Nýlega kom fram þingsályktunartillaga „um sameiningu háskólastofnana og rekstur tveggja öflugra háskóla.“ Fyrir henni talaði Baldur Þórhallsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, og prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Þessi tillaga er ansi barnaleg og lýsir auk þess litlum skilningi á góðu háskólastarfi. Í henni segir meðal annars (og maður spyr sig hvort enn sé árið 2007): „Þannig verði starfræktar tvær vísindastofnanir á landinu með nokkrar starfsstöðvar sem hafi getu til að vinna að rannsóknum og bjóða upp á háskólakennslu eins og best gerist í heiminum.“
Skilningsleysi flutningsmanna felst í því að á Íslandi búa 320 þúsund manns, hér er hlutfallslega álíka margt fólk í háskólanámi og mest gerist í heiminum, og Íslendingar eru, því miður, ekki margfalt klárari en aðrar þjóðir þegar kemur að vísindastarfi. Sé t.d. borið saman við Kaliforníu, þar sem langstærstur hluti háskólakerfisins er rekinn af ríkinu, má sjá að í efsta hlutanum af þremur eru um 200 þúsund nemendur (þetta eru rannsóknaháskólarnir í kerfinu, þ.á.m. Berkeley, UCLA og aðrir minna þekktir). Íbúar Kaliforníu eru 115 sinnum fleiri en Íslendingar. Ef íslenskur háskóli ætti að bjóða upp á það sem „best gerist í heiminum“ — og þótt ekki væri gengið lengra en að bera sig saman við ofangreindan hluta Kaliforníukerfisins, fremur en bara þá sem fremst standa á alþjóðavettvangi — þá væri óraunhæft að reikna með að slíkur skóli hýsti meira en tvö þúsund nemendur, í stað þeirra fimmtán-tuttugu þúsunda sem hér stunda nám á háskólastigi.
Í stuttu máli er fráleitt að ætla að meira en tíu prósent nemenda í íslenskum háskólum hafi burði til að stunda nám í skólum sem bjóða upp á það sem „best gerist í heiminum.“ Í slíkum háskólum eru nefnilega gerðar kröfur sem einungis lítill hluti nemenda í árgangi stendur undir, og án slíkra nemenda er tómt mál að tala um framúrskarandi háskóla. Að sama skapi er útilokað að hér á landi sé stærra hlutfall af góðum fræðimönnum en gerist annars staðar í heiminum.
Væri alvara á bak við hugmyndirnar um að byggja upp öflugt háskólastarf mætti skapa slíkan skóla með því að safna saman því vísindafólki landsins sem stendur föstum fótum í alþjóðasamfélaginu (og það einungis á sviðum sem eru nógu burðug hér til að standa undir starfi sem sómir sér á alþjóðavettvangi). Hugmyndir á þessum nótum voru lagðar fram af þremur meðlimum svokallaðs rýnihóps ráðherra sem átti að gera tillögur um endurskipulagninguna sumarið 2009. Þær hugmyndir má sjá hér, en skemmst er frá því að segja að þær hlutu ekki mikinn hljómgrunn í hópnum, enda var hann samsettur í nokkurn veginn réttum hlutföllum af fólki úr öllum háskólum landsins, og varð því að sams konar hagsmunagæslunefnd og við mátti búast, þar sem sammælst var um að gera nánast engar breytingar.
Það er barnaskapur hjá flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar að segja að „Verkefni háskólanna er að koma sér saman um hvernig sameiningu þeirra er best háttað.“ Háskóli Íslands vill gleypa mestallt háskólastarf í landinu, og hinir háskólarnir vilja ekki láta gleypa sig. Forysta skólanna mun því aldrei koma sér saman um sameiningar. Enda er ekki skynsamlegt að ætla að forysta tiltekinnar stofnunar vinni heilshugar að því að leggja sjálfa sig niður. Auk þess þjónar það varla hagsmunum eigendanna, ríkisins fyrir hönd almennings, að láta forystumenn stofnana sem e.t.v. ætti að gerbreyta eða leggja niður véla um hvernig eigi að standa að því.
Ef ætti að byggja upp öflugt háskólastarf á Íslandi (og það væri hægt, í litlum mæli, þrátt fyrir fámenni og fjárskort) þá þyrftu þau yfirvöld sem ráða yfir fjárframlögunum að taka ákvörðun um slíkt, og fá til þess verks aðra en þá sem nú ráða lögum og lofum í kerfinu. Það hafa þessi yfirvöld (menntamálaráðherrar) aldrei gert. Þvert á móti hefur ekkert raunverulegt eftirlit verið með gæðum háskólastarfsins, og aldrei spurt hvað fengist (í gæðum) fyrir féð sem lagt hefur verið í þetta kerfi.
Þrátt fyrir yfirlýsingar núverandi menntamálaráðherra (sem er í leyfi sem stendur) um að endurskipuleggja ætti háskólakerfið er ekkert slíkt á prjónunum. Það hafa verið skrifaðar nokkrar skýrslur, sumar með góðum ábendingum um gallana í kerfinu, en allar tilraunir til að koma á teljandi breytingum hafa verið kæfðar. Í forystu fyrir því verki hefur verið sérstakur ráðgjafi ráðherra um endurskipulagningu háskólakerfisins, Berglind Rós Magnúsdóttir. Eins og títt er í íslenskri stjórnsýslu er þar á ferðinni manneskja með enga reynslu af starfi á því sviði sem hún átti að leiða endurskipulagninguna á, þ.e.a.s. hún hefur aldrei starfað í háskóla (öðru vísi en sem nemandi), hvað þá að hún hafi umfangsmikla reynslu af slíku starfi.
Undirrituðum sagði Berglind, skömmu eftir að hún var ráðin til starfans, að ráðuneytið hefði sér til ráðgjafar í þessum málum tvo reynda háskólamenn, þá Jón Torfa Jónasson, forseta menntavísindasviðs HÍ, og Pál Skúlason, fyrrum rektor þess skóla. Það er nógu slæmt að láta forystumenn úr einum þeirra skóla sem endurskipulagningin átti að taka til ráða hér för. Ekki er skárra að umræddir menn eru þekktir fyrir allt annað en að reyna að byggja upp öflugt háskólastarf í alþjóðlegum samanburði, eins og er yfirlýst stefna HÍ og HR (en í þeim skólum eru yfir 90% háskólanema landsins).
Þetta er kjarni vandans: Þeir sem ráða lögum og lofum í íslensku háskólastarfi vilja ekki hrófla við kerfinu, sem hyglir undirmálsfólki (í trássi við yfirlýsta stefnu HR og HÍ), neitar að hlaða undir starf þeirra sem raunverulega eru frambærilegir á alþjóðavettvangi, og kemur þannig í veg fyrir að hægt sé að laða til landsins fólk sem gæti stóreflt háskólastarf hér.
Hér er svo örlítið, en afar lýsandi, dæmi um áherslurnar sem í raun ráða för í Háskóla Íslands, sem gefur sig út fyrir að vilja verða einn af hundrað bestu í heimi (ástandið er ekkert skárra í HR, þótt þar sé um að ræða annars konar kerfi): Samkvæmt vinnumatskerfi Háskóla Íslands fá höfundar sem eru einir á grein í tímaritum eins og Tímariti sálfræðinga, eða RAUST (Tímariti um raunvísindi og stærðfræði), fjórfalt fleiri punkta en Freysteinn Sigmundsson fékk, sem fyrsti höfundur, fyrir þessa grein í einu virtasta tímariti heims. Vinnumatskerfið ræður hluta af launum akademískra starfsmanna, auk framgangs þeirra. Ofangreint, sem er því miður dæmigert fyrir kerfið, veldur því annars vegar að framúrskarandi vísindamönnum er refsað fyrir að gera sitt besta, samtímis því sem starfsmenn eru hvattir til að eyða tíma sínum í að framleiða greinar sem eru algerlega marklausar í því alþjóðasamfélagi sem vísindin eru. Að birta greinar um sálfræði á íslensku er ekki þátttaka í alþjóðlega fræðasamfélaginu, og erfitt er að verjast þeim grun að það sé gert vegna þess að þær fengjust aldrei samþykktar í góðum alþjóðlegum tímaritum. Tímaritið RAUST er líka á íslensku, sem þýðir að það er ekkert framlag til vísindasamfélagsins í raunvísindum, auk þess sem greinar þess eru nánast aldrei framlag til rannsókna, heldur bara yfirlitsgreinar, skrifaðar fyrir leikmenn.
Eins og svo margt á Íslandi byggist íslenska háskólakerfið, og völdin í því, á svikum og blekkingum, í bland við hrokafullan þvætting um alþjóðlega yfirburði, á borð við það sem tíðkaðist í íslenska fjármálaheiminum á árunum fram að hruni.
Punktakerfi HÍ er gott dæmi. Allir sem skilja vísindi og eru að hefja störf vilja breyta því. Ár eftir ár er þetta rætt. En kerfið breytist ekki því að það eru stór hluti fólks sem er þokkalega sáttur við sitt. Yfirstjórnina skortir svo völd eða áhuga til að breyta kerfinu. Stéttarfélögin virðast berjast gegn breytingum, af því að þetta eru hluti af launum. Sem svo eru bara þeir sem framleiða mikið af skvaldri eða sitja í nefndum og ráðum, fá!
Baldur hefur rétt fyrir sér að breytingar verða að koma að utan, spurning afhverju háskólaráð er ekki beittara?
Um hitt, auðvitað getur íslenskt menntakerfi boðið upp á gott nám og ágætar rannsóknir. Það þarf ekkert endilega að sprengja sig upp í að vera best í heimi. EN það kostar orku og vönduð vinnubrögð fyrir íslenskt menntakerfi að verða þokklegt.
Já, Drýsill, það myndi kosta talsverð átök að gera íslenska háskólakerfið þokkalegt, þótt ekki sé talað um að fara miklu lengra. Þau eru því miður gríðarlega sterk öflin sem ekki vilja að hróflað verði einu sinni við því lakasta.
Það eru margir innan háskólakerfisins (sérstaklega ungt fólk) sem eru sammála þér Einar. Ég vildi bara óska að það væri meira hlustað. Nýlega breytingar í HÍ fara einmitt í öfuga átt, mörg virtustu erlendu tímaritin verða núna metin eins og ákveðin íslensk tímarit.
http://www.hi.is/files/skjol/stjornsysla/visindasvid/islensk_timarit_stigagjof.pdf
Ef ég hef skilið þetta rétt, Kári, fá greinar í alþjóðlegum tímaritum í mesta lagi 20 stig (og flestar væntanlega aðeins 15). Í ljósi þess er þetta hrollvekjandi lesning sem þú bendir á (og væri það þótt tvöfalt meira fengist fyrir greinar í góðum alþjóðlegum tímaritum).
Já, það er slagsíða gegn greinum þar sem að vinnan tekur lengri tíma og/eða margir höfundar koma að sömu grein. Þeir sem vinna eru þeir sem gera hluti sem þurfa litla vinnu og geta framleitt niðustöður hratt. Og kerfið eins og önnur kerfi velur þá fyrir þeim sem að geta eða vilja vinna þannig.
Það er ekki rétt hjá Drýsli að stéttarfélögin við HÍ hafi lagst gegn breytingum á matskerfinu. Það gerðu hins vegar forsetar Félags, Hugvísinda og Menntavísindasviðs þegar þeir áttuðu sig á því að breytingarnar sem átti að gera mundu koma upp um vísindaleg gæði starfsins á þeim sviðum. Þeir fengu rektor með sér í lið og útbjuggu enn vitlausara kerfi en það sem ríkti fyrir.
Hrekkjalómur
Í það minnsta 3 skilyrði þarf að uppfylla megi háskóli vera með þeim bestu.
1. Frábært “academic staff, faculity”.
2. Mikið og gott rannsóknastarf, með stóran hlut nemanda og doktoranta útlendinga.
3. Gott samstarf við öflug fyrirtæki, sem sjálf sinna rannsóknastörfum.
Kærar þakkir. Einar.
Þetta er frábær grein.
Merkilegt annars hversu lítil umræða fer fram um háskólastigið.
Og þá sérstaklega hvernig gert er út á skattgreiðendur og ungt fólk ginnt til að borga há námsgjöld fyrir lítilsgilda og oft á tíðum lélega menntun.
Þetta er kallað prófamyllur erlendis. Brottfallið er ekkert og einkunnir mjög háar.
Útlendingar kalla slíka skóla prófamyllur.
Hvers vegna fer annars engin umræða fram um íslensku menntabóluna sem enn lifir ágætu lífi þrátt fyrir samfélagshrun sem m.a. leiddi í ljós hversu feysknir innviðir hér voru þrátt fyrir gaspur um góða menntun þjóðarinnar og yfirburði á öllum sviðum?
Sameiginlegir hagsmunir geta af sér samsæri þagnarinnar.
Þakkir og kær kveðja
RG
Menntabólan er gott orð yfir það sem gerðist í háskólakerfinu hér. Hún var að mörgu leyti eins og fjármálabólan, því hún byggðist á gorgeir og hrikalegu ofmati á eigin verðleikum, ofmati sem óx í skjóli lítillar þekkingar á umheiminum. Það er sannarlega rétt að mjög mikið af því námi sem boðið er upp á í háskólunum hér fengi aldrei að lifa í þeim löndum sem við berum okkur saman við, þar sem eitthvert eftirlit er með háskólastarfi og kröfur gerðar um gæði þess.
Það sorglega er að hér hefði verið hægt að gera mjög góða hluti, ef vöxturinn í kerfinu hefði verið notaður markvisst til að styrkja það. Í staðinn var bara spurt um magn, aldrei gæði, hvað þá framtíðarsýn. Og, forysta stóru skólanna, HÍ og HR, talar enn eins og hún ætli að hasla sér völl á þeim alþjóðavettvangi sem hún hefur afar lítil kynni af.
Ég er í meistaranámi í viðskiptaháskóla í Danmörku, hafandi tekið B.Sc. gráðu í ónefndum háskóla uppi í Borgafjarðarsveit. Ég hef rekið mig á það að aðferðafræðikennsla á Íslandi er á engann hátt sambærileg við það sem gerist í þessum skóla sem ég er í hérna úti. Þeir samnemendur mínir sem tóku B.Sc. gráðuna hér (í DK) hafa fengið langtum meiri kennslu í hvernig á að gera rannsókn og hvaða gildrur ber að varast. Í mínu námi var farið í þetta á hundavaði í kúrs sem, að mig minnir, gilti einungis helming á við önnur fög hvað einingar varðar.
Nú er ég að skrifa lokaverkefni og hef verið að bera saman meistaraverkefni héðan og að heiman. Þeirra á milli er himinn og haf. Sem dæmi má nefna að í öllum þremur íslensku verkefnunum hefur verið eytt um 5-10 síðum til að gera grein fyrir hvaða aðferðarfræði og kenningum hefur verið beitt. Hvergi hefur verið rökstuðningur fyrir því af hverju ein kenning er valin umfram aðra, eða af hverju nemandinn hefur valið að gera eigindlega rannsókn í stað megindlegrar. Ritgerðirnar hafa meira verið í átt þess að vera sagnfræðilegar samantektir á atburðum fortíðar, frekar en að rannsaka hvað er að gerast í núinu, eða velta fyrir sér framtíðinni. Þetta segir mér að kröfur um vinnubrögð í háskólum á Íslandi eru frekar losaralegar.
Góð grein, Einar.
Minnimáttarkennd Íslendinga er sterk og virðist síður en svo vera á undanhaldi. Mér sýnist að hún hafi styrkst, ef eitthvað er, eftir Hrun. Við sýndum umheiminum í verki að við vorum hrokafullir og sjálfumglaðir amatörar og nú þurfum við að sýna okkar „rétta andlit“ (að við erum best í heimi í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur). Dapurlegt en fyrirsjáanlegt. Ég bý ekki á Íslandi en ég skammast mín þegar ég les þjóðrembukjaftæði eins þingsályktunartillöguna sem þú bendir á hér að ofan. Sem betur fer veit enginn utan Íslands af þessu.
Annars er þetta kerfi að umbuna fólki eftir því hvað það birtir margar greinar (og hvar og hvernig og hve marga referensa maður fær) stórt vandamál í akademíunni, og ekki bara á Íslandi. Markmiðið verður að setja nafn sitt á sem flesta pappíra og innihaldið er í öðru sæti. Ekki bætir úr skák að ritrýningarferlið er meingallað og það virðist vera allt of auðvelt að fá lélega pappíra birta, jafnvel í „virtum“ ritum. Ofan á þetta er síðan mikill þrýstingur að troða sem flestum í gegnum háskólanám, sem framleiðir ennþá fleira „háskólafólk“ sem þarf að birta ennþá fleiri slappa pappíra.
Uppáhaldsbloggarinn minn, David Colquhoun (sorrý, Einar), fjallar um þetta í bresku samhengi hér: How to save British science and improve education.
Eiður
Góð grein,
Ég er þér innilega sammála í höfðatölu útreikningunum. Þetta segir mér að Ísland er í raun of lítið fyrir alvöru háskóla. Því tel ég að betur væri gert með því að hafa einn skóla sem kenndi nánast eingöngu á BS/BA stigi og þá að áherslan yrði á mjög gott grunnnám. Síðan væri mikið framboð af styrkjum til að stunda framhaldsnám erlendis og þá við bestu háskóla heims.
Einu sviðin sem ég sé í fljótu bragði að væri eitthvað vit í að bjóða upp á framhaldsnám hér á landi er íslenska og jarðfræði.
Sæll aftur, Einar.
Í Bandaríkjunum fer nú fram afar athyglisverð umræða um menntabóluna.
Þar er ungt fólk ginnt til að taka ríkislán til að fjármagna háskólanám í einkaskólum.
Þekkt er að heimilislaust fólk hafi fengið slík lán eftir að hafa verið ginnt til að skrá sig í skóla.
Í mörgum tilfellum á þetta fólk ekkert erindi í námið, það getur ekki borgað lánið sem fer til skólanna en lendir á skattgreiðendum.
Þar stendur líka til að rannsaka gæði þess framhaldsnáms sem boðið er upp á og fólk borgar í mörgum tilfellum háar fjárhæðir fyrir.
Nákvæmlega þetta þyrfti að rannsaka á Íslandi. Rökstuddur grunur er fyrir hendi um að háskólar hér veiti í mjög mörgum tilvikum afleita og lítilsgilda menntun.
Skoða má t.d. tölur um brottfall og mikla bólu í einkunnum skóla á borð við HR og Bifröst.
Hér er enn menntabóla. Hún er að stórum hluta rekin á kostnað skattgreiðenda. Ungu fólki er seld haldlítil menntun. Skólarnir hirða peninginn.
Hér er linkur á frábæran útvarpsþátt um þetta mál í USA frá National Public Radio. Farið á 7. mínútu.
http://www.kcrw.com/news/programs/tp/tp110520private_colleges_and
Því miður er svona fjölmiðlun ekki heldur í boði á Íslandi.
Það er önnur saga en varpar ljósi á ástandið og orsakir þess.
Kveðja og þakkir
RG
Já, veit ekki hvað (ef eitthvað) er opinber stefna stéttarfélaga akademíkara, en ég man að formaður félags prófessora, hefur varið punktakerfið og m.a. þá leynd sem þar ríkir.
Það eru til ýmsar leiðir til þess að bæta háskólavettvanginn og háskólana sjálfa hvern fyrir sig eða sameinaða. Ein leiðin er þessi sem Einar nefnir að koma á fót elítu-skóla fyrir þá allra bestu skv. svona heldur gamaldags inntökuskilyrðum. Það virkar nokkuð vel en er langt því frá fullkomið. Sá skóli fengi nægilegt fjármagn til þess að standa undir metnaðarfullum rannsóknum sem standast hóflegan samanburð við það sem gerist meðal alþjóðlegra rannsóknarháskóla. Hinir skólarnir yrðu á annars flokks og útskrifuðu nemendur sem ættu möguleika á að komast í rannsóknarháskóla standi þeir sig vel en að öðrum kosti menntar fólk til annarra starfa en vísinda innan akademíunnar. Þessi leið hefur þá ókosti, eins og Einar bendir á, að líklegast yrði að velja á milli vísindagreina og sumar fengju ekki að vera með í elítunni, bara þær sem hafa til þess burði í dag og valið á því byggir að hluta til á mismunun sem átti sér stað í fortíð (en vísindagreinar hafa haft æði misjafnt aðgengi að gæðum). Annað vandamál er að jafnvel þótt inntökuhömlum sé beitt við allra bestu háskólana í dag er umdeilanlegt að það séu endilega skynsamlegustu val-aðferðirnar á topp vísindamönnum. Yfirleitt mæla þær fyrst og fremst greindarvísitölu, og þá sérstaklega mál- og rök- og stærðfræðigreind sem eru bara brot af þeirri færni sem þarf til að verða góður vísindamaður. Slíkt kerfi grundvallast líka ennfremur á ákveðinni elítu-hugsjón þar sem hlutverk menntakerfis á háskólastigi er að hlúa að þeim sem „eru“ góðir en ekki leggja sig fram um að „gera“ alla nemendur að góðum vísindamönnum. Það er ákveðin félagslegur raunveruleiki á bakvið færni og greind einstaklinga sem er kerfisbundið viðhaldið, einmitt sérstaklega með því að ýta undir forréttindahópa.
Svo ég gleymi því ekki langar mig að taka sérstaklega undir það að námið við HÍ er langt undir þeim kröfum sem þó ekki nema þokkalegur háskóli á að gera til nemenda sinna.
En það eru til fleiri leiðir til þess að bæta háskólana og háskólavettvanginn. Fyrst og fremst þarf meira fjármagn, miklu meira fjármagn. Það þarf að búa til kerfislægan hvata til þess að taka þátt í metnaðarfullu og alþjóðlegu vísindasamstarfi (og ekki bara á ensku). Við þurfum að margfalad fjármagn í samkeppnissjóðum en tryggja á sama tíma lágmarksaðstöðu til þess að stunda rannsóknir. Það er fyrir löngu kominn tími til þess, bæði hérlendis sem erlendis, að háskólar endurskoði þá aðferðafræði sem er notuð við menntun vísindamanna – hún virkar á mörgum stöðum af habitus-ástæðum (af því að þar sem góðir vísindamenn eru með góðum nemendum að þar verður eitthvað gott) en ekki endilega af kerfisbundnum og faglegum ástæðum. Þar getum við bætt okkur verulega. Og það eru til margar fleiri leiðir. En hvaða leið svo sem við förum verðum við að hafa í huga hinn félagsleg grundvöll menntakerfisins og háskólavettvangsins. Þar er til dæmis gríðarleg mismunun milli hug- og félagsvísinda og svo lækna- og raunvísinda. Rannsóknir hafa einnig sýnt að ákveðnir þjóðfélagshópar eiga auðveldara með að komast áfram innan akademíunnar vegna bakgrunns eða félagslegra tengsla en ekki akademískrar færni eða árangurs.
Ef þú hefur áhuga, Einar, á örstuttu innleggi – sem er vísir að því að auka meðvitund um hinn félagslega grundvöll – að þá útskrifaði HÍ mig með MA gráðu og MA ritgerð um íslenska háskólavettvanginn nýlega.
Ég skrifaði hér alllangan texta þar sem ég tók undir skrif Einars, en datt ekki í hug að Kæfuvörn (sem þýðir?) skyldi taka alvarlega. Textinn var því þurkaður út og ég hef hvorki tíma né nenningu til að skrifa hann aftur. Þarna hef ég loksins rekist á meiri fáránleika en í punktakerfi H.Í. þar sem þó einmitt bara er lögð áhersla á að dæmendur kunni að telja án skilnings á því hvað er verið að telja. Raunar lít ég á þessa kjánalegu „kæfuvörn“ hér sem móðgun við þá sem hér fara um og leggja vilja orð í belg, en er e.t.v. bara sjálfsögð framkoma við háskóla- og menntamenn á Íslandi.