Þriðjudagur 01.02.2011 - 12:00 - 14 ummæli

Búrkur, skíðamenn og skammdegi

Bæði Ingibjörg Sôlrún Gísladóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vilja banna konum að klæðast búrkum á Íslandi.  Þorgerður virðist telja að slíkt bann sé í lagi af því að búrkur falli ekki að íslenskri menningu, sjá hér. Ingibjörg er svolítið almennari, og talar um bann við að fólk hylji andlit sitt, af því að „við þurfum líka að sjá framan í fólk á opinberum fundum en ekki búa við það að hluti fundarmanna sé með andlitsgrímur sbr. fund í Iðnó“ eins og fram kemur hér.

Það er (vonandi) útilokað að setja lög sem banna fólki að klæðast tiltekinni tegund af fötum, þótt hins vegar væri hægt að banna klæðnað sem hylur andlit fólks, enda eru slík ákvæði þegar í lögum, nefnilega getur lögregla bannað slíkt „ef til óspekta horfir á opinberum samkomum.“

Vandamálið við lög af þessu tagi er að ef fólki er bannað að hylja andlit sitt á opinberum stöðum þá verður slíkt bann að vera almennt, svo ekki sé um að ræða óeðlilega mismunun á grundvelli skoðana eða trúarbragða.  Því hlyti að vera bannað að hylja andlit sitt eins og fólk gerir gjarnan á skíðum eða í annarri útivist í köldu veðri.  Það þyrfti þá líka að banna fólki að hylja andlit sitt að mestu leyti á götum úti eins og margir gera þegar napurt er í því skammdegismyrkri sem gerir enn erfiðara að greina andlit fólks.

Engum dettur í hug að banna fólki að hylja andlit sitt á almannafæri til að verjast kulda.  Þess vegna er ekki stætt á því að banna búrkunotkun, því það samræmist ekki hugmyndum um frelsi og mannréttindi að mismuna fólki eftir trúarbrögðum eða öðrum skoðunum.

Þótt okkur finnist mörgum búrkur jafn óskemmtilegur klæðnaður og þeim stöllum Þorgerði og Ingibjörgu, ekki síst vegna þeirra viðhorfa til kvenna sem þær eru oftast tjáning á, þá eru sem betur fer miklu færri sem vilja lögfesta þá kúgun sem  Þorgerður og Ingibjörg tala fyrir.  Skoðanir Þorgerðar á því hvað sé passandi fyrir íslenska menningu og kvenfrelsishugmyndir eru ekki rétthærri hugmyndum annarra, og ef Ingibjörgu finnst vont að vera á fundum þar sem sumir fundargestir kjósa að hylja andlit sitt, þá er til einföld lausn á því. Hún getur setið heima.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Vel mælt.

    Þegar eru í gildi reglur um að fólk framvísi skilríkjum með mynd (sem er vitanlega tilgangslaust ef það þekkist ekki á myndinni) þegar það á í viðskiptum, ferðast á milli landa og við ýmsar aðrar aðstæður þar sem nauðsyn þykir að menn geri grein fyrir sér. Hinsvegar eigum við engan sérstakan rétt á að fá að sjá andlit þeirra sem við mætum á götum úti, ekki fremur en t.d. nafla.

    Ef svo fer að búrkuklæddar muslimakonur standi ítrekað fyrir óspektum á almannafæri, má svosem ræða réttmæti þess að banna búrkur en á meðan það vandamál þekkist hvergi í víðri veröld á þessi umræða ekki heima á Alþingi.

  • „Mikilvægt er að greina á milli búrku og hijab eða slæða. Samkvæmt íslam eiga konur að hylja hár sitt og líkama en ekki andlit. Búrka hefur ekkert með íslam að gera heldur er kúgunartól karlaveldisins,“ segir Amal Tamimi og segir gott að skoða málið áður en notkun á búrkum verði almenn. Hún segir að í lögreglulögum sé heimild til handa lögreglu að fara fram á að andlit fólks sé ekki hulið. „Ég segi konum frá þessum lögum þegar ég er með fræðslu. Ég er sammála hugmyndum um að banna búrkur. Konur ganga ekki í búrkum þegar þær fara í pílagrímsför til Mekka og í Egyptalandi eru þær bannaðar á opinberum stöðum svo sem vinnu og í háskólum.“

    Amal Tamimi er bara flottust. Bæði í sjón og raun.

  • Það hlýtur að vera hægt að gera greinarmun á því hvort fólk er að nota húfur til að hlífaðar fyrir kulda og mótorhjólahjálma við akstur eða hvort fólk mætir með þennan búnað í opinberar stofnanir og til að versla. Ég myndi ekki kippa mér upp við að mæta búrkuklæddri konu úti á götu, en ég vil ekki að manneskjan sem afgreiðir mig þegar ég á erindi við opinbera stofnun sé hulin og ekki hægt að sjá andlit hennar. Það er líka frekar ankannalegt að fara í gegn um öryggiseftirlit á flugvelli: ég þarf að sýna vegabréf, myndin er borin saman við andlitið á mér og ég þarf að horfa í augnskanna, en konan (?) á næsta borði er hulin frá hvirfli til ilja með búrku, ekki einu sinni hægt að sjá augun.
    Hvað það varðar að fólk fái að klæða sig eins og því sjálfu sýnist; ef ég þyrfti að velja á milli búrku og 10 cm pinnahæla? Búrkuna takk, ekki spurning.

  • Ég stend algjörlega á gati í þessari umræðu. Hef aldrei heyrt á það minnst að það „eigi sér djúpar rætur í menningu okkar“ að verða að sjá framan í fólk sem við tölum við. Hvernig gengur ISG að tala í síma? Ég hélt að frelsi einstaklingsins til þess að klæða sig eins og hann vill ætti sér dýpri og mikilvægari rætur.
    Kúgun á ekki að líðast í okkar þjóðfélagi (óháð kynjum), en er ekki eðlilegra að fordæma verknaðinn (kúgunina sjálfa) en að banna eitt verkfærið?

  • Jón Skafti Gestsson

    Er ekki verið að gera búrkunni full hátt undir höfði með því að skilgreina bann við henni sem mismunun milli trúarbragða?
    Ég veit alla vega ekki til þess að búrkismi eigi sér marga fylgjendur. Held að þar sé mun frekar á ferðinni félagslegt fyrirbæri heldur en trúarlegt.

  • Ómar Kristjánsson

    Eg man aldrei eftir að hafa séð manneskju í Búrku á Íslandi. Bara aldrei.

    Einhver ætti nú að spássera í Búrku niður laugarveg. Vera fyrstur. Líklega erfitt að nálgast klæðnaðinn hérna. En þó veit maður aldrei.

  • Ég gæti vel hugsað mér að eiga eins og eina búrku, þessa daga sem ég vakna með ljótuna.

    Annars held ég að margt sé brýnna á Íslandi núna en að setja lög um búrkur,
    það er ekki eins og búrkuklæddar konur flæði um allt.

    Fyrirtækin eru flest þegar komin með reglur um klæðnað starfsfólks, einkennisbúningar, öryggisfatnaður, hárnet í matvælaframleiðslu o.s.frv…

    Kúgunartákn? Af hverju eigum við vestrænar konur eitthvað að vera að ráðskast með þær frekar en eiginmenn þeirra. Eiga þær ekki rétt á að ráða sér bara sjálfar? Við eigum að standa við bakið á þeim en ekki segja þeim fyrir verkum.

  • en ef það er ekki til að verjast kulda, vilt þú að afgreiðslumanneskja afgreiði þig með lam´bhúshettu eða níqab??? Nei takk!

  • Engar Búrkur á Íslandi takk !

  • Gunni gamli

    Það væri nær að hvetja Íslenskar konur til að gana í Búrkum.
    Okkur vantar svo tilfinnanlega fjölmenningu í þjóðfélagið.
    Búrkur fyrir konurnar. Fjölkvæni fyrir karlana.
    Svo að sjálfsögðu þarf að styrkja rétt manna til að berja konurnar sínar að íslömskum sið. Það er nauðsynlegt að hafa fjölmenningu ef samfélagið á að þrífast.

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Í Silfri Egils á sunnudaginn var, hélt Jóhann Hauksson blaðamaður því fram
    að Jón Þorláksson fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins hafi sagt árið 1929:

    „Lyklarnir að ríkisfjárhirslunni eru engum fengnir til þess að sækja þangað
    vinargjafir eða fylgdarlaun“

    Í beinu framhaldi spurði Jóhann síðan Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur
    þingmann Sjálfstæðisflokksins:

    „Eruð þið búin að átta ykkur á þessu núna árið 2010, hvað þetta þýðir ?“

    Hann fékk EKKERT svar. Hvers vegna í ósköpunum heldur þú ??

    Hvaða erindi á Þorgerður Katrín, sem ekki á svar við þessarri einföldu
    spurningu, á Alþingi Íslendinga ??

  • Margrét Ro

    Góður pistill, góð komment og góð umræða. Góður stærðfræðingurinn. Í stað þess að svara spurningu Jóhanns þá fór Þorgerður Katrín að tala um allt annað. Mér fannst ankannalegt að sjá hana í Kastljósi án þess að hún væri að svara fyrir kúlulán eiginmannsins. Ég get ekki hlustað á spillta liðið tala um þjóðfélagsmál.

  • Ég sagði þetta um málið hja Baldri Kristjánssyni en einhverrahluta vegna birtist það ekki:

    „Fulltíðakarlmaður með skegg og sólgleraugu ætti því að vera jafnbannaður. Ef mér finnst óþolandi að tala við fólk án þess að sjá í augun á þeim á þá að banna sólgleraugu?

    Hvað er það með fólk og boð og bönn? Aldrei hefur búrka farið í taugarnar á mér, man satt að segja ekki eftir að hafa hitt marga kvenmenn í slíkum klæðnaði. Eina skiptið sem klæðnaður kvenna fer í taugarnar á mér er þegar konur komnar af léttasta skeiði eru að reyna klæða sig eins og sautján ára smápíur en enda einhvernveginn eins og spægipylsur í spennitreyjum. En mér finnst samt ómögulegt að ætla að banna það.“

    Georg Wasington sagði eitt sinn eitthvað á þessa leið; „Sá sem er tilbúinn að fórna hluta af frelsi sínu fyrir öryggið á hvorugt skilið og endar líklega með að tapa báðu“ Ég ætla mér að gera hans orð að mínum.

  • Skemmtilegt með hugrenningatengslin. Athugasemd Þórðar minnir á Björn Þorsteinsson sem kvartaði hástöfum yfir kínverska alþýðubúningnum – konur í litlausum og púkalegum karlmannsfötum voru ekki alveg að gera sig. „Fögnuður yfir fengnu frelsi varir ekki til eilífðar,“ sagði hann svo eftirminnilega.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur