðhalda hátterni sem kemur í veg fyrir nám og eðlilega félagsmótun þannig að samfélag fullorðinsáranna sé því fullorðnu andstætt og framandi verður dýrt í öllum þeim myndum sem það hugtak nær yfir. Bæði einstaklingnum sjálfum, fjölskyldu hans og oft á tíðum samfélaginu.

Umrædd börn búa við óheppilega blöndu af skilgreindum frávikum sem gerir það að verkum að þau búa við stanslausa vanlíðan sem bitnar á öllum í umhverfi þeirra. Ég hef spurt fulltrúa heilbrigðisyfirvalda hvers vegna þau sinna börnunum ekki lengur en tekur að greina vanda þeirra. Svörin eru að það sé skólakerfið sem eigi að sinna þessum börnum. Grunnskólinn á að sinna börnum með félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag. Við búum við skóla án aðgreiningar.

Þetta var þriðji hópurinn sem við eigum að finna og sinna. Þessi síðasti hópur sem ég minnast hér á er stór eins og ástandið er núna í grunnskólunum að minnst kosti hér í Reykjavík. Kennarar eru ótrúlegir og þeir hafa sannað það en þeir geta ekki sinnt börnum sem þurfa sérfræðinga.

En hvað segja svo kennararnir um skóla án aðgreiningar?:

Í nýlegri könnun á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og félags grunnskólakennara liggja svör við mörgum mikilvægum spurningum um skólastarfið. Könnunin var gerð í kjölfar síðustu kjarasamninga og verkefni hennar var að gera athugun á hlutverki grunnskólakennara, innihaldi á starfi þeirra, breytingar sem orðið hafa á störfum þeirra og þróun skólastarfs almennt. Þessi könnun er mikilvægur þáttur í þeirri þróun – ekki byltingu – sem þarf að eiga sér stað á næstu árum. Ég ætla að víkja að tveimur spurningum sem snerta erindi mitt.

8. spurning er svona:

Hvert er viðhorf þitt til hugmyndafræðinnar á bak við skóla án aðgreiningar?

Niðurstaðan er þessi:

Mjög jákvæðir eru 7,9%

Jákvæðir eru 34,2%

Hvorki né eru 31,8%

Neikvæðir eru 21,7%

Mjög neikvæðir eru 4,4 %

 

Þeir sem eru jákvæðir eða mjög jákvæðir eru því 42,1% þeir sem eru neikvæðir eða mjög neikvæðir eru 26,1%. 31,8% taka ekki afstöðu.

Yfirvöldum og skólastjórnendum sem framkvæmdaaðilum stefnunnar hefur mistekist að sannfæra meginþorra kennara um mikilvægi þessarar hugmyndafræði. Á því eru að mínu viti tvær hliðar.  Annars vegar þarf að auka veg símenntunar og hins vegar þurfa yfirvöld að takast á við þá veikleika í kerfinu sem eru flestum skólastjórnendum og kennurum kunnir. Það er margt mjög áhugvert sem tengist svörum kennara við þessari spurningu en ég ætla ekki að eyða tíma í þær vangaveltur. Það er þó merkilegt að allra yngstu kennararnir og elstu kennararnir virðast vera jákvæðari gagnvart hugmyndafræðinni en kennarar á miðjum aldri.

9. spurning er svona:

Hvernig gengur að fara eftir hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar?

Niðurstaðan er þessi:

Mjög vel segja 3%

Vel segja 30%

Hvorki né segja 37%

Illa segja 24%

Mjög illa segja 6%

Heildarniðurstaðan er sú að 33% segja að þetta gangi vel eða mjög vel. 37% taka ekki afstöðu og 30% segja að það gangi illa að fara eftir hugmyndafræðinni.

Niðurstaðan staðfestir enn og aftur mikilvægi þess að vinna að endurmenntun og símenntun kennara. Í tengslum við spurningu 8 kom í ljós að þeir sem vinna í teymum eru almennt jákvæðari gagnvart hugmyndafræðinni en þeir kennarar sem gera það ekki. Því er ljóst að breyttir starfshættir styðja við stefnuna en eru ekki lausn á öllum vanda hennar í framkvæmd.

Börnin eru ekki týnd en þau eru ófundin – finnum þau og leysum vanda þeirra.

 

Ásgeir Beinteinsson

skólastjóri

 

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 21.1.2012 - 18:10 - 4 ummæli

SVOKALLAÐ, SELTSEM, ALLSKONAR OG ÆRA

Í svokölluðu landi býr svokölluð þjóð með svokallaðan forseta og þar situr svokallað þing og er nefnt Alþingi og heitir það frá fornu fari.
Í þessu svokallaða landi gerist allskonar og margt er seltsem hitt og þetta. Í þessu svokallaða landi varð svokallað hrun en það er svokallað vegna þess að ótrúlega margir vildu eiga allskonar. Þá réði ríki og hafði mannaforráð maður sem trúði því heitt og innilega að innsta eðli hins svokallaða lands ætti að vera kaup og sala, verslun og viðskipti með allskonar. Hvað svo ramt að þessari trú hans, fylgisveina og meyja að einmitt, allskonar var til sölu. Eitt var það í þessu landi sem líka var til sölu en er óvíða til sölu í svo miklu mæli, á byggðu bóli um heimsbyggðina og það er æra. Æru þiggja menn að hluta í vöggugjöf með menningu sinni og uppeldi, taka hana svo og þroska til fullorðinsára. Æran er óaðskiljanleg frá heiðarleika og mannkostum, felur þessa eiginleika í sér og gefur henni merkingu. Ærusalan var svo mikil að stór hópur manna er nú nánast ærulaus en þeir hinir sömu voru sáttir við hlutskipti sitt vegna þessa að þeir fenga aura í stað ærunnar og undu glaðir við sitt. Flestir hinna ærulausu eru nú auralausir líka eða að verða það með framgangi svokallaðra skiptastjórna sem setnar eru af svokölluðum lögfræðingum. Hinir ærulausu eru bæði fyrrverandi fyrirmenn og núverandi fyrirmenn og því vont að margir þeirra skuli enn vera fyrirmenn og fyrirmyndir þegar hið svokallaða land er að reyna að snúa vegferð sinni frá hinu svokallaða hruni. Svo er það að sumir hinna ærulausu seldu æru sína gegn samgangi og samvistum við ærlausa og fengu enga peninga fyrir en eru nú bara ærulausir og eiga enga ærulausa vini þar sem þeir eru eins og áður sagði auralausir og láta ekki sjá sig meðal manna.
Þá er að víkja aftur að þeim er réð fyrir ríki í þessu svokallaða landi þar sem allskonar var til sölu. Í þessu títtnefnda svokallaða landi er til fólk sem vill láta umræddan fyrirmann svara fyrir þau ósköp sem gerðu menn ærulausa og sem ekki má gleyma marga æruríka auralausa, þó að þeir hefðu ekkert til saka unnið. Í fjölda tilfella skaddaðist tilfinning margra fyrir heiðarleika. Traust þvarr í þessu svokallaða landi sem er þess vegna í hugum margra einmitt orðið svokallað. Í gær tókst söfnuði hinna ærulausu að koma málum svo fyrir að ekki mun reyna á hvort að sá sem réð fyrir ósköpunum í hinu svokallaða landi fái að leggja æru sínu, heiðarleika og mannkosti í dóm fyrir opnum tjöldum. Þykir undirrituðum það miður og sérstaklega í ljósi þess að sá sem fyrir ríkinu réð telur sig alsaklausan og með óskerta æru. Merkilegt að hann skuli ekki vera tilbúin að takast á við saksóknara sinn og láta sannleikann og rökin tryggja æru sína.
Það er sjálfsagt eftir bókinni í hinu svokallaða landi þar sem hægt er að fá seltsem salt, seltsem brjóst og seltsem áburð og seltsem eftirlit að þar skuli einnig vera til seltsem æra já og að allskonar sé í lagi.
Ásgeir Beinteinsson
PS
Ég er samt bjartsýnn á framtíðina.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 11.10.2011 - 15:51 - 17 ummæli

Hvers vegna eru drengir öðruvísi?

Hvers vegna gengur drengjum ekki eins vel og stúlkum í námi?

Það er vandamál hvaða viðhorf við höfum til drengja.

Málið er stærra en svo að skýringa sé að leita í „ónýtum grunnskólum“, eins og heyrst hefur. Þó að þeir eigi að vinna betur eins og síðustu svör barnanna hér fyrir neðan benda til.

Lítum á nokkrar niðurstöður úr skýrslunni  „Ungt fólk“ sem kom út í lok september.

Ungt fólk 2011

Rannsókn á hlutskipti og líðan nemenda í 5. til 7. bekk í grunnskólum á Íslandi.

Hvers oft færð þú hjálp frá pabba þínum og mömmu eða systkinum við heimanámið?

(5. bekkur. Svipað í 6. og 7. bekk.)

Stundum / oft

78% drengir

83% stúlkur

Hversu oft ert þú í íþróttum eða útivist með pabba þínum og mömmu?

(5. bekkur . Svipað í 6. bekk en betra í 7. bekk!)

Stundum/oft

57% drengir

66% stúlkur

Hversu oft ferð þú í leikhús, á sýningar eða tónleika með pabba þínum og mömmu?

(5. bekkur. Svipað í 6. og 7. bekk)

Stundum/oft

30% drengir

40% stúlkur

Hversu oft tala allir í fjölskyldunni þinni saman?

(5. bekkur. Svipað í 6. og 7. bekk)

Stundum / oft

73% drengir

81% stúlkur

Hversu oft ert þú með foreldrum þínum eftir skóla?

(5. bekkur á Íslandi. Svipað í 6. bekk en betra í 7. bekk)

Stundum/oft

63% drengir

68% stúlkur

Hversu oft ert þú með foreldrum þínum um helgar?

(5. bekkur. Svipað í 6. og 7. bekk)

Stundum/oft

92% drengir

95% stúlkur

Hversu auðvelt eða erfitt væri fyrir þig að fá umhyggju og hlýju hjá foreldrum þínum?

(5. bekkur. Svipað í 7. bekk en alveg jafnt í 6. bekk.)

Mjög/frekar auðvelt

91% drengir

94% stúlkur

Hversu auðvelt eða erfitt væri fyrir þig að fá ráðleggingar varðandi námið hjá foreldrum þínum?

(5. bekkur. Munur í 6. bekk en lítill munur í 7. bekk!)

Mjög/frekar auðvelt

88% drengir

93% stúlkur

Hversu oft ert þú ein(n) heima eftir skóla (ekki með fjölskyldu þinni)?

(5. bekkur. Svipað í 6. bekk en lítill munur í 7. bekk!)

Stundum/oft

45% drengir

40% stúlkur

Hvernig líður þér heima?

(Svar fyrir 5. bekk. Eins í 6. bekk en munur í 7. bekk!)

Frekar / mjög vel

96% drengir

96% stúlkur

Foreldrar mínir þekkja vini/vinkonur mína(r)

(5.bekkur. Svipaður munir í 6. og 7. bekk)

Á mjög/frekar vel við um mig.

91% drengir

95% stúlkur

Foreldrar mínir þekkja foreldra vina/vinkvenna minna.

(5. bekkur.  Svipaðar niðurstöður í 6. og 7. bekk.)

Á mjög/frekar vel við um mig.

79% drengir

86% stúlkur.

Námið er oft eða alltaf skemmtilegt

(5. bekkur. Svipaðar niðurstöður í 6. og 7. bekk)

26% drengir

42% stúlkur

Hversu oft hrósa kennararnir þér í skólanum?

(5. bekkur. Svipaðar niðurstöður í 6. og 7. bekk)

Stundum/oft

68% drengir

77% stúlkur

Við höfum ólík viðhorf til drengja og stúlkna. Við erum öll samsek. Gerum betur.

Með kveðju frá eldri dreng.

Ásgeir Beinteinsson

Skýrslan í heild.

http://www.menntamalaraduneyti.is/nyrit/nr/6223

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.5.2011 - 21:27 - 1 ummæli

ÍLÁT ER TAKMARKAÐ

Okkar Laugarvegur þar sem við reynum að skilja. Sumir ganga alla leið og eru sáttir, aðrir setjast á krá og fara þaðan aldrei og enn aðrir ganga búð úr búð og það er þeirra líf. Svo eru það þeir sem horfa til himins annað slagið og fylgjast með skýjafari og anda djúp. Annað slagið ber skugga á. Skyndilega skellur sólin á hvítum vegg og sumir staldra við og láta sólina verma sig, fagna og hugleiða jafnframt vegferð sína.

Vegferð mín hefur kennt mér að ég er takmarkaður. Ég skil ekki allt og kann ekki allt og þess vegna finnst mér erfitt að varpa fram skoðunum án rannsóknar. Mér finnst gott að geta varpað fram skoðunum til rannsóknar, þannig að aðrir eigi tækifæri á því að gera á þeim bragarbætur eða jafnvel hafna þeim. Þess vegna finnst mér hin ríka krafa um fullvissu svo merkileg í okkar þjóðfélagi. Stjórnmálamenn senda frá sér skilaboð um fullvissu og óskeikula afstöðu. Fjölmiðlamenn ræða við stjórnmálamenn á sömu nótum. Fjölmiðlamenn láta stjórnmálamenn standa við orð sín með því að bera saman orð þeirra nú og fyrir nokkrum dögum, mánuðum eða árum. Það er eins og hvorugur þroskist. Orðræðan er oftar en ekki skylmingar með staðreyndum í stað þess að hún ætti að vera um óvissuna og mögulega þekkingu; um leitina að sannleikanum.

Almenningur veit að maður þroskast. Við þroskumst að vísu í kringum einhvers konar vitund eða skilning og vilja um þjóðfélag okkar sem umgjörð um persónulegt líf. Það er merkilegt að einstaklingar skuli þroskast á lífsgöngu sinni en ekki þjóðfélagið. Það er einhvern veginn eins og það þurfi að endurfæðast í sífellu, sé alltaf ungt í einhverjum skilningi. Kannski er það vegna þess að það er alltaf yngra fólkið sem stjórnar samræðu samfélagsins. Ef til vill stafar þetta af því að kynslóðirnar tala ekki saman og læra. Við teljum okkur gera gömlu fólki gott með því að setja það til hliðar fremur en að hafa það hjá okkur svo við getum skynjað lífsþroska þess og drukkið skilningsdrykkinn með því.

Þegar ég var ungur þá var ég hvass, hvatvís, vissi allt, kunni allt og skrifaði þjóðfélagsgagnrýni sem kallar fram hroll í mér í dag. Þegar maður er ungur þá getur maður allt, er ódauðlegur og sú afstaða gerir okkur miskunnarlaus og bókstarfstrúar á eigin getu. Nú veit ég betur og er þeirrar skoðunar að ég sé eins og kínverski tebollinn minn með lokinu. Bollinn er skreyttur bláum drekum og það er lokið einnig. Drekarnir halda manni föngnum og takmörkuðum. Konfúsíus segir að menn séu ílát og ég held að hann hafi haft rétt fyrir sér. Ég held að ég sé takmarkað ílát með loki og þess vegna veit ég að eina leiðin til að sigrast á drekunum sem halda okkur fávísum sé að kalla yfir hrygginn á þeim til annarra.

Við ílátin getum frelsað okkur undan drekum fávísinnar með samræðu.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Ásgeir Beinteinsson
Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og var skólastjóri í Háteigsskóla frá 1997 til 2016, þar áður aðstoðarskólastjóri skólans frá 1991. Stjórnmál hafa verið áhugamál í tómstundum mínum frá 2005.  Það er mikilvægt að finna leiðir til að sinna ábyrgð borgaranna á stjórnmálum með því að virkja áhuga þeirra og tryggja regluleg áhrif á framvindu og þróun samfélagsins. Þessi áhrif geta verið formleg innan stjórnmálaflokks og óformleg með aðhaldi gagnrýninnar, upplýstrar og kurteisrar samræðu. Kosningar á fjögurra ára fresti duga borgurunum ekki í nútíma samfélagi sem breytist hratt.
RSS straumur: RSS straumur