Laugardagur 22.01.2011 - 22:28 - 11 ummæli

Enginn grunaður um ekki neitt

Alvarlegar fréttir dynja á landsmönnum þessa dagana.  Í  ónotuðu herbergi í Alþingishúsinu fannst tölva, sem enginn kannast við að eiga.  Á henni fannst ekkert; hún var tóm, nema hvað á henni voru fingraför sem tilheyra starfsmanni þingsins.  Því þykir ljóst að einhver allt önnur manneskja hljóti að hafa komið henni fyrir í húsinu, og augljóslega til að njósna, þótt starfsmenn þingsins segi reyndar að ekki virðist hafa tekist að komast í nein gögn. Ekki var heldur útskýrt af hverju tölva inni í húsinu ætti auðveldara með að komast í gögn þingmanna en tölva tengd internetinu svonefnda, sem grunur leikur á að Alþingi tengist.

Þessar ógnvekjandi fréttir urðu til þess að forseti þingsins, Ásta R. Jóhannesdóttir, rauf þagnarbindindið sem hún hefur verið í síðan hún komst að þeirri niðurstöðu að hún mætti ekki tjá sig um tiltekið dómsmál (sem svo furðulega vildi til að var í hámarki nákvæmlega daginn sem tilkynnt var að tölvan hefði fundist (hún fannst að vísu ellefu mánuðum áður)), líklega af því að hún var þegar búin að tjá sig um málið og lýsa yfir að þetta fólk sem hún mátti ekki tjá sig um hefði slasað starfsmenn Alþingis.  Sem hún gerði löngu eftir að starfsmenn þingsins voru búnir að eyða öllum upptökum úr myndavélum hússins, nema þeim sem þeim þóttu nógu áhugaverðar.  Reyndar hafði þeim láðst að athuga að í upptökunum sem þeim fundust svo skemmtilegar kom í ljós að forseti þingsins fór með rangt mál.  Sem er víst lenska í húsinu, því skrifstofustjórinn hefur líka verið í þagnarbindindi síðan í ljós kom að hann fór frjálslega með staðreyndir (svo maður tali nú ekki á ruddalegri nótum) varðandi hegðan sína í þessu sama dómsmáli, sem hann hafði, í stundarheiðarleika, úrskurðað með öllu ólöglega.

Yfirlýsing þingforsetans var snilldarlega umskrifuð tilvitnun í orð Bandaríkjaforseta eftir árásina á Pearl Harbor, enda tilefnið álíka alvarlegt, nefnilega fundur munaðarlausrar tölvu í þinghúsinu:  „Nú verðum við að horfast í augu við það að við búum í breyttum heimi.“

Einhverjir fréttamenn sögðu líka frá því að lögreglan hefði engan grunaðan. Þess var ekki getið um hvað sá grunur snerist sem enginn lá undir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Þetta er stórfurðulegt mál í alla staði. Skoðum þetta aðeins nánar:

    Nr 1. Njósnatalva! Hvernig var það fengið út, hvernig njósnaði hún og um hvern? Engin ummerki eru um innbrot og engin gögn á tölvunni styðja það. Hvað hefur Ásta og co í höndunum til þess að ásaka einhvern um njósnir?

    Nr 2. Talva eyddi sjálf öllum gögnum af harða diski svo þau eru óendurkræf. Þarna eru því á ferðinni menn sem eru langt á undan sinni samtíð í tölvuklækjum og kunna tækni sem engin annar kann skil á. Sannkallaðir snillingar.

    Nr 3. Þrátt fyrir að vera svona langt á undan sinni samtíð í tæknikunnáttu þá þurfa þeir að koma fartölvu físískt inn í herbergið. Slíkt er afar „low tec“ svo ekki sé meira sagt. Rímar engan veginn við nr 2. Spurningin er því; hvers vegna þurfti talvan að vera í þessu herbergi? Vegna ofboðslegs kunnáttuleysis?

    Nr. 4. Af hverju kemur þetta fram nú, heilum 11 mánuðum eftir að meint „afbrot“ var framið? Og eru menn hissa á því að ríkislögreglustjóri sé ekki enn búinn að ákæra neinn vegna hrunsins ef það er ekki enn búið að rannsaka eina litla fartölvu á heilum 11 mánuðum? Hvað rugl er þetta eiginlega?

    Nú er ég ekki að segja að ég viti eitt eða neitt um þetta mál, en ég kann að leggja saman tvo plús tvo. Ég fékk út fjóra. Mér sýnist að Ásta Ragnheiður og co hafi fengið út 328.267.629,17

  • Já, mikil er skömm Alþingis í því máli, (9) tala nú ekki um skömm saksóknara Láru J. og alls dómskerfisins. Að ekki skuli vera búið að vísa þessu máli frá dómi fyrir löngu er eitthvað sem enginn skilur. Tölvusmjörklípa?

  • Er tölvupóstur Láru til Helga fenginn úr þessari tölvu?

  • Undarleg tímasetning í þessu máli. Kannski smjörklípa til að dreifa athygli almennings frá réttarhöldum yfir 9menningunum?

  • Einar Steingrímsson

    Kristján: Ég veit ekki betur en að póstur Láru til Helga sé hluti af málsskjölunum í Nímenningamálinu. Hann er því ekkert leyndarmál, þótt flestir fjölmiðlar hafi ekkert gert með hann.

  • Já satt segi þú ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég fór að lesa það sem skrifað var á netið. Ég furða mig á þögn fjölmiðla og að verjendur skyldu ekki gera sér meiri mat úr þessu gagni.

  • Einar,
    Ert þú bara eins máls bloggari?
    Af gömlum kynnum, þá finnst mér það sóun á hæfileikum.
    Held að þú hefðir svo margt til málanna að leggja, um svo margt annað.
    .
    Pældíðí.

  • Þetta er nú einmitt þörf umræða og ábendingar, því þetta mál mun krauma í samfélaginu einmitt út af þögninni og málatilbúnaði eða eigum við að segja málefnisleysi stjórnvalda. Er þetta að einhverju leyti hægt að skrifa á núverandi stjórnvöld, eða fyrrverandi? Er þetta frá Sjálfstæðísflokknum komið og þá til að fylgjast með Birgittu og Hreyfingunni, vegna Víkileaks? Er þetta ef til vill á vegum herdeildarinnar hans Björns Bjarnasonar til að vinna með Bandaríkjamönnum að því sama?
    Þessum spurningum þarf að fá svarað fyrr en þetta verður upplýst er einhver eða einhverjir þarna úti sem eru ekki með hreint mjöl í pokahorninu og allar bendingar leiða til þess að þetta sé innanhússmál. Það er ef til vill það alvarlegasta í þessu máli öllu saman.

  • Georg Georgsson (gosi)

    Skrýtið að nánast öll njósnamál gegn almenningi hingað til, hafa tengst sjálfstæðisfloknum er ástæða til að ættla annað nú??

  • Einar Steingrímsson

    Einsi: Það er fleira á listanum yfir það sem ég hef hugsað mér að blogga um í framtíðinni. Þar á meðal um „stjórnunarfræði“stjórnendur, fúskið í íslenskri stjórnsýslu og meðvirknina sem kemur í veg fyrir að tekið sé til í henni, jafnréttismál og hvernig verið er að útrýma því skásta í íslenska háskólakerfinu. Ef þú ert með tillögur um fleiri málefni sem ég ætti að blogga um (og ef þú vilt segja mér hver þú ert), skrifaðu mér þá á einar@alum.mit.edu

    Hitt er svo annað mál að mér finnst Nímenningamálið og hinar mörgu mikilvægu hliðar þess hafa fengið allt of litla umfjöllun í fjölmiðlum.

  • Hvorki bandaríkjamenn, né njósnadeildir BjBj þurfa að koma neinu fyrir til að hlera eitt né neitt. Ljósleiðarakerfið var gefið – að mestu leiti – af hernum; öll samskipti landsins fara sjálfkrafa í gegnum öll þau nálaraugu sem þarf. Greiningardeild lögreglunnar hefur einnig viðamiklar tengingar inn á netkerfi landsmanna, þótt lítið fari fyrir því.

    Eins og Þórður telur upp hér í fyrstu athugasemd, þá er þetta tæki á vegum færra tölvusérfræðinga – sem eru samt líkari Bakkabræðrum en nokkru öðru, ef út í það er farið. Annars tel ég þarna vera um innanbúðarmál að ræða, sem tengsl voru notuð til að kæfa, þagga niður og skemma sönnunargögn, svo ekki kæmist upp – og nota mætti gegn öðrum, ef á þyrfti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur