Mánudagur 24.01.2011 - 22:35 - 7 ummæli

Einkarekstur, orkuauðlindir og Samfylkingin

Magnús Orri Schram skrifar grein í Fréttablaðið í dag um einkarekstur og orkuauðlindir.  Ekki er ljóst hvort hann lýsir hér stefnu Samfylkingarinnar, en gott væri að fá það á hreint.

Rétt er að taka fram í upphafi að undirritaður er fylgjandi einkarekstri í atvinnulífinu hvar sem hann virkar vel, en alls ekki þar sem hagsmunum almennings er betur borgið með opinberum rekstri.  Það er hins vegar ýmislegt athugavert við þá afstöðu sem birtist í grein Magnúsar. Þar á meðal er „röksemdafærslan“ sem hann beitir þegar hann segir eftirfarandi:

Það væri óskynsamlegt að stofna Útgerðarfélag Ríkisins sem sæi um þorskveiðar í Faxaflóa, og því er það ekki sjálfgefið að best væri að opinberir aðilar sjái um að bora eftir jarðgufu við Svartsengi.

Miklu betri leið til að tryggja almannahagmuni er að stytta lengd nýtingarsamninga við einkaaðila niður í 35 ár í stað 65 ára, og að tryggja að þjóðin fái góðan arð af nýtingu auðlindanna.

Þetta „því“ sem stendur í fyrri málsgreininni bendir til að Magnús telji að staðhæfingin um óskynsemi þess að ríkið stundi fiskveiðar leiði af sér að ekki sé sjálfsagt að ríkið bori eftir gufu.  Þarna á milli er ekki röklegt samband og leiðinlegt að sjá slíkan blekkingaleik.
Þótt við tækjum undir að óskynsamlegt væri að láta ríkið sjá um þorskveiðar í Faxaflóa, og jafnvel þótt við föllumst á að ekki sé sjálfgefið að opinberir aðilar nýti gufuna í Svartsengi, þá leiðir heldur engan veginn af því að leiðin sem Magnús leggur til sé „miklu betri“ til að tryggja almannahagsmuni. Það er nákvæmlega ekkert sem segir að það gerist með því að stytta nýtingarsamninga niður í 35 ár, og það er nákvæmlega ekkert sem segir að „þjóðin fái góðan arð af nýtingu auðlindanna“ með því að leigja nýtingarréttinn til einkaaðila, hvort sem það er til langs eða skamms tíma.  Alveg sérstaklega virðist ólíklegt að verð á orku í heiminum muni lækka næstu áratugina (vegna síaukinnar eftirspurnar og sífellt dýrari olíu), og í því ljósi er ekkert sérlega trúlegt að það sé skynsamlegt að selja orku til margra áratuga í senn, eins og gert hefur verið til stóriðju hér, og eins með sölunni á HS Orku.
Auk þessa er þetta afar óheppileg ábending um þorskveiðarnar, því þótt til séu vel rekin útgerðarfyrirtæki á Íslandi keyrði greinin í heild sinni sjálfa sig nánast í gjaldþrot á síðustu árum fyrir hrun og stendur nú uppi með gríðarlegar skuldir.

Magnús segir líka

Þá er líka ósvarað hvort æskilegt sé að skattgreiðendur skuli bera áhættu af fjárfestingu í orkuvinnslu fyrir stöku stóriðjuverkefni.

Þessu er auðvelt að svara:  Sú áhætta sem felst í fjárfestingu í orkuvinnslu er ekki sérlega mikil, og alveg sérstaklega er hún hlutfallslega mjög lítil fyrir ríki sem rekur alla orkuvinnslu landsins sjálft.  Þetta er því engin röksemd gegn opinberum rekstri í orkugeiranum.

Magnús klykkir svo út með þessu:

Þannig eigi að gilda sömu reglur um orkuauðlindir og auðlindir sjávar.

Fyrir þessu eru alls engar röksemdir færðar, þótt ljóst megi vera að hér sé að mörgu leyti um gerólíka hluti að ræða.

Þar sem Magnús færir engin rök fyrir máli sínu læðist að manni sá grunur að hér sé ekki um að ræða afstöðu sem byggð er á þekkingu og ígrundun, heldur trúarsetningar.  Þessar trúarsetningar um ágæti einkarekstrar á öllum sviðum höfum við séð í ríkum mæli í marga áratugi, ekki síst síðustu tíu árin eða svo, og þær ganga gjarnan undir nafninu „frjálshyggja“ (sem er allt of fallegt nafn á þá ljótu útfærslu sem  leitt hefur til ofsagróða ýmissa pilsfaldakapítalista).

Reynslan af einkarekstri á Íslandi síðustu fimmtíu árin að minnsta kosti er að hann hafi í mjög mörgum tilfellum (t.d. í bankarekstri og olíusölu) verið einokun eða fákeppni útvaldra valdablokka, í skjóli ríkisins.  Reynslan síðustu tíu árin er hins vegar að einkarekstur margra stórfyrirtækja rústaði efnahagskerfi þjóðarinnar, og kom þúsundum saklauss fólks á vonarvöl.

Það er rétt að endurtaka að undirritaður er fylgjandi einkarekstri, og sem minnstum afskiptum ríksins, alls staðar þar sem það á við, og ég tel að með góðu umhverfi og leikreglum geti það átt við stóran hluta atvinnulífsins (en þó varla orkuvinnslu og veiturekstur).

En ef Samfylkingin ætlar að boða fagnaðarerindi einkarekstrar sem trúarsetningu á rústum íslensks efnahagslífs, áður en hún hefur sýnt nokkra tilburði til að taka til í rústunum, og meðan ekkert bendir til annars en að sömu valdablokkirnar muni í aðalatriðum halda áfram að maka krókinn hér, þá er það ágeng spurning hvert við eigum að snúa okkur sem teljum okkur vera frjálslynt og (hóflega) markaðssinnað félagshyggjufólk.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Garðar Garðarsson

    Góð greining Einar. Sammála þér að öllu leyti.

    Samfylkingin hefur ekki stefnu í þessu stóra máli og á meðan notfæra ýmsir hægrimenn innan flokksins sér það, t.d. Magnús Orri Schram, til þess að koma sínum skoðunum á framfæri og styðja mál sitt með því að draga sama sem merki á milli sjávarútvegs og orkuframleiðslu sem er út í hött eins og þú hefur rakið.

    Nýting og dreifing orku er mjög vandasöm hvað varðar allt öryggi gagnvart neytendum, á meðan öryggi hvað varðar nýtingu á sjávarauðlindinni er meira tengt þeim er stunda veiðarnar. Ef það er bilun á dreifikerfi orkunnar eða það kemur upp orkuskortur vegna bilana í virkjunum, þá getur það valdið mörgum fyrirtækjum og öllu þjóðfélaginu miklu meiri skaða en ef bilun á sér stað einhverstaðar í sjávarútvegi. Það má ekki láta misvitra einkaaðila arðræna þessi mikilvægu fyrirtæki þannig að öryggi framleiðslunnar verði í lágmarki og mikil hætta skapast á ótryggri afhendingu orku vegna þessa.

    Orkufyrirtækin eiga að vera í höndum hins opinbera, enda hefur það sýnt sig að í þeim löndum þar sem orkufyrirtækin hafa verið einkavædd þar hefur orkuverð til almennings stór hækkað og öryggi framleiðslunnar minnkað. Myndast hefur fákeppni þar sem orkufyrirtækin safnast á fárra manna hendur.

  • Samfylkingin hefur ekki sýnt neina umtalsverða tilburði til endurnýjunar eftir hrunið nema þá helst að gleypa Íslandshreyfingu Ómars Ragnarssonar með húð og hári í mars 2009.

    Ég leyfi mér að vitna í athugasemd á bloggsíðu Ómars (www.omarragnarsson.blog.is) 11. þ.m.sem hann beindi til mín:

    „Minni líka á það, Sigurður, að á landsfundi Sf vorið 2009 munaði aðeins örfáum atkvæðum að samþykkt yrði tillaga sem borin var þar fram þess efnis að stefna Sf skyldi vera sú að Íslendingar létu reisa eins mörg álver á Íslandi og hægt væri að virkja fyrir.

    Með því að leggjast á árar með því góða, græna fólki sem var fyrir í Sf tókst að koma í veg fyrir þá hneisu að þetta yrði samþykkt.

    Með sömu samvinnu voru líka samþykkt atriði í umhverfismálum á borð við þau að hafna ágengri orkunýtingu (rányrkju) jarðhitasvæða og stefnt yrði að því að allt svæðið milli Suðurjökla og Vatnajökuls yrði gert að friðu svæði eða þjóðgarði.

    Engir fjölmiðlar höfðu hinn minnsta áhuga á þessum málefnum í frásögnum sínum af þessum landsfundi.“

  • Magnús Björgvinsson

    Sigurður af því að þú ert að fjalla um samfylkinguna og orkunýtingu og orkustefnu þá er rétt að benda þér á að nú fyrir nokkrum dögum var verið að kynna drög að nýrri orkustefnu sem hefur nú verið í umræðunni. Þar er meðað að því að nýting sé sjálfbær, í sem mestri sátt og miðar að því að hámarka arð þjóðarinnar af auðlinum okkar Veit ekki betur en að Ómar Ragnarsson telji að þetta sé mjög gott skref. Sjá hér http://www.orkustefna.is. Síðan finnst mér furðulegt að ráðasta að fólki sem var á Landsfundi samfylkingar og taldi að við værum í slíkri krísu að hér þyrfti að koma álverum á Bakka og Helguvík í gang. Þetta var jú á þeim tímum að það var verið að spá allt að 20% atvinnuleysi og menn töluðu um að næg orka væri í boði sér í lagi fyrir Norðian sem og að búið væri að semja um orku fyrir Helguvík. Þar hefur jú um 20% af íbúum verið arvinnulaust. Sorry að fundarmenn skildu sumir halda að það þyrfti kannski að huga að störfum fyrir þetta fólk.

  • Magnús, hvers vegna í ósköpunum þurfti Samfylkingin að velja stjórnarformann Verne holdings og viðskiptafélaga Björgólfs Thors til þess að leiða stýrihóp um mótun orkustefnu? Samfylkingin er ólæknandi keis og íslenskir jafnaðarmenn eiga einfaldlega betra skilið.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Magnús Orri er í röngum flokki. Það ætti öllum að vera augljóst eftir peningaþáttinn um daginn á RÚV þar sem reiknað var út að lepparnir utan á honum kostuðu rúmar 700.000 krónur. Minnti mig óþægilega á nafna hans L. Sveinsson.

  • Garðar Garðarsson

    Magnús Björgvinsson // 25.1 2011 kl. 01:48 .
    Þessi drög að nýrri orkustefnu sem þú vitnar í hafa aldrei verið rædd í flokksfélögum Samfylkingarinnar og segir ýmislegt um það hvernig sumir hægrimenn í Samfylkingunni vinna. Toppurinn ákveður stefnu í orkumálum sem aldrei hefur komið fyrir flokksfélögin, sem er ekki mjög svo lýðræðislegt.

  • Er ekki Magnús bara að reyna að segja að það sé ekki endilega best fyrir hið opinbera að sjá um allt sjálft, heldur betra að bjóða það út gegn sanngjarni greiðslu (veiðileyfagjald, orkugjald) í sanngjarnan tíma (svo hægt sé að endurskoða sambandið)?

    Mín 2 cent, Magnús hefur rétt fyrir sér í fullkomnum heimi og þá verður jú líka verðið að vera sanngjarnt, en þar sem enginn markaður er eða mjög lítill, þar sem að stjórnmálamenn gefa vinum sínum samninga gegn greiðum, gengur þetta ekki upp. Þá er eðlilegra að bjóða út verkhluta eða vinna með öðrum að sameiginlegum markmiðum. Allaveganna, er enginn skynsemi í því að leigja gæsina sem verpir gulleggjunum, á klink, einhverjum sem svo kannski skilar henni nær dauða en lífi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur