Það er að bera í bakkafullan læk að gagnrýna forystu Samtaka Atvinnulifsins. En vegna þess hvers konar forarvilpu forysta þeirra samtaka reynir að búa til með áróðri sínum veitir ekki af að viðhalda sírennsli af fersku vatni yfir hana, og þá er betra að ferska vatnið flói út fyrir en eiga á hættu að forin kaffæri okkur.
Þótt í Samtökum Atvinnulífsins sé fjöldinn allur af fyrirtækjum sem eru heiðarlega rekin, af heiðarlegu fólki, þá virðist forysta þeirra vinna að því hörðum höndum að breyta ímynd samtakanna, í hugum almennings, í Samtök Arðræningja.
Framkvæmdastjórinn Vilhjálmur Egilsson talar, dauðhræddur, um að forsætisráðherra eigi að „halda ró sinni“ og ekki „hræðast viðfangsefnin“, heldur „ræði málefnalega við samtökin um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni.“ Ef til vill er þetta snjallt, því ekki er útilokað að einhverjir gangi í gildruna og sjái ekki að maðurinn er að tala um sjálfan sig en ekki andstæðinginn.
Málefnið er eignarhald á fiskveiðiauðlindinni, sem var afhent útvöldum skara sem fékk þar með tugi eða hundruð milljarða á silfurfati. Ef til vill hefur Vilhjálmur fylgst illa með, en yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill endurheimta þessi auðæfi, enda voru þau aldrei gefin, aðeins lánuð. Um þá endurheimtingu ætti ekki að ræða neitt sérstaklega við SA eða LÍU, því það er löngu tímabært að hætta þeim landlæga ósið að sérhagsmunaaðilar setji lög og reglur um eigið starf og ráðskist með verðmæti sem þeir eiga ekkert í.
Vilhjálmur segir líka um forsætisráðherra að það sé fordæmalaust hvernig hún ráðist á SA og LÍU. Hér bregður enn einu sinni fyrir uppáhaldstækni íslensks valdafólks (sem e.t.v. ætti að íhuga útflutning á?), nefnilega að leika fórnarlamb ofsókna og eineltis þegar litlu krakkarnir í hverfinu biðja um að fá boltann sinn aftur úr höndum stálpuðu hrekkjusvínanna. Sé rétt að þetta sé fordæmislaust er svei mér þá tími til kominn, enda er það varla fordæmislaust að Vilhjálmur og hans nótar taki í gíslingu gerð kjarasamninga til að þjóna þröngum sérhagsmunum útgerðarauðvaldsins eins og raunin er hér.
Það væri bæði ókurteist og ósanngjarnt að taka undir staðhæfingarnar um að Vilhjálmur sé bara bjáni. En það er ráðgáta af hverju hann leikur alltaf grunnhygginn, vælinn og sjálfhverfan krakka.
Formaður Samtaka Arðræningja, Vilmundur Jósefsson, vildi ekki leika minna hlutverk í þessu leihúsi fáránleikans, eins og lesa mátti hér. Hann segir „maður veltir því fyrir sér hvort við séum farin að nálgast ástandið í Venesúela eða Miðbaugs-Gíneu.“ Þessu þarf ekkert að velta fyrir sér. Ástandið á Íslandi hefur í nokkur ár verið svipað því sem er í Zimbabve. Það eigum við að þakka mörgum af umbjóðendum þessara miður heiðarlegu tvímenninga sem nú reyna að slá í augu landsmanna því ryki sem þyrlaðist upp þegar félagar þeirra lögðu landið í rúst.
Ég er ekki stuðningsmaður Jóhönnu Sigurðardóttur eða ríkisstjórnar hennar. Þaðan af síður styð ég flokkinn hennar, sem hefur brugðist nánast öllum vonum sem við hann voru bundnar. Ekki heldur er ég hallur undir samstarfsflokk hennar, enda er ég fylgjandi frjálsum markaði þar sem hann virkar og þar sem hann er ekki afskræmdur í þá einkavinavæðingu sem íslenskir pilsfaldakapítalistar hafa makað krókinn á.
En það kom þægilega á óvart hvað Jóhanna talaði skorinort um hótanapólitík þeirra hræddu arðræningja sem óttast að missa spón úr askinum sem þeir hafa fyllt svo út af flóir, samtímis sem þeir hafa gert fjölda saklauss, heiðarlegs og vinnandi fólks að ölmusumönnum. Ef flokkur Jóhönnu, og ríkisstjórnin, vildu og þyrðu að setja Samtökum Arðræningja þau mörk sem eðlileg eru, þá er aldrei að vita nema þeim tækist að endurheimta eitthvað af því trausti sem þau hafa réttilega glatað.
Á síðu SA kemur fram að samtökin hafi innan sinna vébanda átta aðildarfélög, þ.á.m. LÍÚ og Samorku. Á enskri tungu kalla samtökin sig „Confederation of Icelandic employers“. Nú hafa þessi samtök kastað grímunni og fáir ættu að vera í vafa um hvaða hagsmuni þau standa vörð um í raun og veru.
Algjörlega sammála þér.
Greinargóð lýsing á Samtökunum hjá þér Einar Steingrímsson, meira af þessu,því baráttan um auðlindirnar eru að hefjast. Samtökin eru búin að kasta stríðshanskanum og nú er að duga eða drepast fyrir Jóhönnu og c/o. Frábær grein.
Kv.
Langar til að benda þér á eftirfarandi;
Skv. lögum eru auðlindir Íslands í þjóðareigu.
Núverandi handhafa kvótans fengu hann ekki á silfurfati, heldur fyrirrennarar þeirra sem fyrir löngu eru búnir að selja sig út úr greininni og þar með talið kvótann.
Núverandi handhafar kvótans keyptu hann af gömflu kvótakóngunum og það á dýru verði og urðu þar að leiðandi margir hverjir að skuldsetja sig.
Núverandi fyrirkomulag fiskveiða var sett á af þeirri ríkisstjórn sem sat að völdum á árunum 1989-1991.
Í þeirri ríkisstjórn voru m.a. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Hreint út sagt líst mér ekkert á þessa Zimbawe-leið Jóhönnu og co. þ.e. eignarnám ríkissins á fiskveiðiréttindum
Þar að auku mun arðurinn af kvótaleig ekki koma almenningi til góða, heldur munu þetta fara í ríkishýtina til embættismann og sendiráða.
Er það ekki þannig að ef ég hef keypt þjófagóss, jafnvel í víðáttuheimskri og góðri trú, þá ber mér að skila því?
Allir sem hafa keypt kvóta vita að það var á hæpnum forsendum. Ég keypti hlutabréf í banka árið 2007. Þau hurfu á einni nóttu ári síðar.
Flottur pistill ! Sammála hverju orði.
Bragi. Mikill hluti aflaheimilda er í sömu höndum og í upphafi þessarar vitleysu. Nafnaskipti og sameining fyrirtækja gera þessa skýringu þína ekki að staðreyndum.