Miðvikudagur 29.06.2011 - 00:54 - 17 ummæli

Um Landsvirkjun, hræGamma og Porter

Í gær kynnti Landsvirkjun nýja framtíðarsýn.  Í stuttu máli er hér lofað gulli og grænum skógum, nánar tiltekið að Landsvirkjun muni skapa tólf þúsund ný störf á næstu árum, að fyrirtækið muni skila ríkissjóði tugum milljarða króna árlega í framtíðinni og að þetta muni „hafa ámóta áhrif á lífskjör á Íslandi og olíuiðnaðurinn í Noregi.“

Svo verður þetta eiginlega allt gefins.  Að vísu þarf að tvöfalda orkuframleiðsluna, en það er auðvitað smámunasemi og svartagallsraus að leyfa sér að efast um að það sé meira en barnaleikur.  Enda eru höfundar þessarar skýrslu miklir fagmenn og reynsluboltar þegar kemur að spádómum um efnahagsmál.  Þeir vinna fyrir fyrirtækið Gamma (nei, nei, ekki hrægamma), og þeirra á meðal má finna a.m.k. tvo sem störfuðu í greiningardeild Kaupþings, og víðar í því sæla fyrirtæki, árin fyrir hrun.

Reyndar var efnahagsráðgjafi Gamma, Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings í nokkur ár fyrir hrun og einnig dálítinn tíma eftir hrun. Ég man ekki til að hann hafi nokkuð þurft að leiðrétta eftirá staðhæfingar sínar um stöðuna fyrir hrun, svo ég geri fastlega ráð fyrir að hann hafi verið þar með allt á hreinu og varað við því sem vofði yfir.  Því væri fráleitt að draga í efa glæsta spádóma þessara snillinga um framtíðarorkuframleiðslu og meðfylgjandi ofsagróða Landsvirkjunar oss tilhanda.

Það var svo afar passandi að Kastljós skyldi í kvöld veita drottningarviðtal prófessornum Michael Porter, sem mátti vart vatni halda yfir þeim stórkostlegu tækifærum sem biðu Íslendinga í jarðvarmaklasanum svokallaða, sem hann virðist vera guðfaðir að, enda höfundur hugmyndarinnar um klasa, sem ein sér gerir heilu þjóðirnar fokríkar.

Porter vill sjá umfangsmikil ný orkuverkefni, og það sem fyrst.  Það liggur auðvitað mikið á, því hver veit nema öðrum takist annars að kviðrista gullgæsina á undan okkur.  Og auðvitað skiptir engu máli þótt afar lítið sé vitað um nýtingarmöguleika jarðhita, eða endinguna á slíkum virkjunum, það eru jú bara einhverjir jarðhitafræðingar sem eru með þess konar dragbítshátt.

Hér er um að ræða „hnattræna risaflóðbylgju tækifæra“ sagði Porter.  Íslendingar þurfa að vera „meiri frumkvöðlar, aggressívari, og áhættusæknari.“

Ætli hér einhverjir að malda í móinn, og muldra um „klisjur frá 2007“ eða hafa uppi efasemdir um að gulldrengirnir úr greiningardeild Kaupþings hafi fægt kristalskúlurnar nógu vel í þetta skiptið, þá er þeim vinsamlegast bent á að halda sér til hlés.  Við hin ætlum í þetta partí og fokkjú.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Leifur A. Benediktsson

    Einar Steingrímsson,

    Þetta kostar náttúrulega ekki neitt eða hvað? Að skuldsetja þetta þjóðfélag meir en orðið er glapræði. Þessi Porter óð þvílíkt á súðum að manni flökraði við boðskapnum. Og spyrillinn spurði aldrei réttra spurninga,bara brosti og meðtók bullið hrátt. Og talandi um bóndasoninn Ásgeir frá glæpabankanum Kaupþing heitnum,þá er hann álíka marktækur og blaðafulltrúi Norður Kóreu.

    kv

  • Einar Steingrímsson

    Já, það var ömurlegt að sjá fleðulætin í Kastljóssspyrlinum. Hún gerði lítið annað en að taka undir það sem Porter sagði, og herða frekar á staðhæfingum hans, í stað þess að spyrja gagnrýninna spurninga. Sérstaklega fannst mér sjokkerandi að hún skyldi ekki gera neinar athugasemdir við stórkarlaleg orð hans um „global tidal wave of opportunity“ og að íslendingar þyrftu að verða aggressívari og áhættusæknari.

  • Góð fréttamennska er sorglega fáséð fyrirbæri í íslenskum fjölmiðlum og oft er málfarið til skammar í þokkabót. Ég trúi því varla að skýringin sé sú að það sé ekkert framboð af hæfu og áhugasömu fólki.

    Er ekki annars fjölmiðlafræði kennd við Háskólann ennþá? Þarf að taka til þar eða hvað?

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Þótt Michael Porter hafi getað talið hér byggingakrana árið 2007 þýðir ekki annað en að hann kunni að telja byggingakrana.

    Hvort hann kunni það enn kom eiginlega ekki fram í Kaastljósinu í gær.

  • Ægir G Þorvaldsson

    Hér er klassískur, jafvel ‘vintage’ Ásgeir að stama framan í Max Keiser að útskýra vaxtamunarviðskipti frá árinu 2007: http://www.youtube.com/watch?v=JjglR2KYz5o . Hef lengi hlegið að þessu 🙂

    „The money comes from Iceland, at least the equity part of it“

  • Úlfar Bragason

    Porter óð á súðum. Útrásarvíkingarnir voru á útopnu og varla vill fólk strax annað eins. En það jákvæða í máli mannsins var að hann talaði ekki beinlínis um virkjanir heldur að flytja þekkingu á jarðvarmavirkjunum út. Hann var sem sagt að tala um þekkingariðnað. Og raunar er öflun og útflutningur þekkingar helsti kostur Norðurlanda nú.

  • Sig. Kári

    En pældu í því Einar, að Sjálfstæðismenn ætluðu að setja Landsvirkjun í hendur einkaaðila (auðmanna).

    Svo vilja þeir ekki skattleggja fyrirtæki, né hátekjufólk, né fjárfesta. Þeir hefðu haft arðinn af Landsvirkjun af þjóðinni – í einu og öllu.

    Er það ekki stóri punkturinn í málinu, frekar en hvort framtíðarspár séu of bjartsýnar eða ekki?

  • Bjarni Tryggvason

    Fer strax og sæki um yfirdrátt og kaupi flatskjá (set hann á raðgreiðslur) núna á eftir. Störtum 2007 strax í dag!

    Aftur.

  • Þetta er rétti andinn höldum áfram á sömu braut……..stöðvum allt, virkjum ekkert, bönnum allt………….Vinstri Græna komma lyktin hér er skelfileg.

  • Bjarni Tryggvason

    Svona stór uppsveifla síuð í gegnum örgjaldmiðil, frumstætt ættbálkasamfélag, ofurlélega hagstjórn og spillingu mun aðeins enda á einn veg.

    Með skelfingu.

  • Mér fannst ég vera kominn inn í eitthvert stuðpartý og beið eftir að vínlyktin kæmi út úr skjánum. Ég læt engan segja mér að þessi Porter, eða hvað svo sem mannfjandinn heitir nú, hafi verið ófullur. Eiginlega fannst mér hann tala eins og fífl.
    Já Bjarni, þetta endar með skelfingu ef ekki rennur af aumingja fólkinu.

  • Félagi Einar:
    Það kann að mega gagnrýna ákveðna þætti í áherslum Porters í þessu efni og fleirum. Hann hefur engu síður lagt áherslu á langtíma-miðaða sýn – – með public-private-partnership og skýru regluverki – – hann er ekki hreintrúar einkavæðingarsinni heldur þvert á móti – – –

    Og það skyldi þó ekki vera að hann hafi einmitt rétt fyrir sér að það liggi mikil tækifæri í því að; 1) fjárfesta í orkuvinnslu fyrir „hágæðamarkaði“ með sem allra umhverfisvænustum/sjálfbærustum hætti og hófsemi og 2) fjárfesta í þekkingaröflun, þróun og miðlun/kennslu og leggja upp frá reynsluþekkingu Íslendinga í jarðhitanýtingu . . . og kanalísera alþjóðlega þekkingu hér í gegn , , , ,
    án þess að bjóða upp á bólu-hegðun og án þess að skapa forsendur fyrir arðráni alþjóðlegs rudda-kapítals . . . . ?

  • Einar Steingrímsson

    Bensi: Það er vel hægt að hugsa sér verri menn en Porter í þessum geira. Hins vegar fannst mér hann hljóma eins og afturganga frá 2007 þegar hann talaði um að íslendingar þyrftu að vera aggressívari og áhættusæknari, og að hér væri um að ræða „a global tidal wave of opportunity“. Augljóst fannst mér líka að hann vissi lítið eða ekkert um þær miklu efasemdir sem margir jarð(hita)fræðingar hafa um jarðvarmavinnslu og endingu slíkra svæða.

    Ég hef líka gluggað svolítið í skýrsluna um jarðvarmaklasann, sem Porter talaði um, sjá http://www.arionbanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=24038. Þar finnst mér gæta sama óraunsæisins og uppblásins þvaðurs (í stjórnunar- og bisniss“fræða“stíl).

    Eitt sem vekur athygli í þeirri skýrslu er að í „fagráði“ klasans virðist ekki vera einn einasti sérfræðingur í jarðhitafræðum (þá á ég ekki við jarðhitavirkjunarfræðum, heldur þeim fræðum sem snúast um skilning á jarðhitasvæðum og eiginleikum þeirra).

    Auk alls þessa er í skýrslunni kafli sem hljómar eins og ríkisvaldið eigi að þjóna þessum „klasa“, og forsetinn að leika eitthvert hlutverk í að ryðja honum braut á erlendum vettvangi. Nefnilega:

    „Þær hugmyndir ganga út frá áframhaldandi áherslu á að klasasamstarfið verði á forsendum atvinnulífsins. Stjórnvöld veiti klasanum hins vegar mikilvægan stuðning til dæmis með því að taka þátt í samræðum við klasann, hlusta á skilaboð hans, skapa honum betra starfsumhverfi og tala fyrir honum utan landsteinanna.“

    „Stjórnvöld geta veitt klasanum mikilvægan stuðning með skýrri stefnu, góðu rekstrarumhverfi, öflun upplýsinga, með því að tala máli íslenskrar jarðvarmaþekkingar erlendis o.s.frv. Meðal lykilaðila í þessu sambandi eru forseti Íslands, Alþingi, iðnaðarráðuneytið, utanríkisráðuneytið, umhverfisráðuneytið, efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Íslandsstofa, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Rannís, sveitarfélög og fleiri.“

    Allt finnst mér þetta minna óþægilega á 2007.

  • Er þetta óþarft neikvæðnisraus? Nú skal ég viðurkenna það að ég tek lítið mark á Gamma með Ásgeiri Jónssýni í fararbroddi og þennan Porter þekki ég lítið finnst hann full-frasakenndur. Klasa-hvað og hvaðernúþað?
    En við eigum tækifæri í íslenskri orku. Tækniþekking líka, ekki bara að virkja innanlands. Tækifærin liggja jú líka utan landssteinana. Og Landsvirkjun hefur bolmagn, ekki mikið skuldsett vegna framkvæmda tengdum öðrum sviðum en orkuöflun. Ekki einkavætt eins og reynt var að fara með fyrir nokkrum árum og getur því skilað arði til samfélagsins. Er það ekki gott mál ? Burtséð hvort við ætlum að virkja meira eða ekki ?

    Við þurfum að fara ræða náttúruvernd og virkjanamál í alvöru. Ekki í gamla upphrópunarstílnum sem mér finnst þinn pistill vera. Þessi mál eru því miður eins og mörg önnur, allt verður svo yfirþyrmandi vegna tilfinningamála. Tilfinningar eru ágætar, við getum bara ekki rætt saman á þeim nótum. Hversu langt viljum við ganga að nýta ákveðin svæði til orkuöflunar og hversu langt viljum við ganga til að vernda ákveðin svæði algerlega, líka af ferðamennsku? Þetta þurfum við bara að ræða yfirvegað og enginn einn á rétta skoðun í þeim efnum.

  • Einar Steingrímsson

    Ég tek alveg undir það, Gunnar, að það sé tími til kominn að gera raunverulega áætlun um hvað megi virkja og hvað ekki, og standa við þá niðurstöðu. Mér finnst hins vegar valdaöflin í landinu (bæði stjórnmálamenn og Landsvirkjun) ekki hafa sýnt neinn áhuga á að gera slíkt í alvöru, og mér finnst því enn full ástæða til að vera með talsvert af upphrópunum, þegar fram kemur svona rugl eins og rætt er um í bloggfærslunni.

    Að þessu leyti er þetta svipuð staða og með hrunið: Það er of snemmt að „gleyma“ og fara að tala bara á „uppbyggilegan“ hátt, því virkjanasinnarnir, sem fara með öll völd hér, munu láta kné fylgja kviði um leið og þeir sjá færi á því.

  • Einar, bíddu nú aðeins við, rammaáætlun er í gangi. Það er þó eitthvað sem hægt er að byrja með. Virkjunarsinnarnir? Æi, er þetta ekki orðið þreytt. Hverjir eru þeir? Er ég virkjunarsinni, ef ég samþykki fyrir mitt leyti einhverja virkjun sem Ómar, þú eða bara Náttúruverndarsamtök eru á móti? Svona málflutningur gengur ekki lengur. Það áttu að vita. Sjálfur hef ég komið að ýmsum virkjunarframkvæmdum og hef ekkert endilega verið sammála þeim öllum, en Alþingi og allt stjórnkerfið gaf leyfi.
    Nú er mikið talað um að landinn eigi mikið af grænni orku. Þ.e. sem orkuauðlind sem eðlilega ekki er fullnýtt. En þá er spurning, er vilji til að nýta það, þó ekki væri nema að einhverju leyti ? Þessari spurningu þarf að svara hreinskilnislega án þess að vera með upphrópanir. Er hægt að biðja um slíka umræðu á yfirvegaðan hátt, með og á móti ?
    Góðar stundir !

  • ,,Óð hann á súðum“?

    Nei.

    Hann lét vaða á súðum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur