Föstudagur 29.09.2017 - 10:15 - 7 ummæli

Skikkanlegur leigumarkaður – raunhæf lausn á húsnæðisvandanum

Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata sem nú stendur yfir. Eitt af því sem ég vil sjá á næsta kjörtímabili er skikkanlegur leigumarkaður.

Það hefur aldrei verið til skikkanlegur leigumarkaður á Íslandi; hann hefur lengst af byggst á húsnæði sem einstaklingar hafa átt en ekki verið að nota í augnablikinu, og þess vegna verið afar ótryggur fyrir leigjandann, sem fyrirvaralítið missir heimili sitt af því að dóttir eigandans kemur allt í einu heim úr námi. Síðustu árin hafa vissulega orðið til félög sem eiga fjölda leiguíbúða, en það kemur ekki til af góðu, heldur því að þessi félög sjá sér leik á borði að raka saman gróða af því að leiguverð er orðið svo himinhátt að lítil íbúð kostar lungann úr tekjum þeirra sem minnst hafa.

Með þá háu raunvexti (og þar með ávöxtunarkröfu) sem verið hafa á Íslandi áratugum saman er útilokað að einkaaðilar geti boðið upp á leiguhúsnæði á viðunandi verði í stórum stíl. Þess vegna þarf hið opinbera að gera það mögulegt, af því að öruggt húsnæði, á viðráðanlegu verði, er grunnþörf sem við sem samfélag eigum að tryggja öllum.

Það þarf ekkert kraftaverk til að leysa þetta; hið opinbera getur einfaldlega látið byggja leiguhúsnæði og leigt út miðað við að raunvextir séu 1% en ekki þau 4% sem algeng hafa verið á Íslandi síðustu árin, enda getur ríkið tekið langtímalán erlendis á slíkum kjörum ef með þarf. Einnig gæti ríkið veitt lán á slíkum kjörum bæði leigu- og búseturéttarfélögum sem ekki væru hagnaðardrifin. Þessi 3% vaxtamunur myndi þýða 75 þúsund krónum lægri leigu á mánuði fyrir íbúð sem kostar 30 milljónir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Þú stingur uppá því að fara 2007 Bankaleiðina og láta ríkissjóð taka erlend lán á lágum vöxtum til að fjármagna innlend lán til íbúðabygginga. Þ.e.a.s lán í erlendum gjaldmiðli sem er borgað tilbaka í íslenskum krónum.

    Hvernig ætlar þú þá að höndla það þegar krónan fellur? Þá hækkar skuldin í krónum. Ætlarðu að hækka leiguna hjá leigendum? Kannski um 30% á einu ári?

    • Einar Steingrimsson

      Ríkið getur auðveldlega jafnað út sveiflur sem verða vegna gengisfalls, og það er einmitt það sem ríkið hefði átt að gera eftir hrun, svo þúsundir manna misstu ekki heimili sín.

      TIl lengri tíma verðum við að gera ráð fyrir að kaupmáttur á Íslandi haldist í hendur við virði helstu erlendra gjaldmiðla, svo þetta er ekkert vandamál nema bara í stuttan tíma ef það verður eitthvert hrun. Og einmitt í hruni þarf ríkið að vernda þá sem minnst hafa svo þeir lendi ekki í meiriháttar vandræðum, sem aðrir bera ábyrgð á.

  • Það að ríkið eigi ekki einungis að jafna hagsveiflur í atvinnulífinu heldur líka á leigumarkaðinum er risavaxinn biti fyrir ríkissjóð, og þá sérstaklega vegna þess að ríkissjóður myndi þurfa að gera það í botni hagsveiflu þegar tekjur minnka. Niðurskurður annarstaðar hjá ríkinu yrði þá að vera mun meira, t.d. í heilbrigðiskerfinu.

    Ég held að flestir séu sammála þér með að ríkið eigi að hjálpa eftir getu þegar veruleg niðursveifla verður í hagkerfinu, eða hrun. Aftur á móti þá verða skrefin sífellt þyngri eftir því sem ríkið er klyfjað með meiri byrðum.

    Það eru ávallt afleiðingar af öllum aðgerðum. Það að ríkið eigi að niðurgreiða leigumarkaðinn á Íslandi þýðir einfaldlega að minna verður eftir fyrir heilbrigðis- mennta og félagskerfið.

    Nema hjá þeim sem trúa á peningatréð í Hljómskálagarðinum, og ég held að margir Píratar séu skynsamari en svo.

    • Einar Steingrimsson

      Ég er ekki að tala um að niðurgreiða leigumarkaðinn. Og varðandi hagsveiflurnar þá er engin sérstök ástæða til að við lentum í djúpri niðursveiflu strax eftir að svona kerfi væri komið á. Værum við í uppsveiflu fyrst í nokkur ár, þannig að gengið krónunnar væri hærra en ella, þá myndu þvert á móti safnast upp peningar sem væri svo hægt að nota til að jafna út niðursveifluna.

      Og, öfugt við aðra hluti sem niðursveifla hefur áhrif á þá væru stöðugar tekjur af leigunni.

      Síðast en ekki síst tel ég nógu mikilvægt að tryggja öryggi í húsnæðismálum til að það ætti ekki að vera neðar á listanum en önnur sveiflujöfnun.

  • Sigurður.

    1. Það er algjörlega óumdeilt að krónan núna er umtalsvert sterkari núna en sögulegt jafnvægisgengi krónunnar hefur verið.

    Og því nær alveg öruggt að gengistryggt lán á þessum tímapunkti fyrir leiguhúsnæði væri niðurgreitt af ríkinu.

    Fyrir utan allar sveiflurnar sem ríkið á að lána fyrir þegar leigan dugir ekki fyrir afborgunum af gengistryggðu láninu.

    Þannig að það er alveg öruggt að ríkið þyrfti að niðurgreiða þessi lán.

    2. Það er eiginlega alveg öruggt að þessi hugmynd er kolólögleg og brot á fjölmörgum samkeppnislögum auk brots á EES samningnum.

    Þarna er ríkið að nota lánstraust sitt, ríkisábyrgð og lánskjör sem Íslenskum aðilun bjóðast ekki til að fjármagna rekstur í samkeppni við einkaaðila.

    Þetta er svo augljóslega kolólögleg hugmynd að þetta er algjörlega óframkvæmanlegt.

    3. Afleiðingarnar á húsnæðismarkaðinn og hagkerfið almennt.

    Það fyrsta sem gerist er að allir sem nú leigja íbúðir verða gjaldþrota, þeir ráða ekki við þessa innkomu ríkisins.

    En svo er allur almenningur sem er búinn að kaupa sér íbúðir á Íslenskum okurkjörum.
    Hvers vegna ætti hann að standa í því að borga af sínu rugli þegar honum býðst þetta ódýra húsnæði hjá ríkinu?
    Það hljóta bókstaflega allir, hver einn og einasti að selja og leigja frekar á þessu kostaboði, með engar áhyggjur af verðtryggingu né gengishruni.

    Bara blasir við.

    Sem þýðir algjört verðhrun á fasteignamarkaði, yfirskuldsetningar og gjaldþrotahrina þúsunda eða tugþúsunda heimila.

    Þetta er alveg ævintýralega vanhugsuð hugmynd, eins og nær allt annað sem Píratar eru að bjóða upp á.

    • Einar Steingrimsson

      1. Það er ekkert sem segir að það eigi að drífa í þessu strax á morgun, heldur ætti þvert á móti að standa í uppbyggingu af þessu tagi þegar ekki er þensla.

      2. Mér finnst afar ólíklegt að ekki væri hægt að gera þetta án þess að brjóta gegn reglum EES, þar sem leigufélög rekin af hinu opinbera eru algeng t.d. í Svíþjóð.

      3. Ég sé ekki á hverju þú byggir þessa hugmynd að allir myndu vilja selja húsnæði sitt til að leigja í staðinn.

      Aðalatriðið er þó að það getur ekki verið náttúrulögmál að ekki sé hægt að koma upp skikkanlegum leigumarkaði á Íslandi, sambærilegum við það sem þekkist í nágrannalöndum. Ef þú ert með hugmyndir sem þér finnst betri en þessi, þá væri gaman að heyra þær. 🙂

    • Sigurður.

      2.
      Ég er ekki að segja að það sé ólöglegt að ríkið reki leigufélag.

      Ég er að segja að það sé ólöglegt að ríkið noti sína yfirburðastöðu til að undirbjóða einkarekin félög á samkeppnismarkaði.
      Þetta er alveg borðleggandi og þarf ekkert að ræða.

      Heldur þí að það væri löglegt að Landsbankinn færi að lána húsnæðislán í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki og bjóða 1% óverðtryggða vexti?

      Ríkið fjármagni þetta með erlendum lánum og taki á sig gengissveiflurnar?

      Það getur bara ekki verið að þú vitir ekki að svona þvæla er kolólögleg.

      3. Eg útskýri nákvæmlega á hverju ég byggi þessa hugmynd.
      Ef þú sérð það ekki er bara að lesa aftur.

      Þessar hugmyndir þínar eru fullkomlega óframkvæmanlegar, bæði kol ólöglegar og myndu kosta skelfilegar afleiðingar fyrir allt hagkerfið.

      Hér vantar sárlega flokka og stjórnmálamenn sem geta hugsað aðeins út fyrir box gamla fjórflokksins í stað þess að halda endalaust áfram að auka ríkisstyrki við ónýtt fjármálakerfi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur